Morgunblaðið - 10.06.2001, Side 18
LISTIR
18 SUNNUDAGUR 10. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Á FYRSTU tónleikum í Sumartónleikaröð
Listasafns Sigurjóns Ólafssonar á þriðjudags-
kvöldið kl. 20.30 leika þær Sif Tulinius og
Steinunn Birna Ragnarsdóttir verk fyrir fiðlu
og píanó. Samstarf Sifjar og Steinunnar Birnu
hófst fyrir tíu árum og hafa þær leikið saman
af og til síðan. Að sögn Sifjar hafa þær Stein-
unn Birna í sameiningu valið verkin á efnis-
skrána. „Verkefnavalið hefur verið að þróast á
síðustu mánuðum. Þetta eru allt verk sem eru
tæknilega krefjandi fyrir fiðluna og ljóðræn og
eru vel sniðin að hljóðfærinu.“
Vinir semja hver fyrir annan
„Flest þessara tónskálda voru fiðluleikarar
sjálfir. Corelli var ítalskur fiðlusnillingur og
elstur af þessum tónskáldum og eftir hann
leikum við La folia, 12. sónötu hans fyrir fiðlu
og sembal. Það eru til nokkrar útsetningar af
verkinu, og við leikum þá sem austurríski fiðlu-
snillingurinn Fritz Kreisler gerði. Hann útsetti
líka Melódíu eftir Gluck, sem við leikum einnig.
Við leikum líka verk eftir Henri Wieniawskíj,
sem var pólskur fiðlusnillingur, tónskáld og
mjög vinsæll fiðlukennari. Einn af nemendum
hans var belgíski fiðlusnillingurinn Eugène
Ysafe, en við leikum sónötu nr. 4 eftir hann, en
sónötuna samdi hann einmitt fyrir Kreisler. Þá
leikum við Poême eftir Ernest Chausson, en
það verk var samið fyrir Ysafe. Þannig tengj-
ast þessi verk og tónskáld þeirra á margvísleg-
an hátt. Wieniavskíj, Ysafe, Kreisler og Chaus-
son voru samtíðarmenn og góðir vinir að auki.
Þá leikum við frægt verk, Tzigane eftir Ravel.“
Glæsiverk virtúósanna
Verkin sem þær Sif og Steinunn Birna leika,
eru öll fremur stutt, en hvert öðru glæsilegri
tónsmíð, og öll hafa þau notið ómældra vin-
sælda tónlistarunnenda. En það er galdur við
að velja saman verk á tónleika, þannig að vel
sé. Steinunn Birna segir að þessi verk fari sér-
staklega vel saman. „Svona bravúra verk eru
mjög skemmtileg sem heild á tónleikum og
gefa þeim frísklegt yfirbragð, og ómeðvitað
hefur það orðið þema tónleikanna. En auðvitað
eru það verkin sem eiga að njóta sín, þetta er
ekkert lymskulegt bragð til að sýna okkar
tækni.“ Sif Tulinius segist hlusta mikið á upp-
tökur með fiðluleikurum liðinna ára. „Þessir
menn voru oft með heil prógrömm með stutt-
um glansverkum, sem voru eins og konfekt-
molar í kassa. Þetta er létt og skemmtilegt.“
Steinunn Birna tekur undir þetta og segist
sakna léttleikans á tónleikum í dag. „Fólk er
oft með margar sónötur í röð, þannig að þær
týnast hver í annarri. Smáverkin hafa að
ósekju misst svolítið reisnina. Kannski hefur
eitthvað skolast til með hugmyndir fólks um
magn og gæði, og því finnist að til þess að geta
spilað vel, þurfi að spila eitthvað stórt. En oft
eru styttri verkin miklu meira krefjandi, ekki
síst vegna þess að þetta eru verk sem allir
þekkja, og fólk hefur samanburð í eyrunum
þegar það kemur að hlusta. Músíkin er ein-
hvern veginn miklu meira í forgrunni í stuttu
verkunum. Þetta er þakklát efnisskrá að flytja
og örugglega einnig fyrir hlustendur.“
Tæknin á ekki að hafa
sjálfstætt líf í tónlistinni
