Tímarit hjúkrunarfræðinga - 2024, Blaðsíða 79
77
Ritrýnd grein | Peer review
Tímarit hjúkrunarfræðinga | 1. tbl. 100. árg. 2024
„Sykursýki tegund 2 er
alvarlegur sjúkdómur
sem þarf að hugsa um
daglega:“
Reynsla einstaklinga,
65 ára og eldri,
af sykursýkismóttöku
heilsugæslunnar
INNGANGUR
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gerir ráð fyrir að fjöldi einstaklinga, eldri en 60 ára, aukist
um 10% eða frá því að vera 12% í 22% af heildar fólksfjölda í heiminum á árunum 2015 til 2050
(WHO, 2017). Mannfjöldaspá Hagstofu Íslands telur að einstaklingum 80 ára og eldri fjölgi
um 5.700 fram til ársins 2030 eða um 46% (Hagstofa Íslands, 2017). Samkvæmt íslenskum
lögum telst einstaklingur sem náð hefur 67 ára aldri, aldraður (Lög um málefni aldraðra, nr.
125/1999).
Með hækkandi aldri aukast líkurnar á langvinnum sjúkdómum og sjúkdómstengdum
einkennum (Taani o.fl., 2020). Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (2021) metur að um 41 milljón
manns muni deyja árlega af völdum lífsstílstengdra sjúkdóma eða langvinnra sjúkdóma.
Til langvinnra sjúkdóma teljast meðal annars háþrýstingur, sykursýki tegund 2 og hjarta-
og lungnasjúkdómar (Matthys o.fl., 2017; WHO, 2021). Tíðni sykursýki hefur margfaldast
í heiminum á síðastliðnum áratugum (Buja o.fl., 2021; IDF, 2021; WHO, 2021) einkum í
vanþróaðri og fátækari löndum (WHO, 2021). Í íslenskri samanburðarrannsókn á algengi
meðhöndlaðrar sykursýki tegund 2 á Íslandi á árunum 2005 og 2018 kom í ljós meira en
tvöföldun algengis í nær öllum aldurshópum hjá bæði konum og körlum. Með hækkandi aldri
jókst algengið og var hæst um áttrætt (Bolli Þórisson o.fl., 2021).
Breytt aldurssamsetning þjóða kallar á breyttar áherslur í heilbrigðisþjónustu. Aukin
þekking og framfarir í heilbrigðisþjónustu hafa leitt til áherslubreytinga í öldrunarþjónustu,
frá sjúkdóms- og stofnanamiðaðri þjónustu í einstaklingsmiðaða þjónustu þar sem
einstaklingurinn tekur þátt í mótun þjónustunnar (Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, 2019).
Bakgrunnur rannsóknar
Sykursýki er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem krefst eftirlits og mögulega ævilangrar
meðferðar (Lean o.fl., 2018). Sykursýki var níunda algengasta dánarorsök í heiminum árið
2019 (WHO, 2021). Einstaklingar með sykursýki tegund 2 (SS2) eru oft með fleiri en eina
sjúkdómsgreiningu. Samkvæmt Buja og félaga (2021) hafa níu af hverjum tíu einstaklingum
með sykursýki tegund 2 að minnsta kosti tvær sjúkdómsgreiningar. Sykursýki er aðalorsök
blindu, nýrnabilunar, hjartaáfalla, heilablóðfalls og aflimunar á neðri útlimum (WHO, 2021).
Rannsóknir hafa sýnt tengsl milli sykursýki tegund 2, offitu, lítillar líkamlegrar virkni og
annarra lífsstílstengdra þátta svo sem reykinga og áfengisneyslu (Lean o.fl., 2018). Einnig eru
vísbendingar um að jákvæð tengsl séu á milli þunglyndis og sykursýki (Pouwer o.fl., 2020).
Höfundar
INGIBJÖRG ÓSK GUÐMUNDSDÓTTIR
ÁRÚN K. SIGURÐARDÓTTIR
deild mennta og vísinda
Sjúkrahúsinu á Akureyri
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins
Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri