Skólavarðan - 2023, Side 42
42 SKÓLAVARÐAN HAUST 2023
KENNARASAMBANDIÐ / Skólamálaþing KÍ
að hafa teymið fámennt; einn
ráðgjafa, tvo kennara sem kenna
öllum hópnum og einn kennara
sem hefur yfirumsjón með öllum
nemendunum og er í tengslum við
foreldra þeirra. Þetta fyrirkomulag
hefur reynst betra fyrir umsjónar-
kennara sem og foreldra barn-
anna. Þá hefur allt efni sem ætlað
er foreldrum verið þýtt sem greiðir
fyrir samskiptum og þátttöku
foreldra í skólastarfi.
Með því að leggja strax í
fyrstu kennsluviku sænska stöðu-
prófið fyrir nemendur í öllum
helstu fögum á þeirra tungumáli
hefur reynst auðveldara að
staðsetja nemendurna, sem þýðir
að öll kennsla verður markvissari
og námsmatið betra. Sigrún Helga
gagnrýndi mikinn drátt á náms-
efni fyrir þennan hóp nemenda og
kallaði eftir því hið snarasta.
Er pláss fyrir mig í skólanum?
Jóna Dís Bragadóttir, skólastjóri
Tæknimenntaskólans og fulltrúi
framhaldsskólastigsins, fjallaði
um nám fólks af erlendum
uppruna í Tæknimenntaskólanum
undir heitinu „Er pláss fyrir mig
í skólanum?“, en Tæknimennta-
skólinn býður upp á íslenskubraut
fyrir útlendinga.
Á haustönn 2023 eru um
150 nemendur á brautinni, af
rúmlega 45 þjóðernum. Þessir
nemendur hafa komið til landsins
á mjög ólíkum forsendum, eru
flóttamenn, hælisleitendur,
fylgdarlaus börn eða með foreldr-
um hér á landi vegna vinnu, og
eru með mjög ólíkt bakland.
Framboðið annar engan
veginn eftirspurn, benti Jóna Dís
á, og biðin eftir að komast að getur
verið löng. „Ástandið er hrikalegt
hjá þessum hópi, sem í raun hefur
að engu öðru að hverfa. Það er
ekkert sem bíður þeirra. Þetta eru
nemendur sem tala enga íslensku
í flestum tilfellum og hafa litla
skólagöngu að baki. Við erum
nánast eina úrræðið fyrir þau.“
Það eru þá fleiri hindranir við
að komast að í námið, en oft þurfa
einstaklingar aðstoð við að sækja
um og við innskráningu og sum
hver eru ekki með kennitölu sem
flækir málið.
Námstíminn er 2-4 ár. Við
lok náms eru svo fjölbreyttar leiðir
í boði, ýmist til framhaldsnáms,
en hægt er að taka þrjár annir til
viðbótar og útskrifast með stúd-
entspróf, eða nemendur geta fært
sig á aðra braut innan Tækniskól-
ans. Fjöldi nemenda hefur nýtt sér
þau úrræði og sögur af velgengni
nemenda eru margar, eins og kom
í ljós í erindi Jónu Dísar.
Ólst upp við tvo menn-
ingarheima
Isabel Alejandra Díaz, stjórnmála-
fræðingur, verkefnisstjóri hjá HÍ
og ungmennafulltrúi Íslands hjá
Sameinuðu þjóðunum, var síðasti
ræðumaður þingsins og sagði frá
reynslu sinni sem nemandi af
erlendum uppruna á Íslandi.
Fjölskyldan, sem er frá El
Salvador í Mið-Ameríku, fluttist
til Ísafjarðar árið 2000. Spænska
var „heimatungumálið“, eins
og Isabel útskýrði. Hún ólst því
upp við tvo menningarheima, þar
sem íslenskar hefðir og gildi voru
ríkjandi.
Samkvæmt rannsókn Miðju
máls og læsis er tími grunnskóla-
barns í íslensku málumhverfi um
21 prósent vökutímans. Isabel tel-
ur að í hennar tilfelli hafi þó yfir
70 prósent af vökutíma verið
varið í íslensku málumhverfi á
grunnskólaárunum. Í skólanum,
frístund og tómstundum og með
íslenskri fjölskyldu sinni, „ömmu“
og „afa“, og frændsystkinum
sínum, sem áttu íslenska móður.
„Það hafði áhrif á að svona vel
tókst til,“ telur hún.
„Markmiðið verður að vera
að börn af erlendum uppruna
sjái tilgang í því að læra málið,“
segir Isabel. Þannig fái fólk með
fjölbreyttan menningarlegan
bakgrunn að blómstra.
Jónína Hauksdóttir,
varaformaður KÍ, sleit svo þingi
með þessum orðum:„Ég vona að
þið farið heim fróðari eftir daginn
og að erindi dagsins hafi kveikt í
ykkur eldmóð um að halda áfram
góðu starfi og gera enn betur í
því mikilvæga verkefni að taka
sem best á móti nemendum af
erlendum uppruna.“
Skólinn getur
verið sá öruggi og
inngildandi staður
sem „hin ungu
og nýju“ finna sig
aftur heima.
Eva Harðardóttir
Eva Harðardóttir, aðjúnkt og doktorsnemi.
Isabel Alejandra Díaz, stjórnmálafræðingur, verkefnisstjóri hjá HÍ og ung-
mennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum.
Jóna Dís Bragadóttir, skólastjóri Tæknimenntaskólans.
Sigurbjört Kristjánsdóttir, deildarstjóri í leikskólanum Holti í Reykjanesbæ.