Morgunblaðið - 13.07.2002, Blaðsíða 24

Morgunblaðið - 13.07.2002, Blaðsíða 24
LISTIR 24 LAUGARDAGUR 13. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ GIL Harris (DJ Quails), ofurvinsæll táningspiltur í skólanum East High- land High, hefur komist að því að leiðin á toppinn er enginn dans á rósum. Allavega ekki í hans tilfelli. Gil er nefnilega ekki allur þar sem hann er séður og á tvöfalt líf að baki. Áður var hann aumastur allra aumra, bekkjarauli og aðhlátursfífl skólasyskina sinna í Rocky Creek skólanum, sem er í hinum enda borgarinnar. Þar gekk hann undir sínu rétta nafni, Diz Harrison, og þótti einstaklega ömurlegt ung- menni. Var í úrkastinu en sá að við slíkt varð ekki unað öllu lengur ef hann ætlaði séreitthvað áleiðis í líf- inu. Fyrst af öllu verður hann að skipta um skóla, en til þess verða að liggja gildar og góðar ástæður sem voru ekki fyrir hendi. Diz lætur því reka sig úr gamla skólanum sínum, sem getur reynst erfiðara en flesta nemendur grunar – ef menn ætla sér það! Brottreksturinn lukkast ekki fyrr en tilraunir Diz eru orðnar það vafa- samar að piltur lendir í fangelsi fyr- ir vikið. Þar er lífið jafnvel enn hroðalegra fyrir nördinn en innan skólalóðarinnar. En Diz kemst í réttu samböndin og forframast með- al harðsoðinna glæpamanna sem kenna drengstúfnum sitt af hverju um hvernig á að komast af – hvar sem er. Með þessa langsóttu reynslu að baki er Diz/Gil orðinn sá allra vin- sælasti í nýja skólanum. Í slíkri stöðu er auðvelt að eignast öfund- armenn – sem geta tekið uppá þeim fjára að rannsaka bakgrunn óvina sinna... Leikhópurinn er skipaður ungu og efnilegu fólki með DJ Quails í að- alhlutverkinu. Hann á mörg hlut- verk að baki í svipuðum myndum, líkt og Eliza Dushku og Zooey Deschanel. Lyle Lovett, sem leikur föður Gil, er hinsvegar þekktur sem fyrrverandi eiginmaður Juliu Ro- berts – í reyndar skammvinnu hjónabandi. Ferill hans sem leikari og enn frekar kántrísöngvari, hefur staðið mun lengur. Leikarar: D.J. Quails (Road Trip, Cherry Falls); Eliza Dushku (Bring It On, Race the Sun, Bye Bye Love); Zooey Deschanel (Big Trouble, Mumford, Al- most Famous); Lyle Lovett (Cokkie’s Fortune, Fear and Loathing in Las Vegas, Short Cuts, The Player). Leik- stjóri: Ed Decter (frumraun). Leið bekkjar- bjálfans á toppinn Smárabíó, Laugarásbíó og Borgarbíó Akureyri frumsýna The New Guy með D.J. Quails, Elizu Dushku, Zooey Debschanel og Lyle Lovett. Leikstjóri er Ed Decter. Nýi strákurinn (DJ Quails), umvafinn bekkjarsystrum í myndinni The New Guy. Lindin, Laug- arvatni: Lista- konan Lóa Guð- jónsdóttir sýnir um þessar mund- ir vatnslita- og pastelmyndir sín- ar í veitingahús- inu Lindinni að Laugarvatni. Karl Guðmunds- son mun einnig vera með lestur í Lindinni, en hann mun lesa ljóð í dag, laugardag, fyrir gesti og gang- andi. Í DAG Lóa Guðjónsdóttir BJÖRG Þorsteinsdóttir opnar sýn- ingu á vatnslitamyndum sínum í Grafarvogskirkju á morgun eftir sunnudagsmessu. Viðfangsefni myndanna eru krist- in trúartákn sem Björg vinnur með á frjálslegan hátt. Sýningin ber heitið „Spunnið úr trúartáknum“ en verkin voru flest máluð árið 1999 og hafa aldrei verið sýnd fyrr. Björg stundaði myndlistarnám í Reykjavík, Stuttgart og París og hefur bæði málað og unnið í grafík. Hún hefur haldið um 30 einkasýn- ingar frá árinu 1971 og tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis og er- lendis. Síðustu einkasýningar Bjarg- ar voru í Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, árið 1998, í Gallerí Íslandi í Osló 1998 og Hallgrímskirkju 1999 í boði List- vinafélags kirkjunnar. Sýningin í Grafarvogskirkju verð- ur opin á sama tíma og kirkjan og stendur til 18. ágúst. Meðal verka á sýningunni er þetta