Morgunblaðið - 19.09.2002, Blaðsíða 14
INGIBJÖRG Sólrún Gísladóttir,
borgarstjóri í Reykjavík, segir af og
frá að borgin sé að framselja skipu-
lagsvald yfir flugvallarsvæðinu í
Reykjavík með breytingum sem
gerðar hafa verið á greinargerð með
aðalskipulagi Reykjavíkur 2001–
2024. Hvorki stefna borgarinnar né
möguleikar á uppbyggingu í Vatns-
mýrinni hafi breyst heldur sé verið að
taka af öll tvímæli um að borgin muni
hafa samráð við samgönguyfirvöld.
Umhverfisráðherra hefur fengið
greinargerðina til umsagnar.
Sem kunnugt er mælti Skipulags-
stofnun með því í maí síðastliðnum að
umhverfisráðherra myndi staðfesta
aðalskipulag Reykjavíkur, sem gilda
á til ársins 2024, með fyrirvara varð-
andi skipulag flugvallarsvæðisins í
Vatnsmýrinni. Gerir skipulagið ráð
fyrir að NA/SV-flugbraut Reykjavík-
urflugvallar verði lögð af á tímabilinu
2001–2016 en að A/V-flugbrautina
megi reka til loka skipulagstímabils-
ins.
Leið til að skipulagið verði
staðfest án fyrirvara
Athugasemdir Skipulagsstofnunar
leiddu til þess að skipulags- og bygg-
ingarnefnd og borgarráð hafa sam-
þykkt breytingar á greinargerð
skipulagsins þar sem fjallað er um
landnotkun í Vatnsmýrinni. Kemur
fram í umsögn borgarlögmanns, sem
lögð var fram í borgarráði á þriðju-
dag, að breytingarnar muni vera leið
til þess að Skipulagsstofnun mæli
með því við umhverfisráðherra að að-
alskipulagið verði staðfest án fyrir-
vara.
Í kaflanum, þar sem fjallað er um
þau uppbyggingarsvæði, sem mynd-
ast við afnám NA/SV-flugbrautarinn-
ar, er því bætt við að „uppbygging
þessara svæða mun ekki hefjast fyrr
en flugöryggi sem brautin veitir verð-
ur tryggt annars staðar“. Í umsögn
borgarlögmanns um þetta atriði segir
að gera megi ráð fyrir að NA/SV-flug-
brautin verði áfram við lýði takist
ekki að uppfylla þennan fyrirvara.
Samkvæmt aðalskipulaginu verður
öll starfsemi tengd snertilendingum í
æfinga- og kennsluflugi flutt frá
Reykjavíkurflugvelli þegar búið er að
koma upp aðstöðu fyrir það annars
staðar. Segir í greinargerðinni að við
þann flutning opnist þróunarmögu-
leikar austur af háskólasvæðinu og
Litla-Skerjafirði. Í nýrri viðbót við
þennan kafla segir að tímasetningar á
uppbyggingu svæðanna verði „háðar
flutningi á ofangreindri starfsemi“.
Um þetta atriði segir borgarlög-
maður í umsögn sinni: „Takist ekki að
byggja nýjan flugvöll í nágrenni höf-
uðborgarsvæðisins á því tímabili sem
hér um ræðir verður að gera ráð fyrir
að snertilendingar í æfinga- og
kennsluflugi verði áfram á Reykjavík-
urflugvelli.“ Segir hann að af grein-
argerðinni verði ráðið að gert sé ráð
fyrir að einkaflug flytjist frá flugvell-
inum á þessum hluta skipulagstíma-
bilsins, enda svæði fluggarða upp-
byggingarsvæði. Flutningur flug-
garðanna sé hins vegar háður þeim
fyrirvörum sem fyrr er getið.
Íslenska ríkið er eigandi
stórs hluta landsins
Í þeim hluta greinargerðarinnar er
fjallar um tímabilið 2016–2024 segir
að á því tímabili verði hafist handa við
að undirbúa svæðið fyrir frekari upp-
byggingu. Hefur þar verið bætt inn
setningu um að þetta verði gert í sam-
ráði við samgönguyfirvöld „enda hafi
þau þá mótað sér stefnu um framtíð
innanlandsflugs“. Þá er því bætt við
að það verði á valdi samgönguyfir-
valda hvers konar flugstarfsemi verð-
ur fýsilegt að reka í Vatnsmýrinni á
þessum hluta skipulagstímabilsins,
þ.e. eftir að NA/SV-brautin hefur ver-
ið aflögð.
