Morgunblaðið - 24.08.2002, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 LAUGARDAGUR 24. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
OPINBERRI heimsókn Davíðs
Oddssonar forsætisráðherra til
Færeyja lauk í gær með heimsókn
til Vogs á Suðurey þar sem um
1.500 manns búa. Davíð kom þang-
að um hádegisbil eftir siglingu frá
Þórshöfn með nýju varðskipi Fær-
eyinga, Brimli. Börnum hafði verið
gefið frí í skólanum af tilefni dags-
ins og var aðalgötu bæjarins lokað
fyrir umferð. Alls taldi lögreglan
að um 400 manns hefðu tekið á
móti ráðherranum. Börnin veifuðu
íslenskum og færeyskum fánum og
lék lúðrasveit við komu ráð-
herrans.
Vilja kynnast íslenskri
stjórnsýslu
Um borð í Brimli funduðu Davíð
og Anfinn Kallsberg, lögmaður
Færeyja. Þar lýsti Kallsberg áhuga
Færeyinga á því að kynnast störf-
um íslenskra ráðuneyta þar sem
Færeyingar eru að taka að sér auk-
in verkefni. Hann nefndi sér-
staklega í því sambandi dóms-
málaráðuneyti, félagsmálaráðu-
neyti og utanríkisráðuneyti. „Mér
finnst sjálfsagt að gera þeim tilboð
um að starfa innan þessara ráðu-
neyta, með samþykki viðkomandi
ráðherra að sjálfsögðu í einhvern
tíma, hvort sem það eru 6 mánuðir,
ár eða hvernig sem það er. Bæði til
að fylgjast með og einnig til þess að
starfa þar. Færeyingarnir myndu
auðvitað greiða sínu fólki laun en
við myndum greiða götu þess að
öðru leyti. Þeir rökstyðja það þann-
ig að þeir hafi meira gagn af að sjá
hvernig við leysum mál í tiltölulega
litlu landi en að vera að fylgjast
með hvernig stærri þjóðir eins og
Danir gera þetta. Ég held að það sé
alveg hárrétt metið hjá þeim og
það sé sjálfsagt að við hjálpum
þeim hvað það varðar,“ segir Davíð
í samtali við Morgunblaðið.
„Svo fórum við yfir nokkra þætti
í fiskveiðisamstarfi þjóðanna með
almennum hætti og fórum yfir stöð-
una hvað varðar skiptingu á svæð-
um hér austur af Íslandi og vestur
af Grænlandi þar sem hafa verið
deildar meiningar um hvernig eigi
að skipta yfirráðum yfir auðlind-
inni, eða sjávarútveginum.“ Segir
Davíð að utanríkisráðherra hafi
haft veg og vanda af umræðunum
fyrir hönd Íslands en hann telji að
málið sé komið á samkomulagsstig.
Endanlega verði gengið frá því af
hálfu utanríkisráðherra og lög-
manns Færeyja, að höfðu samþykki
við utanríkismálanefnd og rík-
isstjórn. Snýst málið um það hvort
miða eigi miðlínuna, sem skiptir
landhelginni milli landanna, við
strandlínuna eða kletta í hafinu,
sambærilega Kolbeinsey fyrir norð-
an Ísland. Segir Davíð svæðið ekki
mjög stórt og tiltölulega afmarkað
en vill ekki fjalla frekar um það
fyrr en utanríkisráðherra,
utanríkismálanefnd og ríkisstjórn
hafa farið yfir það.
Mikil hlýja og
vinsemd í garð Íslands
Þá bauð Davíð Kallsberg starfs-
bróður sínum að endurgjalda heim-
sóknina og koma til Íslands í op-
inbera heimsókn einhvern tímann
þegar öllum hentar. Var Davíð
hæstánægður með heimsóknina til
Færeyja. „Heimsóknin var mjög at-
hyglisverð og skemmtileg, ekki síst
þessi síðasti partur þar sem við
heimsóttum sveitarfélagið Vog og
þar sem var tekið afskaplega hlý-
lega á móti okkur. Mikil hlýja og
vinsemd kom þar fram í garð Ís-
lands og Íslendinga og var þetta
ánægjulegur endapunktur á heim-
sókninni,“ sagði Davíð.
Í Vogi var lax- og silungseldi
skoðað og ný vinnslustöð, sem er í
eigu Atlantic Seafood, og var tekin
í notkun fyrir ári. Vogur lenti illa í
niðursveiflunni sem varð í Fær-
eyjum á tíunda áratugnum. „Það
var gaman að sjá hvernig þeir eru
að rífa sig upp eftir niðursveifluna
sem varð fyrir svona 8–10 árum.
Þá varð þetta sveitarfélag og sam-
félag fyrir gríðarlegum áföllum
þegar stór og mikil frystihús lok-
uðu og öll starfsemin eiginlega
hrundi í byggðarlaginu. Þarna er
um að ræða aðra starfsemi að vísu,
silunga- og laxeldi, sem virðist
vera á góðu róli, þar sem íslenskt
hugvit og þekking virðist koma að
góðum notum. Það var mjög
skemmtilegt að skoða það. Þetta er
mjög tæknivædd verksmiðja sem
veitir frá 70–110 manns vinnu sem
er náttúrulega gríðarlega mikið í
1.500 manna byggðarlagi,“ segir
Davíð.
Egill Steindórsson, framleiðslu-
stjóri í verksmiðjunni, sýndi for-
sætisráðherra og fylgdarliði verk-
smiðjuna og sagði að um 90%
tækjabúnaðar þar væru íslensk,
frá Marel, Carnitech, Ískerfi,
3XStál, Samey og Skaganum.
