Morgunblaðið - 07.12.2002, Page 80
80 LAUGARDAGUR 7. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐ
BRÉF
TIL BLAÐSINS
Kringlunni 1 103 Reykjavík Sími 569 1100
Símbréf 569 1329 Netfang bref@mbl.is
Allt efni sem birtist í Morgunblaðinu og Lesbók er varðveitt í upplýsinga-
safni þess. Morgunblaðið áskilur sér rétt t i l að ráðstafa efninu þaðan, hvort
sem er með endurbirtingu eða á annan hátt. Þeir sem afhenda blaðinu efni
ti l birtingar teljast samþykkja þetta, ef ekki fylgir fyrirvari hér að lútandi.
ÉG var að lesa skrítna grein á miðsíðu
DV nú í vikunni; nafnlausa. Hún heit-
ir Þorir Matthías. Þetta virðist vera
einhvers konar rauð dula, en hefur
engin áhrif á mig vegna þess ég er
ekki naut.
Þorir hvað?
Jú, að birta dagbækur sínar, því að
„óþreyjan vex eftir því að hann leysi
frá skjóðunni um það sem hann upp-
lifði í hringiðunni í ritstjórastólnum“,
eins og segir í greininni.
Hver segir að dagbækur mínar
fjalli einkum um þennan stól? Og af
hverju skyldi hann valda óþreyju?
Það sem einkennir hann einna helzt
er einhvers konar þjónusta við annað
fólk sem þarf að viðra sig í fjölmiðlum.
Hann krefst því mikillar vinnu. Og
mikils þreks, því menn fá marga
slæma pústra í þessum stól; oftast að
ósekju, auðvitað.
En hvað er það þá sem veldur
óþreyjunni? Jú, auðvitað pólitískt
argaþras. Það virðist vera helzta af-
þreying fjölmiðlafólks í landinu.
Í greininni segir: „Lengi hefur
verið beðið eftir æviminningum
Matthíasar Johannessens, fyrrver-
andi ritstjóra Morgunblaðsins, enda
ljóst að þar yrði safaríkt efni á boð-
stólum fyrir áhugamenn um íslenzk
stjórnmál.“
Já einmitt, stjórnmál.
Í fyrsta lagi ætla ég ekki að skrifa
neinar æviminningar – og allra sízt
safaríkar sem merkir líklega það
brenglaða veruleikaskyn og sjálfs-
dýrkun sem einkennir svona bækur –
og í öðru lagi er ég löngu vaxinn frá
þessari pólitísku áþján og læt aðra um
þann sandkassa.
Ég man raunar ekki hvað stendur á
þessum dagbókarblöðum, hvort þar
er einhver bitastæð pólitík eða ekki,
en það kemur þá í ljós, þegar verkið
verður birt á aldarafmæli mínu. Þá
verð ég áreiðanlega kominn á kaf í
pólitík aftur!
Sem stendur er ég að basla við að
semja skáldskap og þar kemur hin til-
búna dagbók við sögu án þess hún
komi ritstjórastörfum mínum við á
nokkurn hátt. Og ef einhverjir eru
„hálfsvekktir yfir því að ritstjórinn og
skáldið skyldi ekki stíga skrefið til
fulls og gefa út æviminningar“, eins
og segir í greininni, geta þeir ekki
sakazt við mig, því að þeir hljóta af
umburðarlyndi sínu að veita mér leyfi
til að skrifa þær bækur sem standa
hjarta mínu næst – og þá einnig með
þeim hætti sem ég kýs sjálfur, en ekki
hinir „hálfsvekktu“.
Þá er enn sagt í greininni að mörk-
in milli veruleika og skáldskapar í
nýrri bók minni, Vatnaskil, hljóti að
vera harla óljós – og vona ég sann-
arlega að svo sé – en höfundur grein-
arinnar dregur þessa ályktun af því
að ég og útgefendur mínir, eins og
hann segir, höfum ekki lagt verkið
fram, hvorki „í flokki fagurbók-
mennta né bóka almenns eðlis vegna
Íslensku bókmenntaverðlaunanna“.
Þetta er ósköp barnaleg ályktun.
Ég hef aldrei, endurtek aldrei, leyft
að bók eftir mig væri lögð fram til
þessara verðlauna og hef engan
áhuga á þeim. Sú sérvizka mín hefur
engan skaðað, nema síður sé.
Þá segir höfundur DV-greinarinnar
að á næsta ári sé væntanlegt framhald
Vatnaskila „þar sem sagt verður frá
viðburðum á sviði stjórnmála“. Þetta
voru merkileg tíðindi fyrir mig, því að
ég hef ekkert slíkt á prjónunum.
Hitt væri sanni nær að skáldsaga
mín nú sé í tengslum við söguna sem
kom út í fyrra, Hann nærist á góðum
minningum, eins og réttilega hefur
verið bent á hér í blaðinu.
Og síðan talar greinarhöfundur um
að skáldskapur minn sé „hálfsann-
leikur“ og má það kannski til sanns
vegar færa að allur skáldskapur sé
hálfsannleikur, en ég leyfi mér þó að
halda því fram að skáldskapur sé mik-
ilvægari sannleikur en margt veru-
leikabaslið, ég tala nú ekki um þennan
pólitíska og ritstýrða sannleika sem á
víst að vera hin eina sanna tólg, en er
það sjaldnast, eins og allir vita.
Já, þetta var dálítið skrítin grein í
DV, að mestu án áreitis og illgirni að
vísu, svo að mér þótti rétt að kallast á
við höfund hennar, í upplýsinga skyni.
En hvað sem öðru líður er ég þess
fullviss að það útheimtir meira þor að
fikra sig áfram í skáldskaparlegum
texta, meira hugrekki og meiri
áhættu en vasast í pólitískum skrifum
sem fáir taka mark á og enn færri
gera einhverjar kröfur til, þótt þeirra
sé beðið með mikilli óþreyju. En það
merkir aðeins að afþreyingarmarkað-
urinn bíður eftir þessum hversdags-
lega hasar.
Ég vil svo að lokum óska DV alls
hins bezta. Mér skilst blaðið eigi í ein-
hverjum erfiðleikum nú um stundir
og vona það komist úr kröggunum.
Það er nú betra og áreitislausara blað
en oft áður og sumt til fyrirmyndar,
ekki sízt menningarskrif blaðsins á
stundum.
MATTHÍAS JOHANNESSEN,
Reynimel 25A,
107 Reykjavík.
Af dagbókar-
blöðum og DV
Matthías Johannessen skrifar:
BRÁTT líður að því að nýr vígslu-
biskup verði skipaður að Hólum.
Valinkunnir heiðursmenn hafa setið
staðinn undanfarin ár. Nokkrir hafa
verið nefndir sem eftirmenn séra
Bolla Gústafssonar og þar á meðal
séra Hannes Blandon prófastur í
Eyjafirði. Við sem þekkjum séra
Hannes vitum að hann muni sóma
sér vel á Hólastóli, glæsilegur á velli,
fróður um málefni kirkjunnar, vel-
lesinn í kirkjufræðum og sögu Hóla-
stóls ásamt því að vera ágætur ræðu-
maður og vanur leiðsögumaður.
Einnig hefur hann sýnt að hann er
nærgætinn sálusorgari. Við nokkrir
stuðningsmenn séra Hannesar von-
um að hann fyrirgefi okkur skrif
þessi og hvetjum hann til að gefa
kost á sér í embætti vígslubiskups á
Hólum.
BALDVIN H. SIGURÐSSON,
Möðruvallastræti 9, Akureyri.
Áskorun til prófasts
Baldvin H. Sigurðsson skrifar: