Morgunblaðið - 03.09.1991, Blaðsíða 32
32
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 3. SEPTEMBER 1991
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 3. SEPTEMBER 1991
33
4
Útgefandi
Framkvæmdastjóri
Ritstjórar
Fulltrúar ritstjóra
Fréttastjórar
Ritstjórnarfulltrúi
Árvakur h.f., Reykjavík
Flaraldur Sveinsson.
Matthías Johannessen,
Styrmir Gunnarsson.
Þorbjörn Guðmundsson,
Björn Jóhannsson,
Árni Jörgensen.
Freysteinn Jóhannsson,
Magnús Finnsson,
Sigtryggur Sigtryggsson,
Ágúst Ingi Jónsson.
Björn Vignir Sigurpálsson.
Ritstjórn og skrifstofur: Aðalstræti 6, sími 691100. Auglýsingar: Aðal-
stræti 6, sími 691111. Afgreiðsla: Kringlan 1, sími 691122. Áskriftar-
gjald 1100 kr. á mánuði innanlands. í lausasölu 100 kr. eintakið.
Bækurnar eiga ekki
að fara í „vaskinn“
Ríkisfjármál hafa verið
mjög í fjölmiðlum og al-
mannaumræðu að undan-
förnu, ekki sízt vegna fjár-
lagagerðar fyrir árið 1992,
sem nú er unnið að. Þetta er
ekki að ósekju. Útþensla ríkis-
búskaparins næstliðin ár,
hrikalegur ríkissjóðshalli og
mikil opinber skuldasöfnun
hafa ýtt undir hátt vaxtastig
í landinu, aukið á rekstrarerf-
iðleika undirstöðugreina í
þjóðarbúskapnum, þrengt að
hagvexti og rýrt ráðstöfunar-
tekjur almennings.
Af þessum sökum er það
eitt af höfuðverkefnum nýrrar
rfkisstjórnar að hemja opinber
útgjöld og kortleggja leið að
jöfnuði í ríkisbúskapnum — á
eins fáum misserum og að-
stæður frekast leyfa.
Jöfnuður í ríkisbúskapnum
er eitt mikilvægasta efnahags-
markmiðið, m.a. til að styrkja
samkeppnisstöðu íslenzkra at-
vinnuvega, stuðla að eðlileg-
um hagvexti og ná fram vexti
þjóðartekna. Verðmætasköp-
unin í þjóðarbúskapnum og
viðskiptakjörin út á við ráða í
raun almennum lífskjörum
landsmanna; sem og kostnað-
arlegum traustleika þess vel-
ferðarkerfis, sem við höfum
byggt upp á löngum tíma.
Ef að líkum lætur hafa
landsfeður rætt margs konar
hugmyndir til að draga úr
eyðslu í ríkisbúskapnum um-
fram tekjur : beinan niður-
skurð útgjalda, hagræðingu í
opinberum rekstri, sölu ríkis-
fyrirtækja, frestun fram-
kvæmda, frekari gjaldtöku
fyrir margs konar þjónustu og
fækkun undanþága í skatt-
heimtu, m.a. undanþága frá
virðisaukaskatti. Sjálfsagt er
að kanna allar þessar leiðir
vel og vandlega og leita sem
víðtækastrar samstöðu um
þær, sem valdar verða. Það
hefur hins vegar verið ein-
dregin skoðun Morgunblaðs-
ins, sem rétt er að ítreka enn,
að ekki komi til mála að hverfa
frá fyrri ákvörðun þess efnis,
að íslenzkar bækur skuli und-
anþegnar virðisaukaskatti.
Sjálfstæðisflokkurinn tók
af skarið um það á landsfundi
í október 1989, fyrstur stjórn-
málaflokka, að íslenzkar bæk-
ur.aettu ekki að bera. virðis-
aukaskatt. Samþykkt flokks-
ins var byggð á þeirri rök-
semd, sem hefur engu minna
vægi nú en þá hún var gerð,
að bókaskattur af þessu tagi
samræmist ekki þeirri menn-
ingarstefnu, sem mikilvægt er
að fylgja — og mikilvægara
nú á öld nýrrar fjarskipta-
tækni en nokkru sinni fyrr.
