Golf á Íslandi - 01.10.2011, Blaðsíða 100
Golfklúbburinn Dalbúi fær að gjöf
heilan skóg til gróðursetningar
Golfklúbburinn Dalbúi fékk í sumar höfðinglega gjöf,
sem getur gert mögulegt að breyta vellinum í Miðdal
í framtíðinni með áhrifamiklum hætti. Um er að ræða
300 gróskumiklar trjáplöntur – greni, furu og lerki.
Dr. Erlendur Haraldsson, heiðursprófessor við
félagsvísindadeild Háskóla Íslands, hefur um langt
árabil staðið í mikilli skógrækt við sumarbústað
sinn í Snorrastaðahlíð. Erlendur er víðkunnur fyrir
fræðistörf sín á sviði sálfræði, auk þess að vera
fróðastur Íslendinga um málefni og sögu Kúrda og
Kúrdistan; eftir hann liggja fjölmargar bækur og
greinar um þau málefni, sem hann hefur helgað rann-
sóknir sínar.
Erlendur hefur ákveðið að draga úr starfi sínu í
skógræktinni sökum aldurs. Því vildi hann bjóða Golf-
klúbbnum Dalbúa trjáplöntur til gróðursetningar
á velli félagsins í Miðdal gegn vægu gjaldi, m.a. til
minningar um afa sinn sem hvílir í kirkjugarðinum
í Miðdal, en afi hans og nafni, Erlendur Þorleifsson,
bjó ásamt eiginkonu sinni Margréti Magnúsdóttur á
Ketilvöllum 1888-1910.
VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna, brást af ein-
stakri rausn við beiðni Dalbúa um aðstoð við að gera
klúbbnum mögulegt að nýta þetta einstæða tækifæri,
og hefur ákveðið að gefa golfklúbbnum þessar þrjú
hundruð trjáplöntur fyrir völlinn í Miðdal.
Trén voru sótt og þeim komið fyrir tímabundið á
K L Ú B B A
fréttir
svæði Dalbúa þar til ákveðið hefur verið hvar þær
skuli endanlega staðsettar á vellinum. Umræddar
trjáplöntur eru að meðaltali 1 – 2 metra háar, og
allar í pottum og því tilbúnar til gróðursetningar. Það
verður sameiginlegt verkefni félagsins á næstunni að
huga að mögulegum staðsetningum fyrir trén í fram-
tíðinni, þannig að þau megi sem best þjóna þeim
tilgangi að gera völlinn enn skemmtilegri fyrir félags-
menn og aðra kylfinga í framtíðinni.
Stjórn golfklúbbsins Dalbúa vill koma á framfæri
innilegu þakklæti sínu til Dr. Erlends Haraldssonar og
VM, félags vélstjóra og málmtæknimanna, fyrir þessa
höfðinglegu gjöf. Það er ekki á hverjum degi sem
golfklúbbur fær heilan skóg að gjöf, og verður spenn-
andi að sjá með hvaða hætti þessi veglega gjöf á eftir
að efla völlinn í Miðdal á komandi árum.
Á myndinni eru frá vinstri: Guðmundur H. Sigmundsson,
rekstrarstjóri Golfklúbbs Dalbúa, Dr. Erlendur Haraldsson,
Guðmundur Ragnarsson formaður VM - Félag vélstjóra
og málmtæknimanna, Páll Þórir Ólafsson formaður
Dalbúa og Hafsteinn Daníelsson varaformaður Dalbúa.
100