Morgunblaðið - 11.04.2003, Page 42
MINNINGAR
42 FÖSTUDAGUR 11. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Guðlaug HuldNielsen fæddist í
Reykjavík 14. nóvem-
ber 1941. Hún lést
hinn 6. apríl síðastlið-
inn. Foreldrar henn-
ar voru Alfreð
Nielsen verkstjóri, f.
8. desember 1913 í
Reykjavík, d. 11. jan-
úar 1961, og Guðrún
Guðmundsdóttir
Nielsen húsmóðir, f.
7. ágúst 1914 á
S-Reykjum í Mos-
fellssveit, d. 29. febr-
úar 2000. Bróðir
Guðlaugar var: Alfreð Flóki
Nielsen listamaður, f. 19. desem-
ber 1938, d. 18. júní 1987. Hálf-
systir Guðlaugar er Ingibjörg
Vagnsdóttir húsmóðir, f. 17. júní
1933.
Hinn 3. ágúst 1963 giftist Guð-
laug Guðmundi Má Bjarnssyni
leigubílstjóra, f. 7. nóvember
1938. Börn þeirra
eru: 1) Alfreð Guð-
mundsson, f. 17. maí
1961. Sambýliskona
hans er Birgit Bein-
ing, f. 24. maí 1971.
2) Guðrún Björg
Guðmundsdóttir, f.
15. febrúar 1964.
Sambýlismaður
hennar er Ingvi Þór
Ragnarsson, f. 18.
nóvember 1961. Son-
ur þeirra er Guð-
laugur Þór Ingva-
son, f. 27. apríl 1998.
3) Guðmundur Guð-
mundsson, f. 22. febrúar 1971.
Sambýliskona hans er Inga Lilja
Lárusdóttir, f. 21. febrúar 1975.
Sonur þeirra er Guðmundur
Bjarni Guðmundsson, f. 7. nóvem-
ber 1999.
Útför Guðlaugar verður gerð
frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag
og hefst athöfnin klukkan 13.30.
Elsku mamma, það er erfitt að
sætta sig við að þú sért farin frá
okkur, við sem áttum eftir að gera
svo margt skemmtilegt saman, t.d.
fara í sumarbústaðinn til Guðrúnar
og til Danmerkur að skoða Skyve
bæinn sem hann afi þinn var frá.
Það var einmitt á sama tíma fyrir 18
árum að við ákváðum að fara með
Norrænu til Danmerkur og keyra
þaðan til Bassý systur þinnar sem
bjó í Noregi. En þá dundi ógæfan
yfir, sá svarti skuggi sem hefur fylgt
föðurætt þinni birtist og hjó stórt
skarð í líf þitt og fjölskyldu þinnar,
þú varst milli heims og helju og
óvíst hvort að við fengjum þig aftur.
Eftir þriggja vikna meðvitundar-
leysi kom sólin upp og lífið hreif þig
til okkar aftur. Með mikla lömum
vinstra megin hófstu handa við að
byggja þig upp með blóði, svita og
tárum. Þú varst langan tíma á
Grensásdeild Landspítalans. Þú
náðir þeim árangri að ganga með
staf, en lengst af varstu bundin við
hjólastól. Það tók mikið á þig and-
lega og ekki síst líkamlega að gera
það sem okkur finnst svo sjálfsagt
að gera, einföld dagleg störf geta
auðveldlega orðið ógerleg. En með
vilja þínum, krafti og dugnaði tókst
þér hið ómögulega, þú sigraðist á
mótlætinu með bjartsýni og léttri
lund þú kvartaðir aldrei yfir líðan
þinni þótt við vissum að þér gat ekki
liðið vel miðað við afleiðingar löm-
uninnar. Árið 1987, tveimur árum
eftir, dó bróðir þinn Alfreð Flóki úr
sama ættgenga sjúkdómnum. Þið
voruð mjög samrýnd systkinin og
leituðu oft hvort til annars. Flóki
var skemmtilegur og vel lesinn mað-
ur og var það mikið áfall fyrir þig og
okkur að missa hann. En lífið hélt
áfram sinn vanagang og árið 1992
skilduð þið pabbi og þú fluttist á
Borgarholtsbraut. Þá bjó ég hjá þér
um tíma, þú hafðir mikinn áhuga á
garðinum sem fylgdi íbúðinni og
eyddum við löngum stundum í að
gera hann sem fallegastan. Ekki má
gleyma tíkinni Töru sem að þú áttir
og var hún mikill vinur og þótti þér
mjög vænt um hana. Eftir nokkur
ár í Kópavoginum fluttist þú í Hátún
12 þar sem þú fékkst góða íbúð og
meiri þjónustu við þitt hæfi.
