Morgunblaðið - 14.02.2001, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. FEBRÚAR 2001 33
sameiginlegri niðurstöðu sem lögð verður til
grundvallar áframhaldandi starfi,“ sagði Árni M.
Mathiesen.
„Nákvæmlega ekkert að frétta“
Fjölmargir þingmenn stjórnar og stjórnarand-
stöðu tóku þátt í umræðunni, m.a. Páll Pétursson
félagsmálaráðherra og þingmenn sem sæti áttu í
Auðlindanefnd.
Tóku flestir undir það með Sverri Her-
mannssyni að fjalla hefði þurft um efni skýrsl-
unnar á Alþingi fyrr eða um það leyti sem skýrsl-
unni var skilað til forsætisráðherra.
Össur Skarphéðinsson sagði að ræða ráðherra
hefði verið sérkennileg. Í ræðuna hefði vantað
stefnu og beina afstöðu til þeirra tillagna sem
fram kæmu í skýrslu Auðlindanefndar, og hver af-
staða ráðherra væri til tímasetningar þeirrar
gjaldtöku sem lögð væri til.
„Saga auðlindamálsins er að verða sagan enda-
lausa,“ sagði formaður Samfylkingarinnar og
bætti við að miðað við stöðu málsins í dag væru
þær fréttir helstar af gangi þessa máls að ná-
kvæmlega ekkert væri að frétta. Það endurspegl-
aði ekki annað en það sem Sverrir Hermannsson
hefði kallað algert viljaleysi ríkisstjórnar til að
gera alvöru uppskurð á stjórnkerfi fiskveiða.
Össur nefndi að fregnir hefðu borist af því að
litlar líkur væru til þess að tækist að endurskoða
kvótalögin á þessu ári. Ráðherra virtist vera alveg
sama þótt frestaðist um heilt ár að leggja fram
frumvarp um þetta efni og ráðherra talaði raunar
eins og hann hefði engan sérstakan áhuga á að
málið kæmist á dagskrá fyrr en á næsta ári. Þá
væri líka enn auðveldara að spinna vef blekking-
arinnar lengra og enn auðveldara að fresta málinu
fram yfir kosningar.
Óskað eftir þverpólitískri samstöðu
um fiskveiðistjórnina
„Ég velti því fyrir mér hvort sá sé tilgangur rík-
isstjórnarinnar. Hæstvirtur ráðherra verður að
tala skýrt,“ sagði Össur ennfremur og beindi til
sjávarútvegsráðherra nokkrum spurningum, t.d.
hvort til greina komi af hans hálfu að fresta endur-
skoðun laganna fram yfir næstu kosningar og
hvort hann muni á þessu kjörtímabili beita sér fyr-
ir því að lagt verði fram frumvarp um að sérstöku
auðlindaákvæði verði bætt í stjórnarskrána, en
þar verði skýrð út réttarstaða eiganda auðlind-
anna, þ.e. þjóðarinnar, en þær aðeins látnar tíma-
bundið öðrum í té gegn sanngjörnu gjaldi.
Össur sagði ennfremur að í skýrslu Auðlinda-
nefndar hefði meginniðurstaðan falist í tillögu um
grundvallaraðferð til þess að deila út réttinum til
þess að nýta takmarkaðar auðlindir í sameign
þjóðarinnar. Í þessu skyni hafi nefndin lagt til að
boðið væri í réttinn á jafnréttisgrundvelli. Þetta
hafi verið leiðin sem lögð hafi verið til í því skyni að
thluta takmörkuðum gæðum eins og jarðefnum,
jarðhitaréttindum í eigu ríkisins, farsímarásum og
líka á sviði auðlinda sjávar. Að vísu hafi líka verið
tekin með fráviksleið sem felist í veiðigjaldsleið-
inni, en það breyti ekki því að þessi sameiginlega
niðurstaða nefndarinnar hafi verið eitt merkasta
framlag hennar.
