Bændablaðið - 09.03.2023, Síða 20
20 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. mars 2023
FRÉTTASKÝRING
Neytendur:
Matvæli undir fölsku flaggi
– Um upprunamerkingar og skort á þeim
Uppruni matvæla skiptir neytendur miklu máli. Ákveðnar reglur gilda
um merkingar matvæla, en skyldumerkingar gera vörunum oft ekki
nægjanleg skil. Á það bendir formaður samráðshóps um betri merkingar
matvæla. Á meðan óunnum vörum sé gert að vera merkt uppruna gegnir
öðru máli um það sem skilgreint er unnið. Fyrirtækjum er í sjálfsvald
sett hvaða umfram upplýsingar þær setja fram á vörur sem þær vinna
að litlu leyti. Neytendum er svo látið í té að velja sér matvörur út frá
gefnum upplýsingum – eða skorti á þeim.
Í skýrslu framkvæmdastjórnar
Evrópusambandsins um uppruna-
merkingar kjöts í matvöru, viðhorfi
neytenda, hagkvæmni og áhrif slíkra
merkinga, segir að neytendur séu
almennt næmari gagnvart uppruna
matvæla. Slíkt næmi birtist í meiri
meðvitund og kröfu neytenda um
upprunamerkingar. Neytendur vilja
upplýsingar um uppruna, innihald og
kolefnisspor landbúnaðarafurða svo
þeir geta meðvitað valið hvað þeir
leggja sér til munns.
Matvælafyrirtæki fara ekki varhluta
af því og nýta upprunavörumerki
sér til hagsbóta. Markaðslegt forskot
getur falist í matvöru frá tilteknum
löndum, neytendur treysta misvel
matvælaframleiðslu ákveðinna landa
og landsvæða. Þannig hafa sum lönd
og svæði byggt upp sérstöðu sem
neytendur treysta og kjósa umfram
sambærilegar vörur frá öðrum
svæðum. Samkvæmt eðli hagfræðinnar
hækkar virði eftirsóknarverðra vara.
Öðru máli gildir um uppruna, innihald
og kolefnisspor þeirra matvæla sem
gætu latt neytendur til kaups og neyslu.
Þá er oft betra fyrir fyrirtæki að nýta
gloppur í löggjöf og sleppa því að
upplýsa væntanlega neytendur.
Tölur sem tala
Fjölmargar kannanir staðfesta að
neytendur vilja vita hvaðan maturinn
þeirra kemur og undir hvaða
kringumstæðum hann er framleiddur.
Dæmi um það er afgerandi afstaða
neytenda í könnun Maskínu árið
2018 þar sem 96,6% svarenda töldu
að merkja ætti upprunaland matvöru í
verslunum, 77,1% taldi rétt að merkja
upprunaland matvöru á veitingahúsum
og 72,4% töldu að merkja ætti matvöru
í mötuneytum.
Í könnun Gallup frá árinu
2021 sögðu tæp 90% svarenda að
upprunamerkingar væru mikilvægar.
Ríflega 80% neytenda sögðust kjósa
íslenskar vörur í verslunum væri
þess kostur og 63% svarenda óskuðu
þess að innlendar matvörur væru
upprunamerktar. Rúm 70% svarenda
sögðust óánægðir
með að erlendar kjötafurðir væru
seldar undir íslenskum vörumerkjum.
Samtök fyrirtækja í landbúnaði
(SAFL) benda á það í umsögn
sinni um nýja þingsályktunartillögu
um matvælastefnu að samkvæmt
könnun Gallup í ágúst 2016 skiptir
uppruni landbúnaðarafurða íslenska
neytendur miklu máli en þá svöruðu
82,2% því að þeir veldu eingöngu,
mun frekar eða frekar íslenskt kjöt
en erlent þegar verslað er og 88,3%
sögðu það skipta öllu, mjög miklu eða
frekar miklu máli að upplýsingar um
uppruna væru á umbúðunum.
Þær reglur sem gilda
Ísland innleiddi matvælalöggjöf
Evrópusambandsins árið 2014. Innan
hennar gilda reglur um merkingar
matvæla. Engar sérreglur eru um
merkingar matvæla hér á landi,
enda er sameiginleg löggjöf innan
Evrópusambandslandanna til þess
gerð að samræmi sé í regluverki innan
Evrópska efnahagssvæðisins.
