Morgunblaðið - 24.08.2002, Side 46
MINNINGAR
46 LAUGARDAGUR 24. ÁGÚST 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Einar Sturla Jóns-
son fv. hreppstjóri í
Súgandafirði og heið-
ursborgari í Suður-
eyrarhreppi fæddist
24. ágúst 1902 á Suð-
ureyri, hann hefði því
orðið 100 ára í dag.
Foreldrar hans voru
Kristín Kristjánsdótt-
ir Albertssonar út-
vegsbónda á Suður-
eyri og Jón Einarsson
Jónssonar íshússtjóra
frá Skálavík. Börn
þeirra voru Þóra
Hjartar, Sturla, Þor-
lákur rafvirkjameistari, Kristjana,
húsfrú í Botni, og Jóhannes kaup-
félagsstjóri. Þau eru öll látin nema
Jóhannes sem er á Hrafnistu í
Reykjavík.
Sturla giftist 9. október 1926
Kristeyju Hallbjörnsdóttur, f. 22.
febrúar 1905, d. 30. júlí 1983. Hún
var dóttir Sigrúnar Sigurðardóttur
frá Hofsstöðum í Gufudalssveit og
Hallbjarnar Eðvarðs Oddssonar
bónda og kennara frá Gufudal.
Börn Sturlu og Kristeyjar eru
fimm: Eva, gift Guðna Þ. Jónssyni
og eiga þau eina dóttur og tvö
barnabörn. Sigrún, gift Þórhalli
Halldórssyni, þau eiga fjórar dæt-
ur, tíu barnabörn og tvö barna-
barnabörn. Kristín, gift Guðbirni
Björnssyni, þau eiga fjögur börn
og sjö barnabörn. Jón, giftur Sig-
urbjörgu Björnsdóttur, þau eiga
þrjú börn og níu barnabörn. Eð-
varð, giftur Arnbjörgu Bjarnadótt-
ur, þau eiga fimm börn og þrettán
barnabörn. Áður átti Eðvarð einn
son. Afkomendur Sturlu og Krist-
eyjar eru sextíu og sex.
Sturla stundaði nám við Núps-
skóla árin 1920-1922. Hann lærði
sjómannafræði á Ísafirði 1924 og
tók þar skipstjórnarpróf fyrir þrjá-
tíu tonna báta og fékk þar hæstu
einkunn sem gefin var. Kompásinn
söng hann undir lagi aftur á bak og
áfram fram á gamals aldur. Sturla
var frá níu ára aldri til sjós á
sumrin á Svaninum með föður sín-
um. Þá var útilegan fjórir til sex
dagar og saltað um borð. Frá
fermingu var hann á handfæra- og
línuveiðum, t.d á Skírni og Her-
móði. Sturla var formaður á vél-
bátnum Súganda 1925-1929 er
hann varð formaður á Draupni.
Hann hætti til sjós 1934 og gerðist
þá útgerðarmaður, fiskkaupandi og
fiskverkandi. Herti hann fiskinn og
saltaði. Síðar setti hann á stofn lít-
ið frystihús og frysti þann fisk sem
áður var saltaður, síðar stofnaði
hann rækjuvinnslu sem hann rak í
nokkur ár, en hætti síðan öllum at-
vinnurekstri árið 1958. Sturla átti
alla sína ævi heima í Súgandafirði,
nema nokkur síðustu ár sín er
hann dvaldi að Hrafnistu í Reykja-
vík. Þar lést hann 2. október 1996.
Sturla var mikill Súgfirðingur og
gegndi þar mörgum trúnaðar- og
félagsstörfum fyrir sína heima-
byggð. Hann var formaður íþrótta-
félagsins Stefnis í 17 ár samfellt og
var heiðursfélagi þess. Hann var
fyrsti æðstitemplar barnastúkunn-
ar Vísis og var einnig í stúkunni
Dagrúnu og í Góðtemplarareglunni
alla tíð, enda var hann mikill reglu-
maður og neytti hvorki áfengis né
tóbaks og blótaði aldrei. Í hrepps-
nefnd var hann í 24 ár, frá 1934-
1958, og oddviti öll árin. Hrepp-
stjóri var hann í 30 ár, frá 1948-
1978. Sýslunefndarfulltrúi í 26 ár.
Formaður Fjórðungssambands
Vestfirðinga árin 1955-1970 og
heiðursforseti þess frá 1970.
