Morgunblaðið - 28.05.1977, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 28.05.1977, Blaðsíða 24
24 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 28. MAÍ 1977 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 28. MAÍ 1977 25 Útgefandi Framkvæmdastjóri Ritstjórar Ritstjórnarfulltrúi Fréttastjóri Auglýsingasjóri Ritstjórn og afgreiðsla Auglýsingar hf. Árvakur, Reykjavlk. Haraldur Sveinsson. Matthlas Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Þorbjörn Guðmundsson. Björn Jóhannsson. Árni Garðar Kristinsson. ASalstræti 6. slmi 10100. Aðalstræti 6. slmi 22480 Betra er seint en aldrei Allt frá stofnun is- lenzka lýðveldisins, árið 1 944, hafa vaxtarverkir sagt til sín í þjóðfélagsbyggingunni. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt, óhjákvæmilegur fylgif iskur framþróunar, sem hlaut að koma í kjölfar fullnaðarsigurs hinnar stjórnarfarslegu sjálf- stæðisbaráttu þjóðarinnar Þjóðinni hefur fjölgað um meir en 80.000 einstaklinga á þessu tímabili. Það eitt að hasla svo stórri þjóðarviðbót völl, félagslega og efnahags- lega, hefur kostað umrót og átök, sem hlutu að skilja eftir sig merki í þjóðlífsmyndinni. Og áfram streymir þjóðlífself- an. Aætlað er að íslendingum fjölgi um önnur 80.000 fram til næstu aldamóta Sem heild hefur mannlíf í landinu breytzt til batnaðar, fé- lagsleg réttindi aukist, atvinnu- tækifærum fjölgað, afkomu- öryggi tekið stór skref fram á við, menntun orðið almenn- ingseign og heilsugæzla skap- að þúsundum einstaklinga gjörbreyttar aðstæður og nýjar lífsvonir. En í umróti breyting- anna, ekki sízt stökkbreytinga í þéttbýli landsins, sem og í samgöngutækni, sem hefur fært land okkar úr fyrri einangr- un í hringiðu heimsbyggðar, hefur ýmsu skolað á land, er mátt hefði missa sig Er þarátt við ýmis samfélagsleg vanda- mál liðandi stundar, sem óþarfi er að fjölyrða um. Þá höfum við að sjálfsögðu stigið ýmis vixl- spor á framfarabrautinni, sem okkur gengur þó sorglega seint að draga rétta lærdóma af Umrót og óvissa hafa ekki sízt sett svip sinn á síðustu árin í sögu þjóðarinnar — og máske var vandi hennar stærst- ur á öndverðu ári 1974, bæði vegna heimatilbúinna og inn- fluttra vandamála. Afleiðingar þess þjóðfélagsástands, sem þá hafði skapazt, setja svip sinn á þjóðlífið enn í dag. Þar bar máske hæst óvissuna i ut- anríkis- og öryggismálum þjóð- arinnar. Þá lá við borð að óheillaöfl settu fleyg í samfylk- ingu okkar með vestrænum lýðræðtsríkjum, sem við eigum ekki einungis hagsmunalega samleið með í öryggismálum, heldur ekki síður í menningar- legu, stjórnarfarslegu og efna- hagslegu tilliti. Þá flæddi al- þjóðleg efnahagskreppa yfir heiminn, i kjölfar margföldunar á olíuverði, sem leiddi af sér margvísleg vandamál, m.a. viðtækt atvinnuleysi i V- Evrópu, sem enn sér ekki fyrir endann á. Stefna okkar í land- helgis- og fiskverndarmálum, sem efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar grundvallaðist á, skapaði átök og spennu í sam- skiptum okkar við aðrar fisk- veiðiþjóðir, sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta á íslands- miðum. Óðaverðbólga hafði heltekið þjóðfélagið, 54% á ársgrundvelli, sem ásamt öðr- um samtíma orsökum slævði réttarskyn manna, einkum og sér í lagi á fjármálasviði, og skapaði tortryggni gagnvart ís- lenzku réttarkerfi, Þegar litið er um öxl til