Morgunblaðið - 13.02.2001, Blaðsíða 42
UMRÆÐAN
42 ÞRIÐJUDAGUR 13. FEBRÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Í MORGUNBLAÐINU 23. janú-
ar er viðtal við Sölva Sveinsson
skólameistara Ármúlaskóla um fyr-
irhugað námskeið í ritun minningar-
greina. Sölvi gagnrýnir ýmislegt í
þróun þessarar rithefðar síðustu ár-
in. „Það hefur dregið úr því að menn
lýsi hinum látna.“ Þess í stað lýsi
menn fremur sjálfum sér. Og Sölvi
harmar að minningargreinar séu æ
oftar sendibréf til hins látna. Guðrún
Egilson tók í sama streng í Rabb-
grein í Lesbók 23. september s.l. og
einnig Ragnheiður Margrét Guð-
mundsdóttir í lesendabréfi 26. októ-
ber. Telur Ragnheiður nauðsynlegt
að þessi mál séu rædd af hreinskilni.
Það er varla einleikið hve lítið er
rætt um eitthvert fyrirferðarmesta
efni í mest lesna blaði landsmanna.
Yfir umræðunni um minningar-
greinar, þá sjaldan að hún fer fram,
hvílir líka viss bannhelgi eins og á
svo mörgum „viðkvæmum“ málum.
Bannhelgin virkar sem hemill á það
að menn segi raunverulega það sem
þeir meina. Ef menn gera það samt
má búast við því að þeir fái bágt fyr-
ir. Erfitt kunni jafnvel að reynast að
fá þannig skrif um minningargreinar
birt í blöðunum.
Af vissum ástæðum hef ég und-
anfarið orðið að lesa þúsundir minn-
ingargreina sem skrifaðar hafa verið
alla þessa öld. Eftir þann lestur tel
ég að eftirsjáin eftir hinu gamla
formi á minningargreinum hvíli því
miður ekki á traustum grunni. Það
er ekki formið sem máli skiptir held-
ur innihaldið. Þó að hinar eldri grein-
ar virðist við fyrstu sýn segja frá ein-
staklingum með viss sérkenni,
verður lesanda ljóst þegar hann les
þær mjög margar saman að þær eru
yfirleitt byggðar á stöðluðum for-
skriftum og eru ótrúlega líkar. Þær
fjalla í rauninni ekki um einstaklinga
af holdi og blóði en birta hugsjónir
hvers tíma um það hvernig góður og
gegn maður eigi að vera. Yfirleitt er
því ekki hægt að taka
þessar lýsingar alvar-
lega sem fróðleik um
einstaklinga. Þeir sem
sinna ættfræði og per-
sónusögu gjalda því
mjög varhug við heim-
ildargildi minningar-
greina. Þá eru giftar
konur kapituli út af fyr-
ir sig. Langt framyfir
miðja öld fjölluðu
minningargreinar um
giftar konur alls ekki
um þær heldur eigin-
menn þeirra! Þá var
það og er enn sjaldgæft
að ritað sé að marki um
einhleypt fólk sem
deyr, nema ungmenni eða þjóðkunn-
ar persónur. Þetta sýnir það viðhorf
þjóðfélagsins, sem kemur víða fram
en aldrei má nefna, að einhleypt fólk
sé minna virði en fjölskyldufólk og
minningargreinahefðin viðheldur
einmitt þeim fordómum og festir þá
frekar í sessi.
Það er þá engin ástæða til að sjá
hinar gömlu minningargreinar í
fegruðu ljósi sem marktækar mann-
lýsingar, menningarverðmæti er nú
séu að glatast. Nýi stíllinn í minning-
argreinum er því síst verri en sá
gamli. En báðir eru
vondir. Líklega eru
hvergi í rituðu máli
hafðar í frammi aðrar
eins blekkingar og und-
anbrögð ýmiss konar
sem í minningargrein-
um. Ár eftir ár og ára-
tug eftir áratug. Og það
er ekki sorg og sökn-
uður aðstandenda (sem
eru reyndar öll þjóðin á
nógu löngum tíma),
sem veldur því hve
„viðkvæmt“ málið er í
umræðu heldur einmitt
þetta. Ég nefni aðeins
örfá atriði af handahófi
sem stinga í augu.
Hjónaskilnaðir eru ákaflega algeng-
ir. Það þýðir að mikil óhamingja ríkir
í mörgum hjónaböndum sem hefur
vitanlega áhrif á velferð barnanna.
Hvergi hattar fyrir þessu í minning-
argreinum. Deyr ekki þetta frá-
skilda fólk eða þeir sem ólust upp á
slíkum heimilum? Jú, mikil ósköp.
