Morgunblaðið - 06.01.2002, Blaðsíða 35
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6. JANÚAR 2002 35
Elsku afi. Núna ertu
kominn til ömmu og
líður vonandi vel. Við
viljum þakka þér fyrir
allan tímann sem við
höfum fengið að eiga
með þér og kveðjum þig með sökn-
uði.
Spor lífsins eru þung
en ég get ekki gengið veginn fyrir þig,
sjálfur ganga þú þarft
en ég mun ganga með þér.
Ég þekki þína sorg
en ég get ekki grátið þínum tárum,
sjálfur gráta þú þarft
en ég mun gráta með þér.
Þú vilt gefast upp
en ég get ekki lifað þínu lífi,
sjálfur lifa þú þarft
en ég mun lifa með þér.
Þú óttast dauðans vald
og veist svo vel að enginn fær það flúið,
sjálfur deyja þú þarft
en dauði minn er sigur þinn,
ég mun vera hjá þér,
þú munt lifa með mér.
(Þýð. Guðmundur K. Brynjarsson.)
Þín barnabörn
Karen, Birgir Þór og Tanja Rún.
Það vorar hægt á dalnum.Vega-
gerðin hættir að skrölta fram veg-
inn snemma á morgnana, þegar
snjóa leysir. Hrafninn ræður ekki
lengur ríki fugla. Gæsir og álftir
þreyta flugið inn í heiðina, komnar
um langan veg. Það eru endur á
tjörninni, grasnálin gægist upp úr
sverðinum og brumin þrútna á
trjánum. Vorboðarnir birtast einn af
öðrum. Það eru annir um allan mó-
ann og stelkurinn er tekinn til við að
stríða hundinum. Einn og einn veiði-
maður egnir fyrir fisk í hylnum. Þá
gerist það að prúður maður og hæg-
látur fer að venja komur sínar hing-
að fram á dalinn. Okkur er sagt að
þetta sé hann Dóri veiðivörður. Það
stafar frá honum hlýju og við skynj-
um að sumarið er komið.
Halldór er maður nokkuð við ald-
ur en óvenjulega vel á sig kominn
líkamlega, dökkur á brún og brá,
kvikur í hreyfingum og léttur í
spori. Við kynnumst honum fljótt
enda reynist hann okkur í Króki vel-
viljaður og hjálpsamur. Af og til lít-
ur hann inn, flytur okkur kannski
blöðin, rennir stundum í fljótheitum
úr kaffibolla, svo er hann horfinn,
stendur sjaldan lengi við, enda þarf
hann vítt að fara með ánni. Hann er
hluti af umhverfinu og manni finnst,
ekki síst nú þegar hann hverfur
okkur, að hann hafi verið ómissandi
hluti þess. Við Dóri áttum eftir að
kynnast nánar. Það gerðist þegar ég
tók við veiðivörslunni af honum fyrir
nokkrum árum. Hann bjó þá á
sumrum, ásamt konu sinni, henni
Bertu, í túnjaðrinum á Skarðshömr-
um. Þar höfðu þau byggt sér lítinn
og snotran bústað og ræktað upp
dáfagran trjálund á gróðurvana mel.
Á þessum vinalega stað, sem grann-
konan hinum megin árinnar nefndi
réttilega Túnprýði, undu þau vel
hag sínum með vinum og barna-
börnum. Halldór átti þangað ættir
að rekja, þekkti staðinn allt frá
bernsku og var hann honum einkar
kær. Ég varð þess fljótt var að Dóri
átti erfitt með að skiljast við starfið
og kom margt til. Hann naut þess
mjög að fara með ánni. Honum þótti
vænt um veiðimennina og þeim um
hann. Hann fór því með mér flesta
daga allt þar til hann veiktist á liðnu
sumri. Það voru að mörgu leyti for-
réttindi mín. Hann þekkti ána að
HALLDÓR ÞORSTEINN
NIKULÁSSON
✝ Halldór Þor-steinn Nikulás-
son fæddist í Reykja-
vík 20. ágúst 1918.
