Morgunblaðið - 18.08.2002, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 18.08.2002, Blaðsíða 34
SKOÐUN 34 SUNNUDAGUR 18. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ ÚTSALAN HEFST Í DAG SUNNUDAG OG STENDUR AÐEINS Í FJÓRA DAGA - KOMDU STRAX! ÁGÆTI Friðrik. Það er ekki að ástæðulausu, sem ég sé mig knúinn til að skrifa þér opið bréf, vegna frétta af skyndi- legum áhuga ALCOA á að reisa 300 þúsund tonna álbræðslu á Reyðarfirði. Nýting auðlindanna Í viðtali í Morgun- blaðinu 28. júlí sl. und- ir yfirskriftinni „Við þurfum að nýta auð- lindirnar“, fullyrðirðu að ef Íslendingar ætli sér að búa við svipuð lífsskilyrði og aðrar þjóðir sem við keppum við, þurfi þeir m.a. að nýta orkuauðlindirnar. Við hvaða þjóðir keppa Íslendingar í þessu tilliti? Í vaxandi mæli er um að ræða þjóðir þriðja heimsins, s.s. í Asíu, einkum Kína, Indónesíu og Malasíu, Afríku, s.s. S-Afríku og Mósambik. Ál- bræðslurnar stækka hröðum skref- um. Því er sóst eftir að staðsetja þær, þar sem næga ódýra orku er að fá, nægt framboð af sem ódýr- ustu vinnuafli, sem minnstar meng- unarkröfur, sem styst að ná í súrál og koma álinu á markað. Umframframleiðslugeta Mikil umframframleiðslugeta er til staðar í heiminum, ekki hvað síst í Norður-Ameríku, þar sem orku- verð hefur hækkað mjög á síðast- liðnum árum. Þegar álverð er jafnt lágt og verið hefur undanfarin tvö ár, er einungis lítill hluti álbræðslna í N-Ameríku starfræktur. Þannig er framleiðslan um þessar mundir ein- ungis 200 þúsund tonn í NV-Banda- ríkjunum, en framleiðslugetan 1.630 þúsund tonn. Sömu sögu er að segja um sum önnur svæði heimsins eins og t.d. nokkur lönd S-Ameríku, þar sem ónýttar álbræðslur eru til staðar, en orkuverð of hátt miðað við núver- andi álverð. Þetta stafar af því að ál- verð nú er um 1.350 USD/tonn, en almennt var gert ráð fyrir að með- alverð á þessu ári yrði a.m.k. 1.500 USD/tonn. Þessi mikla umfram- framleiðslugeta, ásamt með því að mun ódýrara er að stækka ál- bræðslur, en að byggja nýjar, leiðir óhjákvæmilega til þess að álverð og þar með raforkuverð mun fara lækkandi til framtíðar litið. Þar af leiðandi stækka álbræðslur stöðugt, eða um hundruð þúsunda tonna í stað tug þúsunda tonna áður. Þá er ógetið allrar álframleiðslunnar í A- Evrópu, en fyrirtækin þar þola mun lægra verð en samsvarandi verk- smiðjur í V-Evrópu og N-Ameríku. Óvænt framboð áls í miklu magni frá Rússlandi og Kína er aukinheld- ur stórt vandamál, sem ítrekað hef- ur leitt til verðfalls, nú síðast í júní. Varðandi ítarlegri upplýsingar um verð og stöðu álmála, sjá: http:// www.alunet.net, http:// www.lme.co.uk Arðsemismat Í fyrrgreindu viðtali fullyrðir þú að miðað við fyrirliggjandi áætlanir um orkusölu til Reyðaráls, sem eftir því sem þú segir, nánast var búið að ganga frá, liggi fyrir að arðsemi eig- in fjár af virkjuninni verði 12–14%. Nefnir því til sönnunar að Sumi- tomo Mitsui-bankinn japanski hafi sannreynt alla útreikninga Lands- virkjunar og niðurstaða bankans um mat á arðsemi sé skýr, þó að öðru hafi verið haldið fram í blöðum. Ég skora hér með á þig, Friðrik, þannig að deilum um þetta veiga- mikla atriði linni í eitt skipti fyrir öll, að láta birta í Morgunblaðinu fyrirvara þann sem Sumitomo Mitsui- bankinn birtir í 6 neðstu línunum á bls. 3 í greinargerð sinni dags. 3. september 2001. Grundvöllur arðsemismats Megingrundvöllur arðsemismats og jafnframt megin- óvissa þess er áætlun um álverð til framtíðar litið. Orkusölusamningar, þar sem raforkuverð er tengt ál- verði, eru yfirleitt gerðir til 15–20 ára. Í samningum þessum eru gjarnan ákvæði um atriði sem leggja á til grundvallar við endur- nýjun orkusölusamnings. Af