Morgunblaðið - 06.01.2002, Síða 22
22 SUNNUDAGUR 6. JANÚAR 2002 MORGUNBLAÐIÐ
EDINBORGARKASTALIer magnþrunginn þarsem hann gnæfir yfirborginni uppi á þver-hníptum kletti. Það er
ekki að furða að hann skuli hafa
fangað athygli ungs Akureyrings
sem var í sinni fyrstu utanlands-
ferð á 6. áratugnum. „Hér gæti ég
hugsað mér að búa,“ sagði pilt-
urinn við sjálfan sig og sú ósk
rættist 20 árum síðar. Hafliði Hall-
grímsson hefur búið í Edinborg
síðan 1977. Við hittumst síðdegis
einn mildan vetrardag við kastal-
ann. Ég kemst fljótt að raun um að
Hafliða er borgin jafn kunnug og
hún er honum hjartfólgin. „Sjáðu,“
segir hann og bendir á reisulegt
hús, „þarna bjó Liszt þegar hann
dvaldist í Edinborg.“ Skömmu síð-
ar leiðir hann mig inn í hús eins af
læknafélögum borgarinnar, við
göngum inn í stóran myrkvaðan sal
þar sem glittir í brjóstmyndir horf-
inna lækna. „Hér spilaði Chopin,
helsjúkur, á ferð sinni um Bretland
1848.“
Eftir þessa gönguferð er ég
margs vísari um Edinborg. Ég er
líka byrjaður að gera mér mynd af
Hafliða Hallgrímssyni. Hann er
fínlegur maður, prúður í háttum og
vingjarnlegur. Hann heldur vissri
fjarlægð til viðmælanda síns, sem
ekki má síður skýra sem tillitssemi
við hann en hlédrægni. Það er mér
strax ljóst að Hafliði er vel greind-
ur og íhugull maður með sterkar
skoðanir á lífi og list. Ég hlakka til
að ræða við hann.
Næsta dag erum við sestir í
vinnuherbergi tónskáldsins á heim-
ili hans skammt frá miðbænum.
Hugur hans hvarflar, án mikillar
áreynslu, til bernskuáranna á Ak-
ureyri.
Ógleymanlegt bernskuumhverfi
„Umhverfið sem ég ólst upp í er
ógleymanlegt, ekki síst vegna þess
hve þar var litrík og fjölbreytt
starfsemi. Ég fæddist heima, í
sama herbergi og öll systkini mín, í
timburhúsi efst í Gránufélagsgöt-
unni. Á móti húsinu okkar var
prentsmiðja. Þar gekk ég út og inn
eins og mér sýndist, og sá með eig-
in augum hvernig bækur voru bún-
ar til og dagblöð prentuð í stórum
háværum vélum. Aðeins ofar í göt-
unni og skáhallt við húsið okkar
stóð hús Kristniboðssambandsins,
sem nefndist Zíon. Þar komu oft
merkismenn og héldu langar ræður
og sýndu stundum óvenjulegar
kvikmyndir. Ólafur Ólafsson trú-
boði kom mér á óvart með sitt
snjóhvíta hár og kínverskukenndan
framburð á íslensku, svo og þess-
um öfundsverða eiginleika, að
fórna lífi sínu – eða svo virtist mér
– fyrir velferð annarra. En ógleym-
anlegastur allra er séra Friðrik
Friðriksson. Hann var þá orðinn
gamall og nær blindur, samt ljóm-
uðu augu hans af góðvild, gáfum og
lífsgleði. Blaðalaust talaði hann
heila kvöldstund, og ég var á nál-
um allan tímann, því hann sótti í
birtu kertanna, og ég var dauð-
hræddur um að kviknað gæti í fal-
lega hvíta skegginu hans. Hann var
ótrúleg persóna í mínum augum,
ekki bara útlitið, heldur víðsýnin
og menningarblærinn. Að taka í
höndina á honum voru forréttindi.
Þessum kvöldum lauk venjulega
með heitu súkkulaði og rjóma-
pönnukökum, úti var oft frost og
hríð, en notalegt inni. Í Hólabraut-
inni, við hornið á húsinu okkar, var
súkkulaðiverksmiðjan Linda. Frá
henni stafaði magnaðri súkku-
laðilykt alla daga, það er því ekki
nema von að ég hafi alla tíð verið
sólginn í súkkulaði. Á neðri hæð-
inni voru smíðaðar líkkistur, þar
var ég oft í heimsókn, og undraðist
glens og grín smiðanna mitt í dag-
legri áminningu um dauðann.
Seinna kom í þetta húsnæði kex-
verksmiðja, og þá bókstaflega sveif
ég á nasavængjunum um hverfið.
