Morgunblaðið - 14.02.1991, Blaðsíða 31

Morgunblaðið - 14.02.1991, Blaðsíða 31
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 14. FEBRÚAR 1991 31 Minning: Pétur Jóhannsson frá Skógarkoti „Bognar aldrei, — brotnar í bylnum stóra seinast." Vinur minn Pétur Jóhannsson frá Skógarkoti í Þingvallasveit er látinn. Guðrún kona hans hafði tal af mér í síma, áður en fráfall Pét- urs var tilgreint í fjölmiðlum. Kyrrl- átri röddu skýrði hún frá því, að dagurinn eftir felliveðrið mesta um fyrri helgi hefði orðið hinzta stund Péturs á jörðu. Mig setti hljóðan við fregnina. Síðan kom upp sorgin. Eiginlega undraðist ég þá aðkenningu. Víst hafði mér verið hlýtt til Péturs og fundið vinarþel undan rifjum hans í minn garð og minna. En tæplega hafði ég að óreyndu gjört mér grein fyrir því, að harmur sækti mig heim við andlát hans. Nú er þó svo komið. Enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Fleira bar til. Pétur hafði setið yfir kaffibolla hjá mér heima á Þingvallabæ öldungis nýverið, rétt einu sinni. Við höfðum rætt hug- stæð efni að vanda. Alls ekkert benti til, að ýtrustu umskipti væru í vændum. Öðru nær. Glaður í bragði barði Pétur að dyrum á bóndadaginn. Öll var orðræða hans við sama tón og ævinlega, hugsun- in skýr, fasið dugnaðarlegt, glettn- in tær, handtakið fast, er hann kvaddi og gekk hvikur í spori og stæltur frá bæjardyrunum. Nú er þess konar heimsóknum lokið fyrir- varalaust. Meiri von, að treginn tefji um stund. Ef miðað er við aldur Péturs, urðu kynni okkar reyndar ekki löng. Fyrir tæpum áratug lágu leið- irnar saman. Um þær mundir bar þennan öðling hér að garði í fyrsta sinni á minni tíð. Eftir það tókst bræðralag bæði fljótt og vel okkar á meðal. Við fetuðum sömu vegi í bókstaflegum skilningi. Á þær göt- ur bar aldrei nokkum skugga. Skömmu eftir að ég settist að við Öxará heyrði ég góðan mann tala um „Þingvallavini“: Þessi og hmn væri meiri Þingvallavinur en aðrir. Mér kom þetta orð á óvart; vissi ekki betur en Islendingar allir væru Þingvallavinir. Svo mun og vera. Þó er hér manna munur, eins og víðar. Upp til hópa ber hver og einn lotningu fyrir þessum helga stað, á sína eig- in vísu. En ekki er öllum gefið að láta sér títt um Þingvelli frá degi til dags, enda engan veginn við því að búast. Flestir hafa fjölmörgu öðru að sinna, þótt Þingvellir dragi þá jafnan uppi á góðri stundu, alla. Eigi mun hallað á neinn, þótt sagt sé sem er, að Pétur Jóhanns- son frá Skógarkoti væri Þingvalla- vinurinn mesti. Öllum stundum undi Pétur hér, fengi hann því framast við komið. Fátt fékk Pétri meiri ánægju en að leiða óreyndan og nýtilkominn þjóðgarðsvörð um krákustíga Bláskóga, víðs fjarri ökuleiðum og jafnvel reiðgötum, um troðninga, sem fæstir fara nokkru sinni og vita varla, að eru til. Jafnan kunni hann skil á hverri hraunstrýtu, mosaþembu og þúfu. Hellarnir í Þingvallahrauni voru gaman Péturs. Þó var honum kær- astur skógurinn í öllum myndum. Örnefni hafði Pétur hvarvetna á hraðbergi, og víðast fylgdi saga nafni. Ekki stórtíðindi þessa ein- stæða vettvangs þjóðarævinnar í hálfa elleftu öld. Fremur hið lítt þekkta: Saga fólksins í sveitinni, eins og hún gjörðist á uppvaxtar- árum Péturs, þegar hér var enn búið á hveijum bæ og glaðsinna ungmenni skokkuðu fram og aftur um hraunið til góðra vina funda. Einnig líf sama fólks á fyrri tíð, svo langt sem rakið verður. Um það efni hafði Pétur flett hverju blaði; er að sönnu höfundur mikils hluta Þingvallasveitariýsingar t' þriðja bindi ritverksins Sunnlenzk- ar byggðir, sem út kom að tilhlutan Búnaðarsambands Suðuriands árið 1983, tók þar einnig saman kaflann um Þingvallavatn, leiðarvísun um sveitina og fróðleik um jarðirnar austan Almannagjár. Snemma varð mér ljóst, að Pétur Jóhannsson ætti öðrum mönnum fremur aðgang