„Nú virðist mér sem í hverju málinu á fætur
ðru sé ríkisstjórnin að taka ákvarðanir sem
ganga beinlínis í berhögg við niðurstöðu Auðlinda-
nefndarinnar,“ sagði Össur og nefndi máli sínu til
stuðnings nýlega ákvörðun samgönguráðherra
um s.k. samanburðaruppboð á rásum fyrir þriðju
kynslóð farsíma og einnig leiðir sjávarútvegsráð-
herra í málefnum brottkasts á sjávarafla.
Sagði Össur að Samfylkingin vildi leggja niður
kvótakerfið með svonefndri fyrningarleið á 10 ára
tímabili. Þar með yrði sameign þjóðarinnar
tryggð, jafnræði og nýliðun tryggð og byggðar-
lögin næst miðunum myndu njóta þess. Til við-
bótar geri tillögurnar ráð fyrir að hægt verði að
taka sérstakt tillit til sjávarbyggða þar sem við
mikla atvinnuerfiðleika sé að etja vegna skorts á
afla til vinnslu.
„Ég held að hér á Alþingi sé hægt að skapa
þverpólitíska samstöðu um lausn sem byggir á
meginreglunni úr skýrslu Auðlindanefndar. Ég vil
því spyrja sjávarútvegsráðherra hvort hann geti
ekki fallist á þá tillögu að Alþingi verði falið þetta
mál til úrlausnar og það verði látið á það reyna
hvort sjávarútvegsnefnd þingsins getur ekki náð
þverpólitískri samstöðu um þetta mál.“
Vill innköllun veiðiheimilda
og endurúthlutun á jafnræðisgrundvelli
Í máli Kristins H. Gunnarssonar kom fram að
skýrsla Auðlindanefndar hefði ekki verið form-
lega tekin til umræðu innan Framsóknarflokks-
ins, það biði flokksþings sem haldið verður í næsta
mánuði.
Hann sagðist fyrst staldra við tillögu nefndar-
innar um sérstakt ákvæði í stjórnarskránni þar
sem kveðið verði á um þjóðareign náttúruauðlinda
og landsréttinda og um afnota- eða hagnýting-
arrétt af þessum auðlindum og réttindum gegn
gjaldi, að því tilskildu að um tímabundin afnot sé
að ræða eða þeim megi breyta með hæfilegum fyr-
irvara. Lýsti hann sig sammála þessum texta og
ræddi einnig um þá tillögu Auðlindanefndar að
greitt yrði fyrir tímabundin afnot, annað hvort
með fyrningarleið eða óbreyttu kerfi með gjald-
tökuleið, veiðileyfagjaldi. Ef farin yrði seinni leið-
in væru menn í þeirri stöðu að ákveða með lögum
að ákveða réttindi á fyrirfram ákveðnu verði en
veita þeim sem þau fengju heimild til að selja þau
á markaðsverði og halda sjálfir eftir þeim mismun
sem væri á hinu ákveðna verði og markaðsvirði
veiðiheimildarinnar.
Sagði Kristinn óeðlilegt að einstakir aðilar
kæmust upp með að fénýta veiðiheimildir í eigin
þágu með þessum hætti. Ekki væri hægt að
byggja upp útgerð í núverandi kerfi nema greiða
óheyrilegt fé fyrir heimildir til annarra útgerð-
armanna í öðrum byggðarlögum.
Nefndi hann sem dæmi togarasjómenn á Vest-
fjörðum sem misst hefðu vinnuna þegar togari og
kvóti var seldur í burtu. Þeir hefðu brugðið á það
ráð að kaupa kvótalausan bát í því skyni að halda
áfram sjómennskunni og afla sér viðurværis. Af-
raksturinn hefði verið um 45 milljónir kr. á ári, en
þar af hefðu 30 milljónir kr. farið í leigu á afla-
heimildum. Um 15 milljónir hefðu þá staðið eftir
til reksturs á bátnum og launa starfsmanna.
