Morgunblaðið - 11.05.2002, Blaðsíða 33
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. MAÍ 2002 33
Erik Bidsted, listdansari, danshöfundur, leik-
stjóri og kennari, fæddist í Danmörku 10. jan-
úar 1916. Hann lést á Spáni 20. apríl síðastlið-
inn. Fyrri eiginkona Bidsteds var Lise
Kæregaard dansari sem starfaði með honum
við Þjóðleikhúsið. Dóttir þeirra er Loa Lisa.
Eftirlifandi eiginkona hans er Else Bidsted.
Bidsted kom fyrst til Íslands árið 1952 þegar
Guðlaugur Rósinkrans þjóðleikhússtjóri réð
hann sem ballettmeistara Þjóðleikhússins, og
starfaði hann hér samfellt til ársins 1960. Áður
hafði Bidsted starfað sem ballettmeistari og
leikstjóri í heimalandi sínu og sett upp fjöl-
margar danssýningar og söngleiki. Þá stýrði
hann um áratuga skeið Pantomime teatret í
Tívolí í Kaupmannahöfn. Bidsted kom List-
dansskóla Þjóðleikhússins á legg og stjórnaði
honum sem ballettmeistari Þjóðleikhússins.
Hann samdi einnig nokkra balletta hér, þeirra
á meðal Ég bið að heilsa 1952 og Dimmalimm
1954, báða við tónlist eftir Karl O. Runólfsson.
Hann kom einnig nokkrum sinnum til Íslands
eftir 1960 og vann við nokkrar sýningar, ýmist
sem danshöfundur eða leikstjóri. Erik Bidsted
var sæmdur fálkaorðunni árið 1983 fyrir störf
við dansmennt á Íslandi.
D
ANSSAGA Íslendinga er stutt
og þó kannski lengri en marga
grunar. Til eru þeir sem
ímynda sér að vikivakaleikirnir
og vikivakadansarnir íslensku
séu ævafornir, jafnvel að um sé
að ræða nær óslitna hefð fram á 18. öld. Og á 19.
öld voru erlendir samkvæmisdansar vinsælir.
Listdans á Íslandi er þó býsna ungur. Hann
tengist órjúfanlega leiklistarsögunni, en í fyrsta
skipti sem vitað er að dans hafi verið stiginn á
íslensku leiksviði var þegar Nýársnóttin var
frumsýnd 1871; einn skólapilta var færeyskur
og kenndi félögum sínum færeyskan dans.
Fyrsta sjálfstæða danssmíðin tengist einnig
Nýársnóttinni; dóttir höfundarins, Indriða Ein-
arssonar, leikkonan Guðrún Indriðadóttir, mun
eiga heiðurinn af því að semja fyrsta íslenska
leikdansinn. Hin íslenska stórleikkona af alda-
mótakynslóðinni, Stefanía Guðmundsdóttir,
nam einnig dans og kenndi og sýndi með marg-
víslegum hætti skilning á gildi danslistarinnar.
En Ásta Norðmann, sú sem fyrst lagði út í eig-
inlegt listdansnám hefur einmitt lýst því hvern-
ig dans Guðrúnar Indriðadóttur varð henni inn-
blástur. Heimkomin frá Þýskalandi sýndi Ásta
Norðmann dans og samdi dans m.a. við revíu-
sýningar og leiksýningar. En lengi er hún
býsna ein við þá iðju.
Á fimmta áratugnum fer að rofa til og þá
koma heim fleiri dansarar frá námi erlendis og
Félag ísl. listdansara er stofnað. Mest kveður
þá að Sigríði Ármann sem semur m.a. ballettinn
Eldur við tónlist Jórunnar Viðar um líkt leyti og
Þjóðleikhúsið er opnað og Ásta Norðmann sem-
ur dansinn við opnunarsýninguna, Nýársnótt-
ina. Síðar samdi Sigríður annan ballett við tón-
list Jórunnar, Ólaf Liljurós, sem sýndur var í
Iðnó 1952.
En um líkt leyti er brotið blað. Fyrir tilstilli
Guðlaugs Rósinkranz er stofnaður Listdans-
skóli Þjóðleikhússins og til að veita honum for-
stöðu ræður hann danskan ballettmeistara,
Erik Bidsted. Nú berast þau tíðindi frá Dan-
mörku að Erik Bidsted sé allur og þar sem
hlutur hans í hinni stuttu íslensku listdanssögu
er mikill og seint fullþakkaður, er ekki úr vegi
að rifja upp þá sögu með nokkrum orðum.