Þáverandi stjórnvöld sátu um
sinn á „bókaskattinum“ en
létu um síðir undan almennum
þrýstingi og felldu hann niður.
Arangurinn lét ekki á sér
standa.
Það er ótvíræður dómur
reynslunnar að niðurfelling
virðisaukaskatts af íslenzku
ritmáli hefur mjög styrkt
markaðsstöðu bókarinnar,
sem átti í vök að verjast, og
þar með stöðu bókmennta og
málverndar í landinu. Það er
sízt ástæða til þess nú, eins
og mál hafa þróast, að veikja
þá varnarstöðu, sem náðist
með þessari ákvörðun.
Ör tækniþróun, einkum á
sviði fjarskipta og sam-
gangna, hefur fært þjóðir
heims í nábýli, svo að segja í
túnfót hver annarrar. Atburðir
í flærstu heimshornum geta
sést á sjónvarpskjám flestra
heimila á sama tíma og þeir
eiga sér stað. Erlend áhrif
flæða látlaust yfir landsmenn,
svo að segja nótt sem nýtan
dag, með hjálp þessarar tækni.
Þetta nábýli hefur fært okkur
fjölmargt gott og jákvætt —
en einnig sitthvað sem við
værum betur komnir án.
Mergurinn málsins er sá við
verðum í senn að laga okkur
að þessu nábýli við umheiminn
og varðveita íslenzka menn-
ingararfleifð, ekki sízt bók-
menntir okkar og þjóðtungu,
sem þjóðerni okkar og fullveldi
eru reist á ef grannt er gáð.
Þess vegna hefur íslenzkan,
töluð og rituð, og ekki sízt
bókmenntir okkar, sérstöðu í
hugum okkar og hjörtum. Það
á við um skattheimtu. sem
annað.
Það er rétt að undanþágur
veikja virkni skatta. Það er
einnig rétt að slíkar undan-
þágur eiga að vera sem allra
fæstar. En engin er regla án
undantekninga. Bækurnar
eiga ekki að fara í „vaskinn“!
Athugasemd við Reykjavík-
urbréf og hugmyndir um
skólagjöld í Háskóla Islands
Morgunblaðinu hefur borist
eftirfarandi athugasemd frá
Sigmundi Guðbjarnasyni, há-
skólarektor:
„í Reykjavíkurbréfi 1. septemb-
er sl. er m.a. fjallað um hugmynd-
ir um skólagjöld og koma þar fram
fullyrðingar sem ástæða er til að
leiðrétta. Jafnframt er öðrum sjón-
armiðum komið á framfæri því að
hér er um mjög mikilvægt mál að
ræða eins og höfundur Reykjavík-
urbréfs bendir réttilega á.
1. Það er misskilningur hjá
höfundi Reykjavíkurbréfs að há-
skólarektor hafi fullyrt eða „upp-
lýst að það verði stöðugt erfiðara
fyrir íslenska háskólanema að fá
aðgang að háskólum Evrópu-
bandalagsríkjanna, þar sem þegn-
ar aðildarríkjanna séu látnir ganga
fyrir“. Þvert á móti hefur ítrekað
verið bent á að góðum nemendum
standi þessir háskólar opnir með
sama hætti og verið hefur. Ekki
eru líkur til þess að aðgangur er-
lendra stúdenta verði þrengdur og
víða, t.d. í Þýskalandi, er 10%
kvóti fyrir erlenda stúdenta en sá
kvóti er yfirleitt ekki fullnýttur.
