Golf á Íslandi - 01.10.2011, Side 18
bikarinn???*
Höfuðborgin vann öruggan sigur í
KPMG-bikarnum og setti nýtt stigamet
KPMG-bikarinn fór fram á Hvaleyrarvelli helgina 9.-
10. september sl. Í keppninni mætast úrvalslið Lands-
byggðarinnar og Höfuðborgarinnar þar sem keppt
er með svipuðu fyrirkomulagi og þekkist í Ryder-
bikarnum. Keppnin er góður endapunktur á keppnis-
vertíðinni hér heima á Eimskipsmótaröðinni. Leikið
var bæði í meistaraflokki og í flokki eldri kylfinga.
Þetta er í þriðja sinn sem KPMG-bikarinn fer fram.
Flestir af bestu afrekskylfingum landsins taka þátt í
mótinu en nokkra vantaði þó þar sem þeir voru farnir
til Bandaríkjanna til náms. Alls leika tólf kylfingar í
hvoru liði í meistaraflokki. Níu kylfingar tryggja sér
keppnisrétt sökum stöðu sinnar á stigalista Eimskips-
mótaraðarinnar en hinir þrír kylfingarnir eru valdir
af liðstjórum. Gylfi Kristinsson (Landsbyggðin) og
Sigurður Pétursson (Höfuðborgin) stýrðu liðunum
í ár líkt og áður. Það var von manna að keppnin í ár
yrði jafnari en undanfarin tvö ár þar sem Lands-
byggðin hefur unnið nokkuð örugga sigra. Því miður
gekk það ekki eftir því liðsmenn Höfuðborgarinnar
höfðu mikla yfirburði í öllum þremur umferðunum
og unnu að lokum stórsigur.
Höfuðborgin í sérflokki í fjórleik
Sigurður Pétursson, liðsstjóri Höfuðborgarinnar, var
þess fullviss fyrir mótið að liðsmenn sínir myndu
bera sigur úr býtum í keppninni í ár. „Úr því að við
tókum þetta ekki í ár þá vinnum við alveg örugg-
lega á næsta ári,“ sagði Sigurður í viðtali við Golf á
Íslandi á síðasta ári. Þegar farið var yfir leikmanna-
listann kom einnig í ljós að Höfuðborgin virtist vera
með sterkara lið. Reynsluboltarnir, sem dregið höfðu
vagninn hjá Landsbyggðinni árin á undan, voru ekki
með í ár og þeirra í stað komu ungir og reynslulitlir
kylfingar. Gylfi, liðsstjóri Landsbyggðarinnar,
viðurkenndi fyrir mótið að líklega væri Höfuðborgin
með sterkara lið en hafði þó fulla trú á sínu liði.
Í fyrstu umferð var leikinn fjórleikur þar sem tveir
kylfingar leika saman í liði og betra skor þeirra gegn
betra skori andstæðinga ræður hverjir hljóta vinning
á hverri holu. Höfuðborgin fór af stað með miklum
látum og vann fyrstu tvo leikina. Signý Arnórs-
dóttir og Þórdís Geirsdóttir klóruðu í bakkann fyrir
Landsbyggðina með sigri gegn Sunnu Víðisdóttur
og Írisi Kötlu Guðmundsdóttur. Höfuðborgin vann
hins vegar hina þrjá leikina og leiddi 5-1 eftir fyrstu
umferð. Heimamenn í Keili voru ekki að finna sig í
fyrstu umferð og fóru þeir Haraldur Franklín Magnús
og Andri Þór Björnsson illa með Keilisdrengina Rúnar
Arnórsson og Bergstein Hjörleifsson í leik sem lauk á
14. flöt með 5/4 sigri Höfuðborgarinnar.