Þegar Erik kom til Íslands var hann vinsæll
ballettmaður í sínu heimalandi, dansari og
dansasmiður og stóð í mörg ár á sumrin fyrir
hinum sögufræga ballett í Pantomimeteatret í
Kaupmannahöfn þar sem lögð er rækt við sér-
kenni sem eiga rætur í Commedia dell ’arte-
hefðinni ítölsku á endurreisnarskeiðinu og um
sviðið spranga þekktar persónur eins og Pierrot
og Kólumbína. Meðal fyrstu nemenda Bidsteds
voru ýmsir sem síðar áttu eftir að verða þekktir
í þjóðlífinu, jafnt í listum sem í öðrum greinum,
þannig að skólinn hefur kennt mönnum fleira
en einungis þá líkamsburði sem þarf til að verða
góður dansari. Þekktastur þeirra allra er auð-
vitað Helgi Tómasson sem ævinlega hefur sýnt
sínum gamla kennara aðdáunarverða rækt-
arsemi. Bidsted tók Helga með sér til Tívolí þar
sem hann sté sín fyrstu dansspor á erlendri
grund og síðan flaug hann um víðan völl.
Reyndar var Sigríður Ármann fyrsti kennari
Helga og því hefur hann heldur ekki gleymt.
Þessir fyrstu nemendur Bidsteds urðu síðan
kjarninn í allri dansviðleitni okkar næstu tvo
áratugi, þar til Íslenski dansflokkurinn kom til.
Þetta var ósérhlífinn hópur sem einnig hefur
lagt mikið til danskennslunnar eftir að Bidsted
hvarf til síns heima.
En það var ekki aðeins að listdanskennslan
tæki kipp með komu Bidsteds og þáverandi
konu hans, Lise Kæregaard, sem einnig kenndi
við skólann, heldur og nýttist kunnátta hans
fljótt í leiksýningum, enda hafði Erik einkar
gott auga fyrir sviðsetningum og stóð þá oft fyr-
ir dansatriðum og hópatriðum. Mest nýmæli
voru að tveimur listdanssýningum sem hann
samdi og voru bæði frumsköpun, Dimmalimm,
byggt á verki Muggs, þar sem einmitt Helgi
Tómasson dansaði sitt fyrsta aðalhlutverk og
Ég bið að heilsa, hyllingu til listaskáldsins góða,
hvort tveggja við tónlist eftir Karl O. Runólfs-
son (og hin síðarnefnda tónlistin reyndar byggð
á stefi eftir Inga T. Lárusson). Á einni sýningu
á Ég bið að heilsa, þar sem Erik dansaði sjálfur
þröstinn, gerðist það óhapp að hann sleit hásin.
Svo hittist á, að undirritaður var viðstaddur þá
sýningu. Það var átakanlegt atvik sem ekki
gleymist, og ég hygg að margur hafi haldið að
hann dansaði aldrei framar. Það gekk þó ekki
eftir, m.a fyrir frækilega aðgerð Snorra Hall-
grímssonar að mér er sagt. Báðir þessir ball-
ettar voru teknir aftur til sýningar nokkrum ár-
um síðar og þá var Bidsted með. Jafnframt
sýndu þau hjón atriði úr þekktum sígildum ball-
ettum og stýrðu nemendasýningum Listdans-
skólans.
Og sem betur fer var Erik Bidsted fjölhæfur
leikhúsmaður. Hann stýrði Listdansskóla Þjóð-
leikhússins tæpan áratug, stóð fyrir danssýn-
ingunum og samdi dansa við önnur verk. Mér
telst svo til að fyrsta verk hans í þá veru hafi
verið að semja dansa fyrir Skugga-Svein, jóla-
sýningu leikhússins 1952, en síðar þann vetur
var einmitt ballettinn Ég bið að heilsa frum-
sýndur. Af öðrum minnisverðum verkum voru
dansarnir í barnaleikritin Ferðin til tunglsins,
þar sem honum þótti takast einstaklega vel upp,
Undraglerin og Kardemommubæinn sívinsæla,
svo og suma dansana í Nitouche (ásamt Sigríði
Ármann), Kátu ekkjunni, fyrstu uppfærslu hér-
lendis af Töfraflautunni og frumuppfærslunni á
Silfurtúnglinu. Eftir að hann fluttist aftur til
Danmerkur 1960 kom hann oft til Íslands og
stýrði þá m.a. söngleiknum Ég vil ég vil og
samdi dans- og hópatriðin í Táningaást og
þeirri frægu sýningu My Fair Lady. Karde-
mommubærinn og Liljan fríð eru meðal fjöl-
sóttustu verkefna leikhússins fyrr og síðar.