Margir háskólar reyna einmitt að
laða að erlenda stúdenta þar sem
þeir eru taldir líklegir til að efla
viðskipti og tengsl við gestgjafana
er þeir komast í áhrifastöður síðar
meir og menntun þeirra er þá tal-
in góð fjárfesting þegar til lengri
tíma er litið. Framhaldsnám er enn
opnara fyrir nemendur og mun
verða vaxandi samkeppni háskóla
um stúdenta í slíku námi.
Háskólar í Evrópu krefjast al-
mennt ekki skólagjalda. Þar sem
einhver skólagjöld tíðkast fá
heimamenn styrki til náms sem
eru hærri en skólagjöldin. Raun-
veruleg skólagjöld eru því aðeins
greidd af eriendum stúdentum, t.d.
í Bretlandi.
2. Skólagjöld þau sem nú eru
til umræðu eru hugsuð sem sér-
tekjur til að bæta að hluta upp
skerðingu þá sem áformuð er á
ijárvetingum til skólanna. Skóla-
gjöldunum er þar með ætlað að
greiða hluta af reksturskostnaði
skólanna en ekki að hækka laun
kennara.
3. Með formlegu mati nemenda
á námskeiðum og þjónustu kenn-
ara hafa nemendur nú þegar tæki-
færi til að ná fram betri kennslu
og hefur sú orðið raunin eftir að
þessi háttur var tekinn upp í Há-
skóla íslands.
Bandarískir háskólar eru eink-
um frægir fyrir það framhaldsnám
og vísindarannsóknir sem þeir,
sumir hveijir, geta boðið upp á.
Margir þessara þekktu háskóla
liggja undir þungu ámæli fyrir að
vanrækja nemendur í grunnnámi
til BA- eða BS-prófs. En þar
tíðkast víða að fela aðstoðarmönn-
um stóran hluta af kennslunni.
4. Undanfarna áratugi hefur
verið litið svo á að tækifæri til
menntunar væru mannréttindi. Ef
nemendum verður ætlað að greiða
rekstur skólanna þá hverfum við
aftur til fortíðar og aukinnar mis-
mununar manna eftir efnum og
aðstæðum. Skólagjöld munu þá
hækka ört, eins og t.d. í Banda-
ríkjunum og í raun útiloka marga
efnalitla nemendur frá námi nema
afburðanemendur sem allir vilja
styrkja.
5. Fjái-veitingar til Háskóla ís-
lands voru skornar niður um 4%
1989 vegna sérstaks sparnaðar í
ríkisrekstri. Háskóladeildir hafa
verið knúnar til að hagræða og
spara með ýmsum hætti. Raunfj-
árveitingar til Háskóla íslands
hafa verið nánast óbreyttar
síðustu fjögur árin þrátt fyrir að
nemendum hefur íjölgað um meira
en 600 á sama tíma, en það svar-
ar til nemendafjölda eins fram-
haldsskóla.
6. Efnahagur íslensku þjóðar-
innar mun ekki batna við að skera
á slagæðar þeirra mennta- og
vísindastofnana sem eiga að
styrkja undirstöður þjóðfélagsins.
Hafa ber í huga að það eru ekki
aðeins nemendur sem njóta hags
af menntun og starfsþjálfun. Það
eru einnig atvinnurekendur sem
ráða kandidata til starfa að námi
loknu og það er í reynd þjóðin öll
sem nýtur þjónustu þeirra sem
afla sér menntunarinnar.
Aths. ritstj.: Morgunblaðið bið-
ur háskólarektor velvirðingar á
því, að hafa farið rangt með um-
mæli hans um aðgang að erlendum
háskólum.
íviurguiiuiauiu/ onuiTT onunusun
Gott berjasumar
Beijaspretta hefur verið einstaklega góð í sumar, enda hefur tíðarfar
verið með besta móti, eins og kunnugt er. Margir hafa verið iðnir við
að fara í beijamó og hafa þá líklega víða rekist á stór og myndarleg
aðalbláber, eins og þessi sem nýlega urðu á vegi Snorra Snorrasonar
ljósmyndara í Ólafsijarðannúla.