að námu, sem trú er óðum að lokast, en það er vitn- eskja um leyndardóma Þjóðgarðs- ins á Þingvöllum í smæstu efnum. Beztu menn hafa raunar fyrir fáum árum skrifað öndvegisrit í þessari grein, og er þar fjölmörgu til skila haldið. En Pétur vissi fleira. Því varð það að ráði, að hann fengi í hendur loftmyndir af Þjóðgarðin- um. Þar skrásetti hann örnefnin öll, sem honum voru kunn, vel á sjöunda hundrað innan þjóðgarðs- markanna. Þingvallanefnd sýndi Pétri verðskuldaðan sóma af þessu tilefni. Nú er verkið varðveitt hjá Landmælingum íslands. Mun það verða hvetjum þeim fræðabrunnur, er ausa vill af á komandi tíma. Með þeim hætti lét Pétur Jóhanns- son okkur hinum í té heimild, sem hvergi er til nema þar. Auðvelt væri að rekja miklum mun lengra þann þráð, sem nú hefur verið gripið um. Pétur var öllum mönnum slyngari við að leiða gestahópa hér um grenndina og segja þeim frá Þmgvallasveit og umhverft hennar. Á bæjum í sveit- inni var hann hvarvetna aufúsu- gestur og hverjum Þingvellingi kær. Fjallferðir voru Pétri tamar, og fór hann jafnan á hausti með bændum til smalamennsku um af- réttarlönd Þingvallahrepps, enda göngumaður með afbrigðum og léttur á fæti á áttræðisaldri. Síðast var Pétur fjallkóngur um austan- verðan afréttinn á nýliðnu hausti. Barngóður var Pétur svo að frá bar. Þegar hann fór með barn sér við hönd, naut sín til fullnustu sú fræðslugleði, sem Pétur bjó yfir. Pétur Júlíus Jóhannsson fæddist í Skógarkoti 18. júlí 1911. Foreldr- ar hans voru hjónin Jóhann Krist- jánsson og Ólína Jónsdóttir, en þau voru síðustu ábúendur í Skógarkoti og ráku þar myndarbú frá 1909 til 1936. Jóhann bóndi í Skógar- koti var Þingvellingur að uppruna. Bjuggu foreldrar hans, Kristján Ámundason og Gréta M. Sveins- dóttir, á Kárastöðum frá 1884 til 1903. Ólína Jónsdóttir var af hún- vetnskum ættum. Bræður Péturs voru þeir Jón og Kristján og eru nú báðir látnir. Systurnar Gréta og Herdís fylltu systkinaflokkinn í Skógarkoti. Þær búa í Reykjavík. Pétur hleypti heimdraganum lið- lega tvítugur að aldri. Vann hann um allmörg ár sem ökumaður á langleiðabifreiðum hjá bifreiðastöð Steindórs og hafði ýmist með hönd- um ferðir til Akureyrar eða suður með sjó. Árið 1938 kvæntist Pétur fyrri konu sinni Guðrúnu Margréti Finn- bogadóttur. Hún var upp runnin á Isafirði, en komin af Kollsvíkurætt á Rauðasandi. Þau hjón settu bú saman á Akranesi, og starfaði Pét- ur þar.hjá Haraldi Böðvarssyni við verkstjórn og akstur. Þeim Pétri og Guðrúnu varð tveggja sona auð- ið og búa báðir í Reykjavík, Þröst- ur, trésmiður að atvinnu, og Ægir, starfsmaður Búnaðarbanka Is- lands. Guðrún Margrét Finnbogadóttir varð skammlíf og féll frá árið 1944. Þá þungu raun bar Pétur óbugaður sem aðrar. Bjó hann enn um sinn á Akranesi, en fluttist að nokkrum árum liðnum til Reykjavíkur og varð framkvæmdastjóri á bifreiða- stöðinni Hreyfli. Stóð svo til ársins 1956, en þá rættist draumur, sem Pétur lengi hafði með sér alið. Hvarf hann nú heim í Þingvalla- sveit að nýju. Bróðir Péturs, Kristj- án, bjó þgjj Gjáþakka. .Qekk Pétur honum til handa um hríð. En árið 1959 kvæntist Pétur eftirlifandi eiginkonu sinni, Guðrúnu Margréti Sæmundsdóttur, sem fædd er í Litlu-Hlíð á Barðaströnd og alin upp á Brekku í sömu sveit. Þau Pétur og Guðrún settust að í Mjóa- nesi í Þingvallahreppi og bjuggu þar allt til ársins 1974. í Mjóanesi hafði Pétur verulegt fjárbú og hænsnarækt, en stundaði jafnframt silungs- og murtuveiði í Þingvalla- vatni af þeirri elju, sem honum var lagin. Eftir fjórtán ára búsetu í Mjóa- nesi lá leið þeirra hjóna vestur um heiði. Gjörðu þau sér fagurt heim- ili á Nýbýlavegi 104 í Kópavogi. Pétur tók til verka hjá Búnaðar- banka Islands og starfaði þar til sjötugs. Á Nýbýlavegi bjó hann til dauðadags. Pétri Jóhannssyni var einkar