Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.05.1981, Page 24

Tímarit lögfræðinga - 01.05.1981, Page 24
3. UM RÉTT EIGNARNÁMSÞOLA TIL AÐ GÆTA HAGSMUNA SINNA, ÁÐUR EN ENDANLEG ÁKVÖRÐUN ER TEKIN Svo sem áður greinir er langalgengast, að stjórnvald eða stjórnvöld eigi ákvörðun um eignarnám. Um ákvarðanir stjórnvalda á þessu sviði gilda reglur, sem almennt gilda um stjórnvaldsákvarðanir, svo sem um að ákvörðun um eignarnám þurfi að vera tekin af réttu og hæfu stj órn- valdi, um málskot til æðra stjórnvalds o.s.frv. Verður ekki frekar um það fjallað hér. Hins vegar skal vikið að því álitaefni, hvort telja megi það almenna réttarreglu í íslenskum eignarnámsrétti, að jafnan skuli gefa eignarnámsþola kost á að gæta hagsmuna sinna áður en ákvörð- un er tekin um eignarnám. Lítum fyrst lítillega á norskan og danskan rétt að þessu leyti. I norsku eignarnámslögunum frá 1959 er í 12. gr. 2. mgr. kveðið á um, að ávallt skuli gefa eignarnámsþola kost á að tjá sig, áður en ákvörðun er tekin. Séu vandkvæði á að ná beint til þeirra, sem eignar- nám beinist að, er nægilegt að lýsa eftir þeim opinberlega. Gerðar eru í 11. gr. laganna kröfur um, að eignarnemi gefi, þegar hann beiðist eignarnáms, svo góðar upplýsingar sem kostur er um, hverjir eigi þá hagsmuni, sem eignarnám beinist að, hvaða eignaskerðinga sé beiðst og hver sé tilgangurinn með eignarnáminu. Jafnframt skal hann leggja fram uppdrátt af legu landsvæðis og stærð og gefa sem haldbeztar upplýsingar um hvers konar land sé um að ræða og hver séu núverandi not þess. Að þessum gögnum ber að veita eignarnáms- þola aðgang, áður en ákvörðun er tekin. I dönskum rétti er ekki til að dreifa almennri reglu í settum lög- um um ofangreint efni. I lögum frá 1964 (lov nr. 186/1964 (br. m/1. 175/1969) om fremgangsmáden ved ekspropriation vedrorende fast ejendom), sem gilda um eignarnám í þágu ríkisins og féiaga með einkaleyfi til starfsemi sinnar, er gert ráð fyrir, að eignarnámsþola sé gefinn kostur á að gæta hagsmuna sinna, áður en endanlég ákvörð- un er tekin um eignarnámið, og einnig að koma að sjónarmiðum um, hvernig eignarnám skuli framkvæmt, sjá t.d. 12. og 13. gr. laganna. Hér á landi hefur ekki almennt verið kveðið á um rétt eignar- námsþola að þessu leyti í settum lögum, fremur en um rétt manna til að gæta hag'smuna sinna við ákvarðanir stjórnvalda um málefni, er þeim viðkoma á öðrum sviðum. Skal nú athugað hvort eða að hve miklu leyti skylt sé að íslenzk- um lögum að veita eignai’námsþola kost á að tjá sig, áður en ákvörð- un er tekin. 18

x

Tímarit lögfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.