Mauno Koivisto, forseti Finnlands:
Valdaránið réð
úrslitum fyrir
Eystrasaltsríkin
MAUNO Koivisto, forseti Finnlands, er þeirrar hyggju að Finnar
hafi farið rétt að er þeir fylgdu fordæmi Norðurlanda í því að taka
upp sljórnmálasamband við Eystrasaltsríkin. Mauno Koivisto hélt í
gær af landi brott eftir fimm daga heimsókn til íslands. Morgunblað-
ið náði tali af honum á Þingvöllum og ræddi við hann um stöðu
Eystrasaltsríkjanna og Evrópubandalagið.
Morgunblaðið/Þorkell
Mauno Koivisto, forseti Finnlands, horfir út um glugga kvistherberg-
is í sumarbústað forsætisráðherra á Þingvöllum.
Finnar tóku upp stjórnmálasam-
band við Eystrasaltsríkin 29. ágúst.
Áður höfðu þeir haldið því fram að
stjórnmálasamband yrði ekki tekið
upp við Eystrasaltsríkin fyrr en þau
hefðu samið um sjálfstæði sitt við
Sovétríkin. Ekki er nema rúm vika
síðan Koivisto sagði í sjónvarpsvið-
tali að stefna Finna gagnvart
Eystrasaltsríkjunum væri enn sú
sama, Finnar styddu sjálfstæðisbar-
áttu Eystrasaltsríkjanna og afstaða
Rússa skipti mikíu. Koivisto var
spurður hvort Finnar hefðu átt að
láta fyrr til skarar skríða.
„Því var eins farið með Finna og
marga aðra að við viðurkenndum
innlimun Eystrasaltsríkjanna í Sov-
étríkin ekki opinberlega heldur að-
eins í raun,“ sagði Koivisto. „Það
voru aðeins Svíar og Spánveijar,
sem viðurkenndu innlimunina árið
1940 að lögum og þeirra staða var
erfiðari. Nú höfum við tekið upp
stjórnmálasamband og skipti á
sendiherrum munu fara fram.“
Frumkvæði Norðurlanda og
viðurkenning Rússa
Koivisto kvað einkum tvær
ástæður liggja að baki því að Finnar
ákváðu að taka upp stjórnmálasam-
band við Eystrasaltsríkin. „Framtak
hinna Norðurlandanna leiddi til þess
að við gerðum slíkt hið sama,“ sagði
Koivisto. „En það var einnig mikil-
vægt fyrir Eystrasaltsríkin að fá
viðurkenningu Rússa, þótt stjórn-
málasamband bíði þar til síðar. Ég
bendi á það að valdaránið réði úrslit-
um fyrir Eystrasaltsríkin. Eftir það
var brýnt að reyna að koma málefn-
um Eystrasaltsríkjanna á skrið eins
fljótt og auðið var.“
Koivisto sagði að margar spurn-
ingar hefðu nú vaknað á ný. Hann
vildi hins vegar ítreka að þau rök,
sem Finnar notuðu eftir seinna stríð,
hefðu ekki verið sett fram sem skil-
yrði og benti í því sambandi á það
að afstaða Finna til sjálfstæðis Eyst-
rasaltsríkjanna hefði verið sú sama
frá því að stjórnmálasamband var
tekið upp 1920.
Finnar sögðu einnig að það væri
ekki hægt að taka upp stjórnmála-
samband við ríki, sem til dæmis
réðu ekki yfir eigin landamærum.
Koivisto var spurður hvort spurn-
ingin um réttarstöðu ríkis hefði
skipt máli.
„Hvort við hefðum átt að fara
þá leið? Það er hægt að líta svo að
ríki verði að geta haft virkar stofn-
arnir erlendis til þess að þau geti
efnt til stjórnmálatengsla við önnur
ríki,“ sagði Koivisto, en bætti því
við að það hefði tafið fyrir að fara
þá leið og eftir viðurkenningu Rússa
hefði i raun verið kominn grundvöll-
ur til að ætla að svo væri komið.
