Íslenska þjóðfélagið - 23.12.2021, Blaðsíða 27
Andrea Hjálmsdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir
27 ..
Dagarnir eru farnir að taka á og ég tek sumarfrí einn dag á morgun. Yngra barn-
inu hentar þetta ekki og fer að gráta yfir öllu sem á móti blæs, jafnvel bara þegar
hún er beðin um að lesa eða fara með sokkana sína upp. Mín litla þolinmæði er á
þrotum en ég reyni mitt besta að láta hana ekki sjá það.
Mæðrunum varð mörgum hverjum tíðrætt um hversu erfitt ástandið væri börnunum. Hin daglega
rútína var ekki til staðar og hinar önnum köfnu fjölskyldur, sem dags daglega hittust kannski ekki
nema rétt í lok dags, vörðu nú öllum deginum innan veggja heimilisins. Slíkar breytingar höfðu
vissulega mikil áhrif á börnin, líkt og móðir í fullu starfi, með fimm og átta ára gömul börn, lýsir
hér: „Erfiður dagur í dag þar sem dóttirin grét af söknuði eftir vinkonum. Nám sat því á hakanum
og dagurinn fór mikið til í að sinna börnum andlega.“ Það tók mikið á að eiga að sinna fullu starfi
meðfram þessum verkefnum sem valda miklu andlegu álagi og einn af rauðu þráðunum í skrifum
mæðranna var hvernig umhyggja og hvers konar umönnun varð stór partur af daglegri rútínu.
Auðvitað þýðir það ekki að mæður sýni ekki umhyggju og setji umönnun barna sinna ekki í
forgang í daglegu lífi en ljóst er að sá hluti hefðbundinnar rútínu þeirra mæðra sem þátt tóku í rann-
sókninni jókst verulega með tilheyrandi álagi. Bjørnholt (2020) hefur bent á að Covid-19 hafi ein-
mitt dregið fram í dagsljósið að umhyggja sé ein meginundirstaða hvers samfélags og hugleiðingar
mæðranna bera þess vitni að sá hluti heimilislífsins hafi þyngst verulega í fyrstu bylgju faraldursins,
enda skóla- og tómstundahald verulega skert og vinna af þessu tagi tilfinningalega krefjandi og krefst
góðs skipulags. Það má færa rök fyrir því að konur hafi í meiri mæli en áður þurft að nýta ástarkrafta
sína, þar sem þær lýstu því hvernig þær létu nám og störf sitja á hakanum og settu umönnun og líðan
barna sinna í forgang. Þannig getur veruleiki heimilislífsins endurspeglað samfélagslega strúktúra
utan þess, þar sem umönnun í víðum skilningi er á herðum kvenna og rænir þær ástarkrafti (Anna G.
Jónasdóttir, 2011; 2014), sem til dæmis launuð umönnunarstörf í samfélaginu bera glöggt vitni um.
Mörg barnanna söknuðu þess að mæta í skóla og tómstundir og í dagbókum mæðranna kom skýrt
fram hversu oft börnin voru pirruð og örg yfir ástandinu. Líðan barnanna hafði vissulega áhrif á líðan
mæðranna, líkt og sést á þessari dagbókarfærslu móður þriggja barna á aldrinum fimm til 16 ára, sem
stundar fullt nám:
Yngsta barnið okkar er á leikskólaaldri og finnst erfitt að komast ekki í leikskól-
ann alla daga, verður eirðarlaus og þarf að hafa ofan af fyrir henni. Ég veit líka að
þegar börnin verða óróleg verð ég stressaðri og fer að bera meira á kvíða hjá mér.
Ástandið var þannig margslungið og dagbókarskrif mæðranna endurspegla hvernig tími sem varið
var í ólaunaða vinnu jókst verulega á sama tíma og þær reyndu að halda í við kröfur vinnustaða í
launavinnunni. Þrátt fyrir að vinnunni væri sinnt heiman frá, samhliða umönnun barna og öðrum
fylgifiskum ástandsins, minnkuðu kröfur um afköst ekki endilega. Samviskubit yfir afköstum í vinnu
bættist þannig ofan á allt annað. Þessi skrif verkefnastjóra með tvö ung börn eru lýsandi fyrir þátt
vinnunnar í daglegu lífi mæðranna í fyrstu bylgjunni:
Ég finn fyrir miklu álagi sem tengist þessu ástandi. Eftir að hafa fengið tíma-
bundinn slaka í vinnunni er nú allt komið á fullt og ennþá meiri áhersla en áður
á að verkefni haldi áætlun. Þetta setur mikla pressu þar sem lítið hefur mjakast
í verkefnum síðasta einn og hálfa mánuðinn. Ég er orðin langþreytt á ástandinu.
Langar ekki að halda áfram með umgengistakmarkanir, er við það að fá frekju-
kast yfir aðstæðum. En áfram gakk, einn dag í einu. Öll él birtir upp um síðir.
Það vekur athygli í skrifum mæðranna hversu mikilvægt þeim þykir að láta engan bilbug á sér finna
og áhersla á að halda í jákvæðnina var nokkuð áberandi. Mikil orka virtist fara í að halda í gleðina
og halda öllu góðu. Það virtist vera hlutverk mæðranna í mörgum fjölskyldum að passa upp á að hið
daglega líf gengi snurðulaust fyrir sig. Eftirfarandi er lýsing þriggja barna móður: