Morgunblaðið - 04.10.2002, Blaðsíða 39
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 4. OKTÓBER 2002 39
✝ Erna Bergsveins-dóttir fæddist í
Reykjavík 18. júní
1932. Hún lést á líkn-
ardeild Landspítal-
ans í Kópavogi mið-
vikudaginn 25.
september síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru Valgerður
Jónsdóttir, f. 11. jan.
1912, d. 8. okt. 1993,
og Bergsveinn Sig-
urður Bergsveins-
son, f. 7. okt. 1906, d.
11. des. 1947, frá
Aratungu í Stein-
grímsfirði. Valgerður var dóttir
Jóns Þórarinssonar búfræðings
frá Sigluvík við Eyjafjörð og konu
hans, Helgu Kristjánsdóttur frá
Végeirsstöðum í Fnjóskadal. Fað-
ir Bergsveins var Bergsveinn
bóndi Sveinsson Kristjánssonar í
Sunndal og konu hans, Bjargar
Ólafsdóttur frá Hellu í Bjarnar-
firði. Móðir Bergsveins var Sig-
ríður Guðrún Friðriksdóttir Jó-
hannessonar frá Drangavík og
konu hans, Guðbjargar Björns-
dóttur. Systkini Ernu eru: 1) Unn-
ur, f. 7. maí 1938, maki 1: Þórólfur
G. Ingólfsson, látinn, maki 2: Æv-
ar Þorgeirsson, þau slitu samvist-
um. 2) Helga Lísbet, f. 7. nóv.
1941, gift Elíasi Kristjánssyni. 3)
Bragi, f. 5. sept.
1946, kvæntur Þor-
björgu Jenný Ólafs-
dóttur. Erna giftist í
maí 1954 Guðjóni
Jónssyni verslunar-
manni í Hafnarfirði,
f. 25. mars 1930.
Foreldrar hans voru
hjónin Guðlaug
Daníelsdóttir frá
Stóra-Bóli í A-
Skaftafellssýslu, f.
16. mars 1891, d. 2.
jan. 1984, og Jón
Pálmi Jónason frá
Hliði á Álftanesi, f.
19. okt. 1892, d. 10. sept. 1988.
Erna og Guðjón eiga þrjú börn: 1)
Ómar, f. 16. sept. 1954, kvæntur
Þóru Eiríksdóttur. Börn þeirra
eru Særún, Erna og Guðjón Valur.
2) Gerður, sjúkraliði, f. 12. maí
1958, sambýlismaður Guðmundur
Emil Sigurðsson, sonur Gerðar er
Bergsveinn Norðdahl. 3) Guðlaug
Linda, hjúkrunarfræðingur, f. 13.
ágúst 1967. Erna ólst upp í
Reykjavík og lauk miðskólaprófi á
Reykjum í Hrútafirði. Hún vann
ýmis verslunarstörf gegnum árin
en lengst af sem bókavörður í
Bókasafni Hafnarfjarðar.
Útför Ernu verður gerð frá
Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í
dag og hefst athöfnin klukkan 15.
Elsku mamma mín. Þú stendur
hjarta mínu næst. Með þessum orð-
um kveð ég þig með sorg og trega í
hjarta mínu. Þú varst alveg einstök.
Ertu horfin? Ertu dáin?
Er nú lokuð glaða bráin?
Angurs horfi ég út í bláinn,
autt er rúm og stofan þín,
elskulega mamma mín.
Gesturinn með grimma ljáinn
glöggt hefur unnið verkin sín.
Ég hef þinni leiðsögn lotið,
líka þinnar ástar notið,
finn, hvað allt er beiskt og brotið,
burt er víkur aðstoð þín
elsku góða mamma mín.
Allt sem gott ég hefi hlotið,
hefir eflt við ráðin þín.
Þó skal ekki víla og vola,
veröld þótt oss brjóti í mola.
Starfa, hjálpa, þjóna, þola,
það var alltaf hugsun þín,
elsku góða mamma mín.
Og úr rústum kaldra kola
kveikirðu skærust blysin þín.
Flýg ég heim úr fjarlægðinni,
fylgi þér í hinsta sinni,
krýp með þökk að kistu þinni,
kyssi í anda sporin þín,
elsku góða mamma mín,
Okkur seinna í eilífðinni
eilíft ljós frá guði skín.
(Árni Helgason.)
Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Friður guðs þig blessi.
Þín dóttir
Linda.
Í dag, þegar ég kveð mína kæru
tengdamóðir Ernu Bergsveinsdóttir
í hinsta sinn, vil ég þakka henni fyrir
þær stundir sem við áttum saman.