Hafðir þú þá alltaf áhuga á því að
kaupa þér þína eigin íbúð.
Í minningunni eru ferðalögin of-
arlega en við ferðuðumst talsvert
saman, t.d til Bandaríkjanna og
Evrópu og var það afar skemmti-
legur tími. Eins og áður höfðum við
pantað okkur farmiða í ferð til Dan-
merkur sem skyldi verða farin í
sumar. En morguninn 31. mars vor-
um við feðgarnir heima með flensu
þegar pabbi hringir og segir mér að
mamma hafi verið flutt upp á spít-
ala, hún hafði fengið aðsvif. Ekki
datt mér í hug að sá svarti skuggi
hefði bankað á dyrnar aftur, en það
var því miður staðreynd, og hafði
mamma fengið stóra blæðingu
vinstra megin í höfðinu og lést hún
þann 6. apríl.
Mamma var trygg og trú sínu
fólki og vinum, hún var hæglát og
lét líka vita ef henni misbauð eitt-
hvað. Hafði hún mikla listhæfileika
enda ekki langt að sækja, hún elsk-
aði söng og hafði gaman af að
syngja. Það fannst henni róa sálina.
Það huggar manns sára hjarta að
vita að það er tekið vel á móti henni
með Alla afa, Tótu ömmu og Flóka.
Elsku mamma, þakka þér fyrir
allar yndislegu samverustundirnar.
Megi Drottinn geyma þig í faðmi
sínum og blessa.
Guðmundur Guðmundsson
(Mummi).
Elsku Gulla mín, ég er ekki ennþá
búin að átta mig á því að þú ert ekki
hérna meðal okkar þó svo ég hafi
verið með þér fram að síðustu
stund, það er erfitt að sætta sig við
að ástvinur sé horfinn á braut og að
lífið geti endað svona fljótt. En vegir
guðs eru órannsakanlegir.
Leiðir okkar lágu saman fyrir
rúmum fimm árum er ég kynntist
syni þínum honum Mumma. Þú
tókst strax vel á móti mér og fannst
mér ég hafa þekkt þig alla ævi. Þú
varst svo dugleg þrátt fyrir öll veik-
indin sem voru sett á herðar þínar
eftir að hafa fengið heilablóðfall fyr-
ir 18 árum og lamast vinstra megin,
en lést það ekki buga þig og varst
alltaf jákvæð og hress. Stutt var í
stríðnina hjá þér og skírðir þú mig
upp á nýtt og kallaðir mig Ingveldi
og ég þig Snæfríði til baka og gátum
við hlegið að þessu endalaust.
Þú komst með Guðmundi (pabba)
til mín upp á fæðingardeild sama
dag og ég eignast Guðmund Bjarna
árið 1999, þú varst svo stolt amma
og sagðir að hann væri alveg eins og
þú. Það verður undarlegt að fá ekki
símhringingu á miðvikudögum því
þú hringdir til að vita hvort við hefð-
um ekki unnið í Víkingalottóinu og
sagðir þú alltaf: „Okkar tími er
kominn.“
Við fórum öll fjölskyldan í ferða-
lag til Þýskalands í nóvember 2001
og ætluðum við aldeilis að halda upp
á 60 ára afmælið þitt en eftir nokkra
daga fékkstu alvarlega lungnabólgu
svo þú þurftir að leggjast inn á spít-
ala er við komum heim. Við vorum
búin að ákveða aðra ferð í sumar,
fyrst til Danmerkur og þaðan ætl-
uðum við að fara til Þýskalands en
þú varst farin að efa að þú kæmist
sökum veikinda sem höfðu komið í
kjölfar lungnabólgunnar, en þrátt
fyrir það þá áttir þú þér þann
draum heitastan að fara með Guð-
mundi (Pabba eins og þú kallaðir
hann) til Kanada þegar þú færir að
hressast.