um- róts og óvissu þessara missera, sem eru svo skammt að baki, má Ijóst vera, að okkur hefur tekizt að sigla fram hjá mörg- um hættulegum skerjum. Tek- izt hefurað bægjafrá allri óvissu í utanríkis- og öryggismálum þjóðarinnar og treysta á ný samstarf okkar með vestræn- um lýðræðisríkjum. Land- helgismálið er farsællega leyst, ekki sízt með svokölluðu Óslóarsamkomulagi, er tryggði okkur viðurkenningu fyrrum andmælenda okkar á einhliða rétti til 200 mílna fiskveiðiland- helgi. Aðild okkar að Atlants- hafsbandalaginu átti ekki hvað síztan þátt í svo farsælum lykt- um. Tekizt hefur að tryggja atvinnuöryggi um gjörvallt land, andstætt því sem raunin hefur á orðið í nágrannaríkjum okkar. Tekizt hefurað rétta hlut okkar út á við nokkuð, bæði I viðskipta- og gjaldeyrismálum. Ríkisbúskapur er aftur rekinn hallalaus. Dregið hefur úr tor- tryggni ! réttarfarsmálum — og margháttuð ný löggjöf sett á þeim vettvangi. Nokkuð hefur á unnizt í baráttu við verðbólg- una — en sorglega lítið þó, og á þeim vettvangi er árangurinn síztur, enda við margvislega andstöðu að etja hjá hinum ýmsu hagsmunahópum. Verðbólgan er ekki einvörð- ungu efnahagslegt vandamál, þó hún sé vissulega nógu var- hugaverð sem slík. Ekkert þjóð- félag, ekkert efnahagskerfi eða atvinnulif þolir til langframa óðaverðbólgu af því tagi, sem hér hélt innreið sína á vinstri stjórnarárunum. En verðbólgan er ekki síður siðferðilegt vanda- mál. Hún spillir bæði þjóð og einstaklingum, slævir réttlætis- skyn fólks. Allir hyggjast græða á verðbólgunni. En sá gróði hlýtur óhjákvæmilega að verða á kostnað náungans. Sá, sem sparar, tapar. Sá, sem skuldar, græðir, ef rétt er fjárfest. Slíkt verðbólgukerfi, sem hvetur til óeðlilegrar fjárfestingar og kippir stoðum undan nauðsyn- legri sparifjármyndun í land- inu, leiðir fyrr en síðar til ófarn- aðar. Rekstraröryggi atvinnu- greina hverfur. Samdráttur í atvinnurekstri leiðir til atvinnu- leysis. Og verst kemur óðaverð- bólgan við þann, sem minnst má sín, sem ekki hefur fjár- muni til fjárfestingar, en horfir á gjaldmiðilinn i launaumslag- inu minnka frá degi til dags. Við vitum öll, hvert stefnir, ef verðbólgan fær áfram að leika lausum hala; ef ekki verður spyrnt við fótum. Engu að siður er hik á öllum, að því er virðist, að breyta um stefnu. Vonandi verður það þó, m.a. fyrir al- mannaþrýsting, áður en það verður of seint. Betra seint en aldrei. Undanfarið hafa orðið miklar umræður hér í blaðinu um trúmál og hafa þær vakið mikla athygli. Nú gengur hvítasunnan í garð. Á hana var m.a. minnzt í síðasta Reykjavíkurbréfi, þar sem enn var drepið á nokkur atriði kristindóms. í tilefni hvítasunnu verða nú birtir kaflar úr greinum og samtölum, sem Matthías Johannessen, ritstjóri, skráði á sínum tíma og samdi upp úr vináttu og viðkynningu við tvo látna oddvita íslenzkrar kristni á þessari öld, sr. Friðrik Friðriksson og sr. Bjarna Jónsson, vígslubiskup og dómkirkjuprest í Reykjavík. Sumt af þessu birtist upphaflega, að vísu með öðrum hætti, hér í Morgunblað- inu. Kaflinn úr samtalinu við sr. Friðrik er unninn úr afmælisrabbi við hann í tilefni níræðisafmælis hans og er síðasta samtal, sem blaðamaður átti við hann, en kaflinn um sr. Bjarna er tekinn úr bók þeirra Matthíasar og Andrésar Björnssonar um Séra Bjarna og frú Áslaugu. Fyrst birtum við kaflann um