Þótt árin hafi ekki verið mörg, þá
geymi ég það dýrmætasta í hjarta
mínu.Þau voru ekki nema um fimm,
árin sem ég fékk að kynnast henni.
En ég get sagt, að það sem lýsir
henni best, er það hve heiðarleg, dug-
leg og umfram allt samviskusöm hún
var. Þegar ég kynntist henni og
hennar fjölskyldu vann hún sem
bókavörður í Bókasafni Hafnarfjarð-
ar. Þar fannst henni gott að starfa, en
hún var mikill bókaunnandi, víðlesin
og fróð. Hún hafði því frá mörgu að
segja, vegna þekkingar sinnar, og
var oft gaman að heyra hana segja
frá.
Fyrir um tveimur árum síðan þeg-
ar Erna sá að langri starfsævi væri
að ljúka og hún sá fram á fleiri stund-
ir með börnum sínum og barnabörn-
um, þurfti hún að fara í erfiða hjarta-
aðgerð. Eftir þá aðgerð greindist hún
með illkynja sjúkdóm. Hún háði
mikla og harða baráttu við þennan ill-
skeytta sjúkdóm. Um tíma leit út fyr-
ir að hún væri að yfirstíga sjúkdóm-
inn, því henni leið vel og gat farið
allra sinna ferða. En þessi sjúkdómur
hafði ekki sagt sitt síðasta og braust
fram illskeyttari en áður, og Erna
varð þá að lúta í lægra haldi fyrir
honum. Erna átti góða fjölskyldu
sem annaðist hana mjög vel í hennar
erfiðu veikindum þegar hún var
heima og eins allt fram til síðustu
stundar.
Á kveðjustund er margs að minn-
ast. Hún hafði gaman af að ferðast og
fórum við í margar ferðir saman. Síð-
asta ferðalag okkar var í ágúst sl. á
sunnanvert Snæfellsnes. Hún hafði
sérstaka ánægju af að skoða fallega
staði, enda var hún sjálf mjög listræn
kona.
Að lokum bið ég Guð að blessa
minningu þína og þakka þér fyrir
samfylgdina.
Guðmundur E. Sigurðsson.
Við komum alltaf að ömmu bros-
andi út að eyrum og hún gætti sko
alltaf að því að við borðuðum nóg og
mikið, helst of mikið. Amma leyfði
okkur alltaf að sulla með kryddin
hennar og við settum vatn út í og allt
mögulegt þangað til að það kom
ógeðsleg fýla en aldrei sagði hún okk-
ur að hætta, hún hló bara með okkur.
Við gátum talað við ömmu um allt
milli himins og jarðar. Hún var alltaf
að prakkarast í okkur með grallara-
prikinu sínu og potaði því í okkur og
við skellihlógum öll saman. Við mun-
um þegar hún sagði okkur að hún
hefði fengið að prófa hlaupahjól og
farið á því um allt húsið og aldrei
skemmt sér jafn vel.
Við viljum ekki meina að hún sé al-
veg farin frá okkur heldur er hún
stærsti, flottasti og besti engillinn
okkar og fylgist alltaf með okkur
hvert sem við förum eða hvað sem við
gerum, amma verður alltaf hjá okk-
ur.
Erna og Guðjón Valur.
Amma þú varst svo góð, alltaf til
staðar þegar ég þarfnaðist þín. Þegar
mér leið illa kom ég til þín og þú
hlustaðir á mig og huggaðir mig. Þú
passaðir alltaf upp á það að við vær-
um ekki svöng og að okkur vantaði
ekkert.
Ég býst við því að þú hafir fæðst
svona, með þörf fyrir að vera góð við
alla og passa upp á að allt sé full-
komið.
Alltaf, alltaf svo lengi sem ég lifi
skal ég muna hvað þú varst fullkomin
amma, góður vinur og hvað mér leið
alltaf vel með þér.
Ég elska þig amma.
Særún.
Mín hinsta kveðja til ástkærrar
systur minnar:
Þú kvaddir þegar blómin fóru að falla
og fölva haustsins sló á sumarskaut
þú hafðir gengið götu þína alla
og gæfu notið hér á lífsins braut.
Það syrti að og söknuðurinn svíður,
hann svíður þó að dulin séu tár
en ævin okkar eins og lækur líður
til lífsins bak við jarðnesk æviár.
Og tregablandin hinsta kveðjan hljómar
svo hrygg við erum þvi við söknum þín
í hugum okkar stjarna lífs þíns ljómar
sem ljós á vegi í brjóstum okkar skín.