Stjórnarformaður Kaupfélags Súg-
firðinga í 25 ár. Hann var virkur
félagi í Oddfellow-stúkunni Gesti á
Ísafirði í 47 ár. Hann sat í fleiri
stjórnum og ráðum sem verða ekki
talin hér.
Sturla var mikill áhugamaður
um kirkjulegt starf og ein sagan af
honum er sú að þegar það vantaði
organista við Suðureyrarkirkju fór
hann fertugur að aldri til Reykja-
víkur og keypti sér orgel og tók að
STURLA
JÓNSSON
sér að spila í kirkj-
unni. Var hann org-
elleikari í Suðureyrar-
kirkju í fjölda ára.
Þannig er honum
réttilega lýst sem hug-
sjónamanni og bar-
áttumanni fyrir sinni
heimabyggð. Árið
1998 gáfu börn hans
fjóra steinda glugga
eftir Benedikt Gunn-
arsson í kór kirkjunn-
ar til minningar um
foreldra sína. Sturla
var gerður að heiðurs-
borgara 1976, sá fyrsti
og eini í Suðureyrarhreppi.
Sturla var einstaklega ljóðelskur
maður, fór létt með að setja saman
vísur við ótal tækifæri og eftir
hann liggur mikið safn ljóða sem
afkomendur hans hafa tekið sam-
an. Yndi hans var að fara með ljóð
og vísur sem hann hafði hvarvetna
á hraðbergi, enda kunni hann
ógrynni af þeim. Í minningunni
rifjast upp ýmis gamanmál sem
hann fór oft með eins og gríska
stafrófið og golfrönskuna o.fl. þess
háttar sem allir höfðu gaman af.
Þegar litið er til baka streyma
fram minningar um afa og ömmu á
Suðureyri. Heimili þeirra á Aðal-
götu 12 var einstaklega hlýlegt og
fallegt og þar var afar gestkvæmt
alla tíð. Það var gaman að koma
þar, því afi og amma gáfu sér alltaf
tíma til að spjalla við „æskuna
ungu sem erfir landið“ eins og afi
kallaði okkur. Það var til siðs á
sunnudagsmorgnum að fara í bíltúr
með pabba og það var alltaf komið
við hjá afa og ömmu. Amma sýslaði
í eldhúsinu og afi spilaði á orgelið í
stofunni og við krakkarnir fengum
að sitja hjá honum og læra nokkur
lög og fikta í orgelinu. Mér fannst
hann sýna okkur krökkunum ótrú-
lega þolinmæði. Það var líka æv-
intýraheimur að fá að vera á skrif-
stofunni hjá afa og fikta í
reiknivélunum og allskonar dóti
sem var á skrifborðinu, afi treysti
reyndar engum reiknivélum enda
var hann mikill stærðfræðingur og
átti létt með að reikna. Ég sé afa
fyrir mér sitjandi hugsi við skrif-
borðið sitt horfandi út um
gluggann yfir trjákrónurnar í garð-
inum, hann hafði í svo mörgu að
sýsla. Við krakkarnir vissum að
hann geymdi brjóstsykur í efstu
skúffunni í skjalaskápnum og alltaf
fengum við mola til að bryðja eins
og afi. Þegar við komum við hjá
ömmu og afa þá kallaði amma allt-
af í hann að koma niður og gefa
okkur smámola og síðan fengum
við að fara í kleinu og flugferð hjá
afa í eldhúsinu.
Afi var virðulegur maður, alltaf
vel klæddur og hann fór aldrei út
úr húsi nema með hattinn á höfð-
inu. Hann fylgdist vel með öllu sem
gerðist í Súgandafirði og iðulega
fékk hann sér göngutúr, hring um
eyrina sem hann kallaði að fara
umhverfis jörðina, og ef hann hitti
menn að máli þá fór hann með vís-
ur og ef vel lá á honum þá söng
hann líka. Súgandafjörður var hans
paradís á jörðu og það er við hæfi
að enda þetta á ljóði hans, Súg-
andafjörður.
Ég ann þér heitast mín æskusveit
með undramátt um fjöll og dali,
sem heillar æsku, það hugur veit
svo hjartastrengir blíðir tali.
Ég elska þig með unaðs töframátt
sem ungum gafst mér lífsins trú í sátt.
Friðsælu fjöll
farsæld er öll
við lífsins störf í litlum firði.
Hér áður Súgandi átti byggð
með óskir frama lífs um stundir.
Við grænar hlíðar er gróin tryggð
og gull í djúpi hafsins undir
sem ávöxt bera ætti langa tíð,
og allir skyldu njóta fram um hríð.