Minningargreinarnar í heild bregða
bara upp brenglaðri mynd af fjöl-
skyldulífi þjóðarinnar. Mörg börn
eru hér á landi, sem annars staðar,
vanrækt eða beitt ofbeldi. Þess sér
hvergi stað í eftirmælum. Og svo
taka allir dauða sínum svo ótrúlega
vel í minningargreinum. Í raunveru-
leikanum er allur gangur á því, sem
betur fer liggur mér við að segja.
Mennirnir eru nefnilega litlar,
hræddar og vanmegna verur. Þeir
eiginleikar fá okkur einmitt til að
þykja vænt hverju um annað en ekki
hinn persónulausi hetjuskapur sem
er nær einráður í minningargrein-
um. Kynslóð eftir kynslóð hafa minn-
ingargreinarnar brugðið upp falskri
glansmynd af lífi þjóðarinnar. Og í
seinni tíð virðist eins og það sé að
verða eins konar stöðutákn að fá um
sig margar blaðsíður af eftirmælum í
Morgunblaðinu. Litið er á það sem
hálfgerða hneisu fyrir hönd hins
látna ef engin grein kemur, eins og
Guðmundur Andri Thorsson víkur
að í Tímariti Máls og menningar ný-
lega. Hin ágæta grein Guðmundar
Andra er skrifuð út frá viðhorfum
bókmennta. Þó minningargreinar
séu vissulega bókmenntategund eru
þær þó fyrst og fremst félagslegt
fyrirbæri að mínum dómi.
Blekkingarnar í minningargrein-
um eru að vísu ekki framdar af illum
ásetningi. Þær uppfylla fremur þörf
okkar fyrir það að vísa frá óþægileg-
um málum og skapa goðsagnir um
mannlífið svo það verði bærilegra.
En þetta er mjög á kostnað heilinda
og sannleika sem er það mikilvæg-
asta í lífinu. (Kenning Nóbelskálds-
ins um það að líf manna sé ekki það
sem gerðist heldur það sem við mun-
um er einhver argasta villukenning
sem hugsast getur.) Verstar eru
greinar „þjóðkunnra manna“ um
„þjóðkunna menn“. Þar hafa form-
úlurnar minnsta merkingu. Þær
segja lítið um hinn látna en heilmikið
um hirðsiði samfélagsins, kurteisleg
látalæti þar sem ekkert er eins og
það sýnist. Minningargreinar birtast
nú orðið varla nema í Morgun-
blaðinu. Það á því fyrst og fremst sök
á þeim ekstra ógöngum sem sumir
telja að minningargreinaritun hafi
nú ratað í. Blaðið hefur ekki veitt
neitt aðhald. En samt boðar Morg-
unblaðið að það ætli að halda áfram
sömu stefnu. Þá er spurningin hvort
það ætli að loka úti gagnrýni á þá
stefnu.
Það er ekki mín meining að í minn-
ingargreinum eigi að skrifa um veik-
leika hins látna, hvað þá eitthvað
sem verði honum eða öðrum til
vansa. En greinarnar eiga heldur
ekki að vera þessi friðhelga þjóðar-
lygi sem eingöngu lifir á rótgróinni
félagslegri hefð. Besta lausnin er að
hætta huglægum minningargrein-
um. Þær ættu aðeins að birtast með
því sniði sem formáli þeirra hefur
núna: ýmsar hlutlægar staðreyndir
um ætt og lífsferil viðkomandi og
ekkert framyfir það.
Minningargreinar
Sigurður Þór
Guðjónsson
Þjóðfélagsmál
Minningargreinarnar,
segir Sigurður Þór
Guðjónsson, eiga ekki
að vera þessi friðhelga
þjóðarlygi sem ein-
göngu lifir á rótgróinni
félagslegri hefð.
Höfundur er rithöfundur.
VART hefur farið
fram hjá neinum, sem
lætur sig varða málefni
sjávarútvegsins, þær
blikur og óveðursský
sem þar hrannast upp
um þessar mundir. Búið
er að draga upp vísna-
kverið og hinn nýi
kvæðamaður LÍÚ,
Friðrik Arngrímsson,
er farinn að kyrja
gömlu „góðu“ stökurn-
ar hans Kristjáns.
Sú krafa hlýtur að
vera réttmæt að nýi
framkvæmdastjórinn
sem talsmaður og aðal-
samningamaður út-
gerðarmanna fái víðtækara umboð en
það sem hann virðist hafa haft til
þessa. Það er að segja að hafna öllu
sem briddað er upp á. Við sjómenn
hljótum að krefjast lágmarksþekk-
ingar á þeim aðferðum sem beitt er til
að ná árangri í samningum. Ég er
sannfærður um að Friðrik sjálfur býr
yfir þeirri hæfni sem þarf til árang-
urs, en það er ekki nóg. Hann er ein-
ungis málpípa þeirra sem nú ráða
ferðinni hjá samtökum útgerðar-
manna. Margir hafa heyrt minnst á
haukana í Pentagon í henni Ameríku.