Hann lést á Hrafn-
istu í Reykjavík 24.
desember síðastlið-
inn og fór útför hans
fram frá Áskirkju 3.
janúar.
sjálfsögðu mjög vel
eftir liðlega tveggja
áratuga starf á bökk-
um hennar og sagði
mér sitt af hverju um
það, sem þar hafði
skeð á þeirri tíð. Var
þar í bland margs kon-
ar fróðleikur af mönn-
um og dýrum bæði lífs
og liðnum. Lífríki ár-
innar og mannlífið á
bökkum hennar var
honum hugleikið. Það
var eins og hann sæi
stundum það, sem okk-
ur hinum er hulið,
enda kominn af fólki, sem frægt er á
bókum fyrir slíkar gáfur. Fyrir kom
að hann fann á sér hvert fara skyldi.
Eitt kvöld að áliðnu sumri þegar
hann kom heim í Túnprýði beið
hans að vanda matur á borðum en
honum fannst hann verða að fara
fram á dalinn og bað því konuna að
bíða með matinn. Á Háreksstaða-
eyrum mætti hann manni, sem var
þar blautur og hrakinn við veg-
brúnina. Sá hafði fest bíl sinn á ánni
og sloppið í land við illan leik. Í ann-
að skipti var sagt að hann sæi tvo
menn á veiðum þar sem einn átti að
vera. Sá þó aldrei nema einn í kík-
inum. Hann þekkti svo sem báða,
annar var faðir hins látinn fyrir
nokkrum árum, hafði verið einn af
tryggustu aðdáendum árinnar.
Hafði sem sagt brugðið sér úr veiði-
lendunum efra í ána sína hér í
neðra. Á einum stað vildi hann aldr-
ei stoppa, taldi vera óhreint og
greikkaði sporið þegar við áttum
leið þar hjá. Ég varð hins vegar
einskis var í sljóleika mínum. Það
voru þó fleiri en eilífðarverur á reiki
við ána. Dóri þekkti auðvitað veiði-
mennina af langri reynslu, vissi
hverjir væru helst líklegir til þess
að misstíga sig á vegi dyggðarinnar,
en hann var dálítið sérstakur sem
veiðivörður. Ég varð þess aldrei var
að hann leitaðist við að standa slíka
að verki enda eru þeir sárafáir sem
betur fer. Í slíkum tilvikum var
hann hins vegar vel sýnilegur, kom
oft og ræddi málin, kom jafnvel
fljótt til baka aftur eftir að hafa far-
ið. Til er af honum sú saga að hann
hafi talað þannig utan í brotlegan
veiðimann að sá hafi gengið upp frá
ánni gráti nær og iðrast beisklega
gjörða sinna. Ég veit ekki hvort
sagan er sönn en hún gæti verið
það, því að þannig var Dóri. Hann
kaus frið ef friður var í boði. Það er
því ekki að undra að veiðimönnum
væri hlýtt til hans. Hvar er Dóri?
spurðu þeir oft fljótlega eftir að þeir
komu í veiðihúsin. Oftast þurftu þeir
ekki lengi að spyrja. Hann var
venjulega ekki langt undan með sitt
hlýja bros og fagnandi faðmlag sem
og koss á kinn að gömlum sveitasið.
Stúlkurnar úr eldhúsinu minnast
hans vafalaust margar um langa tíð
því þegar þær mættu til starfa sinna
smemma morguns beið þeirra oftar
en ekki fagur vöndur af vallarins
grösum, sem hann tíndi þeim í garði
sínum við Túnprýði. Starf hans var
oft líkara sálgæslu en eftirliti.
Gott andrúmsloft er mikils virði á
stað þangað sem menn leita til and-
legrar hvíldar og tilbreytingar frá
amstri hversdagsins. Þetta vissi
Dóri vel, var alls staðar nærri þar
sem þörfin var, hvatti og hughreysti
á víxl, tók snúninga af starfsfólkinu,
snyrti umhverfið, hafði vakandi
auga á öllu, en dreifði umfram allt í
kringum sig glaðværð og vinsam-
legu andrúmslofti. Honum lét illa að
gera ágreining við menn. Ég sá
hann aldrei reiðast eða leggja til at-
lögu með hörku, jafnvel þótt ástæða
væri til, en ég sá honum oft sárna og
ég varð þess oft var að honum leið
illa ef einhver braut þær reglur sem
virða ber eða sýndi sínar slæmu
hliðar. Hann kunni naumast að beita
þeim vopnum, sem flestum eru til-
tækust þegar út af bregður í sam-
skiptum manna. Hann átti þó þann
brand, sem best bítur þegar allt
kemur til alls. Þessi kjörgripur hans
var kærleikur. Þannig mun ég ætíð
minnast Dóra. Hann verður í mín-
um huga maður friðar og góðvildar.