Allar heimsóknirnar í Hátúnið, er
við komum með hana Töru tíkina
þína í heimsókn til þín, þér þótti svo
vænt um hana, maður gat alltaf
treyst því að fá kaffisopa hjá þér.
Þær minningar hverfa ekki úr huga
mínum og munu geymast í minning-
unni um þig. Það var í ófá skiptin og
aðeins fyrir hálfum mánuði fórum
við saman í Blómaval til að kíkja á
nýjustu blómin sem þú hafðir svo
mikil yndi af og keyptir þú nokkur í
safnið.
Elsku Gulla, í dag kveð ég þig
með miklum söknuði og vil ég þakka
þér fyrir allar samverustundirnar
sem við áttum saman. Guð blessi
minningu þína.
Margt er það, og margt er það,
sem minningarnar vekur,
og þær eru það eina,
sem enginn frá mér tekur.
(Davíð Stef.)
Inga Lilja Lárusdóttir.
Mig langar til að kveðja Gullu
móðursystur mína með fáeinum orð-
um. Þar sem aðeins einn áratugur
skildi okkur Gullu að gegndi hún oft
hlutverki stóru systur. Það átti sér-
staklega við þegar ég var barn, en
þá passaði hún mig gjarnan. Strax
frá upphafi þótti okkur Gullu afar
vænt hvorri um aðra. Kannski var
það vegna þess að ég var mjög
hænd að ömmu minni, en þær héldu
heimili saman allt þar til Gulla var
orðin rúmlega þrítug, gift kona og
þriggja barna móðir.
Gulla er Reykvíkingur, en hún
fæddist á Óðinsgötu 4. Móðurafi og
móðuramma hennar byggðu þetta
hús fyrir tæpri öld síðan. Húsið var
stórt og hafði að geyma sex íbúðir,
en langafi og langamma byggðu
þetta hús fyrir sig og sína. Til að
byrja með leigðu þau út frá sér, en
seinna þegar börnin fimm uxu úr
grasi og fóru að búa og eignast börn
þá fluttu þau sig yfir í íbúðirnar.
Guðrún móðir Gullu og amma mín
var ein af þeim, en hún fæddi börnin
sín þrjú í þessu húsi og öll stigu þau
sín fyrstu spor þar. Fyrir mig er það
einstakur reynsluheimur að hafa al-
ist upp með svo stórum frændgarði
fyrstu ár ævi minnar í þessu húsi
þar sem fjórir ættliðir bjuggu. Gulla
var tíu ára þegar hún flutti að Báru-
götu 18, en í því húsi hafði föður-
amma hennar og föðurafi búið til
langs tíma. Þar var sami gestagang-
urinn og á Óðinsgötunni, en vinir og
ættingjar sóttu mjög í að heimsækja
þessa gestrisnu og skemmtilegu
fjölskyldu. Það var alltaf líf og fjör
þar sem amma og Gulla voru.
Árin liðu og Gulla kynntist tilvon-
andi eiginmanni. Frumburður
þeirra Alli fæddist ári síðar. Nokkr-
um árum síðar fæddist Guðrún og
fjölskyldan flutti í Kópavoginn. Nú
var Gulla orðin húsmóðirin á heim-
ilinu í stað ömmu. Þetta breytti þó
engu um tíðar komur mínar til
þeirra. Nú var það Gulla sem eldaði
og hún eldaði góðan mat. Þær eru
ófáar máltíðirnar sem ég fékk hjá
henni í hádeginu, en þangað skaust
ég gjarnan í skólapásu.
Tíminn leið og varla leið sá dagur
að við Gulla hittumst ekki. Stuttu
eftir að Gulla og Guðmundur höfðu
eignast örverpið sitt, Mumma,
keyptu þau lóð í Löngubrekkunni í
Kópavogi og fluttu þau með börnin
sín í nýbyggt húsið í kringum 1975,
en amma ákvað að hefja búskap ein
í fyrsta sinn á ævinni.
