Morgunblaðið - 17.07.2001, Page 18

Morgunblaðið - 17.07.2001, Page 18
FERÐALÖG 18 ÞRIÐJUDAGUR 17. JÚLÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ REKSTUR ferðaskrifstofunnar Samvinnu- ferða-Landsýnar hefur ekki verið dans á rósum undanfarin misseri og hefur fyrirtækið gengið í gegnum endurnýjun og uppstokkun á ýmsum sviðum. Nýir stjórnendur eru sestir í stóla fram- kvæmdastjóra og fjármálastjóra, starfsfólki hefur fækkað sem nemur 20 stöðugildum, dreg- ið hefur verið úr sætaframboði í sólina í sumar og ganga áætlanir nýrra stjórnenda út á 20-30% samdrátt í farþegaflutningum miðað við síðasta ár. Þrátt fyrir andbyr á ýmsum sviðum lítur nýr framkvæmdastjóri björtum augum til framtíð- arinnar og segist stefna að því að reka félagið með hagnaði – helst strax á þessu ári. „Það er happ þessa fyrirtækis að eiga á að skipa landsliðinu í ferðamennsku hvað starfsfólk varðar. Mitt markmið er klárlega að efla rekstur SL og reka fyrirtækið þannig að eigendur þess, starfsfólk og viðskiptavinir njóti góðs af. Eig- endur njóta ekki góðs af því nema fyrirtækið skili arði. Starfsfólk nýtur ekki góðs af því nema að hér sé þannig umgjörð að því líði vel í starfi og nái að efla sig og bæta og án viðskiptavina yrðu auðvitað engin viðskipti og engin verð- mætasköpun. Við búum sem betur fer við það að vera með stóran og góðan hóp viðskiptavina, sem heldur tryggð við fyrirtækið og ferðast með okkur ár eftir ár. Þessum hópi ber að þakka tryggð þeirra við félagið. Þeir myndu hins vegar ekki nýta sér þjónustu Samvinnuferða-Land- sýnar ef þeir væru ekki að fá vel skipulagðar ferðir á góðu verði.“ Guðjón segir að Samvinnuferðir-Landsýn eigi sér um margt merkilega sögu þar sem Sam- vinnuferðir hafi á sínum tíma verið í eigu Sam- vinnuhreyfingarinnar og Landsýn í eigu verka- lýðshreyfingarinnar. Síðan hafi fyrir um 20 árum verið ákveðið að sameina þessi tvö fyr- irtæki og hafi markmiðið alltaf verið það að bjóða Íslendingum eins hagkvæmar ferðir til út- landa og hugsast gæti. „Það er hinsvegar ekki hægt að standa vörð um þetta nema tryggt sé að fyrirtækið sé rekið með ásættanlegri arðsemi á hverjum tíma. Öðruvísi er illmögulegt að við- halda innviðum fyrirtækisins. Áður var það stefna SL að hagnaður færi til viðskiptavina í gegnum ódýrari ferðir sem er bæði göfugt og gott, en að mínu áliti verður að vera hægt að reka svona fyrirtæki með ákveðinni arðsemi til þess að fyrirtækið nái að byggja sig upp innan frá.“ Húnvetnskur bóndasonur Guðjón er fæddur í nóvember árið 1962 og uppalinn á bænum Marðarnúpi í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Að afloknu stúdents- prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst, lá leiðin til Álaborgar í Danmörku þar sem hann lauk kandidatsnámi í alþjóðaviðskiptahagfræði og markaðssetningu árið 1989. „Hugmyndin var að ílengjast áfram í Danmörku á þessum tíma, en svo fór að ég hitti Jón Sigurðsson, þáverandi rektor Samvinnuháskólans á götu í Kaup- mannahöfn og plataði hann mig til þess að flytja upp á Bifröst í Borgarfirði þar sem ég kenndi tvo fyrstu veturna eftir að skólanum var breytt yfir á háskólastig. Ég tel að þessi ár hafi verið mjög lærdómsrík fyrir mig. Sjálfur hafði maður í fimm ár verið að innbyrða lærdóminn, en þurfti svo að gefa hann allan frá sér á tveimur árum til kröfuharðra nemenda.