Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1993, Blaðsíða 41
GUNNAR HARÐARSON
Sveinbjörn Egilsson 1791—1991
í æviágripi sínu segist Sveinbjörn Egilsson vera fæddur í Innri-
Njarðvík 6. mars 1791 (annan fimmtudag í góu). Hins vegar hefur
hann það annars staðar eftir skírnarseðli frá Utskálum að hann
muni fæddur 24. febrúar og skírður daginn eftir. Almennt taka
menn nú orðið meira mark á skírnarseðlinum, en sökum þess að
Sveinbjörn taldi lengst af að hann væri fæddur annan fimmtudag í
góu, varð það að ráði að halda þennan fund í Félagi íslenskra
fræða í samræmi við það.1
Sveinbjörn var sonur Egils Sveinbjarnarsonar útvegsbónda og
Guðrúnar Oddsdóttur, konu hans, sem var ættuð úr Grindavík.
Hjá þeim ólst hann upp til 10 ára aldurs og var þá eins og hann
sjálfur segir „búinn að læra stóra stílinn í Balles lærdómsbók og
farinn dálítið að skrifa“.2 Eftir það var honum komið í fóstur til
Magnúsar Stephensens dómstjóra sem síðast sat í Viðey. Svein-
björn hneigðist snemma til bóknáms og naut í því tilsagnar
Hákonar Jónssonar, síðar prests á Eyri við Skutulsfjörð, en einnig
Gríms Pálssonar, síðar prests á Helgafelli, og séra Þorvalds Böðv-
arssonar á Reynivöllum. Tvo síðustu veturna kenndi honum séra
Árni Helgason, síðar prófastur í Görðum á Álftanesi, og frá
honum útskrifaðist Sveinbjörn árið 1810. Napóleonsstyrjaldirnar
komu í veg fyrir að hann sigldi til náms við Kaupmannahafnarhá-
skóla fyrr en haustið 1814. Hann lagði fyrst stund á heimspekileg
forspjallsvísindi, en síðan guðfræði og lærði meðal annars arab-
ísku auk hebreskunnar og grískunnar. Embættisprófi í guðfræði
lauk hann með ágætiseinkunn 11. janúar 1819 og var skömmu
síðar ráðinn kennari að Bessastaðaskóla. Þar kenndi hann einkum
grísku og sögu, og var það aðalstarf hans um 32 ára skeið. Margir
af fremstu rithöfundum og menntamönnum 19. aldar voru
1 Lestur þessi er annar af tveim sem fluttir voru í Félagi íslenskra fræða annan fimmtudag
í góu 1991 í tilefni af tveggja alda afmæli Sveinbjarnar Egilssonar. Hinn flutti Kristján
Árnason, skáld og bókmenntafræðingur. - Skylt er að geta þess að nokkrir hlutar þessa
lestrar eru byggðir á inngangskafla mínum að þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar á
Menóni eftir Platón, sem kom út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi árið 1985.
2 Æfi S. Egilssonar. Ljóðmœli Sveinbjarnar Egilssonar, Reykjavík 1952, bls. 47.