Steinunn Birna segir að litlu glæsiverkin
hafi ekki alltaf notið sannmælis, og að um þau
hafi verið talað eins og þau væru eingöngu
samin til að sýna tækibrellur og áhættuatriði
fiðluleikaranna. „Mörg góð verk hafa ekki
fengið að njóta sannmælis vegna fordóma af
þessu tagi, en vonandi er það að breytast.“ Sif
segir að tónskáldin hafi fyrst og fremst verið
að semja tónlist, en á þessum tíma hafi verið
mikil þróun í leiktækni á fiðlu, og margir flink-
ir fiðluleikarar komið fram á sjónarsviðið, og
tónskáldin hafi auðvitað haft leikni þeirra til
hliðsjónar þegar verkin voru samin. „Þessi
verk ögra manni músíkalskt á svolítið annan
hátt; þetta verður að vera svo smekklega
gert.“ „Ögrunin felst ekki síst í því að verða
ekki of upptekinn af tækninni, heldur gefa
músíkinni lausan tauminn. Tæknin á ekki að
öðlast sjálfstætt líf í tónlistinni,“ segir Stein-
unn Birna. „Það vill svo til að þótt þessi verk
setji fiðluna í forgrunn, þá eru þau ekkert létt-
meti fyrir píanóið. Mörg þeirra eru miklar
fingraflækjur.“
Fiðlan fínlegri, snarpari og viðkvæmari
Sif Tulinius var í vetur ráðin annar kons-
ertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún
lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í
Reykjavík fyrir tíu árum og stundaði fram-
haldsnám í Bandaríkjunum. Hún hefur komið
fram víða og leikið með Caput, Kammersveit
Reykjavíkur og Íslenska strengjaoktettinum
sem lék með Björk Guðmundsdóttur í síðustu
tónleikaferð Bjarkar um heiminn.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir hefur verið
einn athafnamesti tónlistarmaður þjóðarinnar
um skeið og er nú listrænn stjórnandi tónlist-
arhátíðar í Reykholti í Borgarfirði, auk þess
sem hún kemur fram sem einleikari og þátt-
takandi í kammertónlist. Hún lauk einleikara-
prófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík fyrir
tuttugu árum og stundaði framhaldsnám í
Bandaríkjunum. Steinunn Birna starfaði um
tíma á Spáni og hefur komið fram á tónleikum
víða á Vesturlöndum. Steinunn Birna hefur
komið fram sem meðleikari fjölmargra söngv-
ara og hljóðfæraleikara, og það liggur beint við
að spyrja hvernig fiðlan sé frábrugðin öðrum í
samleik við píanóið. „Ég er nú bara að hugsa
upphátt, en þegar þú nefnir þetta, þá er mun-
ur, meir að segja stór munur, ef ég ber hana
saman við til dæmis sellóið sem ég spila oft
með. Þetta hefur að gera með tónmyndun
hljóðfærisins; það er allt miklu fínlegra, snarp-
ara og viðkvæmara í leik fiðlunnar og píanó-
leikarinn þarf að vera algjörlega á tánum.
Snertingin milli bogans og fiðlustrengsins er
svo hárfín, og þetta finnur píanóleikarinn vel í
samspilinu; maður þarf að vera algjörlega ein-
beittur. En svo má ekki gleyma því að úrval
verka fyrir fiðlu og píanó er stórkostlegt, og
hljóðfærin eiga mjög vel saman, þótt þau séu
ólík. Það er margt hægt að gera í samspili
þessara tveggja hljóðfæra og endalaust hægt
að leika sér með liti og fjölbreytt blæbrigði.“
Þær Sif Tulinius og Steinunn Birna Ragn-
arsdóttir eru með áform uppi um að hljóðrita
verkin sem leikin verða á tónleikunum í Sig-
urjónssafni og gefa út á geisladiski áður en
langt um líður.