Kvaðst Kristinn ekki stuðningsmaður kerfis
sem leiddi til þess að blómlegar byggðir hyrfu ein
af annarri og kvaðst krefjast þess að jafnræðis
yrði gætt við úthlutun veiðiheimilda. Því væri ekki
viðunandi að framlengja núverandi ástand, núver-
andi kerfi yrði að breyta. Og því yrði ekki breytt
nema með því að innkalla veiðiheimildirnar af
þeim sem þær hafa fyrir og endurúthluta þeim á
jafnréttisgrundvelli.
Saknar nákvæmrar
yfirferðar Alþingis
Árni Steinar Jóhannsson, þingmaður Vinstri
grænna, sagði að grunnur skýrslunnar væri að
mörgu leyti góður og hægt yrði að byggja á hon-
um í áframhaldandi vinnu. Hins vegar snerist mál-
ið ekki síst um notkun stjórnvalda á skýrslunni og
í þeim efnum væri ljóst að mikil vinna væri óunnin.
„Ekki er við það unandi að hinn almenni borgari
sé kominn í þá stöðu að þurfa að fara í mál við
stjórnvöld til þess að gæta réttar síns. Það höfum
við upplifað,“ sagði Árni Steinar og nefndi einnig
þjóðlendumálin í þessu sambandi. Ekki gangi að
landeigendur séu settir í þá stöðu að þurfa að
gæta réttar síns gagnvart ásókn ríkisins og her-
skara lögfræðinga á vegum þess.
Spáði þingmaðurinn því að væntanlegar breyt-
ingar á tilhögun orkumála mundu valda nákvæm-
lega sömu vandamálum í samfélaginu og stjórn-
kerfi fiskveiða.
„Það er ekkert launungarmál að í undirbúningi
er lagasetning um gjörbreytingu á orkugeiranum
þar sem heimilt verður að keyra rafmagn inn á
línufyrirtækin inni á frjálsum markaði. Okkur láð-
ist að fara í gegnum þá umræðu sem grunnur er
lagður að í skýrslu Auðlindanefndar. Það er í mín-
um huga mergurinn málsins,“ sagði hann.
Að lokum sagðist Árni Steinar sakna þess að Al-
þingi færi ekki nákvæmlega gegnum efni skýrsl-
unnar og benti á að á vegum Evrópusambandsins
stæði nú yfir ítarleg vinna við endurskoðun fisk-
veiðistjórnunarkerfisins, hin s.k. grænu blöð.
Kvótastefna stjórnvalda
verið eyðibyggðastefna
Í annarri umferð umræðunnar lýsti Guðjón
Arnar Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda
flokksins, því að Vestfirðingar hefðu löngum haft
litlar mætur á kvótakerfinu, enda væri fram-
kvæmd þess þannig að atvinnuréttur og eignir
fólks í sjávarbyggðum væru gerð verðlaus.
„Nú er eitt togarafyrirtæki starfandi á Vest-
fjörðum og vestfirskir sjómenn hafa reynt að
bjarga því sem bjargað varð með því að ná fótfestu
í veiðikerfi smábátanna. Nú eiga Vestfirðingar
nánast allt sitt undir því að fá að búa við það frelsi
áfram sem verið hefur við lýði í krókakerfi smá-
bátanna,“ sagði hann.
Guðjón Arnar sagði að hingað til hefði kvóta-
stefna stjórnvalda verið sannkölluð eyðibyggða-
stefna, byggðastefnan hefði einungis falist í því að
bregðast við þeim vanda sem eyðibyggðastefnan
hefði valdið íbúum landsbyggðarinnar.
Sagði hann að á Vestfjörðum hefðu u.þ.b. 1.700
íbúar lifibrauð sitt beint af fiskveiðum á króka-
bátum. Á suðursvæði Vestfjarða frá Brjánslæk til
Bíldudals væru 450 íbúar með beina hagsmuni af
sjómennsku og beitningu á aflahámarksbátum. Á
svæðinu frá Þingeyri til Súðavíkur byggðu um eitt
þúsund íbúar afkomu sína að mestu leyti á veiðum
í aflahámarkskerfi smábátanna. Sambærileg tala
fyrir Strandir væri 150 íbúar og við þetta mætti
svo bæta krókabátum í 23 daga kerfinu sem á sl.
