Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Blaðsíða 78
78 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 2. tbl. 98. árg. 2022
Smokkanotkun ungra karlmanna
og meiri reynslu eins og einn sagði: „Því oftar sem ég hef keypt
smokka verður það bara þægilegra og þægilegra sko“. Til
þess að hafa smokka aðgengilegri þá vildu unglingspiltarnir
gjarnan hafa sjálfsala í skólanum sem mundi auðvelda þeim
aðgengið og væri þá afgreiðslumaðurinn ekki lengur hindrun.
Sumir greindu frá því að móðir þeirra hefði keypt smokka: „...
þegar ég var svona 15 ára þá gaf hún mér bara smokkapakka
og sagði notaðu þetta ef þú ætlar að gera það [stunda kynlíf]“.
Jafnframt kom fram að það væri þægilegt að þurfa ekki
að biðja móður sína að kaupa smokka. Þegar rætt var um
kostnað smokka þá fannst þeim smokkar vera mjög dýrir.
Einn sagði: „Smokkar eru sjúklega dýrir“. Einnig kom fram sú
skoðun að kostnaður við smokkakaup væri ekki sambærilegur
við að eignast barn. Í viðtalinu voru þeir spurðir hversu mikið
þeir væru tilbúnir að greiða fyrir smokka. Flestir voru sammála
um hvað smokkurinn mætti kosta og fannst þeim að 100
krónur fyrir hvern smokk væri vel ásættanlegt verð.
Eyðileggur „momentið“
Þegar þátttakendur lýstu sjálfri smokkanotkuninni þá komu
bæði fram þættir sem hvöttu og löttu notkunina. Þeir sem
ekki notuðu smokka greindu meðal annars frá áhættusækni,
smokkurinn væri ekki til staðar, áfengisnotkun, samskiptaleysi
og þeir óttuðust að eyðileggja „momentið“. Fram kom hjá
þeim að þó að þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir væru að
taka áhættu með því að nota ekki smokk þá tóku sumir samt
áhættuna eins og einn orðaði það: „... maður kannski spilar
lotteríið bara upp á heppnina að verða ekki fyrir einhverju ...“.
Margir nefndu að þeir væru kannski ekki með smokkinn á sér
þegar tækifærið gæfist eins og þessi frásögn gaf til kynna: „...
maður veit kannski ekki hvenær á stað og stund þetta gerist
og ef maður er ekki með smokk á sér eða eitthvað þannig þá
er maður ekki endilega að hætta við til þess geta gert það
seinna ...“.
Fram kom hjá flestum að áfengisnotkun gat hindrað
smokkanotkun. Undir þessum kringumstæðum kom fram að
þeir mundu kannski ekki bregðast við ef smokkurinn rifnaði
eða hann væri ekki til staðar þá væri meiri tilhneiging til að
taka áhættu og sleppa smokkanotkuninni. Einnig kom fram
að kyngeta þeirra gæti minnkað við áfengisneyslu og því gæti
verið stressandi að setja smokkinn á við þær aðstæður: „Þau
byrja kannski að nota smokk og síðan finnur hann að þetta
gengur ekkert sérstaklega vel því hann er svo fullur og er ekki
að finna fyrir neinu, ákveður að taka hann af“. Auk þess var
nefnt að það gæti komið fyrir að fá það [fullnægingu] ekki
með smokk og því gæti sú reynsla dregið úr möguleikum á
smokkanotkun síðar meir.
Það sem jafnframt var að gera þeim aðstæðurnar við
smokkanotkunina erfiðari var að tjá sig um hana: „Ef hún
segist vera á pillunni og maður segir að maður vilji nota
smokkinn þá gæti það alveg verið tekið sem móðgun til
hennar að halda að hún sé með kynsjúkdóm“. Það gat því
reynst flókið að ræða málin en mun auðveldara að sleppa því
að nota smokkinn.
Þegar kom að því að setja smokkinn á þá gat viðkomandi
óttast að eyðileggja „momentið“: „Svo getur það verið svolítið
svona eyðileggur „momentið“ ...“. Önnur lýsing af sama toga:
„Maður er byrjaður í ákafanum og svo stoppar það smástund“.