Við biðjum að þér ljóssins englar lýsi
og leiði þig hin kærleiksríka hönd
í nýjum heimi æ þér vörður vísi
sem vitar inn í himnesk sólarlönd.
Þér sendum bænir upp í hærri heima
og hjartans þakkir öll við færum þér
við sálu þína biðjum Guð að geyma
þín göfga minning okkur heilög er.
(G.E.V.)
Hafðu kæra þökk fyrir allt og allt,
þín systir
Lísbet.
Erna frænka var móðursystir mín
og minnist ég hennar sem góðrar,
blíðrar og óeigingjarnrar konu. Erna
var ekki bara móðir barna sinna
heldur mikill vinur þeirra og er mér
óhætt að segja að hún var alltaf til
taks fyrir þau enda voru þau stolt
hennar. Fórnfús var hún öllum af sín-
um eindæma mannkostum.
Þær voru nú ekki fáar ferðirnar
sem hún sendi Gauja sinn að sækja
okkur mæðgurnar í sunnudagsmat
en þá bjuggu þau á Arnarhrauni 8.
Stundum heyrði ég mömmu spyrja
Ernu hvort hún gæti fengið hann
Gauja lánaðan ef karlmannsverk
þurfti að vinna í íbúðinni okkar.
Kom þá Gaui oftast að vörmu spori
með töskuna fulla af alls konar út-
lendu góðgæti sem Erna hafði sent
hann með.
Mér fannst Erna alltaf svo rausn-
arleg og góð að lána okkur hann
Gauja sinn. Einu sinni langaði mig
svo í lítið systkini að mér fannst það
svo sjálfsagt að hún lánaði okkur
hann bara í smástund þar sem á okk-
ar heimili var enginn karlmaður.
Þetta hefur síðan verið mikið að-
hlátursefni í fjölskylduboðum í gegn-
um tíðina.
Eftir að amma fór að reskjast tók
Erna að sér eins og henni var einni
lagið að halda jólaboðin með kalkúni
og tilheyrandi í Þrúðvangi 13. Þetta
eru þau skemmtilegustu og notaleg-
ustu jólaboð sem ég man eftir.
Fjölskyldurnar stækkuðu og í
staðinn fyrir jólaboð urðu 17. júníboð
en þá var Erna alltaf með heitt á
könnunni og alls konar góðgæti í til-
efni afmælis síns.
Þessari hefð tókst henni að við-
halda og hittumst við öll síðastliðinn
17. júní þegar Erna varð sjötug.
Ég tel mig vera mjög lánsama að
hafa átt svo góða frænku að og fá að
vera með henni síðustu andartökin
ásamt nánustu ættingjum.
Það veitir mér frið og ró að vita af
Ernu minni hvíla í friði eftir hetju-
lega baráttu við illkynja krabbamein.
Elsku Gaui, Ómar, Þóra, Gerður,
Emil, Linda og aðrir ættingjar megi
Guð styrkja ykkur á erfiðum tímum.
Guðný Ævarsdóttir.
Þegar sumri hallaði og haustið
kom í allri sinni litadýrð var Erna
Bergsveinsdóttir, móðursystir mín,
kölluð burt úr þessum heimi eftir erf-
iða baráttu við krabbamein. Ég hef
þá trú að hún hafi öðlast frið í öðrum
heimi þar sem sumarið varir að eilífu.
Erna hafði marga kosti til að bera
og var þekkt fyrir að brosa með aug-
unum þrátt fyrir það mótlæti sem líf-
ið bauð henni. Kímnin var aldrei
langt undan og gerði hún óspart góð-
látlegt grín að sjálfri sér eða sam-
ferðamönnum sínum. Hún var mikill
náttúruunnandi og sýndi það með
elju og ræktarsemi í garðinum sín-
um. Ræktarsemin náði einnig til fjöl-
skyldu og vina þar sem af Ernu staf-
aði hjartahlýja og manngæska. Ég
held að dýrin hafi skynjað þetta líka
þar sem þau soguðust að henni hvort
heldur þau voru af eðalkyni eða
flökkuætt. Í Ernu bjó listakona og
hafði hún glöggt auga fyrir litum og
formum. Hún hafði einnig mjög gam-
an af að ferðast, jafnt innanlands sem
utan, og lagði oft mikið á sig til þess
að komast þangað sem hugurinn
girntist.
