Þjóðviljinn - 22.12.1946, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 22.12.1946, Blaðsíða 6
4 Þ JÓÐVIL JINN Jólin 1946 úr klútnum, braut hann í þríhyrning og hnýtti hann á sig að nýju. Hreyfingar hennar voru þrungnar slíkri mýkt og varfærni, að það var engu líkara en hún væri að hand- fjalla viðkvæmar rósir. í>ú komst ekki á ungmennafélagstombóluna í sumar sagði hún kankvíslega og dró seiminn, en grænleiti kemb- ingurinn í augum hennar stafaði frá sér flöktandi bliki. Af hverju komstu ekki? Við vorum að hirða, svaraði hann og leit óviljandi á bláar æðarnar á fótleggjum hennar, um leið og hann beygði sig niður til að slíta upp hálfsölnað puntstrá. Eg gat ekki farið. Það var leiðinlegt, sagði hún vorkunnlát og skýrði honum frá því, að tombólan í sumar hefði verið sú skemmtilegasta tombóla, sem ungmennafélagið hérna í sveitinni hefði haldið. Eg dró kaffirótarstöng og títu- prjóna! skríkti hún og bætti því við í trúnaði, að hamingj- an hefði auk þess fært henni upp í hendurnar gamlan, harðan og myglaðan þorskhaus, sem strákarnir í Móakoti höfðu gefið á tombóluna af eintómum prakkaraskap. Þeir höfðu látið gleymmérei í öskjuna hjá þorskhausnum! Síðan varð henni litið á árvaðið, þar sem vatnið streymdi hnédjúpt yfir klappir og mulningi, tært og kalt, gárótt og niðandi, — hún laut áfram á þúfunni, andvarpaði lágt og gerði sig líklega til að fara úr sokkn- xun. Heyrðu, sagði pilturinn, viltu ekki fá hestinn yfir ána? Æ-jú, þakka þér fyrir, sagði hún. Skelfing er ég fegin! Þú verður bara að ríða berbakt, sagði hann afsakandi. Það er verst, ef þú verður hrossamóðug. Uss, hvað ætli það geri til! Og svo ætla ég að biðja þig að stugga við klárnum, þegar þú ert komin yfir. Eg þarf að flytja nokkrar torf- ur á honum fyrir kvöldið. En ef hann hleypur eitthvað út í buskann? sagði hún. Hvað á ég þá að gera? Sumir hestar eru svo pöróttir og styggir.... Ja, hann er nú eiginlega ekkert styggur, tautaði piltur- ínn dálítið óákveðinn og leit rannsakandi á Grána, eins og hann byggist við því, að hann tæki til máls eða reyndi á einhvern hátt að hnekkja þessum niðrandi og óverðskuld- uðu grunsemdum. En Gráni gamli var sami málleysing- inn og endranær, hann japlaði á beizlismélinu og lagði kollhúfur, stúrinn á svip og móðgaður, því að hann hafði ekki hlaupið út í buskann, siðan hann var folald, og verið öðrum hestum til fyrirmyndar um stillingu og þægð, eft- ir að hann komst á fullorðinsaldur. Pilturinn tvísteig óró- lega og brytjaði sundur puntstráið milli tannanna. Það var eins og athugasemd stúlkunnar hefði svipt burtu trausti hans á Grána gamla og sett hann í mikinn vanda. Við gætum kannski tvímennt, sagði hann eftir langa umhugsun og horfði niður fyrir fætur sér. Tvímennt? Já, þar komstu með það, sagði hún þakklát og greip sokkinn sinn af lyngþúfunni. Við getum tvímennt, það er líka- satt! Auðvitað getum við tvímennt! Hann hlustaði eins og í leiðslu á rödd hennar, mjúka, skæra, blækvika og innilega. Iíún gerði hann strax að trúnaðarmanni sínum og sagðist hafa kviðið fyrir að vaða yfir ána frá því hún lagði af stað frá Gili í morgun, hana svimaði alltaf, þegar hún færi yfir straumvatn, hún væri svo huglaus og kjarklítil, ef til vill svolitið hjartveik að eðlisfari, 'hún fengi stundum einkennilegan sting fyrir brjóstið, það hefði sannarlega komið sér vel, að hann skyldi rekast hingað í þessum svifum. En þrátt fyrir trúnaðinn og innileik raddarinnar var hann stöðugt feiminn og hljóðlátur. Sigrún María hafði tekið stakkaskiptum, síðan þau sáust í fyrravetur. Hún kom honum ókunnuglcga fyrir sjónir og vakti einhvern titring kringum hjartað, sem hann hafði aldrei fundið áð- ur. Hann þorði varla að líta á hana, fór hjá sér og roðn- aði, en sá þó allt, sem hafði breytzt og ummyndazt í sumar. Hún var ekki lengur föl og gelgjuleg, eins og þegar hún stóð fyrir utan kirkjuna á pálmasunnudag og sveipaði að sér kápunni í einmánaðarfrostinu. Nei, hún hafði eignazt nýtt vaxtarlag, nýjan líkama á fáeinum mánuðum. Það geislaði af henni þroskinn: Varirnar höfðu öðlazt mjúka fyllingu, skrautprjónaða peysan ólgaði yfir brjóstunum og æðarnar tvinnuðust saman og greindust sundur á kúptri ristinni, bláar og hríslóttar eins og örsmáir lækir. Ösköp er ég klaufaleg í dag, sagði hún hlæjandi, þegar hún hafði brotið sokkinn á hæl. Framleisturinn er eitt- hvað svo stamur og óþjáll! Eg hef líklega dignað í fæt- urna, þegar ég gekk yfir mýrarskömmina hjá Gili! Hann sagði ekki neitt og fitlaði í vandræðum sínum við beizlistauminn, en sneri sér undan og strauk Grána gamla um flipann, meðan hún festi sokkana við teygjuböndin undir pilsinu og reimaði að sér öklaháa stígvélaskóna. Það voru dökkir, fallegir stigvélaskór, sem faðir hennar hafði sennilega gefið henni í vor eða sumar. Hann mundi, að hún hafði verið miklu lakar búin til fótanna, þegar hún stóð fyrir utan kirkuna á pálmasunnudag og sveip- aðí að sér kápunni í einmánaðarfrostinu. ^æja, þá er ég loksins tilbúin, sagði hún og tók pinkil- inn sinn. Á ég að vera fyrir framan eða aftan? Mér er alveg sama, sagði hann. Hvort viltu heldur? Eg vil heldur vera fyrir framan, sagði hún og greip í faxið á Grána gamla, tyllti sér á tá, strengdi varirnar of- urlitið og hóf sig í einu vetfangi á bak hestinum. Hún hló, þegar pilturinn hafði gert tvær misheppnaðar atrenn ur til að leika eftir henni þetta fjaðurmagnaða stökk; en

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.