Það eru víðar til haukar eða harðlínu-
menn, svo sem í LÍÚ. Það er einmitt
sá þröngi og áhrifamikli klúbbur sem
öllu virðist ráða og stjórna.
Nú er lag að þeirra mati til að taka
þessa sjóara fyrir nesið og valta yfir
þá til frambúðar. Stjórn LÍÚ hefur
trúlega einkaleyfi á þessari stórkost-
legu samningatækni sem kennd er við
eitt allsherjar nei.
Það er fáheyrt, ef ekki einsdæmi,
að í upphafi samningaviðræðna sé það
fyrsta útspil viðsemjenda að gefa yf-
irlýsingu um að tómt mál sé að tala
um neitt sem hugsanlega hafi aukinn
kostnað í för með sér fyrir útgerðina.
Vart er hægt að hugsa sér glataðri
byrjun á viðræðum. Hvaða flöt á að
finna á áframhaldandi viðræðum þeg-
ar fyrir fram er búið að loka á allt?
Allar stéttir launþega í landinu
hafa fengið ákveðnar úrbætur varð-
andi lífeyrissjóð. Tómt mál að tala um
segir Friðrik. Tryggingamál sjó-
manna eru til skammar. Sjómenn ör-
kumlast við vinnu sína og eru oftar en
ekki taldir eiga sjálfir sök á slysinu og
fá þar af leiðandi smánarbætur.
Slökkviliðsmaður sem meiddi sig á
fæti í fótbolta í vinnunni fær 8 millj-
ónir. Ekki að ræða það segir Friðrik.
Tímakaup sjómanna er lægra en
hjá börnunum þeirra í bæjarvinnunni.
Kauptrygging er fáránlega lág. Slipp-
fararkaup er brandari. Mér er tjáð að
farist flugmaður í starfi séu dánar-
bætur til handa aðstandendum hans
álíka háar og sem næmi heildar-
greiðslu til aðstandenda áhafnar ver-
tíðarbáts. Ekki að ræða það segir
Friðrik.
Það hlýtur eitthvað stórkostlegt að
vera að í atvinnugrein sem á nokkrum
árum hefur þróast í þá veru að lífsins
ómögulegt virðist fyrir þá sem að
greininni standa að tala sama tungu-
mál.
Hvað er þess valdandi að málin eru
í slíkum hnút sem raun ber vitni?
Er þetta e.t.v. einn veikleiki kvóta-
kerfisins og afleiðing þess?
Er það hlutafélagavæðingin og arð-
semiskröfurnar sem engu eira?
Hver er framtíðarsýn
þeirra sem ráða ferðinni
hjá LÍÚ?
Hafa þeir hugsað til
enda afleiðingarnar ef
krafa þeirra um fast-
launakerfi næði fram að
ganga? Gera þeir sér
vonir um að skipstjórn-
armenn verði að veiðum
í hálfvitlausum veðrum í
fastlaunakerfi? Halda
þeir að sjómenn þenji
sig 110% á sprettinum í
vinnu á föstu kaupi til
sjós? Muna þeir ekki
lengur ástandið þegar
menn voru sjanghæjað-
ir um borð sauðdrukkn-
ir eða stjarfir í dópinu. Er það e.t.v.
framtíðardraumurinn að leggja ís-
lensku sjómannastéttina niður, fjölga
snyrti- og aðgerðarborðum um borð
og hrúga síðan réttlitlu ódýru erlendu
vinnuafli á fiskiskipaflotann?
Spyr sá sem ekki veit. En það veit
ég að samningum hlýtur að vera hægt
að ná. Deiluaðilar hefðu t.d. gott af því
að fara á námskeið um gerð kjara-
samninga. T.d. hjá samninganefnd
grunnskólakennara. Það er gjörsam-
lega úr takti við tímann að við íslensk-
ir sjómenn búum við það ástand sem
nú er viðvarandi. Þetta er nú þegar
búið að stórskaða greinina, valda
ómældum búsifjum fyrir þjóðarbúið
og skemma andann og stemmninguna
sem sjómennskunni á að fylgja. Ég
skora á útgerðarmenn, sjómenn og
stjórnmálamenn að leggjast á eitt að
koma í veg fyrir að sjávarútvegurinn
fljóti sofandi að feigðarósi.
