Morgunblaðið - 10.06.2001, Blaðsíða 56
U
M KL. 7:55 á svefnsæl-
um sunnudagsmorgni
í desember árið 1941,
á meðan meirihluti
íbúa eyjarinnar O’ahu
á Hawaii lágu friðsælir í drauma-
landi, læddist svart ský í formi flug-
vélaþyrpingar skyndilega yfir þessa
suðrænu paradís í Kyrrahafinu. Íbú-
um O’ahu var brugðið en þeir voru
ekki hræddir, fyrir þeim var styrjöld
einfaldlega of fjarstæð. En raun-
veruleikinn var annar. Innan
skamms hellirigndi sprengjum og
tundurskeytum yfir herstöðvar eyj-
arinnar og á tæpum tveimur klukku-
stundum var allur Kyrrahafsfloti
bandaríska sjóhersins þurrkaður út.
Manntjón var í þúsundatali og fæstir
þeirra sem létu lífið urðu innrásar-
innar nokkurn tíma varir. Þessar
staðreyndir voru kvikmyndagerðar-
mönnunum Michael Bay og Jerry
Bruckheimer hvati í að ráðast út í
framleiðslu kvikmyndarinnar Pearl
Harbor sem kom í land sem ein dýr-
asta kvikmynd sögunnar. Pearl Har-
bor er ástarsaga sem skerpir fók-
usinn á atburði umhverfis þessa
sögulegu innrás og áhrif hennar á líf
tveggja flugmanna (Ben Affleck og
Josh Hartnett) og einnar hjúkrunar-
konu (Kate Beckinsale).
Geggjað verkefni
Pearl Harbor er stórbrotin kvik-
mynd um atburð sem breytti sögu
Bandaríkjanna, og í senn sögu
heims.
„Hvenær og hvernig fæddist sú
hugmynd að búa til kvikmynd um
Pearl Harbor?“ byrjar blaðamaður á
að spyrja leikstjórann.
„Ég sat fund með Joe Roth (yf-
irmanni kvikmyndadeildar Disney)
og við ræddum u.þ.b. 20 mismunandi
hugmyndir. Mér líkaði ekki ein ein-
asta en einhver sem sat úti í horni
spurði – „en að gera mynd um Pearl
Harbor?“ Sá sem réðist í verkefni af
slíkri stærð hlyti að vera geggjaður,
var það fyrsta sem ég hugsaði. Þetta
var snemma árs 1999.“
Michael Bay hefur alltaf verið
mikill áhugamaður um sögu og þótt
hvorki handrit né hugmynd væri til
staðar ákvað hann að rannsaka nán-
ar hvort grundvöllur að kvikmynd
um þennan atburð væri fyrir hendi.
Eftir að hafa lesið bækur og gamlar
blaðagreinar, skoðað heimildar-
myndir o.fl. flaug hann til Hawaii að
skoða þá staði sem ráðist var á.
Atburður sem varð að segja frá
„Að sjá holur í götum, gangstétt-
um og veggjum eftir byssukúlur
Japananna, sem skilin hafa verið eft-
ir ósnert til að minna fólk á þennan
dag, var mjög áhrifaríkt,“ segir Bay.
„Því næst flaug ég til San Diego og
hitti fyrir stóran hóp af sjóliðum sem
lifðu innrásina af. Pearl Harbor varð
skyndilega ekki lengur einhver fjar-
læg og dofin hugmynd heldur mjög
svo nálæg og raunveruleg. Að hlusta
á frásögur þessara 80 ára gömlu
manna og horfa í vot augu þeirra er
þeir segja frá þessum degi í ná-
kvæmum smáatriðum var ógleyman-
legt. Ég vissi þá að þetta var verk-
efnið fyrir mig, atburður sem ég yrði
að segja frá.“
Jerry Bruckheimer bætir við:
„Það skemmtilega við að búa til
svona bíómynd er að manni gefst
tækifæri á að taka virkan þátt í mál-
efni sem hafði stór áhrif, ekki aðeins
á Bandaríkin heldur á allan heiminn.
