Morgunblaðið - 17.07.2001, Blaðsíða 6

Morgunblaðið - 17.07.2001, Blaðsíða 6
FRÉTTIR 6 ÞRIÐJUDAGUR 17. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ FORRÁÐAMENN helstu lífeyrissjóða landsins telja að þrátt fyrir lægð á hlutabréfamarkaði sé lag fyrir sjóðina að fjárfesta til langs tíma í þeim hlutabréfum innlendra félaga sem hafa verið að lækka töluvert í verði. Þá þykja skuldabréf eftirsóttur kostur um þessar mundir þar sem skuldabréfasjóðir hafa sýnt góða ávöxtun á árinu, eða um allt að 25%. Fjárfest- ingar í erlendum hlutabréfum hafa verið að minnka töluvert vegna óhagstæðrar gengisþró- unar og dregið hefur úr lánsfjáreftirspurn sjóð- félaga. Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, segir framboð vera mikið af ágætum skuldabréfum, ásamt því að eftirspurn sjóðsfélaga eftir lánum sé enn töluverð þótt hún hafi minnkað á síðustu vikum. Þrátt fyrir breyttar aðstæður í efnahagslífinu sé ekki ástæða til að breyta fjárfestingarstefnu sjóðsins sérstaklega. „Hlutabréf ásamt skuldabréfum eru einnig áhugaverður fjárfestingarkostur. Þau hafa lækkað mikið í verði. Í þó nokkrum hluta- félögum hafa skapast kauptækifæri fyrir lang- tímafjárfesta. Á það er horft,“ segir Þorgeir. Örn Arnþórsson, skrifstofustjóri Lífeyris- sjóðs Framsýnar, segist halda að á fyrsta stjórnarfundi að loknum sumarleyfum verði án efa teknar ákvarðar um hvort ástæða sé til að breyta fjárfestingarstefnu sjóðsins. Búið sé að gera áætlanir fyrir þetta ár, sem hafi verið unn- ið eftir fram að þessu hjá vörsluaðilum sjóðsins, en þær hafi verið í endurskoðun að undanförnu. „Það hefur dregið úr kaupum á erlendum hlutabréfum að undanförnu og vel má vera að nú gefist kauptækifæri innanlands,“ segir Örn. Í nýlegum pistli á vef Landsbankans segja sjóðstjórarnir Friðrik Nikulásson og Anna Margrét Guðjónsdóttir að árið 2001 stefni í að verða ár skuldabréfamarkaðarins. „Skuldabréfasjóðir hafa sýnt framúrskarandi ávöxtun á árinu eða á bilinu 20 til 25% upp- reiknað á ársgrundvöll. Ástæðuna fyrir þessum góða árangri má rekja til lækkandi ávöxtunar- kröfu á skuldabréfamarkaði. Ástæður lækkandi ávöxtunarkröfu eru nokkrar. Fjárfestar hafa sýnt skuldabréfum aukinn áhuga og er lægð á hlutabréfamörkuðum ein ástæða hans. Fé hefur því streymt úr hlutabréfum í skuldabréf bæði hér heima og erlendis,“ segir m.a. í grein sjóð- stjóranna. Góð ávöxtun skuldabréfa og lækkandi hlutabréf Lífeyrissjóðir huga að fjárfestingum sínum innanlands og utan REYK lagði frá turni Hallríms- kirkju um klukkan 17 í gærdag og þurfti að rýma kirkjuna. Sam- kvæmt upplýsingum Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins stóð bremsa á lyftu á sér og lagði reyk frá henni vegna þess en ekki var um eld að ræða. Enginn var í lyftunni þegar óhappið átti sér stað og þegar slökkviliðið mætti á staðinn voru allir kirkjugestir komnir í anddyrið en þeir voru 15 talsins. Morgunblaðið/Ásdís Reykur í turni Hall- grímskirkju FORMLEGA var gengið frá samn- ingi Íslenskrar erfðagreiningar og Roche Diagnostics, sem fyrirtækin tilkynntu um fyrir tveimur vikum, á fréttamannafundi í gær. Auk þess var kynnt nýtt lífupplýsingakerfi Íslenskrar erfðagreiningar, sem jafnframt er