Gulla var með hjarta úr gulli.
Alltaf tilbúin að rétta fram hjálp-
arhönd. Talaði aldrei illa um aðra og
var traust vinum sínum. Líf hennar
og yndi voru börnin hennar og vand-
fundin var betri móðir en hún.
Gulla fékk heilablóðfall aðeins 42
ára gömul. Enda þótt Gulla hafi oft
liðið mikið s.l. átján ár þá heyrði ég
hana aldrei kvarta. Að hafa átt
Gullu fyrir frænku hefur auðgað líf
mitt verulega og gert mig að betri
manneskju. Guð blessi minningu
hennar.
Helga María.
Í dag kveð ég kæra vinkonu, Guð-
laugu Huld Nielsen. Ég og Gulla
kynntumst árið 1953, þá 12 ára. Það
ár fluttist ég vestur í bæ og um leið
kynntist ég stelpunni í næsta húsi,
Gullu Nielsen. Við urðum miklar
vinkonur, vorum saman í bekk í
skólanum, sátum saman og brölluð-
um margt. Það var alltaf gaman
með henni.
Ég varð heimagangur á heimili
Gullu og tók fjölskyldan mér eins og
einni af þeim. Foreldrar hennar
voru rausnarleg og afar skemmtileg
og var mikill gestagangur á heim-
ilinu. Þangað kom mikið af áhuga-
verðu fólki og voru þau hjón virk í
menningarlífi borgarinnar. Gulla
átti bróður, Alfreð Flóka, sem
snemma byrjaði list sína og dró
hann einnig að sér mikið af fólki
sem seinna átti eftir að setja sín
spor á menningarlífið. Það iðaði allt
af lífi og glatt á hjalla. Þykir mér
vænt um allar þær minningar.
Síðan þegar árin liðu stofnuðum
við báðar fjölskyldur og alltaf hélst
vinátta okkar, þótt ég hafi búið um
árabil úti á landi.
Árið 1985, þegar Gulla var aðeins
44 ára, þá veiktist hún af þeim sjúk-
dómi sem hún síðan lést úr. Í þessi
18 ár sem hún var veik stóð hún sig
sem hetja og alltaf var góða skapið
og hláturinn skammt undan.
Einn af stærsta kostum Gullu var
hve hún var létt í lund og skemmti-
leg og sá alltaf björtu hliðarnar á
öllu. Það hjálpaði henni seinna í
veikindunum.
Gulla eignaðist tvö barnabörn,
Guðlaug, son Guðrúnar og Ingva, og
Guðmund, son Guðmundar og Ingu.
Hún var mjög stolt af barnabörn-
unum og talaði oft um þau við mig
en því miður gat hún ekki notið
þeirra eins og skyldi vegna veikinda
sinna.
Gulla naut dyggrar aðstoðar
barna sinna, Guðrúnar, Alla og
Mumma, og einnig Guðmundar,
fyrrverandi manns síns, í veikindum
sínum. Þau hjálpuðu henni að líða
sem best og til að halda heimili sem
lengst, fyrir sig, en það var henni
mikilvægt.
Með þessum orðum vil ég þakka
þér, elsku Gulla, fyrir þær stundir
sem við áttum saman. Hvíl í friði.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Þýð. S. Egilsson.)
Móeiður.
GUÐLAUG HULD
NIELSEN
✝ Vigdís Þjóð-bjarnardóttir,
fyrrum húsfreyja á
Grund í Reykhóla-
sveit, fæddist á
Neðra-Skarði í
Leirársveit í Borg-
arfirði 6. júní 1910.
Hún lést á Hrafn-
istu í Reykjavík 31.
mars síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru Þjóðbjörn
Björnsson, f. 13. ág.
1868, d. 11. sept.
1940, og kona hans
Guðríður Auðuns-
dóttir, f. 25. júlí 1866, d. 3. okt.
1947, sem lengst af bjuggu á
Neðra-Skarði. Systkini Vigdísar
sem öll eru látin voru: Svafar, f.
14. nóv. 1888, Bjartey, f. í ág.