sjálfu leiðir að áætlað meðalálverð yfir samningstímann og tilsvarandi raf- orkuverð, ræður því fyrst og fremst, hvaða arð má áætla að fáist af fjár- festingunni. Annað sem einnig ræð- ur talsverðu um hversu nákvæma áætlun unnt er að gera, er hversu ít- arlegar tæknilegar upplýsingar liggja fyrir um væntanlegan virkj- unarkost. Þar ríkir ennþá talsverð óvissa. Dæmi um það má nefna gerð Hálslóns, sem verða mun 25 km að lengd og samtals 57 km². Í það mun á skömmum tíma setjast óhemju aurmagn úr Jökulsá á Brú, aurug- ustu jökulá landsins. Afleiðing af þessu og þeirri staðreynd að yfir- borðssveifla vatnsins í lóni þessu, sem líkja má að stærð við innan- verðan Hvalfjörð, verður allt að 75 metrum. Þetta veldur því að víð- áttumiklar aurstrandir myndast, sem án víðtækra mótvægisaðgerða munu óhjákvæmilega leiða til mikils aurfoks og tilsvarandi gróðureyð- ingar. Sama er að segja um samtals 79 km löng jarðgöng, 3,6–7 m í þver- mál, sem bora á undir Fljótsdals- heiði og nærliggjandi landsvæði. Um er að ræða álíka vegalengd og frá Reykjavík til Hvolsvallar. Þau verður að vatnsþétta að kröfu um- hverfisráðuneytisins, þannig að vatnsstaða svæðisins raskist ekki. Þetta kallar á samsvarandi kostn- aðarsamar mótvægisaðgerðir. Virkjun við Kárahnjúka myndi leiða af sér byggingu stærstu stíflu í Evr- ópu. Um er að ræða 900 m risastíflu, sem verður allt að 190 m há, eða áþekk 3 Hallgrímskirkjuturnum. Efnismagn í þessari einu stíflu er 10–11 milljónir rúmmetra eða sam- svarandi 50 ára steypuframleiðslu á Íslandi, eins og hún hefur orðið mest á undangengnum árum. Þó að stórum hluta sé um jarðvegsstíflu að ræða, gefur augaleið, hversu risavaxið inngrip og umbylting á náttúrunni verður að ræða. Náttúran við Kárahnjúka Svæðinu suður af Kárahnjúkum til Brúarjökuls, sem fórna á undir risalón, sem óhjákvæmilega mun leiða til mikilla náttúruspjalla, er einstakt hálendissvæði. Sérstaða þess felst í ótrúlega fjöl- breyttum og kjarnmiklum hálend- isgróðri í rúmlega 600 m hæð. Óvíða annars staðar á landinu má finna hliðstæðu. Ástæðan er m.a. sú að þetta svæði hefur þá sérstöðu að komast næst því á Íslandi að þar ríki fremur meginlands- en eyja- loftslag. Úrkoman er einungis 400 mm á ári samanborið við 1.000 mm á SV-landi og 1.100–1.200 sunnan jökla á Suðurlandi. Ég var á ferð um þetta svæði á sl. sumri, skömmu eft- ir að snjóa leysti. Um svæðið mátti auðveldlega ganga á götuskóm, svo þurrt var það og algerlega laust við forarsvað, sem annars staðar fylgir snjóleysingu. Þegar komið er u.þ.b. hálfa leið að Brúarjökli, suður að Kringilsá, blasir við ægifögur sam- felld fossaröð með Töfrafoss í há- sæti. Einkennisfugl svæðisins, heiðlóan, flögraði syngjandi allt um kring og einnig mátti greina flugna- niðinn, sem dæmi um gróskuna í náttúrunni. Gróðurþekjan er sam- felld og þykk, einkum í lægðunum sem fara munu undir jökullitað vatn, ef af gerð Hálslóns verður, sem verður að flatarmáli stærra en Lögurinn. Það flokkast því undir öf- ugmæli að halda því fram að engin verðmæti séu fólgin í náttúruvin sem þessari, vegna þess að þjóðin hefur ekki beinar fjárhagslegar tekjur af henni nú um stundir. Í heimi nútímans, þar sem flest er falt fyrir peninga, ber okkur að standa vörð um náttúruperlur landsins. Þetta svæði, sem hér um ræðir, er eitt slíkra og gildir einu, þó að um það hafi verið fjallað fyrir áratugum að hugsanlega mætti fórna hluta þess í skiptum fyrir Þjórsárver, sem þá var bjargað. Einungis í þriðja heims löndum kæmi til greina að fórna slíkri náttúruperlu endur- gjaldslaust. Til að bæta síðan gráu ofan á svart að afhenda væntanlegri álbræðslu nýúthlutaðan mengunar- kvóta, sem Ísland