Ernu frænku dáði ég í æsku og
reyndi mikið að líkjast en skildi síðar
að það er ekki auðvelt að öðlast slíka
fegurð sem í henni bjó. Hún var ör-
lagavaldur í lífi mínu þegar hún
kynnti föður minn og móður. Erna
hafði mikla ábyrgðartilfinningu
gagnvart samborgunum sínum, ekki
síst mér, systurdótturinni sem missti
föður sinn sex mánaða og þurfti að
lifa aðskilin frá berklasjúkri móður
um tíma vegna smithættu. Þá kom
Erna með sína líknandi hjálparhönd
og veitti okkur mæðgunum skjól á
heimili sínu, þá og ætíð síðan.
Kæra frænka, margar góðar minn-
ingar á ég um þig og allt sem þú gafst
mér. Hafðu þökk fyrir allt og allt.
Elsku Gauji, Ómar, Gerður, Linda
og aðrir ástvinir, ég og fjölskylda mín
vottum okkar dýpstu samúð og biðj-
um Guð að styrkja ykkur í sorginni.
Dagný Þórólfsdóttir.
Hjartkær móðursystir mín er dáin
eftir langa og stranga baráttu, það er
huggun harmi gegn að þrautaganga
þessarar mætu konu er um garð
gengin. Það eru í huga mér margar
góðar og fallegar minningar um sam-
skipti okkar frænknanna. Hún var
mér alltaf svo góð og ég elskaði það
þegar ég var barn að fá að gista
heima hjá þeim hjónunum og þá sér-
staklega þegar ég fékk að fara í bað-
kerið hjá þeim sem er með gullslegn-
um örmum, því þá var hægt að láta
hugann reika og þykjast vera prins-
essa sem reyndist ekki mjög erfitt
þar sem allir á heimilinu kepptust við
að láta manni finnast maður vera ein
slík. Í raun og veru áttum við Erna
frænka ekkert ósagt hvor við aðra
þar sem við ræddum mikið og lengi
saman í byrjun september. Í þeirri
heimsókn minni til hennar kom ber-
lega í ljós væntumþykja hennar til
mín og mín til hennar. Þess vegna
ætla ég að láta hér staðar numið og
votta allri fjölskyldu hennar alla
mína samúð og þakka þeim öllum og
þá sérstaklega henni sjálfri allt það
sem þau hafa gert fyrir mig þau ár
sem ég hef lifað. Þau hafa óneitan-
lega markað sín spor í sálu mína og
hjarta þar sem margar góðar og
fagrar minningar hafa tekið sér ból-
festu og munu lifa með mér til ævi-
loka.
Elsku hjartans Erna mín, ég
þakka þér af alhug fyrir allt sem þú
skilur eftir þig hér á jörðu og vegna
þín er ég örugglega pínulítið betri
manneskja í dag en ég var í gær. Ég
óska þér guðs blessunar og við mun-
um hittast á ný á staðnum þar sem
alltaf er dagur og líkamlegar þrautir
eru ekki til.
Þín systurdóttir,
Þórunn Ýr Elíasdóttir.
Þrjátíu og fimm ára vinátta er rof-
in og það sest að mér mikill sökn-
uður. Ég loka augunum og minning-
arnar þjóta í gegnum hugann. Tvær
Ernur sátu saman og hömpuðu ham-
ingjusamar nýfæddum dætrum sín-
um, Lindu og Sólveigu. Það er eins
og það hafi gerst í gær.
Erna var gædd þeim eiginleikum
að geta lifað lífinu lifandi, alltaf glað-
sinna og gefandi og allt lék í hönd-
unum á henni. Eitt af áhugamálum
hennar var að ferðast, hún vildi fræð-
ast og skoða heiminn. Hún naut þess
ríkulega að ferðast innanlands sem
utan. Hún var ávallt búin að lesa sér
til um hvern þann áfangastað sem
haldið var til, enda sagði hún oft:
„Maður sér nú ekki mikið ef maður
ferðast með lokuð augun“.
Ég varðveiti dýrmætar minningar
um ferð okkar um Suðurland eftir að
Erna mín var orðin veik. Það var
glampandi sól og logn þennan dag er
við ókum um sveitirnar. Andlit henn-
ar ljómaði af gleði þegar hún benti á
og nafngreindi hina ýmsu staði sem
hún þekkti og rifjaði upp gamlar
minningar og eins það sem hún hafði
lesið. Svo kom listamaðurinn upp í
henni inn á milli þegar hún sagði:
„Siddý sérðu litina og birtuna, hef-
urðu nokkurn tímann séð svona fal-
lega liti, mikið er landið okkar fal-
legt“.