sr. Friðrik, en á eftir honum kemur dálítið brot úr bókinni um Séra Bjarna. Sr. Friðrik: Þarft verk i þágu kristindóms., Þegar ég fæddist, var pabbi talinn af. Hann haföi farið í hákarlalegur, en ekki komið aftur. Ef ég man rétt, fór hann i marzmánuði, en kom ekki aftur fyrr en þrem mánuðum síðar. Það var viku eftir að ég fæddist. Hann hafði þá hrakizt vestur á Hornstrandir, brotið þar skipið, lent í hríð en orðið að brjótast til tsafjarðar að ná I timbur og gera við farkostinn. Engar samgöng- ur voru þá milli héraðanna né bréfaskipti, og þvi fréttist ekkert allan þennan tima. Þegar ég fæddist var ég ákaflega lasburða og þótti tvisýnt um mig, svo að móðir mín lét skíra mig skemmri skirn. Var ég auðvitað látinn heita í höfuðið á pabba minum, þar eð talið var að hann hefði farizt þá fyrir skömmu. Það er ein mesta blessunin i lífi mínu, þegar ég var skírður, nýkominn I heiminn og vart laugaður I fyrsta sinn. Og ég býst við, að mikið af velgengni minni stafi einmitt frá því. Eins og þú sérð voru þessir fyrstu dagar ævi minnar ákaflega þungbærir fyrir móður mína. Við knýttumst því strax miklum vinaböndum, sem héldust óslitið, þangað til hún lézt hér í Reykjavik háöldruð. Mamma mótaði mig mjög i æsku, og ég geri ráð fyrir því, að ég hafi hneigzt óvenju mikið til lifandi trúar, eins og þú getur séð á ævisögu minni. Þegar við bjuggum á Ytra-Garðshorni í Svarfaðardal, spurði ég eitt sinni móður mína, smápatti, hvort baðstofan hjá Guði mundi vera öllu hærri en baðstofan i gamla bænum okkar. Og þegar ég var á fjórða ári, fann mamma mig einu sinni úti á túni. Hafði ég þá búið um mig i tóttarbrotinu og var að syngja eitthvað I gaupnir mér og þóttist vera að messa. Næsta sunnudag þar á eftir fór mamma með mig í kirkju I fyrsta sinn. Og enn er mér það í fersku minni, þegar ég, strákhnokki á fjórða ári, hlustaði á húslesturinn og grét yfir píning- arsögu Krists. í textanum var sagt frá þvi, að sviti Jesús hefði orðió eins og blóðhnyklar, sem féllu á jörðina. Ég setti þetta strax í samband við stóra bandhnykla, er voru það eina, sem ég þekkti með því nafni. Sú mynd, sem ég fékk þá af Jesú krjúpandi i Grasgarðinum, var heldur óhugnanleg og fór ég því að gráta. Þessi minning hefur fylgt mér æ síðan. Ég heyrði ýmsar íslendingasögur Iesnar á þessu skeiði, svo og Noregskonungasögur. Ég fékk þá hug- mynd einhvern veginn, að Ólafur helgi væri verndar- dýrlingur minn, og bað ég hann um það, sem mér þótti of lítilfjörlegt að biðja Guð um, til dæmis að sækja fyrir mig hesta. Rauður hét hestur pabba mins og átti ég að koma honum í hús á kvöldin. Eitt kvöld fann ég hann ekki og leitaði lengi en án árangurs. Mér þötti illt að koma tómhentur heim og hélt ég mundi fá snuprur hjá pabba. Ég forðaðist því að koma fyrir augu hans, svo að ég þyrfti ekki að svara þvi, hvort ég hefði fundið hestinn og komið honum í hús. Á leiðinni heim hét ég á Ólaf helga, að ef hesturinn væri kominn heim að kofanum, skyldi ég fara út í kirkju og halda bænargjörð honum til heiðurs næsta dág. Þegar ég hafði verið nokkra stund heima, bað ég Jóhannes leikbróður minn að koma með mér út að kofanum og láta hestinn inn. Hann nennti ekki að fara að leita, en gekk með mér að kofadyrunum. Þegar þangað kom, sáum við hvar Rauður stóð fyrir utan dyrnar, eins og hann biði eftir mér. Ég lét hann inn, afar glaður i