Morgunblaðið - 13.07.2002, Síða 43
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. JÚLÍ 2002 43
Skráningarlýsing fyrir víkjandi verðtryggð
skuldabréf Kaupþings banka hf.
1. flokkur 2000
Kauphöll Íslands hf. hefur ákveðið að taka eftirfarandi skuldabréf á
skrá Kauphallarinnar þann 18. júlí nk. enda uppfylli þau skilyrði
skráningar. Bréfin eru vaxtagreiðslubréf til 12 ára. Höfuðstóll greið-
ist með einni afborgun þann 28. apríl 2012. Nafnvextir bréfanna eru
7,00%. Bréfin eru verðtryggð. Krafa skv. skuldabréfi í 1. flokki 2000
víkur fyrir öllum öðrum kröfum á hendur útgefanda og við gjaldþrot
eða slit endurgreiðist hún á eftir öllum kröfum öðrum en endur-
greiðslu hlutafjár.
Um er að ræða stækkun á flokknum um kr. 510.000.000 að nafnverði,
úr kr. 1.200.000.000 að nafnverði í kr. 1.710.000.000 að nafnverði.
Skráningarlýsingu og þau gögn sem vitnað er til í henni er hægt að
nálgast hjá umsjónaraðila skráningarinnar, Kaupþingi banka hf.
Ármúla 13, 108 Reykjavík
Sími 515-1500, fax 515-1509
FRÉTTIR
DAGANA 15.–19. júlí heldur Suzuki-
sambandið á Íslandi námskeið fyrir
fiðlu- og sellónemendur á Laugar-
vatni. „Tónlistarnám með suzukiað-
ferðinni er þannig að nemendur læra
á hljóðfæri líkt og þau læra móður-
málið. Það er með því að hlusta á tón-
list og líkja eftir því sem þau heyra.
Foreldrar mæta alltaf í tónlistartíma
og taka virkan þátt í námi barna
sinna. Það verður því margt um
manninn á Laugarvatni þessa viku
og sönn fjölskyldustemmning. Þátt-
takendur eru um 200, nemendur,
kennarar, foreldrar og systkini.
Þetta fólk kemur alls staðar að af
landinu og einnig margir erlendis
frá.
Alla námskeiðsdagana, nema
fyrsta daginn, verða tónleikar í
Íþróttahúsi KHÍ kl. 13.30. Þessir
tónleikar eru öllum opnir og er að-
gangur ókeypis. Þar munu nemend-
ur spila ýmsa tónlist, einir sér eða
nokkrir saman. Þá eru allir íbúar
Bláskógabyggðar og sumardvalar-
gestir boðnir velkomnir á lokatón-
leika sem haldnir verða í íþróttahúsi
KHÍ föstudaginn 19. júlí kl. 13.30,“
segir í fréttatilkynningu.
Námskeið hjá
Suzukisambandinu
MORGUNBLAÐINU hefur borist
eftirfarandi yfirlýsing:
„Við undirrituð lýsum yfir
hneykslun okkar á þeirri neikvæðu
umræðu er farið hefur fram í fjöl-
miðlum undanfarna mánuði varðandi
málefni Sólheima í Grímsnesi.
Enginn er fullkominn, og allra síst
þeir er geysast fram í fjölmiðlum og
ata stjórn Sólheima sem og starfsfólk
auri með órökstuddum fullyrðingum.
Það er von okkar að þeir sem telja
sig þurfa að tjá skoðanir sínar opin-
berlega geri það af þekkingu og
smekkvísi.
Á sama hátt og við leysum okkar
daglegu störf af hendi með þarfir
skjólstæðinga okkar í huga fyrst og
fremst, þá treystum við því að ráða-
menn Sólheima sem og ráðamenn fé-
lagsmálaráðuneytis fái að leysa
ágreiningsefni sín í friði og mistækir
ritskríbentar hætti skítkasti í okkar
garð.
Virðingarfyllst,
Kr. Rúnar Hartmannsson, for-
stöðum. kertagerðar, Lárus Sigurðs-
son, hljóðfærasmiður/verkstjóri,
Ingibjörg Eyfells forstöðum.
Brekkukots, Ólafur Már Guðmunds-
son, myndlistamaður/verkstjóri, Sig-
ríður Sigurðardóttir, verkstjóri vef-
stofu, Þórný Björk Jakobsdóttir,
forstöðum. jurtastofu, Kjartan Geir
Kristinsson þjónustustjóri, Rósa
Björg Ómarsdóttir stuðningsfulltrúi,
Aðalheiður Jóhanna Ólafsdóttir,
verslunarstjóri Völu, Valdimar
Reynisson, forstöðum. umhverfis-
mála, Hörður Harðarson trésmiður,
Halldór Sævar Guðbergsson,
íþrótta- og tómstundafulltr., Elvar
B. Sigurðsson, yfirmaður viðhalds-
deildar, Helma Hreinsdóttir hús-
móðir, Jónas Vignir Grétarsson, for-
stöðum. Ölurs, Sigurlaug A.