Forkastanleg
vinnubrögð
Árni
Bjarnason
Sjómannasamningar
Ég skora á útgerð-
armenn, sjómenn og
stjórnmálamenn, segir
Árni Bjarnason, að
koma í veg fyrir að
sjávarútvegurinn fljóti
sofandi að feigðarósi.
Höfundur er formaður Skipstjóra-
og stýrimannafélags Norðlendinga.
GREINARHÖFUNDUR hefur
oft gagnrýnt smáþorskavernd Haf-
rannsóknarstofnunar á þeim for-
sendum að reynslan
hafi sýnt, – ótvírætt, –
að þetta hafi minnkað
afrakstur þorskstofns-
ins.
Er það ekki stað-
reynd að afrakstur
þorskstofnsins hafi
minnkað um helming
síðan stefnan var tek-
in upp?
Rangar áherslur í
tölfræði virðast
„frostnar“ í tölvunni
og hún gefur falskar
upplýsingar sam-
kvæmt því. Smá-
þorskavernd virðist
þar að auki í mótsögn
við grundvallaratriði í
fiskilíffræði.
Reynum samt að setja okkur í
spor þeirra skipstjóra og fiski-
manna sem verða að þola að vera
hundeltir með þessa stefnu á hæl-
unum, hvernig þetta gengur fyrir
sig og hvernig „árangurinn“ er
mældur.
Á veiðar
Skipstjórar halda til veiða. Þeir
hugleiða hvert sé best að fara.
Þeir ræða saman í farsímann og
miðla upplýsingum um hvar
stærsta fiskinn sé helst að finna.
Skipstjórar kasta svo veiðarfær-
unum – (eða leggja veiðarfærin) –
þar sem þeir telja líklegast sé að
fá sem stærstan þorsk.
Varðskip kemur svo siglandi út
úr þokunni, – með marga eftirlits-
menn um borð. Eftirlitsmenn
skipta sér um borð í veiðiskipin og
mæla að þorskurinn
sé of smár. Svæðinu
er strax lokað í 14
daga (var áður 7 dag-
ar). Varðskipið heldur
svo áfram með eftir-
litsmennina, – hring-
inn í kringum landið,
– og sagan endurtek-
ur sig, – stundum oft
á dag. Skipstjórarnir
verða af fara burt af
veiðisvæðinu og eyða
tíma og rándýrri olíu
til að finna nýja veiði-
slóð.
„Árangurinn“
Skipstjórnarnir
neyðast svo til að
reyna fyrir sér á nýrri veiðislóð
þar sem jafnvel meira er af smá-
þorski. Búið er að loka flestum
svæðum þar sem skipstjórarnir
höfðu áður talið að skársti þorsk-
urinn væri. „Árangurinn“ af lok-
unarstefnunni er því öfugur við
markmiðin eins og fleira í þessu
rómaða stjórnkerfi.
Dellan heldur sífellt áfram að
hlaða utan á sig nýjum útgáfum af
ofstjórn og endaleysu. Smáfiska-
mörk voru fyrst 43 cm svo voru
þau 47 cm. Nú eru mörkin 50 cm
en Hafrannsóknarstofnun miðar
við 55 cm. Svo lengja þeir lokun úr
7 dögum í 14 daga. Alltaf er haldið
áfram með meiri öfgar. „Besta
fiskveiðistjórn í heimi“ hefur löngu
breyst í martröð endaleysu. Þeir
sem benda á galla stjórnkerfisins
eru lagðir í einelti. Kvóta er út-
hlutað á skip í nafni „fiskveiði-
stjórnar“. Svo kemur stjórnkerfi
númer tvö og verið að þvælast fyr-
ir vinnandi mönnum – hvernig þeir
veiða, – það sem þeim náðarsam-
legast var þó leyft að veiða, –
sundurliðað í kílógrömmum á
hverja fisktegund, – með tveimur
aukastöfum.
Aukaatriði er svo að rekstur
varðskips kosti eina milljón á dag
fyrir utan eftirlitsmenn. Hvað
munar svo sem um einn kepp í
þessari sláturtíð endaleysunnar.
Er það kannski misskilningur hjá
mér að fólki í sjávarþorpum sé
gefið daglega í skyn, – með einum
eða öðrum hætti, – að það geti far-
ið til andskotans, – og myndi helst
gera þjóðfélaginu mest gagn með
því að hypja sig suður á mölina í
verðbréfaleik með stóru krökkun-
um?
Sláturtíð
endaleysunnar?
Kristinn
Pétursson
Fiskveiðistjórnun
„Árangurinn“ af
lokunarstefnunni er,
að mati Kristins
Péturssonar, öfugur
við markmiðin eins
og fleira í þessu
rómaða stjórnkerfi.
Höfundur er framkvæmdastjóri.