Hvað varðar þetta bendir borgar-
lögmaður á í umsögn sinni að samráð
feli ekki í sér framsal valds og borg-
aryfirvöldum sé því ekki skylt að fara
eftir tillögum eða óskum samgöngu-
yfirvalda. „Þá verður að skilja bók-
unina þannig að hafi samgönguyfir-
völd við lok tímabilsins ekki mótað sér
stefnu um framtíð innanlandsflugs, sé
borgaryfirvöldum ekki skylt að hafa
samráð við þau um frekari uppbygg-
ingu Vatnsmýrarinnar.“ Hins vegar
bendir borgarlögmaður á að íslenska
ríkið sé eigandi stórs hluta þess lands
sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á
og því sé borgaryfirvöldum skylt að
hafa samráð við ríkið sem landeig-
anda um uppbyggingu svæðisins.
Loks segir borgarlögmaður sam-
gönguyfirvöld ekki einráð um hvers
konar flugstarfsemi verður rekin á
Reykjavíkurflugvelli í framtíðinni
enda kunni ýmislegt að setja þeirri
starfsemi skorður, svo sem skert flug-
öryggi með niðurlagningu NA/SV-
brautarinnar og framtíðaruppbygg-
ing í nágrenni flugvallarins.
„Viðhorf, aðstæður og
sjónarmið geta breyst“
Aðspurð um hvort hún telji líklegt
að samgönguyfirvöld muni ráðast í
gerð nýs innanlandsflugvallar m.a. í
ljósi þeirrar miklu uppbyggingar sem
hefur átt sér stað á Reykjavíkurflug-
velli segir Ingibjörg Sólrún: „Sam-
gönguyfirvöld eru eitt stjórnvald en
það eru mismunandi aðilar sem þar
koma að. Hvorki flokkar né einstak-
lingar eru eilífir í því efni. Viðhorf, að-
stæður og sjónarmið geta breyst og
ég get ekki spáð í framtíðina frekar
en aðrir. Það sem mér finnst aðalat-
riðið er að við erum búin að móta okk-
ur stefnu um hvernig við viljum hafa
svæðið. Við munum ekki hrófla við
flugvellinum fyrr en eftir 2016. Eftir
það förum við í að undirbúa svæðið
fyrir frekari uppbyggingu. Við gerum
það í samráði við samgönguyfirvöld
en við framseljum ekki skipulagsvald-
ið til þeirra. Við gerum ráð fyrir að
samgönguyfirvöld hafi þá mótað sér
stefnu varðandi framtíð innanlands-
flugs fyrir þetta svæði. Til þess hafa
þau nokkuð góðan tíma. Ef þau
treysta sér ekki til að reka flugstarf-
semi miðað við þau skilyrði sem við
setjum á síðari hluta skipulagstíma-
bilsins [2016–2024] þá verða þau ein-
hvern veginn að leysa það mál.“
Greinargerð aðalskipulags Reykjavíkur varðandi landnotkun á flugvallarsvæðinu breytt
Morgunblaðið/Golli
Að mati borgarlögmanns má gera ráð fyrir að NA/SV-flugbrautin verði áfram takist ekki að tryggja annars staðar það flugöryggi sem brautin veitir.
Samráð er ekki valdaafsal
Vatnsmýri
HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ
14 FIMMTUDAGUR 19. SEPTEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
Nýbýlavegi 12, Kópavogi,
sími 554 4433.
Fallegir skinntreflar
kr. 1.480
MEIRIHLUTA barna í 5.–10. bekk
grunnskóla Reykjavíkur líður vel í
skólanum og flest þeirra segjast
eiga marga eða mjög marga vini
þar. Vímuefnaneysla unglinga í 10.
bekk jókst milli áranna 2000 og
2001 en hins vegar dró úr daglegum
reykingum þeirra á sama tímabili.
Þetta er meðal niðurstaðna könn-
unar sem Íþrótta- og tómstundaráð,
Fræðslumiðstöð og Samstarfsnefnd
um afbrota- og fíkniefnavarnir
stóðu fyrir meðal nemenda í 5.–10.
bekk vorið 2001 en niðurstöður
hennar hafa nú verið birtar.
Það var fyrirtækið Rannsóknir og
Greining ehf. sem sá um fram-
kvæmd könnunarinnar og voru
nemendurnir meðal annars spurðir
um líðan í skóla, viðhorf til náms og
skólafélaga, samræður við foreldra
og iðkun félagsstarfs og íþrótta-
starfs auk þess sem unglingarnir
voru spurðir um neyslu vímuefna.