Grétarsdóttir, forstöðum. atvinnu-
sviðs, Gissur Þórhallsson stuðnings-
fulltrúi, Einar Páll Bjarnason skrif-
stofustjóri, Sigurdís Sigurðardóttir
verkstjóri.“
Yfirlýsing frá
starfsfólki
á Sólheimum
UM ÞESSA helgi eins og allar
aðrar helgar í sumar verður líf
og fjör á Sólheimum.
Klukkan 16 á laugardag og
sunnudag verður leikþátturinn
um ævi Sesselju sýndur í
íþróttaleikhúsinu og er aðgang-
ur ókeypis.
Allir eru velkomnir í listhús-
ið, Sesseljuhús, listasýninguna
í Ingustofu, listhúsið Völu og
kaffihúsið Grænu könnuna sem
er opnað klukkan 14 laugar-
daga og sunnudaga.
Opið á
Sólheimum
um helgar
HINN 11. júlí fyrir 30 árum sett-
ust þeir Boris Spassky og Bobby
Fischer að tafli í Laugardalshöllinni.
Þar með hófst eftirminnilegasta
heimsmeistaraeinvígi skáksögunnar.
Augu heimsbyggðarinnar beindust
að Íslandi það sumar og aldrei áður
höfðu jafnmargir erlendir frétta-
menn komið hingað til lands til að
fylgjast með einum atburði. Gífurleg
umfjöllun var um einvígið í fjölmiðl-
um út um allan heim. Óteljandi tíma-
ritsgreinar voru skrifaðar um það og
fjöldi þeirra bóka sem fjalla um ein-
vígið hleypur á mörgum tugum.
Meira að segja rataði nafn Reykja-
víkur í kjölfarið inn í söngleik og
dægurlagatexta. Á síðari árum hafa
svo margvíslegar upplýsingar um
einvígið birst á Netinu. Ein afleiðing
einvígisins var skáksprenging hér á
landi sem fæddi af sér fjölda stór-
meistara og leiddi til þess að Ísland
var um árabil í hópi fremstu skák-
þjóða heims.
Í tilefni af því að þrjátíu ár eru lið-
in frá því einvígið fór fram hefur
Skáksamband Íslands ákveðið að
minnast þessa viðburðar með ýms-
um hætti. Fyrsta skrefið var stigið í
upphafi ársins þegar efnt var til sýn-
ingar í Ráðhúsi Reykjavíkur sam-
hliða einvígi Hannesar Hlífars Stef-
ánssonar og Nigels Shorts, sem
Taflfélagið Hellir stóð fyrir.
Hinn 14. júlí, á alþjóðlegum safna-
degi, verður opnuð sýning í Þjóð-
menningarhúsinu við Hverfisgötu í
Reykjavík undir yfirskriftinni
„Skákarfur Íslendinga og Einvígi
aldarinnar“. Skákarfur Íslendinga er
viðamikill og athyglisverður. Ýmsar
minjar honum tengdar hafa verið til
varðveislu m.a. í Þjóðminjasafni og
Þjóðarbókhlöðu, sem geymir hið
ómetanlega Fiske-safn. Ýmsir gripir
úr skáksögunni verða dregnir fram í
dagsljósið, auk þess sem gripir
tengdir Einvígi aldarinnar verða
sýndir.
Í tilefni af afmælishaldinu mun
Boris Spassky koma til landsins og
taka þátt í alþjóðlegu málþingi um
einvígið við Bobby Fischer. Málþing-
ið verður haldið í Þjóðmenningar-
húsinu í tengslum við sýninguna og
fer fram 10. ágúst. Auk Spasskys
munu þar ýmsir valinkunnir menn
taka til máls, m.a. Friðrik Ólafsson
fyrrverandi forseti FIDE, Guð-
mundur G. Þórarinsson fyrrverandi
forseti Skáksambandsins,
Lothar Schmid yfirdómari einvíg-
isins og forseti Íslands, Ólafur Ragn-
ar Grímsson.
Undanúrslit á Dortmund
Sparkassen að hefjast
Þeir Veselin Topalov (Búlgaría),
Alexei Shirov (Spánn), Evgeny Bar-
eev (Rússland) og Peter Leko (Ung-
verjaland) unnu sér rétt til að tefla í
undanúrslitum Dortmund Sparkas-
sen-mótsins í Þýskalandi.
Lokastaðan í flokki I:
1.–2. Topalov, Shirov 4 v.