Gefur manni tækifæri á að sanka að
sér allri þeirri vitneskju sem völ er á
að finna og raða saman aftur á sem
athyglisverðastan máta.“
Erfið fjármögnun
Gífurleg áhersla var lögð á að gera
umhverfi og bragð myndarinnar
sem líkast því sem það var á Hawaii í
byrjun fjórða áratugarins. Frá her-
skipum, sem að hluta voru smíðuð,
að skóreimum leikaranna og allt þar
á milli. En Bruckheimer og Bay eru
þó snöggir að benda á að Pearl Har-
bor sé ekki heimildarmynd heldur
frekar óður til þeirra hugrökku
karla og kvenna sem létu lífið fyrir
land sitt. „Áður en við hófumst
handa áttum við endalaust efni af
hljóðrituðum sögum,“ segir Bay.
„Svo hefst hið erfiða ferli að velja og
hafna, púsla saman bútum. Sem
heimildarmynd hefði hún aldrei end-
að undir tíu klukkustundum að
lengd.“
En baráttan við að koma Pearl
Harbor á hvíta tjaldið átti sér ekki
eingöngu stað fyrir framan linsuna.
Fyrir aftan myndavélina var einnig
hart barist. Tökurnar fóru t.a.m.
hægt af stað, aðallega vegna kostn-
aðarágreinings. Michael Bay gekk
fjórum sinnum út og sagði upp störf-
um því Disney samþykkti ekki áætl-
aðan kostnað upp á 208 milljónir
dollara (21,6 milljarða króna). Þegar
Disney sökkti einnig 145 milljónum
(15 milljörðum króna) sáu Bay og
Bruckheimer ekki fram á að geta
gert myndina eins og þeir vildu gera
hana. „Ég vildi segja þessa sögu á
minn hátt eða sleppa því,“ sagði Bay.
Það var svo ekki fyrr en leikarar og
kvikmyndagerðarmenn féllust á að
setja launagreiðslur á frest þar til
myndin skilaði hagnaði að verkefnið
fór í gang með samþykkta kostnað-
aráætlun upp á 135 milljónir dollara
(14 milljarða króna). Þar af komu 8
milljónir (832 milljónir króna) úr
vasa Bays og Bruckheimers og allur
umframkostnaður skyldi einnig á
þeirra ábyrgð, sem er afar sjaldgæft
fyrirbæri í Hollywood.
Árásin kvikmynduð
Upptökur hófust á O’ahu, Hawaii,
4. apríl 2000 með hefbundinni bless-
un staðarprests.
Bay segist alltaf hafa verið með
skýra mynd í huganum um hvernig
árásina ætti að útsetja. Hann hafði á
undanförnum mánuðum setið fyrir
framan tölvuskjá á skrifstofu sinni í
Los Angeles og með aðstoð hönnuða
og teiknara búið til Pearl Harbor í
nákvæmri mynd, ásamt skipunum
sem í höfninni sátu, sem hann studd-
ist svo við til að kortleggja tökurnar
fyrir fram. 500 manna hópur
áhættuleikara, staðleikara og kvik-
myndagerðarfólks beið tilsagnar
Bay er hann staðsetti vandlega allar
þær 12 Panavision-kvikmyndatöku-
vélar sem áttu að mynda árásarsen-
una frá landi, lofti og sjó og var Bay
sjálfur tökumaður einnar þeirra.
Það tók tæknilið myndarinnar heilan
mánuð að stilla upp sprengiefnum á
skipunum áður en ráðist var í tökur.
Með notkun dýnamíts, príma og
annarra sprengiefna, hlupu spreng-
ingarnar kröftuglega af stað á sex
skipum í höfninni og 16 þúsund lítrar
af bensíni loguðu skært til að mynda
reykinn sem fyllti höfnina í árásinni.
„Þetta voru stærstu sprengingar
sem ég hef á ævinni séð,“ segir Bay
ákafur. „Hristingurinn var svo mikill
að ég gat ekki haldið tökuvélinni
kyrri og myndatakan því öll á fleygi-
ferð.“
Þetta voru mestu sprengingar
sem nokkurn tíma hafa verið fram-
kvæmdar fyrir kvikmynd. Stjórn-
anda tækniliðsins var meira að segja
brugðið. Á yfir 40 ára ferli hefur
hann aldrei verið valdur að öðrum
eins látum. Bay heldur áfram:
„Þetta var uppskrift að stórslysi því
á sama tíma og sprengingarnar
gengu á vorum við með flugvélar á
sveimi, þyrlu fyrir loftmyndatöku og
fólk á bátunum. Með smá mistökum
hefðu hlutirnir getað farið illa. En
við vorum mjög vandlega samstillt
og þótt ótrúlegt megi virðast gekk
allt snurðulaust fyrir sig. Enginn
fékk á sig svo mikið sem skrámu.“
Með þá stafrænu möguleika sem
fyrir hendi eru í eftirvinnslu bíó-
mynda í dag, þarftu að leggja sjálfan
þig og aðra í alla þessa voðalegu
hættu?