“ Eftir dvölina á Bifröst, eða árið 1991, hóf Guð- jón störf hjá Eimskipafélagi Íslands, fyrst í ut- anlandsdeild þar sem hann segist hafa komið að mörgum mjög spennandi verkefnum á þeim tíma, t.d. í Noregi, Kanada og á Grænlandi. Þá tók hann við sem forstöðumaður markaðsdeild- ar hjá Eimskip og gegndi því starfi í fjögur ár og hélt síðan til Hamborgar í Þýskalandi þar sem hann rak skrifstofu félagsins í tvö ár eða frá 1997 til 1999. „Þá ákvað fjölskyldan að flytja aft- ur heim til Íslands, við vorum búin að fá nóg af flakki og jafnframt ákvað ég á þeim tímapunkti að prófa eitthvað nýtt fyrir mér enda var ég bú- inn að vinna hjá Eimskip í átta góð ár. Ég ákvað að söðla alveg um.“ Stór og mikil áskorun Guðjóni bauðst árið 1999 að taka við rekstri hugbúnaðarfyrirtækisins Landsteinar Ísland sem hann þáði, en þarna var um ungt og vaxandi fyrirtæki að ræða með bjarta framtíð. Svo var það í september í fyrra að upp kom sú staða að hann tæki að sér rekst- ur Samvinnuferða-Landsýnar. „Ég þurfti að hugsa mig um bæði mikið og lengi. Þetta var erfið ákvörðun fyrir mig að taka þar sem að mér líkaði mjög vel hjá Landsteinum. Fyrirtækið hafði á að skipa afbragðs starfsfólki, hafði margfaldað veltu sína á fáum árum og mörg spennandi tækifæri voru fram undan. Á þessum tíma var verið að sameina Landsteina Ísland í GoPro Landsteina, sem er líklega stærsta samsteypa hugbúnaðarfyrirtækja á landinu í dag með um 500 til 600 manns í vinnu. Þessi staða bjó til nokkra óvissu og var ástæðan fyrir því að ég var tilbúinn til að skoða það að taka að mér rekstur Samvinnuferða-Landsýnar. Ég sá fram á að í því fælist mikil áskorun, sér- staklega í ljósi þeirra rekstrarerfiðleika sem við var að etja. Þegar ég var ráðinn, lágu rekstr- artölur fyrir yfir sex fyrstu mánuði ársins 2000, en síðar kom á daginn að staðan var verri en þær tölur sögðu til um. Þarna var hinsvegar um að ræða eitt af stærri fyrirtækjum landsins, skráð á Verðbréfaþingi, með veltu upp á tæpa þrjá milljarða króna á síðasta ári.“ Aðlögun að markaði „Þrátt fyrir að skipt hafi verið um æðstu stjórnendur fyrirtækisins, mega menn ekki gleyma því brautryðjendastarfi, sem fyrrum framkvæmdastjóri, Helgi Jóhannsson, hefur unnið fyrir íslenskan ferðamarkað þó svo að árið 2000 hafi fyrir margra hluta sakir verið mjög sérkennilegt ár í rekstri fyrirtækisins,“ segir Guðjón og nefnir í þessu samhengi bein leigu- flug með breiðþotum á nýja áfangastaði og Flugfrelsið, sem kynnt var í fyrsta skipti í fyrra og býður upp á meira svigrúm á flugleiðum en þekkst hefur. „Sl. sumar voru menn að vinna með 470 sæta vélar í sólarlandafluginu, en í dag erum við með um 200 sæta vélar. Í flutningafræðinni skiptir nýtingin öllu máli og í þessum rekstri gengur allt út á það að ná hámarksnýtingu út úr hverri brottför á verði sem skilar viðunandi arðsemi.