3. Boris Gelfand 2½ v.
4. Christopher Lutz 1½ v.
Í flokki II varð lokastaðan þessi:
1. Bareev 4 v.
2. Leko 3½ v.
3. Michael Adams 2½ v.
4. Alexander Morozevich 2 v.
Sigurvegarinn í flokki I teflir við
Leko og Bareev teflir við þann sem
hafnar í öðru sæti í flokki I. Þar sem
þeir Topalov og Shirov urðu efstir og
jafnir í flokki I eiga þeir að tefla til
úrslita um efsta sætið. Þeir eru ekki
sáttir við það aukaálag sem því fylgir
og vilja því frekar að peningi verði
kastað um það. Undanúrslit mótsins
hefjast í dag, laugardag.
Hannes Hlífar með 2½ v. af 7
Hannes Hlífar Stefánsson teflir
um þessar mundir á lokuðu skákmóti
í Esbjerg í Danmörku. Sjö umferð-
um er lokið á mótinu og eftir slæman
kafla náði Hannes sínum fyrsta sigri
í sjöundu umferð. Staðan er þessi
þegar tvær umferðir eru eftir:
1. Sune Berg Hansen 5 v.
2.–4. Lazaro Bruzon, Andrei Volo-
kitin, Leinier Dominguez 4½ v.
5. Peter Heine Nielsen 3½ v.
6.–7. Sergey Tiviakov, Igor Glek 3
v.
8.–9. Curt Hansen, Hannes Hlífar
2½ v.
10. Alisa Galliamova 2 v.
Sigurbjörn og Magnús
Örn enduðu í 2.–5. sæti
Alþjóðlega skákmótinu í Kécske-
met er lokið, en meðal þátttakenda
voru þeir Sigurbjörn Björnsson og
Magnús Örn Úlfarsson. Þeir hlutu 5
vinninga af 9 og enduðu í 2.–5. sæti.
Páll Þórarinsson tók einnig þátt í
mótinu og fékk 3½ vinning. Það var
17 ára ungverskur FIDE-meistari,
Tibor Reiss (2.347), sem sigraði á
mótinu. Hann hlaut 6½ vinning. Ís-
lensku þátttakendunum gekk reynd-
ar vel á mót Reiss og fengu samtals 2
vinninga í þremur skákum gegn hon-
um.
Bragi, Halldór Brynjar
og Stefán í Búdapest
Þeir Bragi Þorfinnsson, Halldór
Brynjar Halldórsson og Stefán
Kristjánsson taka nú þátt í svoköll-
uðu „First Saturday“ skákmóti í
Búdapest. Stefán og Bragi tefla í
stórmeistaraflokki á mótinu, en Hall-
dór Brynjar teflir í FM-flokki.
Halldór Brynjar hefur verið efstur
í FM-flokki, en í sjöttu umferð tapaði
hann fyrir stigahæsta þátttakandan-
um, heimamanninum Eduard
Szirmai (2.177). Þeir deila nú 2.–3.
sæti með 4½ vinning, en efstur er
Þjóðverjinn Martin Kraemer (2.127)
með 5½ vinning. Tefldar verða 11
umferðir.
Bragi Þorfinnsson gerði jafntefli
við pólska kvennastórmeistarann
Iweta Radziewics (2.407) í sjöttu um-
ferð í stórmeistaraflokknum, en
Stefán Kristjánsson tapaði fyrir
danska alþjóðlega meistaranum Ni-
colai Pedersen (2.458). Stefán er nú í
7.–10. sæti með 2½ vinning, en Bragi
er með 2 vinninga í 11.–13. sæti.
Tefldar verða 13 umferðir.
Junior og Shredder heimsmeistar-
ar skákforrita
Skákforritin Junior og Shredder
háðu harða baráttu um heimsmeist-
aratitil skákforrita, en heimsmeist-
aramótinu lauk í Maastricht á
fimmtudag. Forritin voru jöfn að
mótinu loknu og tefldu tvær skákir
til úrslita um titilinn. Junior sigraði
örugglega í fyrri skákinni, en þeirri
seinni lauk með jafntefli eftir að
Shredder hafði misst af skemmti-
legri vinningsleið. Junior er því
heimsmeistari skákforrita árið 2002.
Þessi tvö forrit hafa unnið átta
heimsmeistaratitla frá 1996.
Einnig var keppt um heimsmeist-
aratitil skákforrita í hraðskák og þar
sigraði Shredder. Sigurinn kom
mörgum á óvart þar sem Shredder
hefur ávallt haft það orð á sér að vera
slakara en mörg önnur forrit í skák-
um með stuttan umhugsunartíma.
Einvígi aldarinnar og
skákarfur Íslendinga
Boris Spassky og Bobby Fischer.
SKÁK
Reykjavík
30 ÁRA AFMÆLISHÁTÍÐ EINVÍGIS
ALDARINNAR
2002
Daði Örn Jónsson