Berist í bú
blessun og trú
á framtíð lífs á feðraslóðum.
Sturla Eðvarðsson.
ALDARMINNING
✝ Marta Sigurðar-dóttir fæddist í
Ey í V-Landeyjum
19. júní 1908. Hún
lést á Dvalarheim-
ilinu Lundi á Hellu
16. ágúst síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru hjónin Þór-
hildur Einarsdóttir
frá Stóru-Mörk, V-
Eyjafjöllum, f. 1877,
d. 1954, og Sigurður
Snjólfsson frá Rifs-
halakoti í Ása-
hreppi, f. 1878, d.
1925, ábúendur í Ey
í Vestur-Landeyjum. Marta átti
fjögur systkini, tvö eru á lífi:
Katrín, f. 1906, d. 1998, Harald-
ur, f. 1910, Sigríður, f. 1913, d.
1969, og Guðrún, f. 1916.
Marta giftist 1930 Frímanni Ís-
leifssyni frá Hlíðarenda í Fljóts-
hlíð, f. 1 febrúar 1901, d. 18. sept-
ember 1990. Foreldrar hans voru
Þórunn Sæmundsdóttir frá Niku-
lásarhúsum og Ísleifur Erlends-
son frá Hlíðarenda. Marta og Frí-
mann eignuðust tvö börn: 1)
Sigurður, f. 1930, d. 1996, kvænt-
ur Ragnheiði Guðmundsdóttur, f.
1929, d. 1999, og eignuðust þau
fjögur börn: Guðrúnu Mörtu,
Óskar Ísfeld, Helgu og Erlend,
þau slitu samvistir. Sigurður var
um tíma í sambúð með Friðrúnu
Friðleifsdóttur og eignaðist með
henni einn son, Frímann Má, sem
Marta og Frímann tóku í fóstur
og ólu upp. Eftirlif-
andi kona Sigurðar
er Erla Sigurðar-
dóttir, f. 1942. 2)
Guðrún, f. 1932,
sonur hennar Frí-
mann Ottósson. Gift
Hjalta Sighvatssyni,
f. 1932, og eiga þau
tvær dætur, Helgu
og Þórhildi. Afkom-
endur Mörtu eru 34.
Marta og Frí-
mann byrjuðu bú-
skap árið 1929 á
Tumastöðum í
Fljótshlíð. Fluttust
að Oddhóli á Rangárvöllum 1944
og bjuggu þar til 1963, fluttust
þá til Reykjavíkur, en undu ekki
hag sínum í borginni. Fluttust þá
að Hellu á Rangárvöllum og
bjuggu þar til æviloka. Þegar
Marta var sextán ára missti hún
föður sinn og fluttist þá með
móður sinni til Vestmannaeyja.
Var hún þar í vist á veturna, en
fór í kaupavinnu upp á land á
sumrin. Marta söng bæði í
kirkjukór Breiðabólstaðarkirkju
og Oddakirkju. Marta var félagi í
kvenfélagi Fljótshlíðar og kven-
félaginu Unni á Rangárvöllum og
var formaður þess félags um
skeið og sat þá Sambandsþing
sunnlenskra kvenna.
Útför Mörtu fer fram frá
Oddakirkju í dag og hefst athöfn-
in klukkan 14. Jarðsett verður í
Breiðabólstaðarkirkjugarði.
Fyrstu kynni mín af Mörtu voru
þegar ég ungur maður réðst sem
kaupamaður að Oddhóli til þeirra
hjóna Mörtu og Frímanns. Ekki ór-
aði mig fyrir því þá, að kynni okkar
ættu eftir að þróast í þá veru, sem
raun varð á. Á heimili þeirra var
nefnilega ung dóttir þeirra hjóna,
Guðrún, með lítinn dreng, sem hún
átti, prinsinn á heimilinu. Hugir
okkar löðuðust saman og fannst
mér sem þau hjónin hefðu ekkert á
móti þeirri þróun, nema síður væri.
Fékk ég þar þá bestu tengdafor-
eldra, sem ég get hugsað mér.