Þessi afstaða sýnir hve Finnar
telja að Borís Jeltsín, forseti Rúss-
lands, sé valdamikill. Því má bæta
við að Koivisto hefur boðið Jeltsín
í heimsókn til Finnlands með þeim
orðum að sigur lýðræðisins hefði
mikla þýðingu á alþjóðlegum vett-
vangi.
Koivisto hélt því fram að atburð-
irnir í Sovétríkjunum hefðu verið
þolraun fyrir finnska utanríkis-
stefnu og það hefði verið mikilvægt
að Finnar létu bæði í ljósi gagnrýni
og gáfu út sameiginlega yfirlýsingu
um valdaránið ásamt hinum Norður-
landaþjóðunum.
Lítum til íslendinga,
Norðmanna og Svisslendinga
Viðræðurnar um aðild ríkja
Fríverslunarbandalags Evrópu
(Efta) að Evrópska efnahagssvæð-
inu (EES) hafa ekki verið ofarlega
á baugi í almennri umræðu i Finn-
landi. Koivisto var spurður hver
framtíð Finnlands væri í Evrópu-
bandaiaginu (EB) og EES.
„Viðræður Efta og EB hafa verið
erfiðar. Niðurstaða átti að nást í
júlí, en það hafðist ekki vegna sjáv-
arútvegsmálanna. Nú er miðað við
að allt verði frágengið árið 1993
og þá verði hægt að opna innri
markaði og sinna efnahagslegum
þörfum.“ Koivisto sagði að það
væri fljótasta leiðin.
Því hefur verið haldið fram að
Finnar muni horfa til Svíþjóðar þeg-
ar þeir fjalla um aðiid að Evrópu-
bandalaginu. Koivisto sagði að ekki
yrði aðeins tekið mið af Svíum, sjón-
armið íslendinga og Norðmanna
myndu einnig skipta miklu máli.
Aðild að EB væri ekki sjálfgefin og
í Noregi hefði spurningin um aðild
einu sinni leitt til falls ríkisstjórnar.
Þá væri ekki hægt að horfa fram-
hjá því hvernig Svisslendingar færu
að. Fordæmi þeirra væri sérstaklega
mikilvægt fyrir Finna. Hann var
hins vegar þeirrar hyggju að það
væri ekki á döfinni að veita nýjum
ríkjum aðild að Evrópubandalaginu.
Nú hefðu Austurríkismenn og Svíar
sótt um og líða myndi langur tími
þar til önnur ríki kæmust að.
Koivisto kvaðst hafa rætt við
Davíð Oddsson forsætisráðherra og
Jón Baldvin Hannibalsson utanríkis-
ráðherra um viðræðurnar um EES.
Hann sagðist hafa orðið þess
áskynja að ríkisstjórn íslands vildi
fá niðurstöðu í viðræðurnar um
EES, en fengist hún ekkij eða yrði
ekki viðsættanleg, kæmi ekki til
greina að gera tilslakanir.
~""l............ ..................
2 nýjar hol-
ur við Kröflu
TILRAUNABORANIR standa nú
yfir við Kröflu. Boraðar verða
tvær grunnar kjarnaborholur við
Sandabotnaskeið suður af stöðv-
arhúsinu. Að sögn Ágríms Guð-
mundssonar jarðfræðings sem
umsjón hefur með verkinu eru
þetta rannsóknir á hugsanlegum
vinnsluhæfum svæðum í grennd
virkjunarinnar. Áætlað er að ljúka
verkinu um miðjan september.
Jafnframt þessum borunum var
reynt að losa stíflu úr öflugustu bor-
holunni við Kröflu en það tókst ekki
sem skyldi. Holan stífiaðist í fyrra
er fóðring í henni fór I sundur.
