Skólavarðan - 2023, Blaðsíða 16
16 SKÓLAVARÐAN HAUST 2023
UMFJÖLLUN / Kennarahúsið
S aga Valgeirs Gestssonar og
gamla Kennarahússins á
Laufásvegi er löng. Árið 1954
hóf sautján ára gamall Valgeir
kennaranám í húsinu. Árið
2002, eða 48 árum síðar, lauk
Valgeir farsælli starfsævi sinni í sama húsi.
Hann hafði í millitíðinni sinnt kennslu,
félagsstörfum, verið skólastjóri í 24 ár, komið að
stofnun Kennarasambands Íslands, verið fyrsti
formaður þess, sinnt formennsku í ellefu ár og
verið skrifstofustjóri sambandsins síðustu fjórtán
ár ferils síns.
Flutti Kennarasambandið í Kennarahúsið
Þrettán af þeim fjórtán árum sem Valgeir var
skrifstofustjóri Kennarasambands Íslands var
sambandið til húsa í gamla Kennarahúsinu. Það
var aðeins ári eftir að Valgeir tók við starfinu,
sem sambandið hlaut Kennarahúsið – eða
afnot af því – í gjöf frá ríkinu. Húsið var þá í
slæmu ástandi og ljóst að ráðast þyrfti í miklar
endurbætur.
„Það varð eiginlega fyrsta stóra verkefnið
mitt sem skrifstofustjóri að sjá um endur-
byggingu á gamla Kennaraskólanum. Og þar
fluttum við svo inn 1991. Þá voru félagsmenn
Kennarasambandsins um 3.500,“ útskýrir
Valgeir.
Ráðist í framkvæmdir á húsinu
Aðspurður um hvernig tilfinningin hafi verið að
koma aftur í húsið eftir að hafa verið nemandi
við Kennaraskólann áratugum áður segir hann:
„Þá náttúrulega kannaðist maður við að það væri
í slæmu standi að mörgu leyti og því var spáð
illa að við værum að fá þennan kofa til þess að
endurbyggja hann. En það kom í ljós að það var
enginn fúi að neinu ráði í húsinu – það var í fínu
standi.“
Engu að síður var nóg að gera og græja
áður en starfsemi gæti hafist í húsinu: Það þurfti
meðal annars að skipta um alla glugga, gera við
burðarvirki hússins og skipta um járnklæðningu.
Þá voru gólfdúkar fjarlægðir og trégólfið sem
leyndist undir dúknum – og prýðir enn húsið
– pússað upp og lakkað. Einnig var inngangur
hússins færður og aðgengi að því breytt. Allt
var þetta gert með varðveislusjónarmið og sögu
hússins í huga.
„Við vorum mjög heppin á sínum tíma.
Bæði með arkitektinn sem var áhugamaður
um verndun gamalla húsa, Páll Bjarnason, sem
var kröfuharður um margt. Og svo fengum við
afbragðsiðnaðarmenn í trésmíðina og afburða-
málara og eins var með aðra iðnaðarmenn. Það
var okkar lán,“ segir Valgeir.
Mikil ánægja með nýuppgerðan „kofann“
Allt hafðist þetta undir styrkri stjórn skrifstofu-
stjórans og aðeins ári eftir að húsið féll í hendur
Kennarasamtakanna hófst starfsemi á aðalhæð
gamla Kennarahússins á Laufásvegi.
„Við fluttum inn að hausti til og þegar
næsta þing Kennarasambandsins var, þá var
öllum boðið að koma og skoða húsið, og það
gerði náttúrulega mikla lukku. Það var mikil
ánægja með húsið meðal félagsmanna. En þetta
var umdeilt í byrjun, að við værum að taka við
þessum fúakofa til þess að gera hann upp - og
það kostaði mjög mikið.“
Og þar, í nýendurgerðum kennarakof-
anum, lauk Valgeir svo starfsævinni árið
2002 þegar hann fékk Hannesi Þorsteinssyni,
núverandi skrifstofustjóra sambandsins, til-
komumikla lyklana að húsinu. Þá urðu kaflaskil
í lífi Valgeirs. „Það var bara svona eðlilegur
framgangur lífsins. Það er náttúrlega gífurleg
breyting að fara úr erilsömu starfi, eins og þetta
er alltaf – skrifstofustjórastarfinu, og fara svo á
eftirlaun.“
Kennarasambandið yfirgefur Kennarahúsið
Önnur tímamót urðu svo tæpum tveimur
áratugum síðar, eða árið 2020, þegar Kennara-
samband Íslands flutti starfsemi sína úr gamla
Kennarahúsinu við Laufásveg og í nútímalegra
húsnæði við Borgartún 30.
„Það kom mér ekki á óvart að Kennarasam-
bandið yrði að flytja, vegna þess að það var ekki
orðið pláss fyrir starfsemina í húsinu. Það var
ekki flóknara en það. Þannig að ég skildi mjög
vel þegar farið var í það að kaupa nýtt húsnæði
og flytja.“
Frá því að starfsemin flutti í Kennarahúsið
árið 1992 og þar til 2020, þegar sambandið flutti
í Borgartúnið, hafði félagsmönnum fjölgað úr
um 3.500 upp í rúmlega 11.000.
Komið að kaflaskilum
Þótt starfsemi sambandsins væri ekki lengur
til húsa við Laufásveg og þótt Valgeir væri
kominn á eftirlaun, var sögu hans og gamla
Kennarahússins ekki alveg lokið. Enn átti eftir
að skila húsinu til ríkisins.
Kennarahúsið:
Ómetanlegt
heimili