Morgunblaðið - 12.02.2003, Page 22
A
Ð þessu sinni skal vikið að nær-
tækri listpólitík, tilefnið mark-
verður gjörningur norðan heiða
og viðtal við Lars Nittve, for-
stöðumann Núlistasafnsins í
Stokkhólmi, sem birtist í Lesbók 18. janúar.
Komin upp giska undarleg staða, þegar hver
sýningin á fætur annarri í Listasafni Ak-
ureyrar vekur jafn mikið og meira umtal en
sýningar í höfuðborginni, þó ólíku saman að
jafna um húsakost og mannhald. Að vísu hef
ég ekki nálgast gjörning Hannesar Sigurðs-
sonar; Aftökur & útrýmingar, en verð illa
svikinn ef sá hristir ekki duglega upp í fólki
líkt og ýmsir hinna fyrri. Hér er tekist á við
ýmis raunhæf fyrirbæri lífsins, sem hverjum
og einum er hollt að líta til, og segja nöfn
sýninganna þriggja allt um innihald þeirra;
Hitler og hommarnir,/ Hinstu máltíðir og Af-
tökuherbergið. Naumast þarf að kynna Hitl-
er, sem er markaðs-
væddasta skelfing
síðustu aldar, og sem
slíkur virðist hann
höfða ótæpilega til
hins breiða fjölda.
Ekkert hefur verið
rannsakað jafn kirfilega og ódæðisverk og líf
þessa einræðisherra né haldið fram, þannig
að við liggur að aðrir og stórtækari austar á
hnettinum falli í skuggann. Minnist þess að
fyrir austan tjald voru enn í síbylju kvik-
myndir um seinni heimsstyrjöldina á sjón-
varpsskjám hótelherbergjanna sem ég gisti,
þótt meira en 30 ár væru þá liðin frá lokum
hennar. Hatrið til þriðja ríkisins og heims-
valdastefnu vesturveldanna ræktað í spreng
af sjálfum boðberum alræðisins.
Enginn vafi, sýningin á Akureyri á erindi
til okkar svona líkt og arabíska sýningin áð-
ur, sú rataði í mun ítarlegra formi í húsa-
kynni Listasafns Reykjavíkur við Tryggva-
götu. Var vel sett upp og sjónvarpsskjáir
fleiri, þannig að um nær alveg nýja sýningu
var að ræða, en viðbrögð fjölmiðla þá minni
en skyldi, hvað sem veldur. Það sem nú er
tekið til meðferðar í brennidepli ytra, þótt
svo ýmsir séu farnir að fá ofbirtu í augun af
kastljósinu á Hitler. Þyki margt æði tuggu-
kennt, missa marks, þannig fékk sýning á
gyðingasafninu í New York nýlega afleita
dóma. Mál að þótt fáum komi til hugar að
bera blak af Hitler eru stöðugt að koma fram
nýjar heimildir frá einræðisríkjunum gömlu í
austri og kemur þar fram að hann var hér
enginn brautryðjandi eða einfari á tuttugustu
öld. Átti sér lærimeistara, hugmyndirnar um
útrýmingarbúðirnar gat hann hafa sótt til
Búastríðsins og seinna Gúlagsins, til Leníns
hvað ofsóknir á hendur framsæknum lista-
mönnum áhrærir. Lenín var svo eitilharður í
draumum sínum um stórhreingerningu á
eldri gildum að Stalín bliknar í samanburði,
kannski ekki undarlegt þótt Hitler varaði við
hættunni úr austri. Fyrir Lenín voru ekki til
neinar málamiðlanir, rústa skyldi menningu
fortíðar til hags fyrir alræði öreiganna, og
hann vildi ganga hreint til verks. Þannig var
Molotov í fersku minni hvernig hann skamm-
aði Stalín fyrir linku og frjálslyndi. Innlendir
listamenn voru virkjaðir allt hvað af tók með-
an á þurfti að halda en síðan tjóðraðir við
málstaðinn; að tilgangurinn helgaði meðalið,
útlendir sömuleiðis. Hann leit frá upphafi á
Sovétríkin sem herveldi, sem með yfirgangi
og illvirkjum skyldi kúga rússnesku þjóðina,
rústa menningu hennar, stofnanir, samtök og
hugsjónir.