Ásgrímur segir að lagfæringin á
holunni sé tímafrek og dýr og því
ákveðið að hætta henni í bili. Holan
gaf af sér 8-10 MW og lagfæring
hennar er hluti af athugun á hvort
svæðið sé orðið vinnsluhæft á ný
eftir síðustu eldsumbrot. Þeirri at-
hugun á að ljúka næsta sumar.
Niðurstöður rannsókna á tilrauna-
borholunum tveimur liggja fyrir í
fyrsta lagi í lok september.
------« ♦ »
Minni sala á
heitu vatni
GUNNAR Kristinsson hitaveitu-
sljóri segir að hlýindin síðastliðið
ár muni hafa áhrif á sölu á heitu
vatni Hitaveitunnar en hins vegar
hafi samdrátturinn af þeim völd-
um ekki verið áætlaður. Það komi
ekki fram fyrr en uppgjöri árs-
reikninga lýkur á næsta ári.
„Það verður eitthvað minni sala í
ár eins og alltaf þegar árin eru hlý,“
sagði Gunnar. Hann sagði að gott
útlit væri framundan, fyrirsjánlegt
væri nægt heitt vatn. Þá hefðu stofn-
æðar borgarinnar verið hreinsaðar í
sumar og mótstaða í þeim minnkað
verulega sem hefur í för með sér
betri flutningsmöguleika.
Deilur vegna þings Sambands ungra sjálfstæðismanna:
Enginn vafi á ólög--
mæti kjörbréfanna
- segir Einar Páll Tamimi, einn stjórnarmanna SUS
EINAR Páll Tamimi, í nýkjörinni
stjórn Sambands ungra Sjálf-
stæðismanna, var einn þeirra
sem gerði athugasemd við lög-
mæti kjörbréfa á þingi SUS á
Isafirði. Sagði hann að honum
þættu varnartilraunir Davíðs
Stefánssonar formanns SUS í
viðtali í Morgunblaðinu, frekar
broslegar, þar sem hann haldi
því fram að vafi hafi leikið á
lögmæti kjörbréfa. „Það er al-
rangt, það lék enginn vafi á að
þetta voru ólögleg kjörbréf,"
sagði Einar. „Þvert á móti var
þarna hópur manna auk þeirra
sem var vísað frá, sem voru með
kjörbréf í samræmi við mjög
vafasama túlkun á lögum SUS.“
Einar sagði, að á þinginu hafi
komið í ljós að meðal fulltrúa voru
menn, sem ekki eru flokksbundnir
sjálfstæðismenn auk annarra sem
voru á þinginu án vitundar for-
manna og stjórnarmanna í þeim
félögum sem þeir voru skráðir full-
trúar fyrir. „Ég var í hópi manna
sem sá ástæðu til að gera athuga-
semd,“ sagði Einar. „Viðbrögðin
voru lítil til að byija með en þegar
fundarstjórinn, Árni Sigfússon,
frétti hvað um var að vera sá hann
ástæðu til að halda fund með for-
mönnum allra félaganna, þar sem
farið var yfír kjörskrá. Kom í ljós
að þarna var óhreint mjöl í poka-
horninu. Menn grínast ekki með það
að láta endurtaka kosningu á þingi
sem þessu.“
Hópur manna með vafasöm
kjörbréf
Sagði hann að auk þess hafi ver-
ið á fundinum hópur manna með
kjörbréf í samræmi við vafasama
túlkun á lögum SUS og í ósamræmi
við skipulagsreglur flokksins.
„Þannig geta menn verið fulltrúar
fyrir félög í öðrum landshluta og
það jafnvel þó þeir hafi aldrei verið
í viðkomandi félögum. Þessum
mönnum var leyft að vera áfram á
þinginu vegna þess að vafi lék þar
á um lögmæti þeirra bréfa en það
var alls engin vafi um lögmæti
þeirra sem var vikið af þinginu,“
sagði Einar. „Þetta er móðgun við
greind þeirra formanna sem sátu
fundinn og allra annarra fundar-
manna sem fylgdust með því sem
fram fór.“
Einar sagði það eðlilegt ef búast
mætti við kosningum að smalað
væri á fundi en það yrðu að vera
löglegir fulltrúar. „Það eru takmörk
fyrir hvað hægt er að ganga langt,“
sagði hann. „Það er ekki hægt að
fá þangað fulltrúa sem ekki hafa
rétt til þingsetu og eru aðkeyptir
málaliðar til að skekkja niðurstöðu
fundar, þar sem eingöngu eiga að
vera fulltrúar Sjálfstæðisfélaganna.