sýnt um allt, er laut að ræktun og jarðabótum hvers konar. Skógrækt átti hug hans öðru fremur. Á sinni tíð hafði verið settur minnisvarði um Jón bróður Péturs spölkorn frá Þingvöllum og tijálundur umhverf- is. Pétur sýslaði mjög um lundinn og dvaldi þar löngum stundum. Þaðan bar hann og jólatré að gjöf heim í Þingvallakirkju á aðventu ár hvert. Pétur var lífsins barn. Yndi hans var að sjá grös gróa; sálubót að ganga með honum um grænt landið og heyra hann tala um tré og jurt- ir, sjá hann handfjatla gróður jarð- ar og hlú að hveiju strái. Á Nýbýlavegi 104 átti Pétur lítið gróðurhús. Það var í góðu samræmi við æviferil ræktunarmannsins frá Skógarkoti í Bláskógum, að síðasta stund hans rann, er hann var að hlynna að þeim gróðurreit. Marga minningu á ég um Pétur Jóhannsson. Ein er öðrum bjartari: Það var síðla dags 17. júlí 1986, að Pétur slóst í för með mér um Ijalllendið hér umhverfis Þingvelli. Erindið var að hyggja að hreppa- mörkum, en um þau var Pétur óljúgfróður, eins og um annað á þessari slóð. Veður var svo sem það getur bezt orðið á sólmánuði, heiður himinn og logn. Á Uxahryg- gjaleið og Kjalvegi létum við bif- reiðina eftir nokkrum sinnum og gengum. Líkt og oftar undraðist ég fótfimi Péturs, hvatleik og þol- gæði, þar sem hann stiklaði hnar- reistur á undan mér um torleiði. Dagurinn leið og kvöldið hið sama. Nokkru eftir miðnætti bar okkur að austurmörkum Þingvalla- hrepps á Gjábakkavegi. Þar stóðum við í kyrrðinni stundarkorn. Pétur rauf þögnina, minnti mig á, að nýr dagur væri runninn og gat þess um leið, að nú væri hann sjálfur orðinn 75 ára gamall. Ég árnaði heilla en spurði um leið lítið eitt hvumsa, hvort ég ekki hefði gjört honum óleik að teygja hann til fjalla á aðfangadegi stórafmælis. „Ég þekki engan veizlusal betri en þennan dal og þessi fjöll,“ sagði Pétur og kímdi. Síðustu árin varð mér stöku sinn- um á að ýja að því víð Pétur, hvern- ig heilsufari hans væri háttað. Við slíkum spurningum fékk ég aldrei nökkurt svar. Ég vissi, að Pétur átti að baki langa lífsgöngu og á köflum stranga, erfiði margs konar og mótlæti. Allt slíkt hafði hann borið æðrulaust. Enn var engan bilbug á honum að finna. Ellin skyldi ekki knésetja hann fremur en fyrri andviðri önnur. Stephan G. Stephansson orti ljóð um Greniskóginn. Ég kann ekki betur að kveðja Pétur Jóhannsson í þessum heimi en með því að henda á lofti lokaorð kvæðisins. Efnið var Pétri svo kært, og sjálfur var mað- urinn sömu gjörðar og Greni- skógurinn: Bognar aldrei, - brotnar í bylnum stóra seinast. Guðrúnu og öðrum ástvinum Péturs vottum við Dóra okkar dýpstu samúð. Sjálfan fel ég þenn- an vin minn þeim Guði, sem um aldurdaga býður börnum sínum að ganga í veizlusal dala og fjalla, í heiðríkju nætur, undir albjörtum upphimni. Heimir Steinsson RESTAURANT TORFAN - nýr staður á gömlum grunni! Tilboð í hádeginu: Súpa dagsins Heilagfiski með smjörsósu og tómatpasta eða steiktar lambasneiðar með mildri hnetukoníakssósu eða pastaréttur að eigin vali kr: 999f- BORÐAPANTANIR í SÍMA 13303 CB FORHITARAR MIÐSTÖÐVARHITARAR og NEYSLUVATNSHITARAR Mest seldu FORHITARAR landsins r LANDSSMIÐJAN HF. Verslun: Sölvhólsgötu 13 Simi (91)20680 Viðtalstími borgarfulltrúa ^ Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verðatil viðtals iValhöll, Háaleitisbraut 1, á laugardögum í vetur frá kl. 10-12. Er þá tekið á móti hvers kyns fyrirspurnum og ábendingum. Allir borgarbúar velkomnir. Laugardaginn 16. febrúar verða til viðtals Árni Sigfússon, í borgarráði, stjórn sjúkrastofnana, húsnæðisnefnd og atvinnumálanefnd, Margrét Theodórsdóttir, í fræðslu- og skólamálaráði og ferðamálanefnd, og Haraldur Blöndal, formaður umferðarnefndar. {\.*y V<" V*.'' í í í í d í t t l J. í í í

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.