Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Blaðsíða 70
70 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 98. árg. 2022
Ofbeldi gagnvart starfsfólki geðdeilda Landspítala
Rannsókn þessi sýnir að ofbeldi á geðdeildum Landspítala er
nokkuð umfangsmikið og krefjandi fyrir starfsfólk. Eftir að hafa
orðið fyrir ofbeldi af hálfu sjúklinga geta vaknað hjá starfsfólki
erfiðar hugsanir og tilfinningar gagnvart sömu sjúklingum
um leið og það þarf að sjá til þess að þeir fái bestu mögulegu
meðferð (Pelto-Piri, o.fl., 2020). Niðurstöður rannsóknarinnar
koma heim og saman við erlendar rannsóknir, sem sýna að
munnlegt ofbeldi er algengasta tegund ofbeldis gagnvart
starfsfólki á geðdeildum (Itzhaki o.fl., 2018; Jonker o.fl.,
2008; Kontilla o.fl., 2018). Þó að erlendar rannsóknir sýni
mismunandi hátt hlutfall starfsfólks sem verður fyrir ofbeldi
eru niðurstöðurnar hér innan þeirra marka sem niðurstöður
rannsókna Carusos o.fl. (2021), Edwards o.fl. (2014), Itzhakjs
o.fl. (2018) og Spectors o.fl. (2014) sýna.
Hjúkrunarfræðingar og félagsliðar/stuðningsfulltrúar eru
fjölmennustu starfsstéttirnar á geðdeildum Landspítala
og því kemur ekki á óvart að flest svör komu frá þeim og
niðurstöðurnar sýna að sömu starfsstéttir urðu oftast fyrir
ofbeldi við störf sín. Það rímar við erlendar rannsóknir sem
sýna að hjúkrunarfræðingar og starfsfólk undir þeirra stjórn
er útsettast fyrir ofbeldi á geðdeildum (Itzhaki o.fl., 2019; van
Leeuwen og Harte, 2015). Skýringin á því er að öllum líkindum
sú að þessar starfsstéttir eru í mestri návist við sjúklingana
allan sólarhringinn og verja mestum tíma með þeim. (Odes
o. fl., 2021). Þess ber þó að geta að sjúkraliðar fylla einnig
þennan hóp, en þeir eru tiltölulega fáir á geðdeildum
Landspítala miðað við hjúkrunarfræðinga. Þó að langfæstir
sjúklinga, eða gesta, sýni ofbeldi á geðdeildum er ekki hægt
að horfa fram hjá þeirri staðreynd eins og rannsóknin sýnir að
flestar starfsstéttir geðdeilda eru að einhverju leyti útsettar
fyrir ofbeldi (Hill og Joyce 2013; Jungert o.fl., 2016; Koritsas,
2010; Stubbs og Dickens, 2009).
Karlar urðu marktækt oftar fyrir líkamlegu ofbeldi en konur
sem kemur heim og saman við erlendar rannsóknir (Hahn
o.fl., 2008; van Leeumen og Harte, 2016, Odes o.fl., 2021).
Aðrar rannsóknir um kyn starfsfólks sem verður fyrir ofbeldi
(Flannery o.fl., 2018; van Leeuwen og Harte, 2015) sýna
hins vegar mismunandi niðurstöður. Það getur skýrst m.a.
af því að karlkyns starfsmenn eru oftast í návist sjúklinga
sem sýna árásargjarna hegðun. Rannsókn sem gerð var á
geðsviði Landspítala sýndi að í flestum tilvikum þegar teymi
starfsmanna þurfti að halda sjúklingum kyrrum voru flestir
í teyminu karlmenn en í slíkum aðstæðum er hætta á að
sjúklingar nái að beita ofbeldi, s.s. að slá, kýla, sparka, skalla
í starfsmenn (Jón Snorrason o.fl. 2017). Annað sem hér getur
ráðið er að sjúklingar vilji síður leggja hendur á kvenkyns
starfsmenn. Um þetta er þó erfitt að fullyrða og þyrfti
frekari rannsókna við. Venjulega verða þó fleiri konur fyrir
kynferðislegu ofbeldi en karlar þótt í þessari rannsókn væri
ekki marktækur munur þar á (Hahn o.fl., 2008; van Leeuwen
og Harte, 2015).
Erlendar rannsóknir sýna einnig mismunandi niðurstöður
um aldur og starfsaldur þeirra sem verða oftast fyrir ofbeldi.