Matvælastofnun og heilbrigðis-
nefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón
Matvælastofnunar fara með eftirlit
með merkingum matvæla. Á vefsíðu
MAST er hægt að nálgast skýringar
á reglunum. Eingöngu er skylt
að merkja uppruna flestra ferskra
matjurta, hunangs og óunnins kjöts af
nautgripum, svínum, sauðfé, geitum
og alifuglum.
Munurinn á unnu og óunnu
Í reglugerðunum um uppruna-
merkingar á kjöti er krafan um
upprunamerkingar einskorðuð við
tiltekinn tollflokk. Undir þann flokk
falla einungis óunnar afurðir, kældar
eða frystar. Óunnið kjöt telst allt það
sem eingöngu er skorið eða hakkað.
Um leið og kjötið hefur verið kryddað,
pæklað, sprautusaltað eða bætt í það
aukaefnum er það ekki lengur óunnið.
Unnin matvæli lúta ekki kröfu
um upprunamerkingu og er því
framleiðanda vörunnar í sjálfsvald
sett hvort upplýst sé um uppruna
hráefnisins.
Í reglugerðum er hægt að finna
nánari skilgreiningar á hvað telst til
óunninna og unninna vara en einfalt
er að skilja það svona:
Ef innihaldslýsingar er þörf, þá er
kjötið unnið.
Heiðursmannasamkomulag
og samráðshópur
Í febrúar árið 2019 var undirritað
samkomulag milli sjávarútvegs-
og landbúnaðarráðherra, Bænda-
samtaka Íslands, Neytendasam-
takanna, Samtaka verslunar og
þjónustu og Samtaka iðnaðarins
þess efnis að gerð yrði gangskör í
því að bæta merkingar á matvælum
og tryggja þannig betur rétt
neytenda til upplýsinga um uppruna,
framleiðsluhætti, lyfjanotkun og
umhverfisáhrif þeirra.
Í kjölfarið var stofnaður
samráðshópur um betri merkingar
matvæla sem starfaði á vegum
atvinnuvega- og nýsköpunar-
ráðuneytisins á tímabilinu apríl
2019 til febrúarmánaðar 2020. Afurð
starfs hópsins er skýrsla sem kom
út í september árið 2020. Þar voru
lagðar fram tólf tillögur til að
bæta merkingar matvæla.
Oddný Anna Björnsdóttir var
formaður og verkefnisstjóri
samráðshópsins.
Það sem þarf ekki
Tillögurnar tólf sneru
að bættri merkinga-
löggjöf, tækni-
lausnum sem aukið
gætu upplýsingagjöf
um matvæli til
neyt enda og notkun
á valkvæðum
merkingum. Auk
þess lagði hópurinn
til átaksverkefni
til að tryggja
betri meðvitund
neytenda á rétt
sínum til upplýsinga
um matvæli.
Oddný Anna bendir á að innleiðing
hinnar svokölluðu merkingareglugerðar
árið 2014 hafi verið mikið
framfaraskref fyrir neytendur hér á
landi. Í henni séu mun meiri kröfur
gerðar til merkingar matvæla en
áður voru og hvetur neytendur til að
kynna sér hvaða upplýsingum þeir
eigi rétt á, á vef Matvælastofnunar.
Sem dæmi séu innihaldslýsingar
orðnar fastmótaðri, ofnæmis- og
óþolsvaldar sýnilegri, skýrar reglur
um næringar- og heilsufullyrðingar
og næringargildistaflan staðlaðri.
„Að mínu mati er reglugerðin skýr
og engin sérstök vafaatriði í henni, en
það þarf að sjá til þess að farið sé eftir
reglunum,“ segir Oddný.
Fánaröndin getur
verið blekkjandi
Íslenska fánaröndin er mikið notuð
á matvæli íslenskra fyrirtækja
og sjást tíðum í matvörubúðum.
Í lögum um þjóðfána kemur fram að
heimilt sé að nota fánamerkingu sé
vara framleidd á Íslandi úr innlendu
hráefni, en einnig ef hún er framleidd
úr innfluttu hráefni hafi hún hlotið
„nægilega aðvinnslu“ hérlendis.
Þó er þar tilgreint að vara teljist ekki
íslensk, og megi þar af leiðandi ekki
bera þjóðfánann, sé hún framleidd
úr innfluttu hráefni sem telst vera
einkennandi hluti vörunnar og sé
eðlislík vöru sem ræktuð er og
framleidd hér á landi.
Íslensk framleiðslufyrirtæki
sem nota innflutt hráefni geta sett
íslenska fánann á vörur sínar ef
uppistöðuhráefnið er ekki eðlislíkt
íslenskri búvöru. Mörg dæmi eru hins
vegar um að þjóðfáninn sé misnotaður en
viðurlög við slíkum brotum virðast lítil.