málverk Bjargar Þorsteinsdóttur. Út frá táknum trúarinnar ÓLÖF Sigursveinsdóttir flytur tón- leika í Ólafsfjarðarkirkju á morg- un, sunnudag, kl. 17. Hún mun leika tvö verk á barokkselló eftir Johann Sebastian Bach annars vegar og Benedetto Marcello hins vegar. Eftir nám á Íslandi hélt Ólöf til náms í Þýskalandi þar sem hún út- skrifaðist frá Listaháskólanum í Stuttgart með hæstu einkunn sum- arið 2001. Barokksellóið hefur fangað at- hygli Ólafar undanfarið og leikur hún með Bachsveitinni í Skálholti sem sérhæfir sig í túlkun tónlistar á upprunaleg hljóðfæri. Barokk- sellóið er forfaðir nútímasellós en krefst nokkuð annarrar leiktækni. Það hefur strengi úr girni og hljóm sem hæfir vel þeirri gömlu tónlist sem því var upphaflega ætlað að túlka. Ólöf var á námsárum sínum hér heima fastráðinn hljóðfæraleik- ari við Sinfóníuhljómsveit Íslands um skeið. Hún hefur leikið með fjöl- mörgum hljómsveitum og komið fram sem einleikari á tónleikum hér heima, í Þýskalandi og á Norð- urlöndunum. Ólöf Sigursveinsdóttir Barokk- selló í Ólafsfjarð- arkirkju ANDREA Gylfadóttir söngkona og Guðmundur Pétursson troða upp á smurbrauðsstofunni og veitingahús- inu Jómfrúnni í dag. Hér eru á ferðinni sjöundu tón- leikarnir í sumartónleikaröð Jómfrúarinnar. Leikið verður utandyra á Jómfrúartorginu ef veður leyfir en tónleikarnir hefjast klukkan 16 og standa til 18 og er aðgangur ókeypis. Sumardjass á Jómfrúnni JÓN Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur flyt- ur á Skriðuklaustri á morg- un, sunnudag, kl. 17 erindi um Sögu Borgarættarinn- ar eftir Gunnar Gunnars- son og þau átök sem birtast þar milli föðurlandsástar og hollustu við ættina ann- ars vegar og persónulegs frelsis og listsköpunar hins vegar. Fyrirlesturinn nefnir Jón Óðals- herra eða galeiðuþræll – fyrirlestur um þjóðerni og listsköpun í Sögu Borgarættarinnar Saga Borgarættarinnar hefur lengi verið talin dæmi um nýróman- tískan átthagaskáldskap, ekki síst í dönskum bókmenntaskrifum, en bókin kom fyrst út á dönsku á árunum 1911– 1913. Í fyrirlestrinum verð- ur reynt að sýna fram á að þessi lestur á sögunni stenst illa og að það er þversagnakennd afstaða aðalsöguhetjunnar til föð- urlands síns og föðurleifðar sem er völd að persónuleg- um klofningi hans og þeirra átaka innan ættar- innar sem eru meginefni sögunnar. Fyrirlesarinn, Jón Yngvi Jó- hannsson, er um þessar mundir að vinna að doktorsritgerð um íslenska rithöfunda í Danmörku, þ. á m. Gunnar Gunnarsson. Aðgangur að fyrirlestrinum er ókeypis. Rætt um Sögu Borgarættarinnar Jón Yngvi Jóhannsson MIKIÐ er tíminn fljótur að líða! Undirrituðum eru í fersku minni útvarpsþættirnir Tónlistartími barnanna. Umsjónarmenn þeirra voru þær Jórunn Viðar og Þuríður Pálsdóttir og voru þættirnir á dag- skrá Ríkisútvarsins fyrir 40 árum. Þá hlustuðu börn einnig af athygli á tóm- stundaþátt Jóns Pálssonar og fram- haldsleikritin sem gerð voru við sögur Enid Blyton. Tónlistin og hið talaða orð nægði til að koma hugmyndaflug- inu af stað, myndmálið var óþarft. Ríkisútvarpið var hinn eini og sanni fjölmiðill. Sambland af skemmtun og fræðslu fyrir alla aldurshópa. Og ekki er laust við að sumum finnist dag- skrárefnið fyrir börn hafa verið ris- meira í þann tíð en efni það sem aug- lýsingaútvarpsstöðvar nútímans flytja og hafa börn og unglinga að markhópi. Ég er reyndar ekki viss um að við sem hlustuðu á Tónlistartíma barnanna höfum almennt gert okkur grein fyrir hversu merkilegt það efni var sem þær stöllur, Þuríður og Jór- unn, fluttu okkur. En við lærðum þó mörg þessara laga og texta, sungum þau við ýmsar aðstæður og þá ekki hvað síst voru þau þau mörg órjúfanlegur hluti af starfinu í barnaskólum landsins. Skólarnir unnu að því að bera