Það er algengt að ungt starfsfólk og starfsfólk með stuttan
starfsaldur skýri oftar en starfsfólk með langa starfsreynslu frá
ofbeldi þegar spurt er um tíðni ofbeldis á stuttum tíma eins
og í nokkra mánuði. Vísbendingar eru einnig um að starfsfólk
UMRÆÐA
með litla starfsreynslu líti oftar en starfsfólk með lengri
starfsreynslu á ákveðin atvik sem ofbeldi (Hahn o.fl., 2008;.
Rosenthal o.fl., 2018). Í þessari rannsókn voru þátttakendur
eldri en 50 ára marktækt oftar fyrir líkamlegu ofbeldi en
starfsmenn yngri en 50 ára. Enginn marktækur munur var hins
vegar á milli aldurs og þess að hafa orðið fyrir munnlegu eða
kynferðislegu ofbeldi. Það var heldur ekki marktækur munur
á milli starfsaldurs og þess að hafa orðið fyrir ofbeldi af hvaða
tagi sem er. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda því til að
aðrir þættir en kyn, aldur og starfsaldur starfsfólks hafi áhrif á
hvort það verði fyrir ofbeldi í starfi.
Langflestir gerendur ofbeldis gagnvart starfsfólki geðdeilda
voru sjúklingar eins og erlendar rannsóknir sýna (Hahn
o.fl., 2008; Spector o.fl., 2014). Í nokkrum tilvikum kemur þó
fram að starfsfólk hafi verið gerendur ofbeldis. Þetta kann
að endurspegla streitubundið vinnuumhverfi á ákveðnum
geðdeildum þó að ekki hafi komið fram á hvaða geðdeildum
þetta starfsfólk starfaði. Í rannsókn þar sem rætt var við
starfsfólk geðdeilda Landspítala kom fram að það teldi
líkamlegt og sálrænt ójafnvægi starfsfólks geta hreyft við
árásargjarnri hegðun sjúklinga (Jón Snorrason og Guðrún
Úlfhildur Grímsdóttir, 2019). Það gæti hugsanlega einnig átt
við árásargjarna hegðun starfsfólks gagnvart samstarfsfólki
sínu.
Þótt ofbeldi hafi sjaldnast haft alvarlegar afleiðingar fyrir
starfsfólk, hafði það í flestum tilvikum einhverjar líkamlegar
og/eða sálrænar afleiðingar eins og áverka, sársauka, kvíða,
depurð og tímabundna fjarveru úr starfi. Þetta er sambærilegt
við afleiðingar sem starfsfólk á erlendum geðdeildum þarf
að glíma við (Ali o.fl., 2021; Hills og Joyce, 2013; Odes o.fl.,
2021). Ofbeldi getur bæði haft áhrif á líkamlega og sálræna
líðan strax á eftir og eftir einhvern tíma frá ofbeldinu (Ali
o.fl., 2021; d´Ettore og Pellicani, 2017). Það er því mikilvægt
að starfsfólk sem verður fyrir ofbeldi fái viðeigandi stuðning
og meðferð í kjölfar ofbeldis (Patriona o.fl., 2020; Schablon
o.fl., 2018). Annars gæti það leitt til vanlíðanar í starfi og utan
vinnustaðarins, minni starfsánægju, fjarveru úr starfi og skerts
vinnuframlags eins (Ali o.fl., 2021; Hills og Joyce, 2013; Shier
o.fl., 2016).
Þrátt fyrir að ofbeldi hafi haft einhverjar afleiðingar fyrir
flesta sem urðu fyrir því sögðust aðeins 3,9% þátttakenda
líða illa í starfi. Þetta þyrfti að athuga betur þar sem mun fleiri
sögðu frá afleiðingum ofbeldis sem þeir urðu fyrir en það
kann að vera að þegar starfsfólk metur líðan sína í starfi meti
það marga aðra áhrifaþætti en að hafa orðið fyrir ofbeldi.
Rannsóknir sýna að ofbeldi er einnig íþyngjandi fyrir starfsfólk
á geðdeildum sem verður vitni að ofbeldi (Hahn o.fl., 2012; van
Leeuwen og Harte, 2015; Schablon o.fl., 2018) og ofbeldi getur
haft áhrif á gæði þjónustunnar, samskipti við sjúklinga og
beitingu nauðungaraðgerða, sem gripið er til í kjölfar alvarlegs
ofbeldis (Ali o.fl.,2021).