Skólavarðan - 2023, Qupperneq 10
10 SKÓLAVARÐAN HAUST 2023
KENNARASAMBANDIÐ / Fagleg umræða
Kennaravarpið vettvangur
faglegrar umræðu
Kennaravarpinu var hleypt af stokkunum í
tilefni af #kennaraviku. Þá fékk Magnús Þór
Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands,
nokkra lykilleikmenn menntunarmála til sín í
viðtal um stöðuna og 10 lykilkröfur kennara.
Hver ráðherra fékk að velja sér tvo af punktum
ETUCE til að fjalla um og að lokum bar Magnús
Þór kröfuna um sanngjörn og samkeppnishæf
laun og kjör undir viðmælendur.
Fyrsti gestur Kennaravarpsins var
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og
barnamálaráðherra, sem ræddi við Magnús Þór
um nýliðun og valdeflingu kennarastéttarinnar.
Ráðherrann sagði mikilvægt að stuðlað yrði að
vinnuumhverfi sem laðaði að nýja kennara og
væri þess eðlis að þeir héldust í starfi.
Þá sagði hann tímabært að gildismat
samfélagsins endurspeglaðist í kjörum kennara:
„Við borgum lögfræðingnum og viðskipta-
fræðingnum meira heldur en þeim sem eru
að vinna með börnin okkar, þó að við segjum
alltaf að börnin okkar skipti mestu máli“, sagði
ráðherrann.
Næst var komið að Þorgerði Katrínu
Gunnarsdóttur, þingmanni og fyrrverandi
menntamálaráðherra, sem ræddi við Magnús
Þór um mikilvægi faglegs sjálfstæðis kennara og
akademískt frelsi, sem hún sagði vera grunninn
að lýðræðislegu samfélagi.
„Valfrelsi skiptir okkur öll máli og mér
finnst dýrmætt að sjá mismunandi áherslur á
milli skóla þar sem hvert teymi innan skólans
hefur mótað sína stefnu. Við þurfum að hvetja
kennarana til að gera slíkt áfram,“ sagði
Þorgerður Katrín.
Að lokum fjallaði Heiða Björg Hilmisdóttir,
formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um
jafnrétti og mikilvægi þess að fjölbreytileikinn
endurspeglist í skólanum: „Ég held að það sé
mikilvægt að við séum með fjölbreytileikann
inni í kennarastéttinni líka, þannig að börnin
okkar kynnist því að það geta allir kennt.“
Kennarasambandið ætlar að miðla efni
í myndbandaformi á næstu mánuðum og
misserum í Kennaravarpinu. Einnig er stefnt
á að gefa út hlaðvarp. Hægt er að horfa á alla
þætti Kennaravarpsins á vef KÍ. Markmiðið er
að leyfa röddum kennara hérlendis að hljóma og
efna til umræðu um kennarastarfið, áskoranir í
skólamálum, starfsaðstæður, fagmennsku, stöðu
nemenda með ólíkan bakgrunn og svo mætti
áfram telja. Ekki missa af!
Fyrsta
#kennaravikan
Ákveðið var að tileinka í fyrsta sinn heilli
viku kennarastarfinu. Að sjálfsögðu varð
fyrsta vikan í október fyrir valinu, enda
Alþjóðlegur dagur kennara haldinn
hátíðlegur um allan heim 5. október.
Evrópsku kennarasamtökin
ETUCE, sem Kennarasamband Íslands
á aðild að, stóðu fyrir #kennaravikunni
dagana 2.-6. október. Skilaboðin í ár
voru: Styrkjum stöðu kennara og gerum
starfið meira aðlaðandi.
Tilefni kennaravikunnar voru tíu
lykilkröfur og gildi ETUCE, sem sett
voru fram í samþykkt allra aðildarfélaga
ETUCE, sem lögð var fyrir síðasta
þing KÍ í fyrra. Lykilatriðin 10 varða
gildi kennarastarfsins, stefnumótun
í menntamálum, gæðamenntun og
leiðir til að gera kennarastarfið meira
aðlaðandi.
Samþykktin endurspeglar þá
sameiginlegu skoðun aðildarfélaganna
að menntun sé almannaheill og að vel
fjármögnuð og mönnuð menntakerfi
skipti sköpum fyrir framtíðarfarsæld
Evrópuþjóða. Þess vegna verði að halda
áfram baráttunni til að efla skipulags-
lega og sjálfbæra opinbera fjárfestingu
í menntakerfum og styðja við réttindi,
fagleg heilindi, sjálfstæði og akademískt
frelsi allra kennara og fræðimanna, svo
að þeir geti veitt vandaða menntun fyrir
alla þar sem jafnræðis er gætt.
Kennarasambandið tók virkan þátt
í #kennaravikunni. Kröfur kennara voru
birtar á öllum miðlum KÍ og félagsmenn
hvattir til að taka þátt. Þá skrifuðu
formenn KÍ og þrír formenn aðildarfé-
laga sambandsins pistla á Vísi, einn á
dag, þar sem atriði ETUCE voru tekin
fyrir og almenningi gert viðvart um
#kennaravikuna. Að sjálfsögðu var svo
Alþjóðadagur kennara haldinn hátíðleg-
ur 5. október og Skólamálaþing KÍ var
á sínum stað. Þá var Kennaravarpinu,
spjallþætti um málefni stéttarinnar,
hrint af stað.
10 LYKILKRÖFUR KENNARA
X Faglegt sjálfstæði og akademískt frelsi
X Mannsæmandi og samkeppnishæf laun og
kjör
X Öruggar vinnuaðstæður og góð vinnuskilyrði
X Hæfilegt vinnuálag
X Lýðræðisleg skólamenning
X Vönduð kennaramenntun og starfsþróun
X Stuðningur við nýliða
X Virk fagleg umræða
X Jafnrétti og fjölbreytileiki
X Valdefling kennarastéttarinnar
X Hægt er að kynna sér kröfurnar nánar á ki.is.
ETUCE Í HNOTSKURN
ETUCE gengur undir nafninu Evrópsku kennara-
samtökin á íslensku. ETUCE stendur hins vegar
fyrir European Trade Union Committee on
Education.
ETUCE starfar náið með öðrum stórum
samtökum, Education International eða
Alþjóðasamtökum kennara. KÍ á aðild að báðum
samtökum og á tvo þingfulltrúa sem sækja þing
EI og ETUCE.
Alls eru 132 kennarasambönd innan vébanda
ETUCE; þau starfa í 51 landi og hafa samanlagt
11 milljón félagsmenn.