Morgunblaðið/Nína Björk
Börnin fengu frí í skólanum í tilefni heimsóknarinnar og veifuðu ís-
lenskum og færeyskum fánum. Hér ræðir Davíð við nokkur þeirra.
Rúmlega þriðjungur íbúa í Vogi tók á móti forsætisráðherra og Anfinn
Kallsberg. Taldi lögreglan að um 400 manns hefðu verið á bakkanum.
Börnum gefið frí í skólum
og aðalgötu bæjarins lokað
Davíð Oddsson, forsætisráðherra Ís-
lands, fékk höfðinglegar móttökur við
komuna til Suðureyjar í gær, við lok op-
inberrar heimsóknar hans til Færeyja.
Um 400 manns tóku á móti honum á
bryggjunni, börn veifuðu færeyskum
og íslenskum fánum en þau fengu frí
í skólanum í tilefni dagsins.
Egill Steindórsson framleiðslustjóri sýnir Davíð verksmiðjuna sem er í
eigu Atlantic Seafood. Þar eru um 90% tækjabúnaðar frá Íslandi.
Þórshöfn. Morgunblaðið.
Vel tekið á móti forsætisráðherra á Suðurey
á síðari degi opinberrar heimsóknar hans til Færeyja
Ekki tekið
heildstætt
á búfjár-
málum
Í TILLÖGU samstarfsnefndar um
sameiningu Kjalarnesshrepps og
Reykjavíkur frá 11. maí 1997 segir
um landbúnaðarmál í hinu nýja sveit-
arfélagi, Reykjavík, að tryggja þurfi
vöxt og viðgang landbúnaðar og sjá
um að hann búi við sambærilegar að-
stæður og í öðrum landbúnaðarhér-
uðum. Segir þar ennfremur að ekki
séu uppi áform um að nýta land ofan
höfuðborgargirðingarinnar til meiri
beitar en nú og sé lausaganga hrossa
bönnuð. Ekki er hins vegar minnst á
bann við lausagöngu sauðfjár.
Kolbrún Jónsdóttir, nefndarmaður
í samstarfsnefndinni og fyrrverandi
varaoddviti Kjalarneshrepps, segir að
við tillögugerðina hafi ekki verið tekið
heildstætt á búfjármálum. „Með því
að það var ekki tekið fram að önnur
regla skyldi gilda hér um lausagöngu
búfjár en í Reykjavík nær bann við
lausagöngu búfjár í Reykjavík frá
1986 yfir Kjalarnes að lokinni samein-
ingu,“ segir Kolbrún. „Ef það hefði
verið tekið fram að lausaganga búfjár
væri leyfð þrátt fyrir sameiningu, þá
hefði verið samþykkt í nefndinni að fé
fengi að ganga laust.“ Kolbrún segir
að það hafi augljóslega ekki verið gert
og því beri að líta svo á að lausaganga
búfjár sé bönnuð í Esjuhlíðum neðan
ofanbyggðagirðingar.
Í fyrrnefndri tillögu frá 1997 segir
að svæðið í Esjuhlíðum sé skilgreint
sem landbúnaðarsvæði í Aðalskipu-
lagi Kjalarness 1990–2010. Er lagt til
að þar verði bæði landbúnaður og
smábýli. Ásgeir Harðarson, sem kom
að tillögugerðinni á sínum tíma, segir
aðspurður hvernig sú fullyrðing fari
saman við bann við því að hafa fé á
beit í hlíðum Esjunnar, eins og borg-
arlögmaður segir engan vafa leika á,
samkvæmt samþykkt um búfjárhald í
Reykjavík frá 1986, að fleira sé land-
búnaður en fjárbúskapur. Bendir Ás-
geir á að skógrækt og svínarækt sé
dæmi um landbúnaðargreinar og
jafnt nú sem áður sé litið á svæðið
sem landbúnaðarsvæði.
Gerum okkur vonir um nýtt
lagaumhverfi næsta vor
Ellý K. J. Guðmundsdóttir, for-
stöðumaður umhverfis- og heilbrigð-
isstofu, þar sem hin umdeildu málefni
búfjárins í Esjunni hafa verið til um-
ræðu, segir að í gær hafi því verið
beint til vörslumanns borgarinnar að
hann smali fénu í samvinnu við Har-
ald Jónsson á Varmadal út af landi
skógræktarinnar. Megi búast við
miklu annríki hja vörslumanni næstu
fjórar vikurnar. „Eftir það gerum við
okkur vonir um að ný samþykkt taki
gildi þannig að við störfum í nýju
lagaumhverfi næsta vor. Þá verður
lausaganga fjár bönnuð annars staðar
en innan beitarhólfa."
Byggingar-
kostnaður
8% umfram
áætlun
HEILDARKOSTNAÐUR vegna
byggingar nýrrar höfuðstöðvar
Orkuveitu Reykjavíkur við Réttar-
háls nemur 2.487 milljónum kr., sam-
kvæmt kostnaðarmati, sem gert var
í sumar. Upplýsingar um bygging-
arkostnaðinn voru kynntar í stjórn
Orkuveitunnar í gær, að sögn Guð-
mundar Þóroddssonar, forstjóra
Orkuveitunnar.
Þegar hornsteinn var lagður að
húsinu í apríl sl. var gert ráð fyrir að
heildarkostnaður vegna byggingar-
innar næmi 2,3 milljörðum. Hefur
byggingarkostnaðurinn því farið 8%
fram úr kostnaðaráætlun.
Nýjar höfuðstöðvar
Orkuveitu Reykjavíkur
♦ ♦ ♦