fiskveiðiári hefðu alls landað 4.300 tonnum á
Vestfjörðum. Um 200 Vestfirðingar ættu afkomu
sína og fjölskyldutekjur undir 23 daga kerfinu. Af
öðrum bátum Vestfirðinga undir 30 tonnum hefðu
tvö til þrjú hundruð manns sitt lifibrauð, eða alls
2.000 til 2.100 íbúar Vestfjarða sem hefðu lifibrauð
sitt beint af veiðum smærri fiskiskipa. Til viðbótar
mætti reikna um 400 manns sem tengdust þeim
hundrað sjómönnum sem störfuðu hjá hrað-
frystihúsinu Gunnvör í 60 til 70 stöðugildum og
byggðu afkomu sína á þeim.
„Það liggur því ljóst fyrir, að eigi að byggja á
skýrslu Auðlindanefndar varðandi útfærslu í
veiðikerfi smábátanna er náðarhöggið fallið og
ríkisstjórninni mun þá takast með eyðibyggða-
stefnu sinni að leggja af byggð þar sem plágur
fyrri alda náðu ekki að drepa niður frumkvæði og
kraft íbúanna,“ sagði Guðjón Arnar.
Nefndarmeðlimir ekki að
hlaupast undan merkjum
Fleiri þingmenn lýstu áhyggjum sínum af stöðu
landsbyggðarinnar, en Tómas Ingi Olrich, þing-
maður Sjálfstæðisflokksins, sagði að deilur um
stjórn fiskveiða gætu stofnað rekstrarumhverfi
sjávarútvegsins í hættu og hefðu leitt til þess að
menn hefðu leitað úr þessari atvinnugrein.
Sagði Tómas Ingi að allt hið sérkennilega og
innantóma tal um byggðakvóta leiddi hjá sér þá
meginstaðreynd sjávarútvegs og fiskvinnslu að
kvótinn væri nú þegar hjá byggðunum. Sérstakur
byggðakvóti sem úthlutað yrði af stjórnmála-
mönnum yrði því ekki til nema með því að taka
kvóta frá byggðarlögunum.
„Það er deginum ljósara að gjald á sjávarútveg-
inn er gjald á landsbyggðina,“ sagði Tómas Ingi
ennfremur.
Tveir þingmenn Samfylkingarinnar, þau Svan-
fríður Jónasdóttir og Lúðvík Bergvinsson, sem
bæði áttu sæti í Auðlindanefnd, lögðu áherslu á
stjórnarskrárákvæði það sem lýst væri í skýrsl-
unni og gagnrýndu málshefjanda og sjávarútvegs-
ráðherra fyrir að velja sér brot úr skýrslunni eftir
hentugleika og túlka að vild.
„Það er alveg nauðsynlegt miðað við deilur og
dóma á undanförnum árum að skýra réttarstöðu
eigenda auðlindarinnar og ekki síður þeirra sem
hafa afnot af viðkomandi auðlind, hver sé þeirra
réttur og hverjar þeirra skyldur,“ sagði Svanfríð-
ur m.a. og hafnaði því að nokkur ætlaði að hlaup-
ast undan merkjum, eins og ráðherra hafði ýjað
að, en ekki væri hægt að ganga út frá því sem vísu
að stuðningur væri við einstök atriði sem valin
væru af ráðherra eða annarri nefnd og þau slitin
úr samhengi.
Félagsmálaráðherra gæti fallist
á einhverja fyrningarleið
Vilhjálmur Egilsson, þingmaður Sjálfstæðis-
flokks, sagði nauðsynlegt að fiskveiðistjórnunar-
kerfið leyfði hagkvæmni í rekstri greinarinnar. Að
öðrum kosti skapaðist ekki fiskveiðiarður. Hvort
slíkur arður fengist með auðlindaskatti eða fyrn-
ingarleið væri aðeins útfærsluatriði og sagðist
þingmaðurinn telja að fyrningarleið myndi að
sumu leyti styrkja eignaréttarlega stöðu þess nýt-
ingarréttar sem felst í kvótanum og að því leytinu
til væri hún að einhverju leyti æskilegri.