Þetta er lítisvirðing við almennan
flokksmann sem kosinn er til setu
á þingið. Núverandi stjórn Heim-
dallar hefur breytt sínum reglum í
þá veru að einungis þeir sem geta
sýnt fram á að þeir séu félagsmenn
í Heimdalli fá að sitja aðalfundi.“
Lýðræðislegar hefðir að
leiðarljósi
„Ég tel að í hreyfingu eins og
Sambandi ungra sjálfstæðismanna,
sem starfar eftir lýðræðislegum
hefðum og hefur þær að leiðarljósi,
sé nauðsynlegt að menn sýni
ákveðnu siðgæði virðingu og virði
leikreglur lýðræðisins sem okkur
er ætlað að vinna eftir,“ sagði Ein-
ar. „Þegar út af því bregður eins
og gerðist á þessu þingi þá finnst
mér nauðsynlegt að hinir ábyrgu
séu látnir svara fyrir það með ein-
hveijum hætti. Ég vona að stjórn
SUS beri gæfu til að kryfja þetta
mál innan sinna raða. Ef það geng-
Einar Páll Tamimi
ur ekki þá kann að reynast nauð-
synlegt að leita til æðri stjórnar í
flokknum,“
Einar telur að vafi hljóti að leika
á lögmæti þingsins eins og málum
er komið og að jafnvel ætti að kalla
saman annað þing. Auk efasemda
um kjörbréf fundarmanna kom
fram ásökun um misbresti í inn-
heimtu. Sagði Einar að kjörbréfum
hefði verið dreift til fundarmanna
af aðilum sem ekki voru starfsmenn
flokksins né í kjörbréfanefnd án
þess að sýnilegt væri að þeir tækju
við greiðslu. Einn stjórnarmanna
ákvað þá að krefjast þess af gjald-
kera þingsins, sem jafnframt er
framkvæmdastjóri SUS, að talið
yrði upp úr kassanum og kannað
hvort upphæðin stemmdi við þau
kjörbréf sem búið var að dreifa.
Þessu var hafnað en að tillögu Árna
Sigfússonar var samþykkt að pen-
ingakassinn yrði geymdur á borði
fyrir framan alla fundarmenn og
að talið yrði upp úr honum að lok-
inni kosningu. „Þegar seinni kosn-
ingu lauk var peningakassinn búinn
að þvælast um allann bæ, af ein-
hvetjum undarlegum ástæðum, sem
ekki er hægt að skýra og kom ekki
í hús fyrr en um tveimur tímum
síðar,“ sagði Einar. „Þá kom í ljós
að of mikið var í kassanum eða á
annað hundrað þúsund króna. Fátið
virðist. hafa verið slíkt að allt var
gert til að bæta í kassann án þess
að telja og reikna því þarna voru
tugir þúsunda umfram þá skipti-
mynt sem var í kassanum við upp-
haf þingsins. Þetta getur ekki talist
traustvekjandi. Það er haft eftir
Davíð Stefánssyni að það hafi
tíðkast að menn leysi út kjörbréf
fyrii' heil félög eða hópa en það er
ekki í lagi. Kjörbréfanefnd og
starfsmenn flokksins bera fulla
ábyrgð á að hvert og eitt kjörbréf
fari í réttai* hendur. Þetta eru því
ekki eðlileg vinnubrögð að selja til
dæmis formanni félags sjálfdæmi
um hvað gera á við kjörbréf þeirra
sem ekki mæta.“
Einar gerir enn fremur athuga-
semd við yfirlýsingu formanna fjög-
urra félaga vegna lögmæti kjör-
bréfa nokkurra þingfulltrúa í við-
komandi félögum. „Þarna skrifa
undir fjórir aðilar sem eiga gríðar-
lega hagsmuni undir því að hylma
yfir það sem þarna fór fram,“ sagði
Einar. „Þetta eru formenn félaga
sem urðu uppvísir að því á fundinum
að hafa óhreint mjöl í pokahorninu.