Ég er honum þakklátur fyrir marg-
ar ánægjustundir á bökkum árinnar
fögru. Sumarkoman á dalnum verð-
ur óneitanlega með öðrum svip nú
þegar einn vorboðanna er horfinn á
braut.
Gunnar Jónsson.
Í dag kveðjum við góðan vin, sem
mætti manni ávallt með hlýjum
móttökum og hógværð, þegar mætt
var til veiða við Norðurá, Halldór
sýndi alltaf mikinn áhuga á veiðinni
í þau ófáu skipti sem ég kom til
veiða í Norðurárdalinn. Hvort sem
það var um vatnabúa eða lyngvargi
lá Dóri ekki á upplýsingum. Í mín-
um huga er veiðin fyrst og fremst
keppni við sjálfan sig – Dóri var aft-
ur á móti mikill náttúruunnandi.
Þegar við áttum tveggja manna tal
barst það oftast að ævintýralegri
fegurðinni í kringum okkur – það
eru mér ógleymanlegar stundir. Oft
hét ég á þig í veiðinni og minnist ég
hve þið glöddust yfir „litlu“, þá
fannst mér ég vera ríkur þegar
veiðinni var deilt með ykkur.
Það er svo merkilegt að Dóri virt-
ist vera hluti af Norðurá í mínum
huga, hann féll svo vel inn í alla um-
görðina sem umlykur Norðurá.
Lengi tókst Dóra að standast glímu-
brögð elli kerlingar svo að það vakti
undrun og aðdáun þeirra sem hon-
um kynntust. Hann var til æviloka
teinréttur í baki og fyrirmannlegur.
Hitt var ekki minna um vert að and-
legt atgervi og sálarkraftur virtust
óskert og öflugri en hjá flestum þótt
yngri væru að árum.
Komin er kveðjustundin. Far þú í
friði og þakka þér samfylgdina.
Lárus Valbergsson.
Okkur langar að minnast góðs
vinar okkar, hans Dóra, eins og
hann var ávallt kallaður á meðal
okkar. Við kynntumst Dóra fyrst í
veiðihúsinu við Norðurá árið 1992
þar sem Guðmundur vann þar. Síð-
an liðu nokkur ár á milli eða þar til
1996 sem við Gummi tókum við
rekstri veiðihússins við Norðurá.
Þar kynntumst við Dóra okkar enn
betur svo söknuðurinn verður mikill
í veiðihúsinu í sumar sem kemur því
það vantar mikið að hafa ekki hann
Dóra í kringum okkur og þegar
hann kom á skiptidögum var alltaf
það fyrsta sem maður heyrði þegar
hann kom inn í eldhúsið: „Hér sé
friður,“ og svo voru allir faðmaðir
og kysstir fram og til baka. Ekki
kom hann einsamall því yfirleitt var
með honum lítill drengur, hann
Birgir, yndislegur drengur sem unni
honum afa sínum mikið og hún
Tanja litla sem kom líka með honum
afa. Söknuðurinn hjá þeim er eflaust
mikill og ekki síður okkur, því ég á
eftir að sakna þess að taka ekki til
mat handa honum Dóra mínum sem
hann tók ávallt með sér, heim í bú-
stað. Fannst honum nú óþarfa dek-
ur við sig því ekki vildi hann nú mik-
ið tilstand í kringum sig. Við
þurftum oft að biðja hann að koma
daginn eftir til að taka hitt og þetta.
Elsku Dóri, hvíl þú í friði því nú
líður þér vel . Við sendum okkar
innilegustu samúðarkveðjur til fjöl-
skyldu Dóra með mínu uppáhalds
ljóði:
Í bljúgri bæn og þökk til þín,
sem þekkir mig og verkin mín.
Ég leita þín, Guð, leiddu mig
og lýstu mér um ævistig.
Ég reika oft á rangri leið,
sú rétta virðist aldrei greið.
Ég geri margt, sem miður fer,
og man svo sjaldan eftir þér.
Sú ein er bæn í brjósti mér,
ég betur kunni þjóna þér,
því veit mér feta veginn þinn,
að verðir þú æ drottinn minn.
(Pétur Þórarinsson.)