Kom fram að flestum nemendum í
5.–10. bekk líður vel í kennslu-
stundum og er sjaldan eða nær aldr-
ei strítt í skólanum. Þá segjast flest-
ir eiga marga eða mjög marga vini
þar.
Algengast er að nemendum í 5.–
7. bekk þyki námið hvorki auðvelt
né erfitt en rúmlega þriðjungi þykir
námið mjög eða frekar auðvelt. Að-
eins einum af hverjum tíu þykir það
hins vegar frekar eða mjög erfitt.
Þegar komið er upp í unglingadeild-
ir skólanna þykir nemendum hins
vegar námið þyngjast og segja rúm-
lega tveir af hverjum tíu nemendum
í 8. – 10. bekk námið oft eða nær
alltaf þungt.
363 nemendum oft eða mjög
oft strítt í skólanum
Um 13 prósent nemenda í ung-
lingadeild segja að sér líði sjaldan
eða nær aldrei vel í kennslustundum
en rúmlega 6 prósent yngri nem-
endanna segja að sér líði yfirleitt
frekar eða mjög illa í kennslustund-
unum. Þá segja um 5 prósent nem-
endanna að sér sé oft eða mjög oft
strítt í skólanum og eru að baki
þessari hlutfallstölu 363 nemendur
að því er fram kemur í könnuninni.
Þar segir jafnframt að vanlíðan í
skóla fari saman við vilja til að
hætta í skóla og eru þeir nemendur í
8. – 10. bekk, sem segjast verða oft
eða nær alltaf fyrir stríðni í skól-
anum, fimm sinnum líklegri til að
vilja hætta í skólanum en nemendur
sem sjaldan eða nær aldrei verða
fyrir stríðni.
Þá telur um fjórðungur nemenda
á miðstigi að oft sé verið að leggja
einhvern í einelti innan bekkjarins
en sambærileg tala fyrir unglinga-
deildirnar er 17 prósent.
Loks segir að samræður milli
barnanna og foreldra um líðan
þeirra fyrrnefndu virðist haldast í
hendur við jákvæð viðhorf og góða
líðan í skóla.
Helmingur stundar íþróttir
og félagsstarf vikulega
Hvað varðar íþróttir og tóm-
stundir benda niðurstöðurnar til
þess að um helmingur skólabarna í
5.–8. bekk stundi íþróttir og fé-
lagsstarf að minnsta kosti einu sinni
í viku. Um 48 prósent barnanna
segjast fara í sund vikulega eða oft-
ar og rúmlega helmingur þeirra
segist stunda boltaíþróttir. Hið
sama má segja um íþróttir á borð
við að hjóla, renna sér á línu-
skautum, hjólabretti eða hjólaskaut-
um. Um tíu prósent nemenda í 5.–7.
bekk taka ekki virkan þátt í íþrótta-
starfi eða æfa íþróttir aðeins nokkr-
um sinnum í mánuði eða sjaldnar.
Flestir nemenda í 5.–7. bekk
stunda félagsstarf og sérstaklega
innan bekkjarins en hlutfall þeirra
sem svara því síðarnefnda játandi
er um 80 prósent. Í 8. bekk er al-
gengara að krakkarnir stundi fé-
lagsstarf í félagsmiðstöðvum, að
undanskildum dansleikjum segist
um þriðjungur þeirra sækja fé-
lagsmiðstöðvarnar.
Drykkja unglinga eykst á ný
Í könnuninni voru reykingar, ölv-
un og notkun á hassi kannaðar með-
al unglinganna. Kemur fram að
daglegar reykingar 10. bekkinga
minnkuðu úr 18 prósentum í 17 pró-
sent frá árinu 2000 til 2001 en sam-
bærileg tala fyrir árið 1998 var 23
prósent. Hins vegar virðist drykkja
hafa aukist úr 31 prósenti í 38 pró-
sent meðal tíundu bekkinga í
Reykjavík milli áranna 2000 og
2001 eftir að hafa dregist nokkuð
saman frá árinu 1998 þegar hún var
44 prósent. Þá virðist hassneysla
þeirra hafa aukist úr 12 prósentum í
15 prósent milli áranna 2000 og
2001.
Niðurstöður könnunar sem gerð var meðal nemenda í 5.–10. bekk grunnskóla borgarinnar
Líðan í skóla góð en
vímuefnaneysla eykst
!
Reykjavík