Skólavarðan - 2023, Page 24
24 SKÓLAVARÐAN HAUST 2023
KENNARASAMBANDIÐ / Hringferð
Sauðárkrókur
krakkana til að semja sjálf. Þau
fá eiginlega algjörlega frjálsar
hendur og ég reyni bara að
leiðbeina þeim,“ segir Andri Pétur,
sem notar forritið Abelton við
kennsluna. „Þannig að þau geta
verið skapandi og í raun bara
notað tölvuna sem hljóðfæri, sem
sitt sköpunartól.“
Upphafsreiturinn óskrifað blað
Ólíkt hefðbundnu tónlistarnámi
þarf maður í rauninni fyrst að
búa til hljóðfærin í raftónlist áður
en maður getur byrjað að spila
einhvers konar lag, útskýrir Andri.
„Ef maður hugsar um forritið
sem hljóðfæri, þá byrjar maður
alltaf með allt tómt, tabula rasa.“
Þannig að fyrst þarf að byrja á að
tína til hluti sem eiga að mynda
hljóð, það er að segja, í raun smíða
hljóðfærið. Svo er hægt að læra á
það og spila.
„Raftónlistin snýst mjög
mikið um að leita,“ segir Andri. Í
upphafi verkefnis er nemandinn
annað hvort að leita að einhverju
hljóði sem lætur hugmynd spretta
fram, eða nemandinn er þegar
með ákveðið hljóð í huga, eða
hljóðheim úr ákveðnu lagi, sem
hann vill líkja eftir. Þá þarf að
finna út hvernig nemandinn getur
gert það og greina lagið, finna út
úr því úr hverju það er samansett.
Þannig byggja þau smátt og smátt
upp eigin hljóðheim, segir hann.
Möguleikarnir endalausir
Tölvan er ávallt í forgrunni, en
möguleikarnir eru endalausir í
raftónlist og ná út fyrir tölvuna.
Til dæmis er hægt að tengja
hefðbundin hljóðfæri við forritið
og taka þau upp. „Það er mjög
oft sem nemendur eru að læra á
annað hljóðfæri líka, áður en þau
koma til mín. Þannig að ef þau
kunna eitthvað á píanó þá liggur
það beint við að nota hljómborð til
að koma hugmyndum inn í tölv-
una, eða að tromma inn í tölvuna,
ef þau hafa verið á trommum. Það
eru til svo margar leiðir að tengja
saman og koma hlutunum á sinn
stað.“
„Ég var með eina stelpu í
námi hjá mér sem var í raun að
semja kvikmyndatónlist. Það var
mjög skemmtilegt. Svo hef ég
fengið til mín krakka sem vilja
semja næsta FM957 popp hittara,
það er líka mjög gaman. Þannig
að maður fær alveg alla flóruna,“
segir Andri Pétur.
„Þau koma mjög oft sjálfum
sér á óvart. Maður þarf mest held
ég að passa sig á að vera ekki of
mikið að stíga inn í. Mér finnst
besta leiðin til þess að þau læri
vera að leyfa þeim að prófa sig
áfram. Leyfa þeim stundum að
vera föst á einhverju vandamáli í
smá stund áður en maður hjálpar
til,“ segir hann. „Maður fær
kannski inn nemanda sem spyr
hundrað spurninga í upphafi. Svo
eftir því sem líður á tímana verða
spurningarnar alltaf færri og færri
og nemandinn finnur sína eigin
leið. Það er svolítið gaman að sjá.“
Sjálfstæði nemenda framtíðin
En er mikill munur á að kenna
á hefðbundið hljóðfæri eða
raftónlist? „Þegar ég byrjaði að
kenna var ég rosa mikið að reyna
að vera klassískur kennari og fara
eftir bókinni en síðan hef ég alltaf
meira og meira bara reynt að nýta
það sem ég nota í raftónlistinni
og leyfa krökkunum að velja sjálf.