Með Ernu er gengin góð kona sem
skilur eftir sig stórt skarð sem aldrei
verður fyllt. Ég þakka alla vináttuna
og skemmtilegu samverustundirnar.
Það var dýrmætt að fá að vera vin-
kona þín. Nú ertu komin á bjartan
stað.
Ég og fjölskylda mín kveðjum þig
með söknuði og sendum ástvinum
innilegar samúðarkveðjur.
Erna. S. Kristinsdóttir.
Glettnislegt bros og dillandi hlátur
dökkhærðrar konu heyrist ekki oftar
á gamla bókasafninu okkar í Mjó-
sundi 12. Enda er bókasafnið flutt á
nýjan og betri stað á Strandgötu 1 og
Erna flogin frá okkur og komin á
æðra tilverustig. Kannski gerist það
á svipaðan hátt og þegar hún í sum-
arfríi forðum daga stökk úr flugvél í
fallhlíf.
Erna var nefnilega svolítil ævin-
týrakona og prakkari í sér og virtist
ekkert láta aftra sér ef svo bar við.
Við hin látum ótal ævintýri fram hjá
okkur fara vegna þess að við þorum
ekki, en Ernu skorti ekki þor. Það
margsýndi hún okkur í veikindum
sínum. Lífið fór ekki um hana mjúk-
um höndum þar sem veikindi voru
annars vegar en hún lét það ekki á sig
fá, gafst aldrei upp, áfram var haldið
með glettni í augum og bros á vör.
Nú er höggvið skarð í hópinn okk-
ar og við starfsfélagar Ernu munum
sakna hennar. Síðustu tvö árin hefur
nær daglega mátt heyra „hefur ein-
hver frétt af Ernu? hvernig hefur
Erna það?“
Erna starfaði á Bókasafni Hafnar-
fjarðar í um tuttugu ár, hún var góð-
ur bókavörður og ljúfur og glaðlynd-
ur samstarfsmaður. Iðulega var haft
á orði að það þyrfti nú að klóna Ernu
því þrátt fyrir veikindi sín var hún
alltaf boðin og búin að taka aukavakt-
ir ef einhver veiktist eða þurfti á fríi
að halda. Kökuuppskriftirnar hennar
eru á heimilum okkar flestra þar sem
henni lánaðist svo oft að koma með
ljúffengar kökur í vinnuna. Mjög oft
voru hrósyrði höfð um þegar Erna
var annars vegar og hrósyrði sem
þessi hljómuðu oft í okkar eyru: „Ég
kom á bókasafnið um daginn og þessi
dökkhærða afgreiddi mig, hún hefur
svo ljúfa framkomu, það er svo gott
að biðja hana um aðstoð,“ og var þar
átt við Ernu.
Erna lét af störfum sl. haust vegna
veikinda sinna. Hún var að vísu búin
að segja að hún ætlaði ekki að flytja
með okkur og vinna á nýja safninu,
heldur koma sem gestur og njóta
þannig nýja safnsins. Því miður miss-
um við af skemmtilegum frásögum
hennar úr sumarfríum, dillandi
hlátri, brosandi augum og prakkara-
svipnum.
Okkur lánaðist samt sem áður að
hafa hana með okkur þegar við
kvöddum gamla safnið og við opnun
nýja safnsins í vor sem leið vorum við
svo heppin að henni leið vel þá stund-
ina og treysti sér til að koma og vera
viðstödd opnunina. Eins gátum við
kvatt hana sem starfsfélaga á form-
legan og yndislegan hátt í sumar-
byrjun. Það var sama sagan þá, Erna
var hress og orðin fallega brún eins
og ávallt á sumrin, dragfín og bros-
andi og allir skemmtu sér vel.
Erna gat séð ljósu hliðarnar á svo
mörgu. Þegar Erna grenntist í veik-
indum sínum nefndi hún að nú kæmi
sér vel að hún hefði ekki verið grönn,
því nú væri hún mátuleg. Þegar hún
missti fallega, dökka hárið sitt sagði
hún að sig hefði nú alltaf langað til að
vera ljóshærð og viti menn, þegar
hárið óx aftur eftir meðferðina var
það fallega grátt: Hún var orðin ljós-
hærð.
Við starfsfélagar Ernu á Bóka-
safni Hafnarfjarðar sendum ástvin-
um hennar samúðarkveðjur og erum
þakklát fyrir að hafa fengið að starfa
með henni.
Starfsmenn Bókasafns
Hafnarfjarðar.
ERNA
BERGSVEINSDÓTTIR