hluti af samningnum, en það mun gegna mikilvægu hlut- verki við þróun nýrra DNA- greiningarprófa sem beinast að al- gengum sjúkdómum. Í samningnum felst að Roche Diagnostics er fyrsti viðskiptavinur þessa nýja kerfis. Lífupplýsingakerfi Íslenskrar erfðagreiningar eru tæki til þess að greina ættfræði, erfðafræði og læknisfræði sjúkdóma, ásamt full- komnum hugbúnaði til úrvinnslu gagna, eftir því sem fram kemur í frétt frá Íslenskri erfðagreiningu. Kerfið gerir vísindamönnum Ís- lenskrar erfðagreiningar og Roche kleift að stunda erfðafræðirann- sóknir með tölvum og leita svara við spurningum sem tæki marga mánuði að svara á rannsóknarstofu. Fyrirtækin munu nota lífupplýs- ingakerfið til að flýta fyrir upp- götvunum á erfðamörkum sem tengjast algengum sjúkdómum. Upplýsingar um slík erfðamörk verða grunnur að þróun nýrra DNA-greiningarprófa. Kerfið mun einnig auðvelda smíði hugbúnaðar sem auðveldar læknum að meta nið- urstöður slíkra prófa. Fyrirtækin hyggjast í sameiningu þróa og markaðssetja slíkan hugbúnað, seg- ir í fréttatilkynningu. Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði á fundinum að það væri hon- um sérstök ánægja að fá að vera viðstaddur þennan atburð. „Ég hygg að það hafi ekki allir áttað sig á því hvílík stærð felst í atburði af þessu tagi og hvaða möguleika hann er að undirstrika á þessu sviði, sem við höfum verið að fylgj- ast með á undanförnum árum. Hann fyllir upp í þá mynd sem við höfum gert okkur að framtíð þessa mikla fyrirtækis. Það hlýtur að vera okkur Íslendingum öllum sér- stakt gleði- og ánægjuefni að fá að sjá þennan samning og þetta sam- starf ganga fram með þeim hætti sem hér er að gerast,“ sagði Davíð. Heino von Prondzynski, sem á sæti í yfirstjórn Roche og er yf- irmaður alþjóðlegs greiningarsviðs fyrirtækisins, sagði samninginn ekki eingöngu viðskiptasamning. Samningurinn væri meira en það, hann væri mikilvægur áfangi ein- beittra vísindamanna í átt til nýrrar framtíðarsýnar í læknavísindum. Hann sagði að með samvinnu Roche við Íslenska erfðagreiningu og með beitingu lífupplýsingakerfis þeirra, væri hægt að kanna nýjar og fram- sæknar lausnir á sviði sjúkdóms- greininga og gagnastýringar. Hann taldi mikla möguleika vera á að samstarfið myndi geta af sér lausn- ir sem myndu nýtast vel í heilsu- gæslu framtíðarinnar. Kári Stefánsson, forstjóri Ís- lenskrar erfðagreiningar, sagði það einkennilega tilfinningu að standa á þessum tímamótum, u.þ.b. fimm árum eftir stofnun fyrirtæk- isins, og sjá hve miklum árangri fyrirtækið hefði náð á stuttum tíma. „Ég vona að það sem okkur hefur tekist að ljúka hingað til sé aðeins lítill hluti af því sem við komum til með að gera á næstu árum,“ sagði Kári. Hann sagði að fyrirtækið hefði átt mjög gott samstarf við Roche og hann væri ánægður með að geta, í samvinnu við Roche, not- að lífupplýsingakerfið til að hraða vinnu við rannsóknir og þróun nýrra afurða. Morgunblaðið/Arnaldur Við undirritun samningsins í gær. F.v. Heino von Prondzynski, sem á sæti í yfirstjórn Roche, Davíð Oddsson forsætisráðherra og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Samningur Íslenskrar erfðagreiningar og Roche Diagnostics Lífupplýsingakerfið