Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2022, Blaðsíða 77
2. tbl. 98. árg. 2022 | Tímarit hjúkrunarfræðinga 77
Ritrýnd grein | Peer review
en ekki bara í tengslum við útihátíðir. Þeim fannst mikilvægt
að nota meira samfélagsmiðla til að auglýsa smokka. Fram
komu ýmis jákvæð viðhorf til smokksins en þeir töldu að
helsta ástæðan fyrir lélegri notkun hans væri sú að kynlífið
væri betra án hans. Við gagnagreiningu komu fram ólík
viðhorf til smokkanotkunar meðal ungra karlmanna á
höfuðborgarsvæðinu borið saman við þá sem voru á Akureyri.
Þátttakendur á höfuðborgarsvæðinu litu léttvægari augum á
kynsjúkdómasmit en þeir sem voru á Akureyri. Það væri eins
og að fá kvef og það þyrfti bara að taka nokkrar pillur til að
meðhöndla kynsjúkdóminn. Hins vegar fannst þeim mikilvægt
að koma í veg fyrir óráðgerða þungun sem var þeim hvati
til smokkanotkunar. Fyrir Akureyringana var aðalhvatinn til
smokkanotkunar að fyrirbyggja kynsjúkdómasmit.
Greind voru fjögur þemu. Þau eru Grín og sprell, Þægilegra án
smokks, Skrítið augnaráð og Eyðileggur „momentið“.
Grín og sprell
Í þessu þema er umfjöllun um þekkingu og þekkingarleysi
unglingspilta á smokkum, hverjir veita fræðsluna, hvernig
hún er sett fram og hvaða fyrirmyndir þeir hafa. Ungu
karlmennirnir voru almennt sammála um að þeir hafi fengið
ákveðna kynfræðslu í skólum en hún mætti vera meiri og betri.
Fáir könnuðust við að hafa fengið fræðsluefni um það hvernig
skyldi nota smokkinn frá upphafi til enda, fyrirmyndir um
smokkanotkun væru fáar og þeir þyrftu að fá sýnikennslu um
smokkanotkun. Sumir bjuggu yfir þekkingu eins og að vita um
mismunandi gerðir af smokkum og hvers vegna hann getur
rifnað. Fram komu sterkar skoðanir á skilaboðum kláms og
nefndu þátttakendur að þeir hefðu lært í skólanum að klám
væri alls ekki raunverulegt kynlíf. Þó kom fram hjá einum: „...
ég er nýlega farinn að velta því fyrir mér að ég geri hluti í kynlífi
bara af því að ég sá það í klámi ...“.
Innan veggja heimilanna var mismunandi hvort þeir höfðu
fengið einhverja fræðslu. Ef um einhverja fræðslu og eða
umræður við ungu mennina var að ræða þá var það einkum
móðirin sem sá um hana. Fram kom að óformleg fræðsla gat
hentað betur eins og einn greindi frá: ,,... þegar maður var að
fara út á lífið ... heyrðu, ef þú ætlar að stunda samfarir mundu
að nota smokk bara“.
Í umræðum um vinina kom fram: „... síðan er líka hvað vinir
manns segja og aðrir“. Margir nefndu að umfjöllun um
smokka væri lítil meðal vina en ef hún væri þá væri hún mest
sett fram í gríni og það væru heldur ekki svo margir að nota
smokkinn eins og fram kom í þessari frásögn:
... en mér finnst það kannski líka vera skilaboðin frá
jafningjum, það eru ekki allir, alls ekki meirihlutinn
sem er að nota verjur sko ... ég held að kannski að ...
í mínum jafningjahóp þá eru flestir sem nota þetta
ekki.
Þeir sögðust ekki hafa séð smokkanotkun í bíómyndum eða
í klámi. Einn nefndi: ,,Í rauninni þá er þetta bara notað sem
eitthvað svona grín og sprell, eitthvað svona með smokkinn
til að mynda einhverja vandræðalega stemningu og eitthvað
svona. Aldrei í hefðbundinni rómantískri mynd og svona“. Þeir
nefndu einnig að í tónlist eins og rapplögum þá væri fjallað um
það að nota ekki smokkinn eða bara að hann væri tekinn af í
miðjum klíðum og því lögð áhersla á að nota ekki smokkinn.