Mjöll Daníelsdóttir og
Guðmundur Viðarsson.
Mig langar að minn-
ast góðrar vinkonu
minnar, hennar Binnu,
í fáeinum orðum, en
hún lést eftir erfið
veikindi á heimili sínu
aðfaranótt Þorláks-
messu og hafði þá glímt við veikindi
allt sl. ár en aldrei bugast. Hún gat
slegið á létta strengi allt fram á það
síðasta.
Ég ætlaði að heimsækja hana sl.
haust á Landspítalann en þar hafði
hún verið lögð inn. Þar var enga
Binnu að finna, þar var sagt að hún
væri á Sankti Jósefsspítala í Hafn-
arfirði. Þangað fór ég en ekki var
hana heldur þar að finna, hún var
sögð farin heim og ætlaði að vera
þar í veikindum sínum. Mikið var
það líkt Binnu. Ég pantaði þá leigu-
bíl til að fara heim til hennar. Hver
mætir þá á leigubíl annar en sonur
hennar Óli og keyrir mig heim til
þeirra hjóna? Svona geta tilviljan-
irnar verið en þetta varð í síðasta
skipti sem ég sá vinkonu mína þótt
ég ætti eftir að heyra í henni sím-
leiðis oftar.
Það var ósk Binnu að vera sem
lengst á heimili sínu með ástvini
sína í kringum sig og fjölskyldan
stóð þétt saman í veikindum hennar
og annaðist hana af ást og um-
hyggju allt fram í það síðasta.
Eða eins og Binna sagði svo oft
sjálf: „Ég veit ekki hvað ég gerði án
hans Eiríks míns, hann ber mig á
höndum sér og krakkarnir, þessar
elskur, þau vilja allt fyrir mig gera,
ég veit ekki hvar ég væri án þeirra.“
Já, vissulega var Binna lánsöm að
eiga svo góðan og traustan lífsföru-
naut sem Eiríkur var henni og börn-
in þeirra sem nú eru orðin fullorðið
fólk. Þau Bergþór, Steingrímur,
Ólafur og Inga Villa hafa reynst
henni vel í veikindum hennar.
Þegar Binna og Eiríkur fluttu til
Súgandafjarðar frá Hafnarfirði árið
1962 með börnin sín fjögur áttu þau
eftir að búa hér nær óslitið næstu 30
ár eða þar til 1992 þegar þau flytja
aftur á heimaslóðir í Hafnarfirði.
Heimili þeirra hjóna hér á Suður-
eyri stóð ætíð opið og sérstaklega
var það áberandi hversu vinir og
kunningjar barna þeirra voru ávallt
velkomnir og varð heimilið hálfgerð
félagsmiðstöð unga fólksins. En þau
hjón hafa alltaf verið gestrisin og
höfðingjar heim að sækja eins og
ættingjar og vinir þekkja vel. Leiðir
okkar Binnu lágu ekki saman fyrir
alvöru fyrr en fjölskyldur okkar
beggja fluttu í fyrstu blokkina sem
byggð var á Suðureyri og þar
bjuggum við í sitthvorum endanum í
rúm tíu ár. Við göntuðumst oft með
það að við værum eins og príma-
donnur hvor í sínum endanum á
blokkinni og stjórnuðum sameign-
inni með harðri hendi svo að allt
væri þar í röð og reglu. Samgangur
okkar á milli var mikill og góður öll
þessi ár og aldrei bar þar skugga á.
Binna og Eiríkur voru einstaklega
góðir vinir og nágrannar sem fjöl-
skylda mín er þakklát fyrir að hafa
kynnst svo vel þessi ár. Binna
dásamaði alltaf fjörðinn sinn, Hafn-
arfjörð, og þótt þau hefðu eytt
stærstum hluta sinnar búskapartíð-
ar hér í Súgandafirði þá vissum við
að þegar heilsan færi að gefa sig
myndu þau hugsa sér til hreyfings
og ekkert annað kæmi til greina en
að fara aftur heim til Hafnarfjarðar
eins og hún sagði alltaf. Þar hafa
BJARNÞÓRA
ÓLAFSDÓTTIR
✝ Bjarnþóra Ólafs-dóttir fæddist í
Hafnarfirði 21. maí
1923. Hún lést 23.
desember síðastlið-
inn og fór útför
hennar fram frá
Hafnarfjarðarkirkju
4. janúar.