Marta var ákaflega stórbrotin,
skemmtileg og vel gefin kona. Hún
hafði mjög fallega söngrödd, enda
varð mér að orði, fyrst þegar ég
heyrði hana syngja: „Af hverju
lærðir þú ekki að syngja?“ Varð þá
fátt um svör, enda var kannski ekki
í þá daga hægt um vik fyrir ungar
stúlkur, sem urðu að vinna fyrir sér,
að fara út í dýrt söngnám. Á meðan
þau Marta og Frímann bjuggu á
Tumastöðum var Marta virkur fé-
lagi í kvenfélagi Fljótshlíðar. Þá
sungu þau hjónin í kirkjukór
Breiðabólstaðarkirkju, og nýttust
raddir þeirra þar vel. Enn fremur
sungu þau mikið saman, þegar þau
voru á hestbaki, og ef til vill hafa
það verið þeirra bestu stundir, þeg-
ar þau eftir erfiðan vinnudag, eða í
sunnudagsútreiðartúrum, þeystu
um á gæðingum og raddir þeirra
hljómuðu saman í kyrrðinni, sem
svo oft umvefur Fljótshlíðina.
Eftir að þau fluttust að Oddhóli
sungu þau um tíma í kirkjukór
Oddakirkju. Marta var félagi í
kvenfélaginu Unni á Rangárvöllum
og var formaður þess um skeið.
Á fyrstu búskaparárum Mörtu og
Frímanns á Tumastöðum var ekki
mikið um heyvinnuvélar og var
nærri allt slegið með orfi og ljá,
rakað með hrífu, hey bundið í bagga
og reitt heim á hestum. Marta var
hamhleypa til allrar vinnu. Hún gaf
karlmönnum ekkert eftir, sló t.d.
með orfi og ljá. Sýndi það best, hve
mikinn kraft hún hafði til að bera.
En eflaust hafa ungu hjónin oft ver-
ið þreytt að kvöldi dags. Marta var
einnig ákaflega flink til handanna,
saumaði mikið á sjálfa sig og börn-
in. Þegar fram liðu stundir fannst
þeim hjónum vera þröngt um sig á
Tumastöðum, stækkunarmöguleik-
ar á búi ekki miklir. Seldu þau þá
skógræktinni Tumastaði og keyptu
jörðina Oddhól á Rangárvöllum.
Oddhóll var miklu stærri jörð og
ræktunarmöguleikar miklu meiri,
en húsakostur var orðinn lélegur.
Þá var ráðist í að byggja nýtt íbúð-
arhús og ný hús, fyrir búfénað, á
bökkum Eystri-Rangár. Móum var
umbylt og ræktuð slétt tún, þannig
að vélum yrði komið að heyskapn-
um.
Þannig var umhorfs þegar ég
kom fyrst að Oddhóli. Dvöl mín þar
varð heldur lengri en til stóð í upp-
hafi. Bjuggum við hjónin í tíu ár í
félagi við tengdaforeldra mína og
þar fæddust tvær dætur okkar. Þá
kynntist ég þeim mikla persónu-
leika, sem tengdaforeldrar mínir
höfðu til að bera, sem síðan féll
aldrei skuggi á.
Eftir að Marta missti mann sinn
bjó hún í húsi, sem þau Frímann
reistu á Hellu. Síðasta árið var
heilsu hennar farið að hraka það
mikið að hún þurfti mikla umönnun.
Vistaðist hún þá á Dvalarheimilinu
Lundi. Naut hún þar þeirrar bestu
umönnunar, sem hugsast getur, þar
til yfir lauk, og er öllu starfsfólkinu
á Lundi þakkað fyrir þeirra ómet-
anlegu aðstoð. Ég vil að endingu
þakka tengdamóður minni fyrir alla
þá miklu tryggð og hlýju, sem hún
hefur sýnt mér og fjölskyldu minni
gegnum árin. Mikil, stórbrotin og
hjartahlý kona hefur fengið friðinn.
Far þú í friði, friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt. Þinn
tengdasonur,
Hjalti Sighvatsson.
Elsku langamma. Nú hefur þú
kvatt okkur eftir erfið veikindi, en
við vitum að núna ertu hjá guði og
líður vel. Þú varst einstök kona
amma, það var alltaf svo gott að
koma til ykkar afa á Fossölduna
þegar við vorum lítil, var það mikið
tilhlökkunarefni að koma og sjá
kindurnar sem þið voruð með í
garðinum ykkar. Þú varst alltaf
með veislu tilbúna þegar við komum
með pabba og mömmu, aldrei fórum
við svöng heim. Þegar við byrjuðum
að æfa íþróttir varstu alltaf að leita
að okkur í blöðunum og varst svo
ánægð þegar þú sást Arnar Má þar
þegar hann var að æfa fótbolta.