Það er ekki sæmandi að láta hér
við sitja úi' því sem komið er. Fólk
gerir þá kröfu til Sjálfstæðisflokks-
ins að hann hafi stofnanir og vilja
til að taka á svona málum. Það
mun hafa mikil áhrif á traust
manna til flokksins hvernig hann
bregst við.“
Athugasemd formamia
og varaformanna
5 aðildarfélaga SUS
VEGNA umfjöllunar um þing Sambands ungra sjálfstæðismanna á
Isafirði 16. til 18. ágúst, sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn
31. ágúst, viljum við undirritaðir formenn og varaformenn aðildar-
félaga SUS taka eftirfarandi fram:
Þegar stjórnarkjör var hafið á
síðasta degi þingsins komu upp
miklar efasemdir um gildi kjör-
bréfa nokkurs hluta þingfulltrúa.
Var af þeim sðkum boðað til fund-
ar með þeim formönnum eða vara-
formönnum aðildarfélaga SUS,
sem á þinginu voru. Undirritaðir
voru fulltrúar félaga sinna á þess-
um_ fundi.
Á fundinum var farið yfir lista
með nöfnum þeirra, sem fengið
höfðu afhent kjörbréf á þinginu.
Voru athugasemdir gerðar við
a.m.k. 14 nöfn, en auk þess vökn-
uðu spurningar vegna nokkurra
annarra. Það skal tekið fram að
ekki gafst kostur á að kanna öll
kjörbréfin vandlega, heldur aðeins
þau, sem sérstakar athugasemdir
voru gerðar við þegar listinn var
lesinn yfir. Athugasemdir voru
gerðar við þessa 14 þar sem aug-
ljóst þótti að viðkomandi einstakl-
ingar hefðu ekki verið kjörnir til
setu á þinginu með réttum hætti
og væru þar með ekki löglegir
þingfulltrúar. Þær athugasemdii:,
sem komu fram á fundinum, voru
í langflestum tilvikum frá for-
mönnum eða varaformönnum
þeirra aðildarfélaga, sem um-
ræddir einstaklingar voru sagðir
fulltrúar fyrir.
Það varð því úr, að ákveðið var
að stjórnarkjör skyldi endurtekið
og umræddum fulltrúum vikið af
fundi. Það breytir þó engu um það
að eðlilegt er að skoða málið ofan
í kjölinn og leita skýringa á því
hvernig vafamál af þessu tagi
geta komið upp. Engar fullnægj-
andi skýringar hafa enn komið
fram og er því biýnt að stjórn
SUS taki málið til ítarlegrar skoð-
unar. í slíkri skoðun er ekki ein-
göngu ástæða til að kanna mál
þeirra einstaklinga, sem ákveðið
var að víkja af þinginu, heldur
allra þeirra, sem fengu afhent
kjörbréf. Slík málsmeðferð er
nauðsynleg til að hreinsa andrúm-
loftið og koma í veg fyrir að at-
burðir af þessu tagi endurtaki sig
innan SUS.
Reykjavík 2.9.1991,
Birgir Ármannsson, formaður
Heimdallar í Reykjavík,
Elínborg Sturludóttir, formaður
Sifjar á Stykkishólmi,
Kjartan Björnsson, formaður
Hersis i Árnessýslu,
Sigmar Guðmundsson, varaform-
aður Hugins í Garðabæ,
Sveinn Oskar Sigurðsson, vara-
formaður Fjölnis í Rangárvalla-
sýslu.