„Það virðist vera mjög lítil áhætta
að brjóta þessa reglu. Ef þú ert með
vanmerkta vöru með óþolsvalda þá er
hún innkölluð hin snarasta. En ég hef
hins vegar ekki heyrt af innköllun á
vöru sem var merkt íslenska fánanum
sem talið var villandi,“ segir Oddný.
Samkvæmt upplýsingum frá
Neytendastofu hafa þrettán fyrirspurnir
og ábendingar borist varðandi villandi
framsetningu, upprunamerkingar eða
markaðssetningu á búvöru síðan
skýrslu samráðshópsins var skilað
árið 2020. Tekin hafa verið fyrir
tvö mál til meðferðar sem snúa að
notkun þjóðfánans, á ullarsæng og á
umbúðum hóffylliefnis. Í fyrrnefnda
tilvikinu var niðurstaða stofnunarinnar
að notkun fánans væri réttmæt en í því
síðarnefnda var látið af notkuninni.
Stofnunin hefur ekki beitt sekt í málum
sem þessum sem snúa að búvöru en
samkvæmt lögum er Neytendastofu
heimilt að leggja á stjórnvaldssektir,
allt að 10 milljónir króna, ef ekki er
farið að fyrirmælum stofnunarinnar.
Misfellurnar tvær
Þó réttur neytenda sé mikill samkvæmt
merkingareglugerðinni stendur tvennt
út af sem dregur úr möguleikum
neytenda á upplýstu vali, að sögn
Oddnýjar. „Annars vegar er ekki
skylt að upprunamerkja búvörur á
veitingastöðum, mötuneytum og
öðrum stöðum sem selja óforpökkuð
matvæli. Reglurnar eru þó þannig
að þeir sem bjóða upp á matinn eiga
að hafa upplýsingarnar til reiðu ef
spurt er.“ Tilfinning hennar sé sú að
mikill hluti kjöts á veitingastöðum og
í mötuneytum sé innfluttur nema frá
því sé sérstaklega sagt. „Ef þeir þurfa
ekki að gefa það upp þá er enginn hvati
til þess að nota íslenskt, nema staðurinn
geri sérstaklega út á að bjóða upp
á íslenskt.“Hún sé þeirrar skoðunar
að skylda ætti þessa staði til að hafa
uppruna búvaranna sýnilegan. Ein
tillaga samráðshópsins sneri einmitt
að því að ráðherra skoðaði að taka upp
hina svokölluðu „Finnsku leið“ sem
gangi út á að skylda þá til að upplýsa
viðskiptavini sína um uppruna þess
ferska kjöts og hakks sem þeir hafa
á boðstólum, til dæmis á töflu eða í
bæklingi. Það myndi bæta skilyrði og
stöðu neytenda til að taka meðvitaða
og upplýsta ákvörðun.
Hitt atriðið sem dregur úr
möguleikum neytenda á upplýstu vali
að mati Oddnýjar er að ekki þurfi að
upprunamerkja unnar kjötvörur.
„Tilhneigingin er sú að þeir sem
eru með unnar vörur úr íslensku kjöti
segi frá því, en þeir sem eru ekki með
íslenskt kjöt nýti sér gjarnan að þurfa
Guðrún Hulda Pálsdóttir
gudrunhulda@bondi.is
Unnið og óunnið, íslenskt og innflutt ægir saman í matvöruverslunum. Upprunamerkja þarf alla óunna vöru. Ekki
er skylda að upprunamerkja unna vöru. Fyrirtæki geta valið að upprunamerkja unnar vörur. Tilhneigingin hefur
verið að merkja það sem íslenskt er en fyrirtæki eru í vaxandi mæli að merkja uppruna allra kjötvara.
Oddný Anna Björnsdóttir var for-
maður og verkefnisstjóri samráðs-
hóps um betri merkingar matvæla.
Skýr upplýsingagjöf er forsenda fyrir
því að neytendur geti tekið upplýstar
ákvarðanir um vöruval, segir Svandís
Svavarsdóttir matvælaráðherra.
Vinstra megin er þýskt grísakjöt notað í beikon undir íslensku vörumerki. Efri vara hægra
megin eru beikonteningar upprunamerktir íslenskir með fánarönd. Sú neðri er beikonvara
sem kölluð er dönsk með kjöti upprunnu í Þýskalandi.