anda yfir bænheyrslunni, og daginn eftir fór ég svo út i kirkju og baðst fyrir og þakkaði Guði, að hann hefði látið dýrlinginn hjálpa mér. Síðan hefi ég oft verið bænheyrður. Nú þegar ég er orðinn gamall maður, get ég iðkað bænina meira en áður og raunar er hún orðin mín aðaliðja. Fyrir það er ég þakklátur. Bezta dæmið, sem ég þekki úr starfssögu minni um mátt bænarinnar, er eftirfarandi saga af dönskum dreng, sem hét Ivar. Ég starfaði I unglingadeild K.F.U.M. I Kaupmanna- höfn með Olfert Ricard, einum merkasta leiðtoga Dana i kristindóms- og uppeldismálum. Haustið 1896, eða 1. nóv., varð Ricard framkvæmdastjóri K.F.U.M. I Kaupmannahöfn. Það kvöld átti hann að tala í ung- lingadeildinni og voru allir fullir eftirvæntingar, því að hann var nýkominn heim úr ársdvöl erlendis. Þegar búið var að syngja fyrsta sálminn og fundurinn átti að byrja, kom lögregluþjónn að tala við Ricard. Fór hann fram með honum, meðan vér hinir sungum sálminn. Þegar hann kom aftur, lét hann syngja annan sálm og hélt svo sina snjöllu og góðu ræðu, en mér duldist ekki, að eitthvað amaði að. Eftir ræðuna bað hann mig um að halda eftir öllum sveitarforingjunum að samkomunni lokinni og láta þá biða þangað til hann kæmi aftur. Þegar hann kom svo, sagði hann oss þá sorgarfregn, að piltur að nafni Ivar, sem áður hafði verið í unglingadeild K.F.U.M., hefði fundizt niðri á Löngulinu með skot gegnum ennið. Hann var þó á lifi og hafði verið lagður inn í sjúkra- hús. Læknarnir sögðu, að hann gæti ekki lifað til morguns. í vasa hans hafði fundizt bréf til Ricards, enda hafði hann verið félagi I K.F.U.M. og þekktust þeir vel. í bréfinu sagði, að hann gæti ekki lifað lengur, þvi að hann væri kominn svo langt út á glötunarbrautina, að hann kysi dauðann. Ricard sagði: — Hann má ekki deyja upp á þennan máta, vér verðum að biðja fyrir lifi hans. Svo báðum vér allir. Ákveðið var, að vér skyldum koma aftur saman klukkan sjö næsta morgun til sambænar. Vér báðum innilega og samtaka um, að Ivar fengi að lifa og morguninn eftir, er vér komum saman, lifði hann ennþá. Vér hittumst þrisvar á dag og báðum saman og gekk það svo um nokkurt skeið, að Ivar tórði, en hafði enga meðvitund. Nóvember og desembermánuðir liðu og sat alit við hið sama, en 7. janúar færði Ricard oss þá fregn, að honum væn likamlega batnað, en hefði verið fluttur út á St. Hans-sjúkrahúsið og var oss sagt, að hann yrði fáviti ævilangt. Þá gáfust ýmsir upp á þvi að biðja, en vér héldum nokkrir áfram og báðum nú ekki um lif hans heldur skynsemi. Vorið 1897 mættum við Ricard Ivari á förnum vegi. Hann var þá útskrifaður úr sjúkrahús- inu og orðinn alheill, bæði á sál og líkama. Nokkru siðar fór hann í sveit en gerðist svo sjómaður og misstum vér þá alveg sjónar á honum. Þetta sumar fór ég alfarinn heim til íslands. Þess ber að geta, að mörg Kaupmannahafnarblöðin gerðu harða hríð að K.F.U.M., meðan Ivar barðist við dauðann. Sögðu þau, að hann hefði ætlað að fyrirfara sér vegna óhollra áhrifa frá K.F.U.M. — Ricard skrif- aði varnargrein I mánaðarblað félagsins og sýndi fram á, að pilturinn hefði ekki stigið fæti inn fyrir húsa- kynni félagsins i tvö ár. Storminum slotaði smátt og smátt, og félagið beið ekki verulegt tjón af árásinni. Þegar ég kom heim 1897, tók ég að undirbúa stofnun K.F.U.M. í Reykjavik, og 2. janúar 1899 var félagið