Páll Pétursson, félagsmálaráðherra, lagði á það
áherslu í ræðu sinni að menn hefðu umgengist
fiskveiðistjórnunarkerfið með mismunandi hugs-
unarhætti. Þannig teldi hann að Norðlendingar
hefðu umgengist þetta kerfi með allt öðrum hætti
en t.d. Vestfirðingar og að því leyti stæði Norður-
land nú betur að vígi en Vestfirðir.
„Skýrsla Auðlindanefndar er fyrst og fremst
safn hugmynda,“ sagði Páll og sagðist t.d. geta fall-
ist á hugmyndir um ákvæði í stjórnarskrá, þó með
hliðsjón af mögulegum hefðarrétti sveitarfélaga.
Hann sagðist ætíð hafa verið andvígur veiðileyfa-
gjaldi, enda væri það fyrst og fremst skattur á sjáv-
arbyggðir. Miklu fremur gæti hann fallist á ein-
hverja fyrningarleið eða útfærslu á henni.
Páll sagði að hagsmunir útgerðar og sjómanna
vægjust hér á, ekki síst vegna kröfu um hámarks-
arðsemi hlutabréfaeigenda. Hagsmunir fisk-
verkafólks og sveitarfélaga hefðu hins vegar verið
bornir fyrir borð. Bolungarvík og Vestmannaeyj-
ar væru sár dæmi um þetta. Athyglisvert væri þó í
þessu samhengi að aðeins þriðjungur þess botn-
fiskafla sem kæmi á land í Bolungarvík væri unn-
inn þar á staðnum, tveim þriðju aflans væri ekið í
burtu. Svipaða sögu mætti segja frá Vestmanna-
eyjum.
Fyrst og fremst hefði verið hugsað um há-
marksarð útgerðar og sjómanna, en þeir hags-
munir þyrftu ekki að fara saman við hagsmuni
sveitarfélaga og fiskverkafólks í landi.
Benti Páll á að Skotar hefðu t.d. farið þá leið að
festa hluta kvótans hjá sveitarfélögunum með
góðum árangri og við ættum ef til vill að fara svip-
aða leið hér á landi.
Fleiri þingmenn tóku til máls í umræðunni, t.d.
Ögmundur Jónasson þingflokksformaður Vinstri
grænna og Steingrímur J. Sigfússon, formaður
sama flokks. Sagðist Ögmundur m.a. vera undr-
andi á því hve sterkur frjálshyggjutónn væri í
skýrslu Auðlindanefndar, en Steingrímur sagði
enn mikið verk óunnið og eins gott væri að eitt-
hvað færi að bóla á vinnu kvótanefndarinnar s.k.
„Tíminn líður, kjörtímabilið er senn hálfnað og
það er eins gott að menn fari að koma sér til verka,
eigi að standa við þau fyrirheit og loforð sem gefin
voru fyrir kosningar um að leitað yrði sátta um
sjávarútvegsstefnuna,“ sagði Steingrímur.
Undir lokin lagði sjávarútvegsráðherra þó
áherslu á að þegar stefna og tillögur ráðherra og
ríkisstjórnar kæmu fram mundu þær verða
byggðar á skýrslu Auðlindanefndar og hann sagð-
ist treysta því að þá stæðu þeir aðilar sem að
skýrslunni stóðu að þeirri niðurstöðu.
ÐLINDANEFNDAR SKÁLKASKJÓL TIL ÞESS AÐ HALDA ÓBREYTTU FISKVEIÐISTJÓRNUNARKERFI
Morgunblaðið/Golli
Sverrir Hermannsson, formaður Frjálslynda flokksins, var málshefjandi en til andsvara var Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra.
’ Ég held hins vegar aðnefndin hafi sýnt að hún var
starfi sínu vaxin með því að
komast að sameiginlegri
niðurstöðu sem lögð verður
til grundvallar áfram-
haldandi starfi. ‘