Íslenska þjóðfélagið - 23.12.2021, Blaðsíða 83
Kristín Björnsdóttir og Ásta Jóhannsdóttir
83 ..
lagsreglur sem þyrftu að verða almennar. Þó má ekki gleyma þeim fjölda fatlaðs fólks sem býr við
sjálfstæða búsetu. Það er hins vegar óljóst hver ber ábyrgð á að tryggja fötluðu fólki sem býr sjálf-
stætt aðstoð ef til rýmingar kæmi. Viðbragðsáætlanir verða að taka til allra íbúa og sveitarfélögum
ber að gera ráð fyrir fötluðu fólki sem ekki býr í sérstökum húsnæðisúrræðum á þeirra vegum eða
félagasamtaka en hætt er við að það gleymist. Í heimsfaraldri vegna COVID-19 kom fram hræðsla
fatlaðs fólks við tilviljunarkenndar ákvarðanir og skort á yfirsýn sveitarfélaga varðanda áætlanagerð
og bólusetningar (Bára Huld Beck, 2021).
Umræður og lokaorð
Í greininni höfum við rakið hvernig samspil umhverfis og félagslegra þátta hefur áhrif á alvarleika
hamfara fyrir fatlað fólk. Engu að síður veldur sá tölfræðilegi ableismi sem virðist ríkjandi í opin-
berum gögnum því að erfiðlega getur reynst að sýna fram á hvernig hamfarir hafi áhrif á fatlað fólk
umfram aðra þjóðfélagshópa. Það lýsir sér í því að breytan „fötlun“ er sjaldan notuð þegar safna
á tölulegum gögnum eins og til dæmis varðandi dánartíðni, atvinnumissi eða eignartjón. Þannig
verður fatlað fólk ósýnilegt í gögnunum og í allri umræðu um hamfarir, áhrif og afleiðingar þeirra.
Á hinn bóginn er það ekki síður alvarlegt þegar „fötlunarbreytan“ er notuð á þann hátt að orsök and-
láts sé rakin til skerðingarinnar en ekki til dæmis COVID-19 eða drukknunar. Slíkur tölfræðilegur
ableismi á þátt í að þagga raunverulegar aðstæður og jaðarsetningu fatlaðs fólks.
Í greininni hefur verið sýnt fram á hvernig hamfarir afhjúpa þá erfiðu félagslegu stöðu sem
margt fatlað fólk býr við. Það hefur takmarkaðan aðgang að heilbrigðis- og menntakerfum,
atvinnumarkaðnum og býr þar af leiðandi oft við kröpp kjör og er því líklegra til að upplifa félagslega
útskúfun. Félagsleg staða sem einkennist af fátækt og jaðarsetningu leiðir til þess að fatlað fólk
fer verr út úr hamförum og faröldrum en aðrir hópar samfélagsins. Mögulegt væri að lágmarka
dauðsföll af völdum hamfara ef öllum væri til dæmis tryggt öruggt húsnæði, aðgengi að heilsugæslu
og að sá búnaður sem notaður er við rýmingu og björgun væri aðgengilegur fötluðu fólki. Til þess að
svo megi verða þarf að afbyggja ableísk viðmið um hverjir eru gildir þegnar samfélagsins.
Hlutverk almannavarna er ríkt í þessum efnum en tryggja þarf að viðbragðsáætlanir geri ráð fyrir
öllum hópum samfélagsins. Í tilviki fatlaðs fólks þarf að gera ráð fyrir þeirra sérþörfum. Gæta þarf
að því að þær leiðbeiningar sem almannavarnir veita gagnist öllum en sem dæmi má nefna að margt
fatlað fólk getur ekki farið „undir borð eða rúm“ eða kropið „niður í horni við burðarvegg eða í hurð-
aropi við burðarvegg“ í jarðskjálfta (Almannavarnir, e.d.-d). Gera þarf ráð fyrir mismunandi þörfum
fólks við upplýsingagjöf og leggja höfundar til að almannavarnir ásamt öllum öðrum opinberum
aðilum noti staðla um algilda hönnun í upplýsingagjöf, komist þannig hjá því að hópar gleymist
og tryggi að nauðsynlegar upplýsingar berist öllum (The Centre for Ecellence in Universal Design,
e.d.). Allt fólk nyti til dæmis góðs af, ef upplýsingasíða almannavarna, Covid.is, myndi byggja á
stöðlum um algilda hönnun.
Viðbragðsaðilar þurfa einnig að vera upplýstir um ýmsar sérþarfir fatlaðs fólks; heyrnarlaust fólk
heyrir ekki í brunabjöllum og blint fólk getur átt í erfiðleikum með að finna tilgreinda söfnunarstaði
(e. assembly points). Það munu ekki allir geta brugðist við og farið eftir fyrirmælum viðbragðsaðila
án aðstoðar. Þegar hættuástand gengur yfir, getur fólk þurft að leita skjóls í neyðarskýlum og þá er
mikilvægt að velja húsnæði sem er aðgengilegt fötluðu fólki. Þegar bráðabirgðaskýlum er komið
upp, byggingum breytt eða tjöld reist, er sjaldan hugað að þörfum fatlaðs fólks og það yfirleitt
afsakað með þeirri miklu neyð sem ríkir. Þrátt fyrir að enginn geri kröfu um að bráðabirgðaskýli
uppfylli alla byggingarstaðla þá verður samt sem áður að gera ráð fyrir öllu fólki í viðbrögðum við
hamförum. Ef það er ekki gert verða jaðarsettir hópar útsettari fyrir þeirri vá sem steðjar að og í
verstu tilfellum getur það leitt til dauðsfalla. Ef til vill er tímabært fyrir Rauða krossinn að endur-
skoða fjöldahjálparstöðvar sínar og meta hvort allt fólk hafi aðgengi að þeim án tillits til andlegs eða
líkamlegs atgervis.
Þegar sagt er að viðbragðsáætlanir og viðbrögð við hamförum séu ableískar, er vísað til fjarveru