Okkur fannst alltaf svo gaman að
nota sjónvarpsstólana ykkar og fara
í tannlæknaleik. Það eru margar
minningarnar um þig. Við dáðumst
að því hvað þú gast verið lengi ein
heima og alltaf eldaðirðu fyrir þig
sjálf. Fyrir tveimur árum fluttu afi
og amma til þín til að hugsa um þig
og stóðu sig eins og hetjur. Svo kom
að því að þú þurftir að fara á dval-
arheimilið Lund þar sem var hugs-
að svo vel um þig. Elsku amma við
geymum minninguna um þig í
hjarta okkar. Guð blessi þig.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Þýð. Sveinbjörn Egilsson.)
Þín barnabarnabörn
Magnea og Arnar Már
Keflavík.
„Eigum við ekki að koma út í
grunn Hulda mín.“ Þessi orð hljóma
enn svo kunnuglega fyrir mér þótt
mörg ár séu liðin frá því að ég
dvaldist hjá langömmu og langafa
dag hvern eftir skóla þar til mamma
var búin að vinna. Þær minningar
sem fylgja þessum árum eru mér
kærar. Það var margt sem ég brall-
aði hjá langömmu og langafa og
þótt þau væru orðin fullorðin virtust
þau aldrei þreytast á að hugsa um
mig og finna mér eitthvað til dund-
urs. Við huguðum að kindunum þar
sem hún Bílda mín var í uppáhaldi,
við sungum oft saman og ég glamr-
aði á gamla orgelið. Við langamma
fórum út í grunn, sem var einn
skemmtilegasti leikstaður minn, og
við langafi keyrðum um á rússan-
um. Ég lék mér oft að fallegu slæð-
unum og skartgripunum hennar
langömmu og enginn bakaði eins
gott hafrakex og hún.
Langamma var mikil kjarnorku-
kona og vildi alltaf vera að snúast
eitthvað fyrir aðra og ég veit að á
síðustu árum ævi hennar þótti
henni leitt að geta ekki sjálf hellt
upp á könnuna og borið fram
heimabakaðar kleinur og pönnukök-
ur þegar gesti bar að garði. En
langamma talaði sjaldan um sín
vandamál og áhyggjur en hlustaði
aftur á móti af einlægni á vandamál
annarra.
Elsku langamma, ég kveð þig
með söknuði en þú munt alltaf eiga
stað í hjarta mér og ég hlakka til að
segja börnum mínum frá hversu
merkileg og indæl kona þú varst.
Ég þakka þér fyrir allt sem þú
gerðir fyrir mig og bið að þú fáir að
hvíla áhyggjulaus hjá langafa.
Þín
Hulda.
Nú kveð ég þig elsku langamma.
Það var ekki langur tími sem ég
fékk með þér og langafa. Ég var svo
ung þegar langafi dó og man svo
voða lítið eftir honum. Það er þó ein
minning sem lifir í mér og það var
þegar ég kom í heimsókn til ykkar
og langafi sagði ,,komdu með eitt-
hvað gott handa henni Eddu“ og þú
varst þá vön að koma með kók og
eitthvert gotterí handa mér. Ég
man einnig hvað mér fannst gott að
koma í heimsókn til þín. Þegar við
mamma komum sast þú vanalega
við eldhúsborðið og skrifaðir í dag-
bókina þína eða last blöðin. Á með-
an þú og mamma spjölluðuð saman
skoðaði ég myndirnar á veggjunum
inni í stofu eða skoðaði myndaal-
búmin, ég þreyttist aldrei á því að
skoða myndir af þér og langafa og
ömmu Dúnu þegar hún var ung. Þú
varst alltaf svo hress og sást um að
öllum liði vel og aldrei gleymdirðu
afmælisdögum eða neinu þess hátt-
ar. Þú sást um þig sjálf þótt þú
værir orðin níræð og gast gengið
um húsið ein og óstudd. Síðustu
mánuði ævi þinnar varstu mikið
veik en það stoppaði þig ekki í því
að vilja gera eitthvað fyrir okkur,
þú vildir fara að hella upp á könn-
una eða bjóða okkur eitthvað gott.
Þegar við mæðgurnar sátum hjá
þér þegar þú varst veik fengum við
okkur stundum brjóstsykur úr nátt-
borðinu þínu, því við vissum að þá
yrðirðu ánægð. Alltaf þurftirðu að
vera að gera eitthvað fyrir aðra,
elsku langamma mín. Ég kveð þig
með söknuði, en ég veit að þér líður
betur núna hjá langafa og Guði.
Vertu sæl elsku langamma mín.
Þín
Edda.
MARTA
SIGURÐARDÓTTIR