Undirritaður átti gott samstarf við Bidsted
eftir að hann kom til starfa við Þjóðleikhúsið. Í
fyrsta lagi stýrði hann sýningunni á Leðurblök-
unni 1975 sem sló öll aðsóknarmet og var sýnd
50 sinnum á einu leikári. Um líkt leyti var sama
verk tekið til sýningar á Konunglega leikhúsinu
í Kaupmannahöfn og man ég það að við Erik
vorum mjög stoltir af því að okkar sýning hafði í
uppsetningu kostað 15 sinnum minna en sú
danska sem við báðir sáum og þótti okkur hún
þó ekkert eftir hinni gefa listrænt. Ári síðar
kom hann aftur og samdi dansa fyrir óperuna
Carmen sem einnig varð ein af þessum göngu-
sýningum og var sýnd einu sinni oftar en Leð-
urblakan. Síðast kom Erik hingað til lands á 40
ára afmæli Listdansskólans 1992 og var Else,
seinni konu hans, þá með í för.
Erik Bidsted var einstaklega ljúfur og elsku-
legur persónuleiki og allt samstarf við hann
mjög svo ánægjulegt, þó að auðvitað ætti hann
ríkt listamannsskap eins og við flest sem við
leikhús höfum starfað.
Ekkju Eriks Bidsted, Else, eru sendar inni-
legar samúðarkveðjur um leið og honum eru
þökkuð þessi margvíslegu störf í þágu íslenskr-
ar dansmenntar og íslenskrar leiklistar. Þau
spor verða ekki máð.
Sveinn Einarsson.
Erik Bidsted B
IDSTED á þetta inni hjá þér,“
sagði Jón Baldvin við mig. Eft-
ir á að hyggja er þetta alveg
rétt hjá honum. Bidsted á það
svo sannarlega inni hjá mér,
að ég minnist hans nokkrum
orðum. Hann var minn mentor á árunum
milli tektar og tvítugs. Hann var fyrsti mað-
urinn, mér vandalaus, sem ég hreifst af, leit
upp til, hlakkaði til að hitta á hverjum degi í
mörg ár.Við kölluðum hann alltaf Bidsted –
aldrei Erik, það gaf til kynna hæfilega fjar-
lægð.
Við vorum ungar Reykjavíkurmeyjar að
stíga sín fyrstu dansspor inn í veröld leik-
hússins. Það var töfraveröld, þarar sem grár
veruleikinn var skilinn eftir utan dyra. Við
fórum úr skólafötunum, íklæddumst gervi
ballerínunnar, settum hárið í hnút og gutum
gagnrýnum augum að stórum speglum bún-
ingsherbergisins. Vid biðum spenntar eftir að
dyrnar opnuðust og meistarinn segði mynd-
ugri röddu: „Vær saa gode.“
Mér er þetta allt saman svo ljóslifandi í
minningunni. Við stilltum okkur upp í röð
fyrir framan speglana og byrjuðum sláræf-
ingarnar. Hann gekk meðfram röðinni, gagn-
rýndi hverja og eina – hver fékk sinn
skammt: Bein í baki, inn með magann, halda
höfðinu hátt – en, to, tre, en, to, tre…
Svitinn bogaði af okkur. Við reyndum að
gera betur en við gátum, ekki skyldum við
gefast upp. Allt fyrir Bidsted.
Ég held við höfum allar elskað hann í
laumi. Að vísu vorum við svo ungar, að við
vissum ekki, hvað ástin var. En við þráðum
heitt að gera honum til hæfis og að heyra
hann segja eitthvað fallegt og uppörvandi við
okkur. Það var aðalsmerki Bidsteds, að hann
gat blásið okkur í brjóst trú á sjálfar okkur,
trú á getu okkar og að við værum að gera
eitthvað, sem máli skipti.