stofnað með nokkrum fermingardrengjum. Á stofn- fundinum sagði ég drengjunum sögu Ivars, reyndi að skýra fyrir þeim þessa innri baráttu og bænheyrsluna, en vissi þá ekki um afdrif hans á sjónum. Það var fyrst nokkrum árum seinna, eða á alþjóðamóti K.F.U.M. i Kristjaniu 1902, að fundum okkar bar aftur saman. Olfert Ricard hélt kvöld nokkurt samkomu fyrir þátttakendurna á ráðstefnunni. Þegar hann kom út, rakst hann á Ivar, þar sem hann stóð fyrir utan samkomuhúsið. Um kvöldið heimsóttum vér Ivar, þar sem hann bjó i hrörlegu bakhúsi I útjaðri borgarinnar. Hann skýrði oss frá því, að hann væri mjög djúpt sokkinn i andlega vesöld og treysti sér ekki upp á eigin spýtur að komast aftur á réttan kjöl í lifinu. Vér áttum við hann langt og alvarlegt samtal um nóttina og hittum hann nokkrum sinnum eftir það. Hann sagði oss undan og ofan af því, sem á daga hans hafði drifið á sjónum. Hann hafði lent í hrakn- ingum og skipbroti en aldrei farið heim til Danmerk- ur, þvi að hann vildi ekki láta vini sina og frændur vita, hve djúpt hann var sokkinn. Hann hafði því ákveðið að fara ekki heim til Danmerkur, fyrr en hann hefði unnið sigur á sjálfum sér. Þegar ráðstefnunni lauk, fór Ricard heim til Dan- merkur, en ég skrapp út á land i erindum K.F.U.M. Þegar ég kom aftur til Kristjaniu, langaði mig að hitta Ivar að máli, en hafði glatað heimilisfangi hans. Ég leitaði að húsinu.en fann ekki. Ég bað þá um, að mér yrði visað til fundar við hann, þvi að ég hafði áhuga á, að hann kæmist til lifandi trúar. Hann hafði hlotið góðan undirbúning I unglingadeildinni í Kaupmanna- höfn og viðurkenndi, hvernig komið var fyrir sér. Jarðvegurinn var því plægður. Svo var það kvöld eitt, að ég var á samkomu i K.F.U.M. Ivar gekk framhjá húsinu og heyrði út um opna gluggana hina glöðu söngva, sem hann þekkti frá æskuárunum. Hann gekk inn í salinn, og þar hitti ég hann. Ég fór heim til hans um kvöldið og töluðum vér alvarlega saman fram á nótt, en áttum síðan djúpa bænarstund saman. Þá held ég, að hann hafi snúizt algerlega til kristindómsins, og upp úr því ákvað hann að fara heim til Danmerkur. Eftir það hvikaði hann aldrei af vegi trúarinnar og vann þarft verk í þágu kristindómsins, þangað til hann lézt glaður í sinni trú árið 1953. Þá var ég i síðustu Danmerkurferð minni og hlotnaðist sú hamingja að vera við dánarbeð hans. Vorum vér þá orðnir góðir vinir og nánir samstarfs- menn á styrjaldarárunum. Það þarf ekki að taka fram, að trú min á bænheyrsluna óx mjög við þessi atvik, og síðan hefi ég ótal sinnum fengið það staðfest, hve áhrifamikil bænin er. Þegar hér var komið sögu, tók séra Friðrik nokkur bréf úr vindlakassa, sem var á borðinu fyrir framan hann. Ég las fyrir hann það, sem á þeim stóð, og staðnæmdumst við stundarkorn við svofellda áritun: 'Islands störste kulturpersonlighed, 90-áringen, Fredrik Fredriksson. — Þetta er undarlegasta áritun á bréf, sem ég hefi séð, sagði séra Friðrik, raunar furóulegt, að það skyldi hafa komizt til skila. Svo las ég fyrir hann bréfið, en spurði hann siðan um sjónleysið. Það er auðvelt að segja þér, hvernig blindan kom, sagði hann. Mér þótti vænt um hana. Hún hefur ekki tekið neitt af gleði elli minnar. í marz 1945 orti ég kvæði á dönsku, sem heitir Alderdommens Lykke — og í þvi er þetta vers: Om jeg bliver döv og blind det vil ej min glæde