þau búið síðastliðin tíu
ár með afkomendur
sína í næsta nágrenni
og liðið vel í faðmi fjöl-
skyldunnar, því velferð
hennar var Binnu allt-
af efst í huga.
Ég heimsótti Binnu
og Eirík oft eftir að
þau fluttu í Hafnar-
fjörðinn og var alltaf
tekið opnum örmum og
spurð frétta af mann-
lífi og aflabrögðum í
Súgandafirði.
Í síðasta símtali okk-
ar Binnu í desember
sagði hún frá því að sig langaði að
koma til Súgandafjarðar næsta
sumar og sjá jarðgöngin og fjörðinn
sinn aftur og hitta gamla vini. Úr
því gat því miður ekki orðið en þú
verður ávallt hugstæð vinum þínum
og samferðafólki hér í Súgandafirði
og ég kveð þig með söknuði, kæra
vinkona.
Við hjónin sendum Eiríki og öll-
um afkomendum innilegar samúðar-
kveðjur. Megi Guð vera með ykkur.
Kærar kveðjur frá Súgandafirði.
Lilja Rafney, Hilmar og börn.
Að hryggjast og gleðjast
hér um fáa daga,
að heilsast og kveðjast
það er lífsins saga.
(P. J. Árdal.)
Föstudaginn 4. janúar síðastlið-
inn var til moldar borin Bjarnþóra
Ólafsdóttir. Af vinum sínum var hún
alltaf kölluð Binna. Hún var fædd
og uppalin á Vesturbrautinni í
Hafnarfirði. Þegar foreldrar okkar
voru að hefja búskap fengu þau af-
not af herbergi hjá fjölskyldu Binnu
og eignuðust þau fyrstu börnin sín
þar. Fjölskyldurnar tengdust sterk-
um vináttuböndum sem hafa haldið
síðan.
Fyrir tíma sjónvarps hafði út-
varpið mikið vægi, og voru leikritin
sérstaklega vinsæl. Á versta tíma
hafði útvarpið heima bilað, en þá
var framhaldsleikritið „Gregory“ í
gangi. Þá var farið heim til Binnu á
Vesturbrautina að hlusta. Við
krakkarnir sátum saman á gólfinu
fyrir framan tækið og störðum á
það án þess að depla auga og hlust-
uðum með andakt.
Sú stemmning gleymist ekki.
Um tíma bjó Binna með fjöl-
skyldu sinni í Súgandafirði, þá var
gott að leita til þeirra hjóna til að fá
húsaskjól þegar á þurfti að halda.
Heimili þeirra stóð manni alltaf til
boða. Binna var vinamörg, mikill
vinur vina sinna, blíðlynd og mikil
barnagæla, en hörð í horn að taka
þeim sem fengu hana upp á móti
sér. Það var gott að eiga Binnu að,
hún var fyrst til þeirra sem voru
hjálpar þurfi eða áttu um sárt að
binda – já trygglynd var hún.
Þau hjón áttu fallegt heimili með
börnum sínum fyrir vestan, en hún
ætlaði samt að flytja aftur í fjörðinn
sinn. Við það stóð hún, því fáir unnu
Hafnarfiði meira en hún Binna.
Fyrir nokkrum árum veiktist hún af
illkynja sjúkdómi og síðasta árið var
henni erfitt þar sem hún lá að mestu
leyti rúmliggjandi. Hún óskaði ein-
dregið eftir því að fá að vera heima í
veikindum sínum og eins og Binna
sagði sjálf: „Ég á svo góða að,“ og
það gekk eftir. Binna naut um-
hyggju fjölskyldu sinnar og eigin-
manns til hinstu stundar á heimili
sínu og var aðdáunarvert hversu vel
henni var hjúkrað.
Guð blessi minningu þína.
Við systkinin og fjölskyldur okk-
ar sendum Eiríki, börnum og fjöl-
skyldum þeirra innilegar samúðar-
kveðjur.
Aðalheiður og Hannes.
Handrit afmælis- og minningargreina skulu vera vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett. Sé
handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprentuninni. Senda má greinar til blaðsins
í bréfsíma 569 1115, eða á netfang þess (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer höf-
undar/sendanda fylgi. Nánari upplýsingar má lesa á heimasíðum. Það eru vinsamleg tilmæli
að lengd greina fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd — eða
2.200slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.