Stærsta rósin í hnappagati Bidsteds er og
verður þó Helgi Tómasson, núverandi list-
rænn stjórnandi San Franciscoballettsins.
Það má segja, að Bidsted hafi uppgötvað
Helga sem barn og leitt hann inn á þá braut,
sem reyndist honum seinna svo heilladrjúg.
Það er kannski engin tilviljun, að eftir örfáa
daga verður Helgi gerður að heiðursdoktor
við hinn heimsfræga Juillard tónlistarháskóla
í New York.
Bidsted var brautryðjandi. Rúmu ári eftir
að hann stofnaði balletskóla Þjóðleikhússins
færði hann upp sýningu, sem má segja að
hafi orðið upphaf blómaskeiðs, sem fylgdi í
kjölfarið. Mig minnir að hann hafi á þessari
fyrstu sýningu fundið hlutverk fyrir sem
næst allar dansmeyjarnar. Hann raðaði okk-
ur eftir stærð og sýndi áhorfendum það starf,
sem unnið var baksviðs og það, hvernig
balletuppfærsla varð til. Seinni hluti sýning-
arinnar var ballettinn: „Ég bið að heilsa“ við
undurljúfa tónlist Karls Ó Runólfssonar.
Meistarinn brá sér sjálfur í gervi skáldsins.
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi ísa…
Orð Jónasar rifjast upp fyrir mér hér á
litlu gangstéttarkaffihúsi í listahverfi Mexíkó-
borgar, þar sem ég sit og hugsa til löngu lið-
inna daga. Við stelpurnar höfðum aldrei séð
alvorudansmær áður. Lisa Kjaeregaard, fyrri
eiginkona Bidsteds, var ógleymanleg í hlut-
verki stúlkunnar med rauðan skúf í peysu.
Lisa var sólódansmær vid Pantomime Teatr-
et í Tívolígarðinum í Kaupmannahöfn.
Ég var bara ein af mörgum bárum, sem
flykktust heim að fögru landi ísa. Ég man
eins og það hefði verið í gær. Næfurþunnir
kjólar, fisléttir, sægrænir, vöfðust eins og
þang utan um okkur, þegar við bylgjuðumst
um sviðið (reyndar sé ég af gömlum myndum,
að ávali bylgjunnar átti fátt sameiginlegt med
gelgjulegum limum þessara táningsstelpna).
Þessi ævintýrakvöld fannst mér sem allt
væri fullkomnað. Framvegis mundi ég svífa
dansandi gegnum lífið. Þökk sé Bidsted.
Mexíkóborg, 7. maí, 2002,
Bryndís Schram.
SÝNING á myndverkum 6–16 ára
nemenda Myndlistaskóla Reykja-
víkur verður opnuð í anddyri
Borgarleikhússins í dag, laugar-
dag, og er hún hluti af dagskrá
Listahátíðar í Reykjavík. Mynd-
verkin eru unnin á þessari vorönn
undir hughrifum frá ljóðum Hall-
dórs Laxness og hefur sýningin yf-
irskriftina … með endalausum
himni …
Ljóðin voru útfærð í myndir,
ýmist hlutbundin verk eða óhlut-
bundin, tvívíð eða þrívíð. Við út-
færslu myndverkanna var lögð
áhersla á taka mið af rýminu og að
þau nytu sín til fulls.
Í anddyrinu er fjöldi atriða (hús-
gögn, veitingaborð, myndir á
veggjum, letur á veggjum, ljósa-
staurar o.s.frv.) sem hafa áhrif á
heildarmyndina. Verkin þurftu að
vera þeirrar stærðar og gerðar að
þau ættu ekki í vök að verjast í því
samhengi hluta sem fyrir er. Verk-
in eru sett upp á þremur stöðum í
anddyri leikhússins og í Kringlu-
safni.
Sýningin er afrakstur samstarfs
Borgarbókasafns Reykjavíkur og
Myndlistaskólans í Reykjavík og
stendur til loka Listahátíðar í
Reykjavík, 31. maí.
Myndlist æskunnar
í Borgarleikhúsinu
Verk á sýningunni Laxness fyrir ungu kynslóðina í Borgarleikhúsinu.