Ófarir Landsbyggðarinnar héldu áfram
Ljóst var snemma á fyrsta keppnisdegi að lið Lands-
byggðarinnar átti erfitt uppdráttar gegn sterku
liði Höfuðborgarinnar sem að mestu var skipað
kylfingum sem urðu Íslandsmeistarar í sveitakeppni
með sveitum GR í karla- og kvennaflokki. Eftir að hafa
lent illa undir í fyrstu umferð vonuðust margir til að
Landsbyggðin myndi koma sterk í aðra umferð og
laga þar með stöðuna. Leikinn var fjórmenningur í
annarri umferð þar sem tveir kylfingar leika saman
en slá til skiptis.
Skemmst er frá því að segja að Höfuðborgin hélt
uppteknum hætti í annarri umferð. Það sýndi styrk
Höfuðborgarinnar að Guðmundur Ágúst Kristjáns-
son og Arnar Snær Hákonarson náðu hálfum vinning
í nánast töpuðum leik gegn Andra Má Óskarssyni
og Helga Birki Þórissyni. Svo fór að Höfuðborgin
hlaut 4,5 vinning í annarri umferð gegn 1,5 vinn-
ingum Landsbyggðarinnar. Eftir tvær umferðir hafði
Höfuðborgin hlotið 9,5 vinninga gegn 2,5 vinningum
Landsbyggðarinnar.
Í þriðju og lokaumferðinni var leikinn tvímenningur
þar sem tólf vinningar voru í boði. Höfuðborgin var
í þeirri þægilegu stöðu að þeim nægði að vinna þrjá
leiki til að tryggja sér sigurinn og því var staða Lands-
byggðarinnar ekki öfundsverð. Gylfi liðsstjóri Lands-
byggðarinnar vissi að hann þyrfti að ná sigrinum í
fyrstu leikjunum til að eiga möguleika á ótrúlegri
endurkomu og verja KPMG-bikarinn. Fyrsti leikur
dagsins, á milli Rafns Stefáns Rafnssonar og Örvars
Samúelssonar, fór alla leið á 18. flöt þar sem Rafn
Stefán tryggði sér 1/0 sigur. Þar með þurfti Höfuð-
borgin aðeins tvo vinninga í viðbót til að tryggja sér
titilinn. Örn Ævar Hjartarson gaf Landsbyggðinni
örlitla von með sigri í leik gegn Guðjóni Henning
Hilmarssyni. Höfuðborgin var hins vegar í allt öðrum
gæðaflokki og fór illa með lið Landsbyggðarinnar í ár.
Svo fór að Höfuðborgin náði í 8,5 vinninga gegn 3,5 í
tvímenningnum og vann að lokum glæsilegan sigur
18-6. Það er stigamet í KPMG-bikarnum og erfitt
verður að slá það met á næstu árum, slíkir voru yfir-
burðir Höfuðborgarinnar í ár.
Marga sterka kylfinga vantaði í bæði lið en miklar
breytingar urðu á liði Landsbyggðarinnar á milli
ára. Kylfinga líkt og Björgvin Sigurbergsson, Hlyn
Geir Hjartarson, Magnús Lárusson og Sigurpál
Geir Hjartarson vantaði í liðið í ár en þeir búa yfir
gríðarlegri reynslu sem hefði nýst liðinu vel í ár. Ungt
lið Höfuðborgarinnar hafði öðlast reynslu frá fyrri
árum og lék betur sem lið en undanfarin tvö ár. Von-
andi verður keppnin þó jafnari á næsta ári því alla
spennu vantaði í mótið eftir frábæra byrjun Höfuð-
borgarinnar. Keppnin í ár var engu að síður afar vel
heppnuð og góður endir á keppnisvertíð okkar bestu
kylfinga.
K P M G
Bikarinn
Siggi Pé stóð við stóru orðin
Sigursveit Reykjavíkurúrvals, f.v. aftari röð:
Úlfar, Alfreð, Stefán , Rafn, Nökkvi, Sigurjón
og Sigurður Pétursson. Fremri röð f.v.:
Guðmundur, Andri, Guðjón, Haraldur og Arnar.
18