mik- ilvægt við þróun nýrra DNA-greiningarprófa MJÓLKURKVÓTI næsta verð- lagsár, sem hefst 1. september, hefur verið ákveðinn 104 millj- ónir lítra, að því er fram kemur í orðsendingu til kúabænda og birt er í Bændablaðinu. Er það aukning um eina milljón lítra og samsvarar ársframleiðslu hjá alls 10 meðalstórum kúabúum. Snorri Sigurðsson, fram- kvæmdastjóri Landssambands kúabænda, sagði við Morgun- blaðið að þessi aukning væri sérstakt fagnaðarefni fyrir kúa- bændur og staðfesti að neysla á mjólkurvörum væri stöðugt að aukast meðal landsmanna. Nefndi Snorri töluverða sölu- aukningu á skyri í því sambandi. Einnig hefur verið ákveðið að breyta ráðstöfun beinna greiðslna á þann hátt að svo- nefndar C-greiðslur skiptast á mánuðina með öðrum hætti en áður. Á yfirstandandi ári greið- ast þessar greiðslur allar á inn- legg í nóvember til febrúar en á næsta verðlagsári greiðist einn- ig innlegg í mánuðunum júlí og ágúst. Greiðslur á innlegg í nóv- ember til febrúar lækka tilsvar- andi. Miðað við núgildandi verð á mjólk og jafna innvigtun allt árið verða greiðslurnar næsta verðlagsár þannig að nóvember til febrúar verða þær rúmar 12 kr. á lítra, rúmar 4 krónur í júlí og rúmar 8 krónur í ágúst. Í orðsendingu Landssam- bands kúabænda kemur fram að á núgildandi verðlagsári hafi afurðastöðvarnar þegar óskað eftir kaupum á próteini úr 1 milljón lítra af umframmjólk. Áætlanir gera ráð fyrir að út- flutningsverð fyrir umfram- mjólk, sem voru tæpar 4 kr. á lítra í fyrra, verði hærri nú, eða 4,50–5,50 kr. á lítra. Landssam- bandið telur því engan vafa leika á því að öll mjólk eigi að koma í samlag. Mjólkur- kvótinn aukinn um millj- ón lítra REFSIFANGI á Litla-Hrauni hefur verið sýknaður af ákæru um að hafa undir höndum einn skammt af LSD. Efnið fannst þegar fangaverðir leit- uðu í klefa hans í mars sl. Í dómnum kemur fram að þrátt fyrir að það megi ætla að fíkniefnið sem fannst í klefa fangans hafi verið LSD sé ekki hægt að líta framhjá mis- munandi lýsingum starfsmanna fang- elsisins og lögreglumanna á bútnum með fíkniefninu. Rannsóknarstofa háskólans í lyfja- fræði hafi lýst honum sem fernings- laga, um 8x8 mm á kant. Í grunninn hafi hann verið blár og grænn en í miðjunni var hvít og blá stjarna. Starfsmenn fangelsisins lýsi honum hins vegar ekki þannig heldur sem hvítum pappírsbút og stærðin var nokkuð á reiki. Í dómnum segir að engar vitrænar skýringar hafi komið fram á þessum mismun. Sökum þessa þótti varhugavert annað en að sýkna fangann af ákærunni. Í niðurstöðum Héraðsdóms Suður- lands kemur fram að framburður fangans var afar mismunandi. Í fyrstu neitaði hann sök en við fyrir- töku málsins játaði hann á sig brotið. Sama dag barst réttinum hins vegar bréf þar sem fanginn kvaðst „hafa verið“ dæmdur saklaus. Við aðalmeð- ferð neitaði fanginn sök. Dómnum þóttu skýringar hans á reikulum framburði ekki marktækar. Annars- vegar sagðist hann vilja spara skatt- borgurum peninga en hins vegar að hann hefði aldrei játað á sig brotið. Sakarkostnaður féll allur á ríkis- sjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda fangans. Refsifangi sýknaður

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.