Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Blaðsíða 47
2. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 47
Íslenskt atvinnulíf stendur frammi fyrir erfiðri stöðu vegna efnahagskreppunnar sem hefur
fylgt kórónuveirufaraldrinum. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2022 kemur fram að opinber
fjármál hafi mótast af efnahagslegum áhrifum faraldursins „sem drifið hafa áfram 520 ma.kr.
samanlagðan halla á rekstri ríkissjóðs árin 2022 og 2021“ (Frumvarp til fjárlaga, 2022,102).
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun (júní 2021) var atvinnuleysi í janúar 2021 11,6%,
sem er hærra en fylgdi efnahagskreppunni 2008, en þá fór það hæst í 9,8% í júní 2009 (Hagstofa
Íslands, e.d.b). Atvinnuleysið var komið niður í 5,5% í júní 2021, mest vegna tímabundinna
átaksverkefna stjórnvalda og aukins ferðamannastraums til landsins. Atvinnuleysið var 5,8% í
október það ár (Hagstofa Íslands, 2021). Á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga
sem var haldin 1. október 2020 kom fram að fjárhagsleg áhrif COVID-19 faraldursins á sveitar-
félögin hafi í för með sér að þau stefndu í 33,2 milljörðum króna lakari afkomu árið 2020 en árið
áður (Samband íslenskra sveitarfélaga, 2020). Á tímum sem þessum er algengt að fyrirtæki og
stofnanir reyni að draga úr útgjöldum vegna starfsmannahalds, ýmist með beinum uppsögnum
starfsfólks, með því að ráða ekki í störf þeirra sem hætta, eða með því að hvetja fólk til að hætta
stöfum fyrr en ella með því t.d. að fara á eftirlaun (Gandolfi, 2008; Greenhalgh og Rosenblatt,
2010; Östhus og Mastekaasa, 2010). Þetta getur skapað óöryggi og álag, ekki bara fyrir starfsfólk
sem missir vinnuna heldur einnig þau sem halda störfum (Sigursteinsdóttir og Rafnsdóttir,
2015; Snorradóttir o.fl., 2013; Snorradóttir o.fl., 2015).
Í nýbirtri rannsókn um líðan starfsfólks íslenskra sveitarfélaga í kjölfar efnahagskreppunnar
2008 kemur fram að starfsfólk í menntunar- og umönnunargeiranum upplifði aukið vinnutengt
ofbeldi og hótanir í kjölfar kreppunnar (Sigursteinsdóttir o.fl., 2020a). Sömu gögn sýna einnig
aukið vinnutengt einelti og áreitni (Sigursteinsdóttir o.fl., 2020). Slæmt efnahagsástand og
versnandi félags- og efnahagsleg staða einstaklinga og fjölskyldna getur þó ekki einungis haft
áhrif á samskipti á vinnustöðum, heldur einnig aukið vanlíðan starfsfólks og jafnvel veikindi.
Í grein frá árinu 2009 bentu Marmot og Bell á að efnahagskreppan sem þá reið yfir Vesturlönd
væri líkleg til að hafa neikvæð áhrif á heilsu fólks, ekki síður en efnahag. Sú varð raunin hér
á landi (Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Hjördís Sigursteinsdóttir, 2019; Sigursteinsdóttir og
Rafnsdóttir, 2015; Snorradóttir o.fl., 2015) og erlendis (Karanikolos o.fl., 2016; Odone o.fl.,
2018). Í safngrein sem Parmar o.fl. (2016) birtu um rannsóknir á áhrifum efnahagskreppunnar
2008 á heilsufar í Evrópu og náði til 41 greinar sem birtist á árunum 2008-2015 kemur fram að
rannsóknarniðurstöðurnar séu býsna mismunandi. Hvatt er til varkárni í ályktunum byggt á
fyrirliggjandi rannsóknum um tengsl efnahagskreppa og líðanar og hvatt til frekari rannsókna.
Engu að síður virðast vísbendingar, skv. greinarhöfundum, helst vera um neikvæð áhrif
efnahagskreppunnar 2008 á andlega líðan einstaklinga og sjálfsvíg.
Fleiri erlendir vísindamenn en Parmar o.fl. (2016) hafa kallað eftir frekari rannsóknum á þessu
sviði. Til dæmis benda Archibald (2009) og Carter o.fl. (2013) á mikilvægi þess að rannsaka
veikindafjarvistir og líðan þeirra sem halda vinnunni í kjölfar efnahagskreppa, því athyglinni
INNGANGUR
GUÐBJÖRG LINDA RAFNSDÓTTIR
prófessor
Félagsfræði-, mannfræði- og
þjóðfræðideild Háskóla Íslands
HJÖRDÍS SIGURSTEINSDÓTTIR
dósent
Viðskipta- og raunvísindasvið
Háskólans á Akureyri
Veikindi og veikinda-
fjarvistir starfsfólks í
umönnunarstörfum
hjá sveitarfélögum.
Hvað getum við lært af
bankahruninu 2008?
Ritrýnd grein | Peer review
Höfundar