Morgunblaðið/Sigurður Jökull
Steinunn Birna Ragnarsdóttir píanóleikari
og Sif Túliníus fiðluleikari.
Músíkalskir
konfektmolar
Sif Tulinius og Steinunn Birna Ragnarsdóttir ríða á
vaðið á fyrstu tónleikum sumarsins í Listasafni Sig-
urjóns Ólafssonar á þriðjudagskvöldið. Bergþóra Jóns-
dóttir ræddi við þær um samspil fiðlu og píanós, glæsi-
verk fiðlusnillinganna, tæknibrellur og áhættuatriði.
begga@mbl.is
MENNINGARSJÓÐUR Sjóvár-
Almennra trygginga hf. hefur út-
hlutað tveimur milljónum króna til
10 aðila en rúmlega 180 aðilar sóttu
um styrk úr sjóðnum í ár. Mikill
áhugi hefur verið fyrir sjóðnum en
flestar umsóknirnar bárust vegna
tónlistar eða 51, líkt og síðasta ár.
Þar á eftir komu 32 umsóknir
tengdar myndlist, 21 umsókn barst
vegna sagnfræði og 14 vegna leik-
listar. Hæstan styrkinn fékk Skóla-
hljómsveit Kópavogs eða 400 þús-
und vegna starfsemi sveitarinnar
og tónleikaferðar til Evrópu. Minn-
ingarsjóður Sigvalda S. Kaldalóns
fékk 200 þúsund vegna fyrirhug-
aðrar heildarútgáfu á sönglögum
tónskáldsins.
Elín Gunnlaugsdóttir á Selfossi
fékk 150 þúsund kr. til að semja
kórverk fyrir unglingakór Selfoss,
verk fyrir danska blokkflautu-
kvartettinn Sirena og verk fyrir
Trio Parlando.
Sagnfræðistofnun Háskóla Ís-
lands fékk 200 þúsund til ritunar
sögu íslenskrar utanlandsverslunar
900–2002.
Áhugahópur um að halda á lofti
minningu dr. Bjargar C. Þorláks-
son fékk 150 þúsund kr. í styrk.
Hópurinn hefur í hyggju að láta
steypa í varanlegt efni brjóstmynd
af Björgu eftir Ásmund Sveinsson
myndhöggvara. Sigríður Ásgeirs-
dóttir hlaut 150 þúsund til að geta á
samfeldan hátt unnið og þróað
áfram verk unnin í gler sem skyld-
ari eru lágmyndum en hefðbundnu
steindu gleri. Jóhannes Sturlaugs-
son fékk 200 þúsund til að fram-
leiða myndir um líf íslenskra fersk-
vatnsfiska, en með honum starfa
Erlendur Guðmundsson kafari og
Friðrik Þór Friðriksson hjá Ís-
lensku kvikmyndasamsteypunni.
Línuhönnun hf. verkfræðistofa
fékk 200 þúsund til þess að gera út-
tekt á öryggis- og umhverfismálum
á leiksvæðum barna en talið er að
árlega fái um 7 til 800 börn á aldr-
inum 0-14 ára heilahristing vegna
slysa og óhappa á þessum svæðum.
Magnús Aron Hallgrímsson fékk
150 þúsund til þess að stuðla að
frekari afrekum á sviði kringlu-
kasts. Þá fékk áhugamannafélag
um endurbyggingu vélbátsins Blá-
tinds VE 21 200 þúsund til að koma
honum í sýningar- og sjóhæft
ástand.
Þetta er í fjórða sinn sem út-
hlutað er úr sjóðnum.
Morgunblaðið/Jim Smart
Styrkir úr Menningarsjóði Sjóvár-Almennra afhentir.
Tíu styrkir úr Menning-
arsjóði Sjóvár-Almennra