Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 26
Viðtal
24 Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 100. árg. 2024
Framtíð heimaspítalans
Starfsfólk og stjórnendur heimaspítalans eru bjartsýnir þegar
talið berst að framtíðinni. „Ég held að þetta eigi eftir að eflast
mjög mikið,“ segir Margrét Björk og er Anna Margrét sammála.
„Ég yrði mjög glöð ef við næðum að manna dagvinnu alla daga,
þá yrðum við á pari við það sem við sáum úti í Svíþjóð.“ Mikil
jákvæðni ríkir í garð heimaspítalans bæði hjá starfsfólki innan
HSU og skjólstæðinga að mati Önnu Margrétar. „Almennt er fólk
mjög jákvætt og áhugasamt um þetta og skjólstæðingarnir eru
allir mjög þakklátir fyrir þessa þjónustu og að geta verið heima.
Fólki finnst þetta spennandi og hefur trú á þessu. Ég er alveg
viss um að það sé hægt að efla þetta og það er í raun bæði hagur
skjólstæðinga og kerfisins í heild.“
Augljóst er að Margrét Björk, Anna Margrét og Guðný eru þakklátar
fyrir viðhorf stjórnenda í garð heimaspítalans. „Mér finnst svo
jákvætt viðhorf hjá HSU að taka þetta frumkvöðlaskref, að fara
af stað í þetta. Það var lagt töluvert fjármagn í að koma þessu af
stað og kannski getum við í framtíðinni sýnt fram á hvernig þetta
getur borgað sig og verið þá fyrirmynd annarra,“ segir Margrét
Björk og talar Anna Margrét um að þetta sé ekki sjálfgefið. „Mér
finnst frábært að við búum við það að okkar yfirmenn eru tilbúnir
til að finna leiðir til að breyta og stuðla að bættri þjónustu. Það
er ótrúlegt hugrekki að þora að taka þessa áhættu verandi í því
umhverfi að peningar eru kannski ekki til skiptanna og mannekla
á sumum stöðum. Þetta eru forréttindi að hafa stjórnendur sem
hugsa svona.“
Augljóst er að hvorki er skortur á áhuga né drifkrafti hjá starfsfólki
heimaspítalans, starfsfólkið er framsækið og vinnur að bættri
þjónustu fyrir skjólstæðinga. Það verður því gaman að fylgjast
með hvernig starfsemin þróast og hvort, ef ekki hvenær, hún
springur út, eins og Margrét Björk orðaði það.
Telma, Guðný og Ragnheiður.
„við viljum auka þægindi fyrir fólk,
fækka innlögnum á bráðamóttöku
og stytta lengd á legudeild, ... “