„Pearl Harbor hefur gífurlega
mörg stór skot sem tekin voru upp á
kvikmyndavél. Og einnig eru staf-
rænu skotin stór í sniðum en ég nota
færri fyrir vikið. Blanda þessu
tvennu svo saman. Eins stór og staf-
ræni heimurinn er orðinn í kvik-
myndum í dag trúi ég því að raun-
veruleikinn sé enn þá raunverulegri.
Það má enn þá gera greinarmun á
hvað er ekta og hvað ekki. Ég reyndi
að stilla þessu þannig upp að þú eigir
bágt með að sjá muninn.“
Hugrakkur leikstjóri
„Það má telja leikstjóra á fingrum
annarrar handar sem hafa kunnáttu,
og jafnvel hugrekki, til að ráðast í
svona stórt verkefni,“ segir Bruck-
heimer Bay til hróss. „Það kallar á
ómælda einbeitingu og skipulagn-
ingu leikstjórans. Lucas hefur gert
það, Spielberg og Cameron geta það.
En hvert leitar maður svo?“
Pearl Harbor er fjórða samvinnu-
verkefni Bay og Bruckheimers en
samstarf þeirra hófst árið 1994 með
kvikmyndinni Bad Boys. Bay var á
þeim tíma eftirsóttur leikstjóri tón-
listarmyndbanda og sjónvarpsaug-
lýsinga og var jafnframt yngsti leik-
stjóri sem unnið hafði til bókstaflega
allra verðlauna í þeim geira. Saman
hafa þeir síðan gert myndirnar The
Rock og Armageddon sem báðar
nutu mikilla vinsælda. En Pearl
Harbor er sú langstærsta sem þeir
hafa nokkurn tímann tekið sér fyrir
hendur. Bruckheimer hefur fram-
leitt margar af arðbærustu myndum
Hollywood og hefur fyrir löngu skip-
að sér í hóp með sigursælustu fram-
leiðendum sögunnar.
Bíógestir eru farnir að þekkja
nafnið Jerry Bruckheimer jafnvel og
nöfn kvikmyndastjarna. Hver er
formúlan að því?
„Auðvitað á maður að eigna sér
heiðurinn af þeim myndum sem
maður hrindir í framkvæmd, hvort
sem þær eru góðar eða slæmar.
Annars gerir það einfaldlega einhver
annar, í það minnsta ef myndin er
góð. Við Don Simpson, fyrrum sam-
starfsmaður minn, hönnuðum okkar
eigin ímynd svo það færi aldrei á
milli mála hver ætti heiðurinn. Það
vilja allir fá lof fyrir vinnu sína.
Stúdíóin vilja miklu frekar setja sinn
stimpil á myndirnar – Paramount-
mynd – Disney-mynd o.s.frv. En þú
verður að berjast fyrir þínu og vera
tilbúinn að falla með því líka.
Myndirnar mínar hafa halað inn
mikinn pening. Ef þær gerðu það
ekki væri ég ekki í þessum sporum í
dag. Ef ég fengi ágætis lof fyrir
myndirnar mínar en það væri enginn
ágóði af þeim værum við ekki hér að
spjalla saman í Pearl Harbor.“
Stórmyndaframleiðandann Jerry Bruck-
heimer þarf vart að kynna fyrir kvik-
myndaunnendum. Hann hefur nú sent frá
sér enn eitt risavaxna kassastykkið –
Pearl Harbor. Hálfdan Pedersen flaug til
Hawaii og hitti framleiðandann ásamt
leikstjóranum á vötnum Pearl Harbor.
Michael Bay mundar tökuvélina.
Ástir í skjóli styrjaldar: Ben Affleck og Kate Beckinsale.
Bruckheimer á heimavelli.
Jerry Bruckheimer og Michael Bay eru mennirnir á bak við Pearl Harbor
FÓLK Í FRÉTTUM
56 SUNNUDAGUR 10. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Micro-húðfegrun
fyrir
eftir
Guðrún er búin að fá
Micro-húðfegrun
og Tattoo á brúnir,
augu og varir.
Hún er ánægð –
hvað með þig?
Upplýsingar í s. 561 8677
Á vötnum
Perluhafnar