Úrval - 01.10.1976, Blaðsíða 3
1
10. hefti
35. ár
Urval
Október
1976
I þessum mánuði hefst vetur, þessi langa og dimma árstíð, sem okkur
finnst í fljótu bragði að sé svo langtum sterkari á landi okkar heldur en bjart
og hlýtt sumarið. Við höfum fundið að skuggarnir lengjast og dagarnir
styttast, og kuldinn hefur að nokkru marki haldið innreið sína.
Sumarið var heldur votviðrasamt sunnanlands og vestan, en þeim mun
hlýrra og þurrara norðan og austan, og er svo annað árið í röð. í fyrra var meiri
vetur og snjóasamari hér sunnanlands en verið hafði um langt árabil. Það
verður forvitnilegt að sjá, hvort tíðarfarið er orðið fast við okkur, eða hvort við
fáum nú mildan vetur og hlýtt og þurrt sumar að ári. Þangað til verðum við
að þreyja þorrann og góuna.
Upp á síðkastið hefur Úrval verið seinna á ferðinni en aðstandendum þess
þykir gott. Þetta viljum við afsaka, en það er af óviðráðanlegum ástæðum.
Samt erum við að vona, að þetta lagist nú á næstunni, þannig að heftið verið
á réttum tíma. Samtímis ber að þakka trygglyndum lesendum Orvals
þolinmæðina, en þeir hafa ekki látið seinaganginn á sig fá heldur keypt heftið
skilvíslega, þegar það kemur út, það er að segja þeir, sem ekki nota sér það
hagræði að vera áskrifendur og fá heftið heimsent um leið og það kemur út.
Við leyfum okkur að vona, að nú sem fyrr geti Úrval heldur stytt veturinn
og lyft ofurlítið þungum skammdegishimninum fyrir lesendur sína.
Ritstj.
FORSÍÐAN:
Haustliti nefnir ljósmyndarinn þessa mynd, og það er réttnefni. Hins vegar
munu þeir, sem til þekkja, sjá undir eins að í baksýn eru Hraunsnefsöxl og
Baula, og því draga þá ályktun að iitanna hafí verið leitað í Grábrókarhrauni
niður undir Norðurá. Ljósm. Skarphéðinn Ragnarsson.