“ Samvinnuferðir-Landsýn gerðu samning við Flugleiði um leiguflug til sólarlanda í sumar þar sem breiðþota Atlanta þótti of stór vegna nið- ursveiflu á íslenskum ferðamarkaði. Atlanta mun eftir sem áður sinna verkefnum fyrir SL ef þörf krefur og mun m.a. breiðþota félagsins verða tiltæk í haustferðum ferðaskrifstofunnar. Með þessum breytingum hefur sætaframboð í sólarlandaferðum dregist saman um þrjú þús- und sæti, en þrátt fyrir samdráttinn býður félagið upp á alla sömu áfangastaði í sólina og áður. – „Má ekki fullyrða að stjórnendur SL hafi stórlega vanmetið markaðs- aðstæður í fyrra?“ „Ég tel að þarna hafi verið á ferð- inni ýmsir samverkandi þættir. Stóru breiðþotur Atlanta voru þær einu sem tiltækar voru í leiguflug SL á þessum tíma og stóð til að þær yrðu samnýttar með öðrum aðila á markaðnum, sem svo gekk ekki eftir á síðustu stundu auk þess sem mark- aðsþörfin var talin meiri en hún raunverulega var. Menn sátu því eftir með of stóra fram- leiðslulínu, en þess má geta að beinn kostnaður í flugi er langstærsti einstaki kostnaðarliðurinn við rekstur ferðaskrifstofu á Íslandi. Við, sem búum á eyju, í um þrjú þúsund kílómetra fjar- lægð frá norðurströnd Mið-Evrópu, verðum að kaupa heilar vélar en ekki svokölluð „slott“ í vél- um hingað og þangað, eins og tíðkast hjá „koll- egum“ annars staðar. Kúnstin er að búa til framleiðslukerfi, sem fellur sem best að þeim markaði, sem talinn er vera til staðar á hverjum tíma. Mér finnst hinsvegar ekkert athugavert við það þó samkeppnisaðilar á íslenskum ferða- markaði samnýti flutningspípuna til og frá land- inu, eins og við erum nú að gera í sólarlandaflug- inu að hluta, þar sem samkeppnin hlýtur fyrst og síðast að felast í þeim valmöguleikum og þeirri þjónustu sem veitt er áður en viðskipta- vinurinn ákveður sig, og síðan á áfangastað. Það skiptir að sama skapi lesendur DV engu máli þótt blaðið sé prentað í prentsmiðju Morgun- blaðsins. Samkeppnin snýst um aðra þætti. Í sumar komum við til með að samnýta vélar með annarri ferðaskrifstofu suður til Portúgal og Mallorka samkvæmt samkomulagi sem gert var sl. haust. Við erum einir með vél á Rhodos og Rimini og seljum síðan tveimur ferðaskrifstof- um sæti í okkar vél suður til Alicante.“ Að sögn Guðjóns hafa undanfarin tvö ár gefið markaðnum tilefni til þess að ætla að tilboðs- ferðir með skömmum fyrirvara séu orðnar hluti af raunveruleikanum á íslenskum ferðamarkaði. Þar sem dregið hafi nú verulega úr sætafram- boði í sólina segir hann að fólk geti alls ekki gengið að því vísu að það komist í sólarlanda- ferðir með skömmum fyrirvara á tilboðsverði á þá staði sem það helst kýs. Þegar Guðjón er spurður út í horfur á ferða- markaði, segir hann að því sé ekki að neita að rekstrarumhverfið sé erfiðara nú en menn hafi gert sér í hugarlund sl. haust. „Dollarinn er um 20% hærri en hann var við áætlanagerðina í haust, við erum að koma út úr sex vikna löngu sjómannaverkfalli og almennt held ég að Íslendingar hafi í dag tak- markaðri aðgang að neyslufé en áð- ur. Einkaneysla er að dragast saman og ferðageirinn er augljóslega að byrja að verða var við samdrátt hjá þjóðinni að nýju. Spurningin er hins vegar hvort markaðurinn í fyrra hafi ekki verið óeðlilegur og að við séum að horfa á eðlilegra ástand í ár. Ég tel að þeir, sem koma til með að standa sig í þessum geira, séu þeir sem ná að sníða sér stakk eftir vexti og það er einmitt það sem við erum að gera nú.