Fyrir norðan Lindu var leikfanga-
verksmiðja, sem framleiddi skraut-
lega máluð tréleikföng, og var lykt-
in af lakkinu lækning við öllum
kvillum. Þegar ég hugsa út í það
var óvenju fjölbreytt lykt í um-
hverfinu; af súkkulaðinu, kexinu,
nýsöguðum viðnum, lakkinu, líminu
og leðrinu í bókbandinu, af prent-
svertu og blýi í prentsmiðjunni, og
af óviðjafnanlegum eiturefnum í
gufupressunni, að ógleymdri
vindlalyktinni af séra Friðrik. Það
sem mér finnst athyglisvert núna
er hve vel mér var tekið á öllum
þessum stöðum, því ég var bók-
staflega að deyja úr forvitni. Þegar
áfengisverslun var svo opnuð þar
sem áður var gufupressa gafst ein-
stakt tækifæri til að skoða hegð-
anamynstur bæjarbúa við kaup á
brennivínsflöskum. Þeim mun ofar
sem menn töldu sig vera í mann-
félagsstiganum, þeim mun laumu-
legri og skömmustulegri var hegð-
un þeirra við brennivínskaupin.
Vesalingar, rónar og langþyrstir
sjómenn báru sig betur að, þar var
ekkert laumuspil, heldur gengið
hreint til verks, enda voru þeir að
eigin mati varla með tærnar í
neðsta þrepi þessa ímyndaða
mannfélagsstiga, og fallið því lágt.“
Hvað entist hún lengi þessi
bernskuveröld?
„Hún endaði með hringingu á
föstudaginn langa frá Fjórðungs-
sjúkrahúsinu á Akureyri, um að
faðir minn væri látinn. Þá var ég
níu ára, og allt að því sjúklega
næmur fyrir öllu. Sá atburður opn-
aði dyr inn í heim alvarlegra hugs-
ana um lífið og dauðann, og jók
enn á áráttukenndar þenkingar um
stöðuga framvindu tímans. Þessi
reynsla hefur fylgt mér eins og
skuggi síðan, og er aldrei fjarri í
tónlist minni, hvort sem það er til
góðs eða ills. Tónlist varð upp frá
þessu augnabliki eins og smyrsl
sem mildaði viðnámið við þessa
ógnvekjandi framvindu tímans.
Þetta var mér ljóst einhvers staðar
í huganum þegar José Riba lék
Ave Maria eftir Schubert við jarð-
arför pabba. Það var hins vegar af-
ar jákvætt að eiga einstaka móður
og systkini sem stóðu vel saman,
og gera enn, þó móðir mín sé látin,
og eitt systkina minna. Sú reynsla,
að eiga góða fjölskyldu, er það dýr-
mætasta sem ég hef kynnst.“
Þetta er músík!
Hvenær kom svo tónlistin inn í
líf þitt?
„Ég var alltaf raulandi og syngj-
andi þegar ég var einn, og lagði
mig fram við að gera tilbrigði við
lög líkt og hetjur mínar, Louis
Armstrong, Ella Fitzgerald og
Benny Goodman. Á síðari árum
seinni heimsstyrjaldarinnar var
leikinn menúett eftir Boccherini í
útvarpinu á hverjum morgni, ég
hafði það fyrir sið að hoppa upp og
niður á gömlum dívan, í takt við
lagið, og nota gormahljóðin sem
einskonar undirspil „alla guitarra“.
Ætli þetta geti ekki talist mín
fyrsta „útsetning“ á lagi. Í útvarp-
inu heyrðist fjölbreytt tónlist á
hverjum degi. Móðir mín kenndi
mér að njóta fiðlutónlistar, og fljót-
lega varð fiðlan mitt uppáhalds-
hljóðfæri, og mig dreymdi um að
verða fiðluleikari. Mikilvægt atvik
átti sér stað þegar ég var um 13–14
ára, ég var einn heima, og útvarpið
var á. Ég var eitthvað að dunda, en
veitti allt í einu athygli nýstárlegri
tónlist, sem hljómaði svo framandi.
Ég man að ég sagði upphátt:
„Þetta er músík!“ Tónverkið var
Síðdegi skógarpúkans eftir De-
bussy. Mörgum árum seinna varð
mér ljóst, að þetta var einn af lyk-
ilatburðum í lífi mínu, sem opnaði
dyrnar inn í heim tónskáldskapar
og nýrrar tónlistar. Ég var svo
sannarlega heppinn að heyra þessa
stórkostlegu tónlist á þessum mót-
unartímum.“ Tónlistarnám Hafliða
hófst í Tónlistarskólanum á Ak-
ureyri. Árið 1958 flutti hann svo
suður, 17 ára gamall, og hóf nám
hjá Einari Vigfússyni sellóleikara í
Tónlistarskólanum í Reykjavík.
Hann á góðar minningar frá þeim
tíma.