Velja lagið, vinna með spuna og
láta þau semja sjálf,“ segir Andri.
„Ég held að það sé rosa mikið
framtíðin í tónlistarkennsluað-
ferðum að leyfa þeim að finna sinn
veg í tónlistinni. Maður er ekkert
endilega að þessu til að þjálfa upp
næsta Boccherini eða Hendrix,
heldur meira bara til að þau læri
að njóta tónlistar. Ég held að það
sé algjörlega framtíðin.“
Auk tónlistarkennslunnar starfar
Andri Pétur sem tónlistarmaður
hjá Gosa og Spilastokknum. Hægt
er að hlusta á hljómsveitina Gosa á
Spotify með þessum QR-kóða:
Ekkert eins
geggjað og að
vera kennari
É g vil bara efla ákveðna styrkleika sem
gefa nemendum góða sjálfsmynd og
sjálfstraust út í lífið, af því ég held að
það sé besta veganesti sem grunn-
skólinn getur gefið þessum krökkum,“ segir Álfhildur
Leifsdóttir kennari. Skólavarðan ræddi við Álfhildi
um kennarastarfið, áherslur í námi og spennandi
kennslu í forritun, þar sem Hringferð KÍ var stödd á
Sauðárkróki að halda kynningu við Árskóla, þar sem
Álfhildur starfar.
„Ég kenni nú orðið bara það sem mér þykir
skemmtilegt,“ segir Álfhildur, sem kennir fjórða til
áttunda bekk forritun og val í níunda og tíunda bekk.
„Svo kenni ég hlaðvarpsgerð og bý til svona tæknileg
valfög sem mér þykir sjálfri spennandi.“
Eitt þeirra faga er svokölluð snilldarstund, eða
„genius hour“, þar sem nemendur fá að vinna á sínu
áhugasviði; hanna eitthvað eða fylgja einhverju
eftir.
Þau geta til dæmis hannað fatalínu, eða lært
nýtt tungumál með aðstoð tækninnar eða þess vegna
hannað og smíðað minkagildru og fengið til þess
aðstöðu í smíðastofunni, útskýrir Álfhildur. „Það er í
rauninni bara hvert sem hugurinn leiðir þau.“
Frelsi snilldarstundarinnar áskorun
Snilldarstundin er hugmynd fengin að láni frá
Google sem tók upp svokallaða „20 prósent tímans“
reglu, sem þýddi að á föstudögum fékk starfsfólk
frjálsan dag til að vera á hugarflugi og hanna og gera
hvaðeina sem þeim fannst sniðugt eða áhugavert,
„og þannig urðu eiginlega allar bestu hugmyndir
Google til,“ segir Álfhildur, sem útfærði þessa hug-
mynd fyrir nemendur sína með snilldarstundinni.
Þá fá nemendur áttatíu mínútur á viku bara
til að vinna að því sem þau langar. „En það er alveg
„prósess“. Þau þurfa að finna tíu hugmyndir, þau
þurfa að pæla í þeim, velja þrjár bestu, fá samþykki
frá kennaranum, gera framvinduskýrslu og svo
þurfa þau að vera með einhvers konar afurð,“ segir
hún. Einkunnin byggist þó ekki á afurðinni heldur
vegferðinni í heild.
„Það þarf ekki að vera flugdreki sem flýgur. Það
þarf kannski bara að vera lærdómurinn sem felst í
því af hverju hann flýgur ekki.“
Nemendur eiga þó oft erfitt með að koma sér af
stað, segir Álfhildur. „Þeim þykir svo erfitt að byrja
af því að skólinn er svolítið að setja þau í kassa og
það er alltaf bara: „Í dag eigið þið að...“, og þeim er
sagt hvað þau eiga að gera. Svo þegar boltinn kemur
til þeirra og þau fá frelsið til að velja sér í hvað þau
vilja nota tímann sinn, þá er það bara mjög erfitt. Og