“ Samvinnuferðir-Landsýn hækkaði fargjöld sín um 11,5% þann 16. maí sl. til að mæta geng- isþróuninni, en að sögn Guðjóns dugir það að- eins að hluta til að mæta gengishækkuninni. Ferðaskrifstofan sé því að taka á sig hluta kostnaðarins. „SL var sú ferðaskrifstofa sem hækkaði verð á ferðum hvað síðast þegar gengið fór af stað síðla vetrar. Við ákváðum að segja markaðnum frá fyrirhugaðri hækkun í tíma og gáfum fólki síðan hálfan mánuð til að kaupa og gera upp sín- ar ferðir á áður auglýstu verði sem margir nýttu sér því hér var nánast fullt út úr dyrum þessa daga. Það er vissulega bagalegt fyrir atvinnu- starfsemi í landinu, að hafa gert rekstraráætl- anir í lok síðasta árs sem tóku mið af því að stjórnvöld ætluðu að viðhalda fastgengisstefn- unni, en ákveða svo í mars á þessu ári að sleppa böndunum af þeirri stefnu og láta gengið fljóta með þeim afleiðingum að dollarinn er að rokka á milli 100 og 105 þessa dagana og evrópumynt- irnar eru líka á fleygiferð,“ segir Guðjón. Fjölbreytt framboð „Við erum staðráðin í að halda stöðu okkar í ferðaskrifstofuumhverfinu hér á landi og erum líklega sú ferðaskrifstofa sem er að bjóða upp á langmestu breiddina í ferðaframboði frá Ís- landi,“ segir Guðjón aðspurður um þjónustu- framboð í þeim samdrætti, sem nú liggur fyrir. „Fjöldinn liggur í sólarlandaferðum til Ítalíu, Portúgal, Spánar, Mallorka og síðast en ekki síst til grísku eyjunnar Rhodos, sem er nýr stað- ur í ár. Á öllum þessum stöðum erum við með frábæra fararstjóra, sem reka krakkaklúbba og sportklúbba SL. Af sérferðum SL, sem birtar eru í sérstökum sérferðabæklingi, má nefna Prag, Búdapest, Rígu, Kúbu, St. Thomas, Ítalíu, Skotland, og ferðir inn í Mið-Evrópu. Auk þess hefur verið gefinn út vandaður golfbæklingur yfir þær fjölmörgu golfferðir, sem fyrirhugaðar eru á næstunni, enda virðist golfáhugamönnum síst fara fækkandi. Yfir vetrarmánuðina er svo boðið upp á sólarferðir til Kanaríeyja og skíða- ferðir til Alpanna. Þá er SL með skipulagðar borgarferðin til Dublin á Írlandi á haustin, en ef- irspurn í þessar ferðir er mjög mikil og færri komast að en vilja. Írar eru mjög gestrisnir, verðlag er hagstætt, umhverfi til golfiðkunar er ákjósanlegt og hótelaðstaða SL í Dublin er vel til þess fallin að halda þar árshátíðir stærri og minni fyrirtækja og stofnana. Við erum sömuleiðis í gegnum Ferðaskrif- stofu stúdenta, sem hefur verið í eigu SL síðan á síðasta ári, að bjóða upp á sérsniðnar ævintýra- ferðir, málaskóla erlendis, Interrail ferðir og Kilroy stúdentafargjöld. Þá er SL, að ég tel, stærsti söluaðilinn inn í áætlunarkerfi Flugleiða fyrir utan það sjálft og dótturfyrirtæki