H
ulunni hefur nú að fullu verið
svipt af blekkingu vestrænna
kommúnista um að Stalín hafi
vikið frá fræðunum og flokks-
línunni með einstrengings-
hætti sínum og grimmd. Hvað menning-
arbyltingu Maós formanns viðvíkur var hann
einungis að framkvæma kenningar Leníns
þegar hann sigaði múgnum á allt sem nefnd-
ist menntun, menning og arfur fortíðar.
Sem fyrr segir eru stöðugt að koma fram
nýjar heimildir úr rússneskum skjalasöfnum
er skara tímabil Sovétríkjanna, í kjölfarið
hafa verið ritaðar allnokkrar bækur. Ein sú
síðasta sem ég hef spurnir af og fengið hefur
frábæra dóma fyrir skilvirkni er Gulag og
glemsel, Russlands Tragedie og Vestens
hukommelsestab í det 20. århundrede, eftir
Bent Jensen, Gyldendal 2003, 528 s. með
frumljósmyndum. Þar segir meðal annars:
Módernistar 20. aldar voru heillaðir af kerf-
um, skipulagi, hreinleika og reglu, nasistar,
fasistar og kommúnistar vildu umbyltingar,
hreinsa illgresið úr þjóðfélaginu, sópa burt
gömlum óhreinindum, rýma fyrir ljósi lofti og
yfirsýn. Þjóðfélagsrótið allt um kring, mark-
aðinn, trúarbrögðin, siðgæðið, hugsanirnar
og skáldskapinn. Af óhagkvæmum toga bar
því að fordæma.
Um hafsjó af ferskum upplýsingum um
hörmungartíma rússnesku þjóðarinnar er að
ræða og skyldi ekki lag að setja saman sýn-
ingu er beindi kastljósinu annað að litla bróð-
ur í Þýskalandi eða athöfnum í kringum
dauðarefsingar í Bandaríkjunum? Væri þeg-
ar öllu er á botninn hvolft snöggtum frum-
legra en að veita þeim lið sem stöðugt eru að
ganga í skrokk Hitlers líkt og hann persónu-
geri allan hrylling síðustu aldar. Stóra spurn-
ingin gæti verið: Hver var stefna Leníns/
Stalíns/Maós og annarra marxista í listum,
og hvað var úrkynjuð list í þeirra augum?
Hvað Lenín snerti var hann í þeim efnum
góðum áratug á undan Hitler. Einneigin
hvernig menn komu fram við framsækna
listamenn í Sovétríkjunum eftir að þau voru
stofnuð og þar til þau liðu undir lok. Svo má
auðvitað velta því fyrir sér hvers lags perrar
þetta voru, sömuleiðis hvílubrögðum þeirra,
jafnframt ofsóknum á hendur öðruvísi þenkj-
andi neðan mittis. Svona líkt og aukabúgrein
á ofsóknum á hendur öllum sem leyfðu sér að
hugsa öðruvísi, hvað þá pirra þá með at-
hugasemdum.
Enginn er að gera lítið úr framkvæmdinni
á Akureyri, þetta sett fram með margt annað
til hliðar í huga sem skarar listþróunina, upp-
lýsir eitt og annað um mynstur nútímavæð-
ingar myndlistar í heiminum. Nú þegar valt-
að er yfir eldri menntunargrunni, þróuðum
tæknibrögðum aldanna rutt út af borðinu.
Listin búin til í skólum, nýútskrifuðum list-
spírum, blautum bak við bæði eyrun, haldið
fram á kostnað eldri og grónari listamanna.