Þannig verður minni hiti í leiknum. Var „momentinu“ lýst á
eftirfarandi hátt: „... þú ert að ná í smokkinn, þú þarft að rífa
utan af honum og þú þarft að setja hann á þig“. Önnur lýsing á
„momentinu“: „Ert eitthvað þarna í myrkrinu að finna hvernig
hann snýr og vandræðaleg þögn“. Annar nefndi: „Það verður
dauðaþögn, skilurðu“. Til viðbótar kom fram: „... gæti tekið
tíma að ná í hann, ein sekúnda ... er kannski ekki jafnlengi að
líða í kannski vissum tilvikum [eins og í „momentinu“]“. Hér
var í raun ein sekúnda sem heil eilífð. Því var lýst að feimni
gæti skipt máli: „Ef maður er ... feiminn og þá getur það alveg
verið smááskorun að taka time out og ná í smokkinn“. Að
auki gat „momentið“ verið erfitt ef viðkomandi glímdi við
risvandamál: „Það er kannski þessi bið ... meðan þú ert að
leita að smokknum og ef þú ert með risvandamál þá kannski
bara yfirgefur hann [getnaðarlimurinn] svæðið“. En það voru
líka einstaklingar sem lýstu því að „momentið“ væri ekkert
mál, sérstaklega ef viðkomandi þekkti manneskjuna. Hjá
þeim sem voru ábyrgari í afstöðu sinni til smokkanotkunar
kom meðal annars fram þetta viðhorf: „... þetta er bara eins
og að vera í bílbelti í bíl, skilurðu þetta tekur enga eða litla
stund að setja það á og það eru miklu minni líkur á því að þú
deyir í bílslysi“. Þeir sem virtust hafa meira sjálfsöryggi fannst
samræður um smokkanotkun þyrftu alls ekki að eyðileggja
stemninguna. Þeir voru með alls kyns hugmyndir um það
hvernig væri hægt að ræða um notkun smokka á þægilegan
máta. Dæmi um það var: ,,Ef þú ert í þessum aðstæðum getur
þú alltaf spurt spurninguna: á ég að ná í smokkinn?“. Sumir
töldu ónauðsynlegt að ræða smokkanotkun því hún væri svo
sjálfsögð. Þá gætu þeir bara náð í smokkinn án nokkurra orða.
Til þess að nota smokkinn þarf margt að vera til staðar
eins og að hafa greitt aðgengi að honum, ungum mönnum
þarf að finnast sjálfsagt að nota hann og þeir þurfa að hafa
nægjanlegt sjálfsöryggi og þekkingu til að ráða við notkun
hans. Það er ljóst af niðurstöðum rannsóknarinnar að ungir
karlmenn geta staðið frammi fyrir mörgum hindrunum
varðandi smokkanotkun. Þessar hindranir voru í formi
þekkingarleysis, neikvæðra viðhorfa, erfiðleika að nálgast
smokkinn og nota hann sem bendir meðal annars til skorts
á sjálfstrausti. Hins vegar voru ýmsir þættir sem hvöttu til
smokkanotkunar eins og jákvæð viðhorf til smokkanotkunar,
þeim finnast mikilvægt að koma í veg fyrir afleiðingar þess
að nota ekki smokkinn og almennt að standa með sjálfum
sér þegar á hólminn er komið. Þessi ábyrga afstaða til
smokkanotkunar vísar til ákveðins vitsmuna-, tilfinninga- og
félagsþroska en jafnframt að hafa byggt upp traust og trú á
sjálfum sér.
Letjandi þættir smokkanotkunar
Ýmsar niðurstöður þessarar rýnihóparannsóknar benda til
þekkingarskorts meðal unglingspilta varðandi smokka sem
haft getur áhrif á notkun þeirra. Greint er frá því að smokkar
séu þykkir sem gefur til kynna að ungu mennirnir hafi lítt
kynnt sér eða prófað mismunandi tegundir smokka með tilliti
til þykktar. Einnig nefna þeir að þá vanti betri upplýsingar um
heildarnotkun smokka. Það er því ekki nægjanlegt að kenna
þeim hvernig smokkurinn þarf að snúa þegar honum er rúllað
á getnaðarlim því fara þarf yfir öll skref notkunarinnar. Þessi
UMRÆÐA