Þægilegra án smokks
Alls kyns viðhorf bæði neikvæð og jákvæð komu fram hjá
þátttakendum um smokkanotkun. Fyrst er fjallað um
neikvæðu viðhorfin og síðan um þau jákvæðu. Í ljós kom
að smokkurinn væri óþægilegur og drægi úr tilfinningu
og ánægju kynlífsins sem hélst í hendur við áhættusama
kynhegðun. Í sambandi við óþægindin þá lýsti einn þeim svo:
„... Ég held það séu bara flestir á því að þetta sé þægilegra án
smokks ...“. Sá sami áttaði sig á því að slíkt viðhorf gæti haft
afleiðingar og hann sagði jafnframt: „En þá ertu líka að spila
í lotteríinu ef þú ert ekki með aðrar getnaðarvarnir“. Ýmsar
aðrar frásagnir voru af óþægindum þess að nota smokkinn:
„Þetta er pínu eins og að fara í fótabað í stígvélum“. Í tengslum
við kynferðislega ánægju þá nefndu þeir til dæmis að
smokkurinn væri of þykkur og því ekki þægilegur. Þegar það
var útskýrt að til væru margar tegundir þá kom fram vantraust
gagnvart þynnri smokkum. Það kom fyrir að í frásögn sama
einstaklings komu fram bæði jákvæð og neikvæð viðhorf til
smokkanotkunar eins og þetta dæmi sýnir: „Þetta er ekkert
flókið að nota. Það er kannski bara þægilegra að vera ekki
með smokk, skilurðu, eins og að þurfa ekki að sofa í öllum
fötunum, þú klæðir þig úr því það er þægilegra“. Fleiri lýsingar
á óþægindunum fólust til dæmis í eftirfarandi: ,,Ímyndaðu þér
að borða uppáhaldsmatinn þinn með plastpoka yfir tungunni
á þér“.
Ýmis jákvæð viðhorf komu fram eins og neikvæðar afleiðingar
þess að nota ekki smokkinn sérstaklega varðandi mögulega
þungun. Virtist það vera mikill hvati til smokkanotkunar eins
og eftirfarandi tilvísun gefur til kynna: „... það er örugglega
minna óþægilegt að fara út í búð að kaupa smokka heldur en
að labba um bæinn 14-15 ára gamall með kærustunni ... því
hún er bara eitthvað komin þrjá mánuði á leið“. Fleiri jákvæð
viðhorf til smokkanotkunar komu fram eins og: „Minna vesen í
lífinu“. Að auki voru látin í ljós viðhorf gagnvart þeim sem ekki
nota smokk: „... hann sé hálfviti að gera það ekki“.
Skrítið augnaráð
Þetta þema fjallar um aðgengi að smokkum, kostnað og
kaup á smokkum. Flestum fannst smokkar vera aðgengilegir
í búðum en það gat verið feimnismál og vandræðalegt að
kaupa hann: „Þetta er ekki eins og að kaupa sér mjólk“. Það
gat skipt máli hvar smokkar voru staðsettir í búðum: „það
er náttúrlega þægilegra þegar hann er beint við kassann.
Þú getur bara kippt honum með þér“. Einnig skipti stærð
bæjarsamfélagsins máli: „Erfitt á svona litlum stöðum eins og
Akureyri þar sem allir þekkja alla“. Sumir upplifðu óþægilegt
viðmót starfsfólks: „Ég lenti í því að ég var að kaupa smokk og
gellan sagði: „Njóttu“ það var ekki þægilegt“. Annar greindi
frekar frá óþægindum við kaup á smokk:
... svo er það kannski líka mismunandi hvert þú ferð
ef þú ferð upp í, skilurðu, Súper [Krambúðin] eða
eitthvað og það er kannski unglingur að vinna þá er
mjög líklegt að þú fáir eitthvað skrítið augnaráð og
óþægilegt en það er þá bara því afgreiðslumaðurinn
býr það eitthvað til og er eitthvað að reyna að vera
eitthvað eðlilegur en tekst það ekki. En ef þú ferð í
apótek og þá eru fagmenn og þú veist ef þú grípur
einn smokkapakka þá er bara – er það eitthvað fleira?
Í þessari frásögn skiptir það miklu máli hver afgreiðir smokka í
verslunum. Smokkakaupin reyndust auðveldari með aldrinum