hinn þjóðlega tónlistar- arf áfram og söngurinn var hluti af daglegu skólastarfi. Og mark- visst framlag Ríkisút- varpsins í Tónlistar- tíma barnanna hefur ábyggilega orðið til þess að styrkja söng- hefðina í skólunum. Þegar hlustað er á Fljúga hvítu fiðrildin, nýútkomið safn þjóð- laga, þula og annarra barnalaga í flutningi þeirra Þuríðar Páls- dóttur og Jórunnar Við- ar, heyrist glöggt hversu metnaðarfullt starf þær hafa unnið við að viðhalda tónlistararfi þjóðarinnar. Þær hafa sýnt þessum gömlu barnalögum og ekki síð- ur hlustendum sínum, börnum landsins, mikla virðingu með tónlistar- flutningi sem hlýtur að teljast einstakur að gæðum og smekkvísi. Nú veit ég ekki hvernig upptökustarfinu var háttað á sínum tíma en mig grunar þó að ekki hafi menn haft ómældan tíma til hljóðritana og víst er að ekki var til að dreifa stafrænni upptökutækni þar sem allar misfellur má laga ef að henni standa færir upptökumenn. Hér heyrast engar misfellur, allt virð- ist undirbúið út í ystu æsar, sannköll- uð fagmennska hvert sem litið er. Raddtækni Þuríðar Pálsdóttur er óviðjafnanleg, röddin er falleg sem endranær. Frá því er sagt í bæklingi að Jórunn hafi sagt Þuríði að hún skyldi gleyma því að hún væri óperu- söngvari þegar hún flytti barnalögin. Varla hefur þurft að segja listamönn- um eins og Þuríði svo sjálfsagðan hlut eins og það að laga raddtækni sína að viðfangsefninu enda er túlkun hennar í alla staði hafin yfir gagnrýni. Píanó- leikur Jórunnar Viðar er feiknagóður. Hér er á ferðinni meðleikur sem er nærfærinn en þó afger- andi. Helst mætti óska sér að meira heyrðist í píanóinu því meðleikur í þessum gæðaflokki er satt að segja sjald- heyrður. En við þessu er að sjálfsögðu ekkert að gera enda er efnið tekið beint af segul- böndum útvarpsins. Ef mið er tekið af aldri þessara hljóðrit- ana þá eru þær ótrúlega góðar þótt gerðar séu í mónó. Og sérstaklega kemur á óvart hversu lík hljóðmyndin er milli laga þrátt fyrir það að lögin hljóta að hafa ver- ið tekin upp á ólíkum tíma. Á einstaka stað má greina mun sem þó skiptir litlu máli. Menn hafa greinilega kunnað sitt fag á tæknideild út- varpsins þá ekki síður en nú. Jórunnar Viðar út- setti flest laganna og eru raddsetningarnar gerðar af mikilli smekk- vísi, oftast einfaldar að gerð þótt stundum bregði fyrir nútíma- legra tónmáli eins og í Fúsíntesþulu (diskur 1, nr. 24). En alltaf er hið saklausa, barnslega haft að leiðarljósi í tónmálinu. Pabbar og mömmur, afar og ömm- ur, gefið börnum ykkar og barna- börnum hlutdeild í sameiginlegum tónlistararfi okkar. Barnalagasafn Þuríðar Pálsdóttur og Jórunnar Við- ar er geysilega vandað og þótt það sé barns síns tíma á það vissulega erindi til okkar allra og ekki hvað síst yngstu kynslóðarinnar sem bera á arfinn áfram til barnanna sinna. Og að lokum þetta. Ég skora hér með á alla leikskólastjóra og skóla- stjóra í grunnskólum landsins að sjá til þess að þessir diskar verði keyptir og notaðir í skólum þeirra. Ég held að það sé mikilvægt og sannarlega er það áríðandi að til sé eitthvert mót- vægi við þeirri lágkúrulegu kaup- sýslumenningu sem troðið er upp á börn á Íslandi nú á dögum. TÓNLIST Geislaplötur Íslensk og erlend barnalög, þulur og þjóð- lög úr útvarpsþáttunum „Tónlistartími barnanna“ frá árunum 1960-1962. Söng- ur: Þuríður Pálsdóttir (sópran). Hljóð- færaleikur: Jórunn Viðar (píanó). Útsetn- ingar: Jórunn Viðar. Upptökur: Ríkisútvarpið 1960-1962. Umsjón með útgáfu: Trausti Jónsson, Vala Krist- jánsson og Valgarður Egilsson. Heild- artími 1’34 (2 diskar). Útgefandi: Smekkleysa SMG5 . FLJÚGA HVÍTU FIÐRILDIN Geymt en ekki gleymt Valdemar Pálsson Þuríður Pálsdóttir Jórunn Viðar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.