röre, for sá kan jeg se og höre, bedre i mit stille sind. Nú stendur þessi reynslutimi yfir, bætti hann við, og ég sé, að ég hefi haft rétt fyrir mér i kvæðinu. Þegar ég var i Danmörku á stríðsárunum, varð ég alveg sjónlaus á vinstra auga, en hafði góða sjón á hinu hægra, svo að sjónleysið var mér engin hindrun og ekkert kviðaefni. Ég fór til augnlækna og þeir sögðu mér, að sjónleysið stafaði af blæðingu inn á augað. Síðan skipti ég mér ekkert af þessu, en á hvítasunnudag 1954 varð ég fyrst var við, að blindan var í aðsigi, þótt mér yrði það ekki ljóst þá þegar. Er ég var kominn i prédikunarstólinn í Villingaholti, fann ég skyndilega, að ég gat ekki lesið almennilega ræðuna, sem ég hafði skrifað daginn áður. Ég hélt þó prédikunina, án þess að hafa gagn af blöðunum. Það var mistur úti og þvi hálfdimmt í kirkjunni, en mé; fannst myrkrið aukast, þegar ég stóð í stólnum. Þó gat ég séð kirkjugestina nokkurn veginn. Daginn eftir stóð ég í stólnum í Hraungerði, og þá átti ég jafnvel bágt með að lesa textann í Jóhannesar- guðspjalli (3. 16—21). Á trinitatis, næsta sunnudag eftir hvitasunnu, skírði ég frænda minn lítinn í Hafn- arfirði og átti þá mjög erfitt með að lesa ritualínn. Þá laukst upp fyrir mér, að þetta væri ekki einleikið og fór ég þvi til læknis. Eftir nokkra rannsókn komst hann að þvi, að það hafði blætt inn á hægra augað. Vissi ég þá, að ég var að verða blindur og mundi hvorki geta lesið né skrifað. Var ég hræddur um, að lifið yrði dálitið tómlegt í kringum mig, en þegar mér var orðið alveg ljóst, að hverju stefndi, fylltist ég mikilli gleði yfir þvi að fá að reyna eitthvað. Ég sé allt i þoku, og fyrsta árið voru þessar þokur ákaflega þéttar og sá ég litið í kringum mig. Samt voru þær með fallegum litum og hefi ég haft mikið yndi af þeim. Auðvitað er ýmislegt, sem ég hefi saknað eftir að ég missti sjónina, til dæmis get ég ekki flett upp í bókum og þess háttar, en ég hefi líka átt margar gleðistundir í myrkrinu. Og nú siðasta árið hefur mér farið fram á vinstra auga, þar sem ég missti sjónina fyrst. Sé ég nú dálitla skímu. En ég sakna þess ekkert að sjá ekki heiminn i kringum mig. Mér finnst hann jafnvel ennþá fallegri nú en áður, og ekki get ég séð að blindan hái mér að neinu ráði. Vinirnir eru mér bæði augu og eyru. Ég er orðinn gamall, hvað sem þú segir, og fæturnir eru farnir að gefa sig. Það þykir mér allra verst. í fyrra gekk ég eins og kálffull kýr, en nú vagga ég eins og gæs. Þrátt fyrir það er ég glaður og reifur og kviði engu. Séra Friðrik kveikir í enn einum vindli og bætir svo við að lokum: — Nú er ég alveg á toppinum. ^Hans bjarg fasta trú... „Ég fór til Kaupmannahafnar fljótlega að loknu stúdentsprófi 1902, og mér er algjörlega óskiljanlegt allt til þessa dags, hvernig ég komst þangað. En ég hafði hér heima orðið fyrir áhrifum frá Friðriki Friðrikssyni og Jóni Helgasyni, og hélt að þessi and- legu áhrif þeirra yrðu enn sterkari, ef ég kæmist til Kaupmannahafnar og héldi áfram námi. Ég hafði þá þegar ákveðið að verða prestur. Jón Helgason hélt barnaguðþjónustur sem höfðu djúp og varanleg áhrif á mig, og séra Friðrik stofnaði K.F.U.M., eins og þú veizt, og var ég f hópi þeirra fyrstu sem gengu í félagið. Áður hélt hann fundi í Framfarafélagshúsinu hér vesturfrá og skal ég sýna þér það, þegar við komum þangað.