fékk skv. Kyoto- samkomulaginu, endurgjaldslaust og niðurgreiða þar með spillingu lands og lofts ásamt tilheyrandi sjónmengun. Eftirhverju telja menn að íbúar og ferðamenn sækist helst á Íslandi í framtíðinni? Hverjir björguðu Þjórsárverum? Við skulum ævinlega minnast þess, Friðrik, að erlendir vísinda- menn og umhverfisverndarsamtök ásamt örfáum framsýnum Íslend- ingum urðu til þess að Þjórsárver- um var bjargað frá því að vera sökkt undir uppistöðulón vegna virkjanaáforma þeirra sem mestu réðu þá um ákvarðanir í orkumál- um. Bresku fuglafriðunarsamtökin áttu þar stærstan þátt og nutu stuðnings annarra alþjóðlegra sam- taka. Án ötullar baráttu þeirra, hefði Þjórsárverum ekki verið þyrmt. Vísast hafa margir þeirra sem sökkva vildu Þjórsárverum talið þá Íslendinga, sem þyrma vildu þessari náttúruvin, ekki gæta hagsmuna þjóðarinnar. Jafnvel sakað þá um að ganga í lið með erlendum aðilum í ófrægingarherferð gegn þjóðinni. En á þessum nótum finnst mér að þú, sem forstjóri Landsvirkjunar, fyrirtækis í eign íbúa þessa lands, getir ekki leyft þér að tala. Þvert á móti ætti að vera keppikefli þitt að ná sem víðtækastri sátt og efla tiltrú um að yfirlýst markmið Landsvirkjunar um góða umgengni við landið séu ekki orðin tóm. Markmið virkjunar Yfirlýst markmið stjórnvalda er að með því að auka nýtingu orku- linda landsins eflist atvinnulífið og efnahagur batni. Markmiðið er göf- ugt, en ábyrgð ykkar, sem ber að leggja „kalt mat“ á hversu raunhæf- ir möguleikar eru til að því verði náð, er mjög mikil. Þú heldur því statt og stöðugt fram að Lands- virkjun fari einungis í stórvirkjun- arframkvæmdir á borð við Kára- hnjúkavirkjun til að „græða“. Landsvirkjun sé ekki „Byggðastofn- un“ og þar af leiðandi séuð þið hjá Landsvirkjun ekki sérstaklega að hugsa um hvaða áhrif þessar fram- kvæmdir munu hafa á samfélagið á Austurlandi. Pólitísk ákvörðun Það eru stjórnmálamenn, með Halldór Ásgrímsson í broddi fylk- ingar, sem barist hafa fyrir því að ráðist verði í að virkjað verði fyrir austan í tengslum við byggingu ál- bræðslu á Reyðarfirði. Þessu hét hann Austfirðingum fyrir síðustu kosningar, svo endurheimta mætti þau 700–800 störf sem tapast hafa vegna kvótasetningar og brott- hvarfs kvóta. Nú dregur senn að kosningum að nýju. Útilokað er fyr- ir Framsóknarflokkinn að fara í kosningar eystra, án þess að það sé í það minnsta mögulegt að láta líta svo út að af þessu verði. Sjóndeild- arhringur stjórnmálamanna eru næstu kosningar. Markmið þeirra stjórnmálamanna sem beittu sér í málinu var þess vegna að drífa framkvæmdir sem fyrst í gang. Þess vegna var lífsspursmál að ráð- ast strax í byggingu Fljótsdalsvirkj- unar á grundvelli löngu útgefins virkjanaleyfis. Þá virtist gilda einu, þó að Norsk Hydro upplýsti að 120 þúsund tonna álver, með óvissu um hvenær unnt yrði að stækka, væri óviðunandi kostur. Með stækkun úr 210 MW Fljótsdalsvirkjun í 725 MW Kárahnjúkavirkjun var fullyrt að vegna stærðarhagkvæmni, næð- ist lægra einingarverð. Ekki er að sjá að svo sé, þegar einingarverð hinna mismunandi valkosta er borið saman. Þvert á móti er einingar- verðið óbreytt um 149,2 milljónir króna á MW, án tillits til stærðar virkjunarkosta. Brotthvarf Norsk Hydro Blekkingar koma alltaf í bakið á mönnum, fyrr eða síðar. Þannig eru sýndarskýringar á því hvað varð til þess að Norsk Hydro frestaði mál- inu ítrekað og dró sig að lokum í hlé, að þeir hafi átt við fjárhagsörðug- leika að stríða. Norsk Hydro, sem veltir 1.700 milljörðum króna á ári og hagnast hefur hlutfallslega mun meir á undanförnum árum, saman- borið við Landsvirkjun, með 14 milljarða króna ársveltu! Aldrei var gefin skýring á