Dyr safna, sem unga tók áður ár og áratugi
að komast inn um, standa þeim nú galopnar,
mulið undir þá sem aldrei fyrr. Listaskól-
arnir orðnir að einsleitu hópefli, þar sem ein-
staklingsframtakið er síður inni í myndinni,
frumleikinn felst í hópeflinu, að vera eins og
allir hinir, og hversdagslegustu athöfnum lyft
á stall sem bráðfyndnum fyrirbærum. Um
leið er slegið á upprunalegar tilfinningar og
háleitar hugsjónir orðnar ígildi tilfinn-
ingavellu úr myglaðri fortíð …
– Hið vel skrifaða viðtal Fríðu Bjarkar
Ingvarsdóttur við Lars Nittve er þýðing-
armikið innlegg í orðræðuna hér á landi,
ómetanlegt að fá jafn opinskátt viðtal við
heimsþekktan sýningarstjóra í íslenskt dag-
blað, jafn sjaldgæft og það nú er.
Gallinn er sá, að ekki koma nein viðbrögð
við slíkum viðtölum í fjölmiðlunum, menn
humma þau fram af sér líkt og annað sem
skrifað er um sjónlistir, sama hve brýnt er-
indi þau eiga við fjöldann og hversu mik-
ilvægt er að hrista upp í hlutunum. Margt vel
sagt og skarplega athugað en hér finn ég þó
hjá mér þörf til að leggja orð að. Litið til
upphafsins er nærri að ætla að hina miklu
aðsókn að Tate-safninu megi að drjúgum
hluta þakka nefndum Lars Nittve. Hins veg-
ar ekki vikið orði að hinni frjóu umræðu um
safnið sem átti sér stað áður og meðan það
var í mótun, ekki einungis í London, heldur
víða um heim. Sköpuð gríðarleg eftirvænting
sem skilaði sér eðlilega í mikilli aðsókn fyrsta
árið og munu útlendir líkast til í meirihluta.
En í ljósi þess að árið sem Lars Nittve var
forstöðumaður Lousiana-safnsins í Humle-
bæk minnkaði aðsóknin í þeim mæli að
mönnum hnykkti við, ætti að fara varlega í
að eigna honum alfarið heiðurinn. Jafnframt
eigna safn- og sýningarstjórum hin miklu
hvörf um aðsókn á söfn og sýningar í heim-
inum á undangengnum áratugum, – komu
þeim þvert á móti í opna skjöldu, þeir hafa
orðið að laga sig að framvindunni. Hefur þó
ekki slegið á löngun þeirra til miðstýringar,
að móta stefnuna eftir eigin höfði og með
stífri forræðishyggju hafa áhrif á skoð-
anamótun almennings. En þetta hefur ekki
gengið upp sem skyldi, fólk almennt hrekkur
undan slíkri forsjá og fastagestum fækkar.
Þeir hafa því tekið til bragðs að höfða til
fjöldans með háværum uppákomum, upp-
stokkunum og sambræðslu listhugtaka.
Það sem vekja skal athygli almenn-ings er nú ekki list sem grípur fyriryfirskilvitlega töfra heldur óvenju-lega og hversdagslega efnis-
meðferð, svo sem fram kemur í viðtalinu
varðandi listaverk Chris Ofili úr fílasaur. Á
frumraun Nittve á Lousiana varð á vegi
gesta hálfmyrkvaður salur, með svo háværri
tónlist að veggir og gólf skulfu og nötruðu,
örfáir unglingar héldust þar inni og lágu á
mjúkum íhvolfum sessum dreifðum um sal-
inn. Í afmörkuðu rými mátti sjá að því er
virtist þéttdópaðan kall dansa allsberan
kringum nafla sinn á stóru tjaldi en vakti
blendin viðbrögð. Eitt og annað af því sem
þar gat að líta hefur ratað hingað með sama
árangri um aðsókn á listasöfnin. Hér virðist
leitað til óþroskaðs markhóps með stund-
argamnið að leiðarljósi, sem er stærsti hluti
mannkynsins, einmitt sá sem sósíalisminn
hagnýtti sér fyrrum í skipulögðu niðurrifi
sínu á eldri gildum. Á tímum er fólk snýr
baki við slíkum gjörningum áreitis og síbylju
eykst aðsókn að sýningum á verkum stóru
módernistanna upp úr öllu valdi, eins og ég
varð gjörla var við í London á liðnu ári.