“ „Hver mundir þú telja, að hafi verið aðalstyrkur séra Friðriks sem æskulýðsleiðtoga?" spurði ég áður en við skildum við þetta umræðuefni. „Það var hans bjargfasta trú og um leið lærdómur hans, áhugi, gáfur, sem birtust bæði í bundnu og óbundnu máli, og svo auðvitað elskulegt viðmót hans og einstæð umhyggja fyrir æskunni." „Mundir þú halda að maður eins og séra Friðrik, sem var í margra augum hálfgerður dýrlingur meðan hann lifði, a.m.k. seinustu árin, hafi verið innblásinn af guði?“ „Alveg áreiðanlega. Hann fékk köllun frá guði og fylgdi þeirri köllum fram til síðasta dags.“ „Hefur þú fundið þessa köllun einhvern tíma, sr. Bjarni?" „Já, það hef ég. Og ég bæti við, að ég hefði ekki orðið prestur, ef ég hefði ekki átt þessa trú. Ég hef oft sagt: Ég trúi, þess vegna tala ég. Og ef spurt er: Á hverju byggir þú þína trú? Þá svara ég: Ég byggi hana á guðs orði og opinberun guðs. Ég byggi hana líka á vitnisburði þeirra, sem hafa verið hinir sönnu læri- sveinar. Og ef sagt væri: Byggir þú þá ekki á visind- um? — Þá veit ég vel að þeir tímar hafa komið, þegar þess hefur verið krafizt, að á borðinu lægju vísindaleg- ar sannanir fyrir tilveru guðs. Ég gæti nefnt dæmi þess frá minum námsárum, en ég segi: Byggjum á trúnni. Byggjum á þeirri sannfæringu sem trúin gef- ur, og ef spurt er: Þekkir þú engar efasemdir? svara ég: Jú, ég get efazt. Ég hef efazt um margt, en þvi nær kemst ég þá guði, því ég finn, að ég get ekki án hans verið og leita því svölunar og styrks í guðs orði í heilagri ritningu og fylgi kenningu kristinnar kirkju, þvi ég segi: Ég trúi á heilaga, almenna, kristilega kirkju, og sú kirkja — hún stenzt þrátt fyrir allar ofsóknir, því að hlið Heljar skulu ekki á henni sigrast. Þetta er min trú og samkvæmt henni hef ég starfað, annars hefði ég ekki verið prestur." „Þú hefur alltaf fylgt ákveðinni stefnu I trúmálum.“ „Já, ég hef fylgt stefnunni, sem er i guðs orði, eins og það birtist í hinni heilögu bók — og tekið á móti orðinu þaðan. Það hafa oft verið orð, sem ég hef ekki skilið, en þá hef ég sagt eins og Marteinn Lúther: Ég tek ofan fyrir þér núna — og hitti þig seinna. Og oft er það min reynsla i lifinu, að það sem ég ekki skildi i fyrra, skil ég í dag. Og Jiegar ýmsar spurningar sækja á mig, tek ég mót: þvi opinberaða guðs orði og byggi á vitnisburði þeirra trúuðu um allar aldir, og veit, að þrátt fyrir alla mótspyrnu heldur kirkjan áfram að starfa, lifa og blómgast. Ég heimta ekki sönnun frá neinum öðrum, áður en ég bið til guðs. Ég geng beint til guðs með allt, bæði stórt og smátt. Og ég kenni börnunum að gera hið sama. Kirkjan hverfur ekki. Hún heldur áfram, af þvi hún byggir á guðs orði. Og ég byggi lika á þvi, sem ég hef lesið og lært í sögunni. Hvernig var það i fornöld? Hvernig leit þá ekki út fyrir kirkjunni? Hvernig leit ekki út fyrir henni í stjórnarbyltingunni frönsku, þegar kristindómurinn var opinberlega afnuminn? Og hvernig leit ekki út 1905, þegar kirkja og riki voru aðskilin i Frakklandi og einn stjórnandinn sagði: „Nú höfum við slökkt ljósin i himninum." En þau ljós loga enn. Og þau skulu varpa skærum ljóma, einnig hér á landi. Þá ósk ber ég fram kirkjunni islenzku til handa. Ég segi þvi oft, þegar ég geng í kirkju og kem inn á hin ýmsu heimili: „Gef að blómgist guðþin kirkja.“

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.