þess, en við höfum innan okkar vébanda sérstaka þjón- ustudeild, sem sér um að selja viðskipta- og áætlanaferðir til fyrirtækja, stofnana, íþrótta- félaga sem og annarra félagasamtaka. Heildar- velta af þeirri þjónustu á síðasta ári var vel yfir einn milljarður króna, en hún telur ekki inn í heildarveltu fyrirtækisins þar sem um umboðs- sölu er að ræða og fyrirtækið fær aðeins þóknun fyrir. Við erum svo nú þegar farin að skipuleggja næsta ár og stefnum að því að gera ákveðnar breytingar á því hvernig við framleiðum okkar ferðir og hvernig við seljum þær gagnvart okkar viðskiptavinum. Það verður mjög spennandi að sjá í hvaða búning við setjum þetta allt saman. Þá má ekki gleyma því að SL tekur á móti mörg þúsund ferðamönnum til Íslands á hverju ári og skipuleggur ferðir þeirra um landið. Þar er um að ræða sérhópa, ráðstefnur, hvatahópa, mót- töku skemmtiferðaskipa og einstaklinga.“ Ögrandi samkeppni „Samkeppnin á íslenskum ferðamarkaði er mjög grimm, ögrandi, spennandi og óvægin, en ég held hinsvegar að hún sé ekki óheiðarleg,“ segir Guðjón þegar talið berst að barningi ferða- skrifstofa við að ná athygli viðskiptavinanna. „Aftur á móti hafa forsvarsmenn þeirra fyrir- tækja, sem eru í hvað mestri samkeppni við okk- ur notað tækifærið undanfarna mánuði í ljósi stöðu SL og kennt okkur um flest það sem mið- ur hefur farið í íslenskri ferðaþjónustu undan- farin ár, t.d. undirboð á markaðnum. Ég gef hinsvegar ekki mikið fyrir slíkar yfirlýsingar frá aðilum, sem svo birta auglýsingar stuttu seinna með verð, sem er klárlega vel undir kostnaðar- verði til ákveðinna áfangastaða.“ Guðjón segir að miklar sveiflur einkenni rekstur ferðaskrifstofa. Sumarið skipti auðvitað sköpum, en að sögn Guðjóns er reksturinn fyrstu fjóra mánuði ársins í sam- ræmi við áætlanir. „Engu að síður er fyrirsjáanleg- ur samdráttur. Við seldum tæp- lega 100 þúsund viðskiptavinum ferðir á síðasta ári þegar allt er tal- ið, en gerum í ár ráð fyrir 70-80 þúsund farþegum, sem þýðir um 20-30% samdrátt miðað við síðasta ár. Persónulega finnst mér ofboðslega spennandi og ögrandi að takast á við erfið verkefni og ég tel að fyrirtækið eigi alla möguleika á því að eflast í framtíðinni, enda hefur það mjög hæft starfs- fólk, stóran og góðan viðskiptamannahóp og eig- endur sem standa vel á bak við fyrirtækið,“ seg- ir nýr framkvæmdastjóri Samvinnuferða- -Landsýnar að lokum. Við sníðum okkur stakk eftir vexti Óhætt er að segja að sviptingar hafi verið í kringum Samvinnu- ferðir-Landsýn á síðasta ári. Jóhanna Ingvarsdóttir hitti Guðjón Auðunsson, nýjan framkvæmdastjóra SL, að máli sem segir að flutningafræðin snúist um að ná hámarksnýtingu út úr því fram- leiðslukerfi sem sé í gangi hverju sinni. join@mbl.is Morgunblaðið/Sigurður Jökull Guðjón Auðunsson nýr framkvæmdastjóri Samvinnuferða-Landsýnar. Fjöldinn liggur í sólarlanda- ferðum til Ítal- íu, Portúgal, Spánar, Mall- orka og Rodos Samkeppnin er mjög grimm, ögrandi, spenn- andi og óvægin en ekki óheiðarleg

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.