Skólavarðan - 2023, Blaðsíða 25
HAUST 2023 SKÓLAVARÐAN 25
Hringferð / KENNARASAMBANDIÐ
það er mjög áhugavert og segir okkur svolítið
að skólakerfið þarf aðeins að fara að gefa
nemendum meira lýðræðislegt frelsi.“
Forritun orðin föst í sessi
Núna er því þannig háttað í Árskóla að forritun
er kennd öllum frá fjórða bekk og upp í áttunda
bekk. Þess utan er boðið upp á valáfanga í
forritun fyrir níundu og tíundu bekkinga. En
þannig var það ekki alltaf.
„Ég er með svo geggjaða stjórnendur
sem eru til í að leyfa þetta af því að við erum
tæknivæddur skóli og okkur fannst þetta bara
svolítið lógískt skref að stíga. Að kynna þetta
fyrir öllum nemendum,“ segir Álfhildur.
„En svo er líka þessi mantra sem er
svolítið hér innanhúss og kemur kannski til
út af því að Ingvi Hrannar
var mikið hér innanhúss að
við erum að undirbúa þau
fyrir sína framtíð en ekki þá
framtíð sem er núna okkar
fortíð,“ segir Álfhildur, og
á þar við Ingva Hrannar
Ómarsson menntafrömuð.
„Það var rosalegur sigur
fyrir mig þegar fyrsta stelpan
valdi forritun fyrir nokkrum
árum síðan. En núna, eftir að
þetta fór svona meira inn í
bekkina, þá er algjörlega jöfn
skipting á stelpum og strákum sem velja sér
forritun, af því að þetta er ekki lengur eitthvað
svona „gauratengt“.
Nú fá allir að kynnast forritun og fá
stíganda í henni, útskýrir hún. „Hún er létt
og skemmtileg fyrst en svo verður hún meira
krefjandi. Þannig geta þau komist að því hvort
þau hafi þarna sína styrkleika eða hvort þeim
finnist þetta bara drepleiðinlegt. Og það er bara
gott að geta fengið tækifæri til þess að kynnast
því.“ Álfhildur tekur fram að mörg hver finni
sig vel í forrituninni og séu einstaklega fær.
„Án þess að hafa rannsóknir á bak við
mig þá er mín tilfinning svolítið að þeir
krakkar sem eru jafnvel með námserfiðleika að
einhverju leyti, eins og lesblindu, hafa gjarnan
þarna eitthvað læsi umfram aðra. Og þau upp-
lifa sig bara ógeðslega sterk í þessu sem gerir
ekkert smáræði fyrir sjálfsmyndina. Þannig að
þau eru oft orðin svona aðstoðarkennararnir
mínir í tímunum.“
Forritunin allt um kring
Álfhildur segir hollt fyrir nemendur að
öðlast skilning á forritun, hvernig hún virkar,
skipulaginu, röðinni og reglunni og ryþmanum
sem henni fylgir.
„Ef þú lítur í kringum þig, ég meina,
þvottavélin er forrituð, bílarnir okkar eru
forritaðir og hraðbankinn er forritaður. Það
byggist rosa margt á þessu,“ segir hún. Jafnvel
þó þau starfi ekki endilega
sem forritarar í framtíðinni
er þetta hagnýt kunnátta.
Fann sig ekki fyrir framan
tölvuskjáinn
En það er saga á bak við það
hvernig Álfhildur leiddist út í
kennslu í forritun.
„Ég er kerfisfræðingur og
lærði og starfaði sem forritari
á sínum tíma en fann mig ekki
í því. Mér fannst það mjög
þurrt starf að sitja fyrir framan tölvuskjáinn. Ég
er sveitastelpa og þarf svolítið líf og tilbreytingu,“
útskýrir hún.