Straumurinn lá á sýningar Picassos/Matisse
á Tate Modern, Banksides og Luciens
Freuds á Tate Brittain, Millbank. Þvert á
móti spám margra er Freud nú nafnkennd-
astur málari Engilsaxa, er þá David Hockney
ekki undanskilinn. Hinn hái aðgangseyrir að
sýningunum fældi engan frá, og hvað skyldi
eiga að fjármagna söfn og stórframkvæmdir
innan þeirra ef ekki aðgangseyririnn? Eng-
inn talar um ókeypis tónleika, ei heldur
ókeypis bækur, hér gildir markaðssetningin
sem fyrrum; að stíla á áhugann og kunna að
vekja hann með brögðum lista. Takist það
vilja viðkomandi fórna miklu og þar er falinn
burðarás og eldsneyti allra framkvæmda …
Af gjörningi og orðræðu
SJÓNSPEGILL
Eftir Braga
Ásgeirsson
bragia@itn.is
Frá sýningunni á Akureyri.
LISTIR
22 MIÐVIKUDAGUR 12. FEBRÚAR 2003 MORGUNBLAÐIÐ
Á ÞESSUM tónleikum bauð
Hljómeyki upp á alíslenska efnis-
skrá. Kórinn hefur á sínum tæplega
29 ára starfsferli verið ákaflega
duglegur að flytja og kynna íslensk
kórverk, en samtals hefur hann
sungið um 90 slík og frumflutt 26.
Fyrst á efnisskránni var verkið
Canite tuba eftir Hildigunni Rún-
arsdóttur sem hún samdi fyrir kór-
inn haustið 2001. Næst söng kórinn
Verkið Iustorum animæ, sem John
Speight samdi sumarið 1988 fyrir
Söngdaga Jónasar Ingimundarson-
ar í Skálholti. Bæði þessi verk eru
aðgengileg og falleg kórverk. Verk-
ið Namárië eftir Jónas Tómasson er
samið samkvæmt pöntun frá Hljóm-
eyki vegna samstarfs við Kamm-
erkórinn á Ísafirði og Kammerkór
Austurlands og var verkið frumflutt
á Ísafirði og heyrðist nú í fyrsta
skipti í Reykjavík. Textinn er á álfa-
máli og er ljóð eftir J. R. R. Tolkien.
Hér er á ferðinni mjög áheyrilegt
verk fyrir fimm radda kór.
Þorkell Sigurbjörnsson samdi
145. Davíðssálm fyrir Hljómeyki
vorið 2002 og frumflutti kórinn
verkið í júlí í fyrra. Þetta er senni-
lega kröfuharðasta verkið á fyrri
hluta efnisskrárinnar, uppfullt af
skemmtilegum taktbreytingum og
hrynmunstri.
Eftir hlé hóf kórinn upp raust
sína með verki Jóns Nordal, Trú
mín er aðeins týra, við texta Jóns
Helgasonar og var verkið frumflutt
1999 í tilefni aldarafmælis hans.
Fimm vísur um nóttina eftir Stefán
Arason við texta Sigurðar Óskars
Pálssonar var samið sumarið 2002.
Verkið er fyrir tvo kóra og er í fjór-
um köflum. Fyrsti kaflinn inniheld-
ur tvær fyrstu vísurnar. Í fyrsta
kafla söng kvartett sem staðsettur
var á hliðarsvölum kór 1 og kórinn á
sviðinu kór 2. Kór 1 syngur á einu
atkvæði gangandi sjálfstæðar tríól-
ur með góðum þögnum á milli á
meðan kór 2 syngur vísurnar í
nokkuð hefðbundinni kórsetningu.
