Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.05.1981, Side 8

Tímarit lögfræðinga - 01.05.1981, Side 8
VALTÝR GUÐMUNDSSON Valtýr Guðmundsson borgarfógeti og fyrrum sýslumaður og bæjarfógeti á Eskifirði andaðist 22. febrúar 1981. Hann var fæddur 28. febrúar 1920 að Lóma- tjörn í Höfðahverfi, yngstur 11 barna hjónanna Valgerðar Jóhannesdóttur og Guðmundar Sæ- mundssonar er þar bjuggu. Valtýr ólst upp að Lómatjörn með foreldrum sínum og systkinum við mikla glaðværð og mikinn söng. Þeir sem til þekkja eru á einu máli um, að þarna hafi verið mikið menningarheimili. Valtýr fór í Menntaskólann á Akureyri og varð stúdent það- an 1943. Lögfræðiprófi frá Háskóla íslands lauk hann 1951, en að því loknu gerðist hann full- trúi við embætti sýslumanns Suður-Múlasýslu. Hann var skipaður sýslumaður þar 1966 og jafn- framt varð hann bæjarfógeti á Eskifirði 1974. Hann var settur borgarfógeti í Reykjavík 1976 og gegndi því starfi til dauðadags. Valtýr kvæntist árið 1960, Birnu Björnsdóttur frá Eskifirði og eignuðust þau þrjú börn, Helenu, Völu, og Valtý Björn, en þau eru nú öll við nám. Fyrir hjónaband eignaðist Valtýr son- inn Jón Ólaf. Valtýr var maður vel á sig kominn, þéttvaxinn og sterklegur. Honum fylgdi lífskraftur og lífsgleði, sem hann átti stundum fullt f fangi með að hafa hemil á. Hann var ágætur íþróttamaður á yngri árum, lék knattspyrnu með Fram á skólaárum sínum í Reykjavík og var í liði, sem fór með sigur af hólmi á islandsmótum árin 1946 og 1947. Hann átti keppnisskap og lét ekki hlut sinn fyrir neinum, hvorki í leik né starfi. En jafnframt var hann drengur góður, sáttfús og hjálpsamur ekki síst þeim, er minna máttu sín. Hann varð þvf vinsæll og vinmargur. Þegar hann varð borgarfógeti í Reykjavík, tók hann við stjórn þeirrar deildar borgarfógetaembættisins, sem starfar í tengslum við Gjaldheimtuna og ann- aðist lögtök fyrir þennan gerðarbeiðanda. Það er erfitt starf, en hann kunni á því rétt tök og gerði hvort tveggja að sýna nauðsynlega festu og jafnframt skylduga nærgætni. Það kom í hlut hans sem borgarfógeta að rökstyðja og kveða upp úrskurði, þegar þess þurfti við í lögtaksmálum. Þar var oft um að ræða vandasöm úrlausnarefni, er dæma skyldi um túlkun og gildi um- deildra ákvæða skattalaga. Þeir úrskurðir hans sem áfrýjað var stóðust oftar en ekki endurskoðun Hæstaréttar. Að mínu áliti var hann farsæll dómari, enda átti hann þá eiginleika, sem hverjum dómara eru nauðsynlegastir nefnilega eðlislæga réttsýni og gott hjartalag. Það er mikill skaði fyrir stétt lögfræðinga og fyrir íslenska þjóð að missa svo ágætan mann á góðum starfsaldri. Guðmundur Vignir Jósefsson. 2

x

Tímarit lögfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.