„Þannig ég lét það bara til hliðar og fór
í grunnskólakennarann,“ segir hún. „Því ef
grunnskólinn er ekki akkúrat staðurinn fyrir líf
og tilbreytingu þá veit ég ekki hvað.“
Á endanum náði Álfhildur þó að sameina
bæði kennsluna og áhugann á forritun. Hún
tekur þó skýrt fram að kennarar þurfi ekki að
hafa kerfisfræðilegan grunn að baki til að kenna
forritun. „Það er meira bara að taka skrefið og
þora að fara af stað. Af því að krakkarnir eru svo
ógeðslega flinkir í þessu og þau finna út úr þessu.
Þetta er meira bara að gefa þeim frelsið til þess
og verkfærin til að læra.“
Best að sjá börnin blómstra
Aðspurð um hvað sé skemmtilegast við kennara-
starfið segir Álfhildur það vera að enginn dagur
sé eins. „Það er náttúrulega ótrúlega skemmtilegt
þegar maður er svona pínu ör týpa.“
„En í seinni tíð hefur mér eiginlega þótt
skemmtilegast við kennarastarfið að fá að horfa
á eftir þessum krökkum út í sína framtíð,“
segir Álfhildur. „Fá að vera í sambandi við þau
og frétta af þeim og sjá kannski að einhverjir
styrkleikar sem maður var að reyna að efla á
skólagöngunni eru að blómstra. Það er eiginlega
það besta, að sjá uppskeruna, jafnvel löngu
seinna. Það er ótrúlega dýrmætt.
Ég segi alltaf að ég sé svo lélegur kennari af
því að mér er alveg sama hvaða einkunn þau fá í
íslensku og stærðfræði. Ég vil bara efla ákveðna
styrkleika sem gefa þeim góða sjálfsmynd og
sjálfstraust út í lífið, af því ég held að það sé besta
veganesti sem grunnskólinn getur gefið þessum
krökkum,“ segir hún.
Einstakt andrúmsloft í skólanum
Það eru þó ákveðin atriði sem brenna á Álfhildi
hvað varðar kennarastarfið og stéttina.
„Það er eiginlega tvennt. Það er hækkandi
meðalaldur í stéttinni og skortur á nýliðun sem
er áhyggjuefni. Það er ofsalegt fagnaðarefni þegar
maður fær ungt fólk inn, eins og við fengum
núna í haust. Það er einhvern veginn innspýting
fyrir okkur hin að fá unga fólkið inn.“
En svo er hitt. „Það er bara menntastefnan
yfirleitt. Ég fagnaði mjög þegar samræmdu prófin
voru lögð niður því þau voru ekki að mæla það
sem okkur er uppálagt að kenna. En við erum
samt í ákveðnu tómarúmi núna. Það er talað um
námsferla sem eiga að koma. Þeir hafa ekki verið
sýnilegir og enginn veit einhvern veginn hvernig
og hvar þeir eru staddir. Við erum fagfólk og
við erum að gera vel. En ég held að við séum
samt aðeins í lausu lofti og við þurfum aðeins að
finna stefnuna okkar aftur sameiginlega,“ segir
Álfhildur.
Að lokum bætir hún við: „Það er náttúrlega
bara ekkert sem er eins geggjað og að vera
kennari og vera partur af þessu samfélagi sem
skólasamfélagið er. Unga fólkið heldur manni
á tánum og passar upp á að maður verði ekki
bara eitthvað „grumpy“ gamalmenni. Um leið þá
vinnur maður með svo frábæru samstarfsfólki,
hvort sem það eru kennarar, þroskaþjálfar, skóla-
liðar, eða hver sem vinnur í skólanum, sem er
einhvern veginn með svona sama blett í hjartanu.
Þessa umhyggju fyrir börnum og þessa gleði fyrir
starfinu sínu.“
„Ég held að maður finni þetta ekki annars
staðar,“ segir Álfhildur. „Ég er sannfærð um
það.“
Við erum að
undirbúa þau
fyrir sína framtíð
en ekki þá fram
tíð sem er núna
okkar fortíð.