Annar kaflinn er við texta 3. vís-
unnar og er skrifaður fyrir 12 radd-
ir. Kvennaraddir beggja kóranna
eru allar tvískiptar. 1. sópran og 1.
alt syngja vísuna á meðan hinar
kvennaraddirnar syngja langa liggj-
andi tóna á einum sérhljóða úr text-
anum. Karlaraddirnar syngja texta-
laust og líkja eftir vindgnauði.
Þarna raðaði kórinn sér í raun í
þrjá misstóra hópa á sviðinu. Þriðji
kaflinn er yfir 4. vísuna og þar
syngjast á blandaður kvintett og
restin af kórnum. Kórinn syngur
texta vísunnar í hómófónískri radd-
setningu en kvintettinn grípur inn í
með glaðlegu Fa la la ... Síðasta vís-
an er skrifuð fyrir tvo kóra og
blístrara. Kór 1 syngur vísuna á
meðan kór 2 er talkór sem mælir
fram vísuna. Tveir kórfélagar sáu
um blístrið. Verkið er samið með
samstarf Hljómeykis við kammer-
kóranna á Vestfjörðum og Austur-
landi í huga og frumflutt í því sam-
starfi en heyrðist nú í fyrsta sinn á
höfuðborgarsvæðinu. Þetta verk er
langt frá því að vera aðgengilegt
fyrir flytjendur en mjög skemmti-
legt áheyrnar og sennilega kröfu-
harðasta verkið á efnisskránni. Síð-
ast á efnisskránni var
frumflutningur á verki Ólivers
Kentish, Jubilate Deo. Óliver samdi
verkið í október 2001 en af ein-
hverjum ástæðum ver það ekki
frumflutt fyrr en nú. Verkið er fyrir
fjórraddaðan blandaðan kór og
klukkuspil (röraklukkur). Sam-
kvæmt efnisskrá er verkið ekki
samið fyrir Hljómeyki heldur varð
bara til og beið eftir góðum kór til
frumflutnings. Í verkinu skiptast á
hraðir og glaðlegir kaflar og aðrir
hægari hómófónískir. Það er trú
undirritaðs að þetta verk eigi eftir
að heyrast oft í framtíðinni enda
hér um gott framlag til íslenskrar
kirkjutónlistar að ræða.
Hljómeyki er og hefur lengst af
verið einn besti blandaði kórinn á
Íslandi. Hann er skipaður vel
menntuðu tónlistarfólki sem flest er
alið upp í söng og tónlist frá blautu
barnsbeini og starfar við tónlist eða
er langt komið í námi. Öll verkin
sem kórinn flutti hér gera miklar
kröfur til hvers og eins kórfélaga,
enda flest öll samin fyrir kórinn og
miðuð við getu hans og hefur sam-
starf tónskálds og kórs í öllum til-
fellum tekist mjög vel. Öll verkin
krefjast góðrar tónheyrnar og
næmrar hrynskynjunar hvers kór-
félaga. Öll eru þau ómstríð innbyrð-
is og út á við og því langt frá því að
vera auðunnin í æfingu. Hljómgun
kórsins er mjög góð og falleg og
gott jafnvægi á milli. Stjórn Bern-
harðs er örugg og ákveðin.
Trú mín er aðeins týraTÓNLIST Ýmir
Hljómeyki ásamt Frank Aarnink slag-
verksleikara. Stjórnandi Bernharður
Wilkinson. Flutt verk eftir Hildigunni
Rúnarsdóttur, John A. Speight, Jónas
Tómasson, Þorkel Sigurbjörnsson, Jón
Nordal, Stefán Arason og Óliver Kentish.
Sunnudagurinn 9. febrúar 2003 kl. 20.
KÓRTÓNLEIKAR
Jón Ólafur Sigurðsson