því, hvers vegna Norsk Hydro, sem í upphafi var fullyrt að fjárfesta myndi í ál- bræðslu á Reyðarfirði og hugsan- lega einnig í virkjun henni tengdri, gaf einungis upp að þeir hefðu hug á 20–25% hlut í álbræðslunni. Þá var fullyrt að svo mikill hagnaður yrði fyrirsjáanlega af starfseminni að mikilvægt væri fyrir Íslendinga að eiga meirihluta í fyrirtækinu. Var þátttaka lífeyrissjóða nefnd sérstak- lega í því sambandi, en eðli málsins samkvæmt ber þeim að ávaxta fjár- muni sína á sem tryggastan hátt. Þessi mjög svo varfærna afstaða Norsk Hydro til málsins gat ekki þýtt annað en að fjárfestingin væri mjög vafasöm. Með því að láta Ís- lendingum eftir að fjármagna alfar- ið virkjanaframkvæmdirnar og að auki álbræðsluna að 75–80%, var augljóst að Norsk Hydro hætti ekki miklu, þar sem þeir áttu að sjá um alla tæknilegan þátt uppbyggingar og væntanlega einnig sölu afurða. Kaup Norsk Hydro á þýska álfyr- irtækinu VAW og sameining við Norsk Aluminium undir nýju nafni, Hydro Aluminium, varð til þess að mun meiri áhersla er nú lögð á að fullnægja álþörf með endurvinnslu á áli, þar sem einungis 5% orku þarf til endurvinnslu á hverju tonni sam- anborið við frumvinnslu. Jafnframt munu þeir auka frumvinnslu á áli í Brasilíu og öðrum þeim stöðum, þar sem allar aðstæður eru sem hag- stæðastar. Skammtímasjónarmið stjórnmálamanna í atkvæðaleit koma hvergi nærri þeirri ákvarð- anatöku. Heiðarleg skýring Það stendur upp á þig, Friðrik, að gefa landsmönnum heiðarlega skýr- ingu á því, hvers vegna fá má raf- orku á ódýrara verði frá nýjum vatnsaflsvirkjunum og miðlunum á Þjórsár-Tungnársvæðinu og gufu- orkuverum á Hengilssvæðinu og Reykjanesi en fyrirsjáanlega er mögulegt frá Kárahnjúkavirkjun. Þetta myndi eyða þeim misskilningi, sem talsvert hefur borið á að und- anförnu, að hreppapólitík ráði því að mun minni andstaða er gegn áform- um um stækkanir álbræðslnanna, sem til staðar eru í landinu. Þó að eftir eigi að semja um raforkuverðið liggur í augum uppi að lægra kostn- aðarverð eykur möguleika á að grundvöllur sé til samninga, auk þess sem eldri álbræðslur geta að öðru jöfnu greitt hærra raforkuverð en nýjar. ALCOA „Mey skal að morgni lofa,“ var svar þitt þegar þér var óskað til hamingju með „árangurinn“ í út- varpsviðtali um daginn. Það fór hrollur um mig, þegar þú lýstir AL- COA sem „meyju“. Ef á annað borð á að kvenkenna þennan stærsta álr- isa heims, væri nær að líkja fyr- irbrigðinu við tröllskessu. Mörgum miður góðum sögum fer af fram- komu skessunnar við þær þjóðir, þar sem verksmiðjur hennar eru staðsettar. 5–6 risafyrirtæki eru yfirgnæf- andi í heimi álsins. Þó er mjög erfitt að spá fyrir um verð á áli til næstu mánaða og missera, hvað þá ára og áratuga. Tæpast dettur risum þess- um í hug að reisa nýtt álver á stað, sem ekki verður unnt að knýja fram stækkun í framtíðinni. Skammsýni má ekki leiða til víðtækra og óaft- urkræfra spjalla á náttúrunni. Sí- vaxandi fjöldi ferðamanna kemur gagngert til þess að njóta þess hér, sem búið er að spilla allt of víða ann- ars staðar. Um er að ræða verðmæti sem ekki eru eignfærð í efnahags- uppgjöri þjóðarinnar frá ári til árs. Engu að síður er þetta ein af okkar mestu auðlindum, sem umgangast ber af virðingu og varfærni. Þá mun þjóðinni vel farnast. KÁRAHNJÚKAVIRKJUN Sveinn Aðalsteinsson Ég skora hér með á þig, Friðrik, segir Sveinn Aðalsteinsson í opnu bréfi, að láta birta í Morgunblaðinu fyr- irvara þann sem Sumitomo Mitsui- bankinn birti í 6 neðstu línunum á bls. 3 í grein- argerð sinni dags. 3. september 2001. Höfundur er viðskiptafræðingur og einn af stofnendum Umhverfisvina.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.