Skólavarðan - 2023, Page 12

Skólavarðan - 2023, Page 12
12 SKÓLAVARÐAN HAUST 2023 VIÐTAL / Formaður FSL sem gildir fram á næsta vor. Sigurður segir í mörg horn að líta í komandi kjarasamningsgerð. Blekið er vart þornað á nýjum samningi þegar vinna við þann næsta er hafin. Spurður um megináherslurnar í komandi viðræðum segir Sigurður: „Við höfum í samningaviðræðum undangenginna ára unnið markvisst með samninganefnd sveitarfélaganna að jöfnun launamyndandi þátta við hin kennarafélögin. Þetta eru þættir sem snúa að mati á reynslu og menntun og ánægjulegt að greina frá því að í síðustu þremur kjaralotum höfum við náð árangri við að jafna þessa þætti. Þetta náðist í áföngum og hefur í för með sér að við eigum nú auðveldara með að fara í samtal um sameiginlegar kröfur aðildarfélaga KÍ sem semja við sveitarfélögin.” Sigurður segir jafnframt að nú standi yfir undirbúningur að samtali í samstarfsnefnd FSL og SNS um stjórn- unarumfang aðstoðarleikskólastjóra og hvernig hægt sé að meta fjölbreytta starfsreynslu stjórnenda. „Það er afar mikilvægt að nálgast þetta verkefni af alvöru. Við erum að viða að okkur upplýsingum með það að markmiði að greina stöðuna betur með okkar fólki. Við munum síðan fara með þessi gögn inn í samstarfsnefndina. Verkefni á borði stjórnandans hafa aukist verulega síðustu ár en samhliða því hefur ekki verið gefinn meiri tími til að sinna verkefnunum. Af þessari ástæðu hafa FSL og SNS samþykkt að fara yfir þessi mál og þau áform koma fram í yfirlýsingu og verká- ætlun beggja aðila. Stefnt er að því að ljúka þessari vinnu fyrir 1. mars á næsta ári.“ Fleira er í bígerð þegar horft er til komandi kjaravið- ræðna. „Það er rétt, við eigum enn eftir að ganga frá fyrrgreindum atriðum í verkáætlun núgildandi samnings. Þá munum við eiga samræður við önnur aðildarfélög innan KÍ og ekki síst safna ábendingum frá félagsfólki. Þegar þetta er komið á borðið mun samninganefnd FSL rýna gögnin og í kjölfarið setja fram samningsmarkmið fyrir komandi kjaraviðræður – þetta vinnulag er í samræmi við lög FSL,“ segir Sigurður. Kjaramálin eru ekki einu verkefni formanns og stjórnar FSL. Sigurður segir að nú standi yfir undirbúningur að fræðsludagskrá sem verði í gangi fram á næsta vor. „Við erum í raun að halda áfram okkar faglega starfi og ætlum að bjóða upp á örfyrirlestra á netinu þar sem fjallað verður um fjölbreytt efni sem skipta okkar félagsfólk máli. Þetta form hefur reynst vel og þessir viðburðir jafnan vel sóttir. Þá verður að líkindum efnt til stærri námskeiða með inn- lendum sem erlendum aðilum,“ segir Sigurður og bætir við að dagskráin verði kynnt innan skamms. Styttingin víða þung í vöfum Nú hefur vinna við betri vinnutíma starfsfólks í leikskólum víða staðið yfir síðan í byrjun árs 2021. Fregnir hafa borist um að misjafnlega gangi að koma verkefninu á legg; sums staðar gangi þetta vel en annars staðar miður vel. „Betri vinnutími er verkefni sem hefur legið þungt á stjórnendum síðustu tvö árin. Ástæðan fyrir þessu er í raun einföld; framkvæmdin mátti ekki kosta krónu og á sama tíma mátti heldur ekki skerða þjónustu. Við finnum það hjá okkar félagsfólki að þetta verkefni er þungt í vöfum, og víða þykir það mun erfiðara en þau stóru verkefni sem þurfti að sinna í heimsfaraldrinum – en þá þurftu stjórnendur oft að hafa hraðar hendur við að endurskipuleggja skólastarfið í takt við atburði dagsins,“ segir Sigurður og bætir við að ástandið kunni að batna á komandi misserum. „Fjölmörg sveitarfélög hafa eða eru að breyta reglum um dvalartíma barna í leikskólum. Auk þess er sums staðar verið að fjölga dögum yfir árið þar sem leikskólinn er lokaður. Þessar breytingar munu án vafa auðvelda stjórnendum að skipuleggja og koma betri vinnutíma í framkvæmd.“ Sigurður bendir jafnframt á reiknivél sem er að finna á vef Kennarasam- bandsins en þar er hægt að meta mögulegan kostnað við styttingu vinnuvikunnar. „Það er líka hægt að skoða hvernig draga megi úr kostnaði, með tilliti til styttri dvalar- eða starfstíma.“ Dvalartími barna hefur einmitt verið töluvert í umræðunni og fram hefur komið að viðveran sé einna lengst í íslenskum leikskólum. Þetta kemur fram í tölum frá OECD. „Við höfum í mörg ár bent á þennan vanda. FSL hefur átt aðild að starfshópum sem vinna að þessum málaflokki víða um land. Sú vinna hefur haft í för með sér að við erum að sjá breytingar hér og þar. Sjálfur sat ég í starfshópi um skipulag og starfsumhverfi leikskóla í Kópavogi og eftir þá vinnu ákvað sveitarfélagið að breyta gjaldskrá og auka sveigjanleika í dvalartíma með það að markmiði að stuðla að aukinni vellíðan barna,“ segir Sigurður. Hann segir þessa breytingu til þess fallna að draga úr álagi í leikskólum og nú sé útlit fyrir að fleiri sveitarfélög muni taka skref í þessa átt, svo sem Akureyri og Garðabær. „Hvort þetta sé eina leiðin, eða sú réttasta, veit ég ekki en það er afar gott að sjá og finna að rekstraraðilar séu að leita leiða til að auka farsæld og vellíðan barna og fullorðinna í leikskólum landsins. Það er auðvitað stóra málið,“ segir Sigurður. Stytting vinnuviku í samfélaginu getur einnig verið liður í að stytta viðveru yngstu barna samfélagsins í leikskólum. „Við þurfum að horfa á þessa hluti með augum barnsins og finna út hvað er því fyrir bestu er kemur að farsæld og vellíðan. Það má þó segja að eðlilegasta skrefið gæti verið að breyta lögum um 40 stunda vinnuviku – og setja styttingu vinnuvikunnar í lög þannig að allir launþegar landsins nytu hennar. Þá mætti fastlega gera ráð fyrir að slíkt hefði áhrif á lengd skóladagsins hjá leikskólabörnum.“ Það er afar gott að sjá og finna að rekstraraðilar séu að leita leiða til að auka farsæld og vellíðan barna og fullorðinna í leikskólum landsins.

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.