„Tónlistarskólinn var þá í Þrúð-
vangi, hinu myndarlega húsi sem
Einar Benediktsson skáld byggði á
Laufásveginum. Þetta var
skemmtilegasti og besti tónlistar-
skóli sem ég fór í. Þar var góður
andi, og miklar vonir bundnar við
framtíðina, einnig voru þar margir
vel menntaðir kennarar. Einar Vig-
fússon nam í London, Jón Þór-
arinsson var nemandi Pauls
Hindemiths í Ameríku, Björn
Ólafsson fiðluleikari bar með sér
sterkan blæ af Vínarmenningu, Jón
Nordal hafði ótrúlegt innsæi í
manngerð og hæfileika hvers og
eins nemanda. Árni Kristjánsson
smitaði okkur með sínum háleitu
hugsjónum, og sínu mikla næmi
fyrir skáldskap og fegurð. Þorkell
Sigurbjörnsson var nýkominn frá
Ameríku, nýútskrifað tónskáld, og
tónverk hans vöktu löngun mína til
að fara að semja tónlist sjálfur.
Það er ótrúlegt þegar ég hugsa til
baka, hve vel var hlúð að mörgu í
þessum heldur fjársvelta skóla.“
Spilaðirðu mikið á árunum sem
þú varst í Tónlistarskólanum?
„Það var ótrúlegt hve fljótt
manni var ýtt út í spilamennsku.
Ég var ekki búinn að vera lengi í
Reykjavík þegar ég fór að koma
fram á tónleikum. Musica Nova var
stofnað af ungum tónskáldum og
hljóðfæraleikurum á þessu tímabili
og fyrstu tónleikarnir á Hótel Borg
voru mjög eftirminnilegir. Ég fór
fljótlega að spila með þeim og síð-
an með Sinfóníunni. Ég tók m.a.
þátt í afmælistónleikunum frægu
þegar hljómsveitin átti tíu ára af-
mæli. Það er óneitanlega mikið
stökk að hafa aldrei leikið í sinfón-
íuhljómsveit og byrja á því að spila
fjórðu sinfóníu Bruckners. En
þetta gekk furðuvel og ég spilaði
oft með Sinfóníunni á meðan ég
var í Tónlistarskólanum.
Tónlistin lífstíðarverkefni
Þegar ég fór til Reykjavíkur var
takmarkið reyndar að fara í tvo
skóla. Ég innritaðist fyrst í Tón-
listarskólann og hélt svo upp í
Skipholt, í Myndlistarskólann. Þar
barði ég á dyr hjá Kurt Zier, sem
var skólastjóri skólans. Hann var
heldur þurr á manninn, en þegar
ég sagði honum að ég væri búinn
að innritast í Tónlistarskólann og
ætlaði nú að skrá mig í Myndlist-
arskólann líka, umturnaðist hann.
Hann sagði að tónlistin yrði mér
lífstíðarverkefni og ég skyldi ekki
láta mig dreyma um að gera hvort
tveggja. Hann barði í borðið og
sagði að ævin entist varla til að
gera öðru af þessum tveimur stór-
verkefnum skil. Það var hárrétt, og
ég er honum þakklátur fyrir sköru-
legar ráðleggingar.“
Hafliði hefur þó gert nokkuð af
því í áranna rás að teikna og mála.
Það nægir að líta sem snöggvast á
nótnahandrit eftir hann, til að gera
sér grein fyrir að þar fer drátt-
hagur maður. Hann segir að hon-
um hafi oft komið í hug óvæntar
hugmyndir og nothæfar lausnir
varðandi tónverk á meðan hann
hefur verið að teikna. Einnig hafa
tvö af hljómsveitarverkum hans
orðið til fyrir áhrif frá verkum eftir
skoska myndlistarmanninn Craigie
Aitchison. Annar myndlistarmaður
var meðal nánustu vina Hafliða.
Hann lýsir tildrögum kunnings-
skapar þeirra svo:
„Ég kom einu sinni inn í Unu-
hús, þar sem kunningjafólk mitt
bjó. Ég sá þar mynd á vegg, ég
man nákvæmlega hvar hún hékk,
og hvernig ég brást við henni. Hún
hét 17. júní. Þetta var abstrakt-
mynd sem sló mig út af laginu líkt
Tónlistin
verður
að syngja
Hafliði Hallgrímsson er án vafa einn af virtustu
tónlistarmönnum Íslendinga erlendis. Hinsvegar
má fullyrða að löndum hans sé ekki vel kunnugt
um afrek hans sem sellóleikara og tónskálds. Kem-
ur þar til eðlislægt lítillæti Hafliða og það að hann
hefur búið á Bretlandseyjum síðan 1964. Halldóri
Haukssyni fannst sextugsafmæli Hafliða á nýliðnu
ári gott tilefni til að heimsækja hann í Edinborg og
fræðast um feril hans og tónlistarsýn. Þrír af kons-
ertum Hafliða verða fluttir í Listasafni Íslands nk.
sunnudag.
Hafliði Hallgrímsson