1890, Ágúst, f. 7. ág. 1892, Guð-
rún Bjartey, f. 5. maí 1895, Guð-
rún Lilja, f. 7. maí 1896, Daníel,
feb. 1934, d. 19. feb. 1989, kona
Guðrún Marteinsdóttir, f. 20.
jún. 1931. 3) Lárus Jónsson, f.
12. mars 1935, var kvæntur Berit
Carlsson, f. 5. jún. 1937, skilin,
sambýliskona Monica Östman, f.
15. mars 1953. 4) Dröfn Jóns-
dóttir, f. 11. okt. 1940, gift
Hrafnkeli Kárasyni, f. 8. ág.
1938. Afkomendur barna Vigdís-
ar og Jóns Kristins eru þrjá-
tíuogfjórir.
Vigdís og Jón Kristinn hófu
búskap á Stað í Súgandafirði.
Þau fluttust síðan suður í Breið-
arfjörð þar sem þau bjuggu á
fjórum stöðum, síðast á Grund í
Reykhólasveit í tuttugu ár.
Árið 1956 fluttust þau til
Reykjavíkur. Þar starfaði hún
lengst af við saumaskap, allt
fram á 76. aldursár.
Útför Vigdísar fer fram frá
Fossvogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.30.
f. 13. júlí 1897, Leif-
ur, f. 12. júlí 1899,
Guðbjörg Fanney, f.
9. jan. 1901, Vilborg,
f. 2. jan. 1903, Hann-
es, f. 20. jan. 1905,
Guðfinna, f. 26. apríl
1906, Jónas, f. 5. maí
1907, og Lárus, f. 12.
sept. 1908.
Hinn 12. sept.
1931 giftist Vigdís
Jóni Kristni Ólafs-
syni, f. 21. feb. 1903
í Hvallátrum á
Breiðafirði, d. 16.
okt. 1976 í Reykja-
vík. Foreldrar hans voru Ólafur
Aðalsteinn Bergsveinsson og
Ólína Jóhanna Jónsdóttir í Hval-
látrum. Börn Vigdísar og Jóns
Kristins eru: 1) Ólafur Aðal-
steinn. f. 11. okt. 1932, kvæntur
Sigrúnu Bjarnadóttur, f. 11. feb.
1936. 2) Indriði Jónsson, f. 21.
Mikið er einkennilegt að amma er
ekki lengur hér hjá okkur. Amma
sem var alltaf svo falleg og vel til
höfð. Amma sem kenndi okkur svo
margt og var alltaf til staðar.
Íbúðin hennar á Kleppsveginum
stóð okkur og vinum okkar ávallt op-
in til lengri eða skemmri dvalar og
nýttum við okkur það óspart. Í upp-
hafi heimsóknar sóttum við svörtu
innkaupatöskuna inn í skáp, settum
í hana tóm gler og hlupum út í búð
að kaupa Sinalco í staðinn. Svo var
drukkið Sinalco og borðaðar pönnu-
kökur meðan öll heimsins mál voru
rædd.
Ömmu var margt til lista lagt.
Þær voru ófáar peysurnar sem hún
prjónaði og alltaf var eitthvert
saumastykki við höndina. Í nokkur
ár undi hún sér einnig við að skera
út trémuni. Allt eru þetta falleg verk
sem við erum stolt af og prýða nú
mörg af heimilum afkomenda henn-
ar.
Ljóð, bókmenntir og leiklist voru
henni hugleikin og samdi hún tölu-
vert af bæði ljóðum og sögum sjálf.
Jólin hélt hún með okkur á Egils-
stöðum eftir að afi lést og á meðan
heilsa hennar leyfði. Ósköp var það
notalegt að koma heim og sjá ömmu
sitja við eldhúsborðið að tefla við
Kára eða sauma út, því aldrei var
hún iðjulaus.
Kæra amma, nú þegar við kveðj-
um þig að þessu sinni finnst okkur
við hæfi að láta fylgja með erindi úr
ljóði sem þú samdir til mömmu.
Aftur leggjast augun bláu þín,
yndisfagurt bros á vörum skín.
Ég veit í draumi opnast útsýn þér
til alls sem fagurt, gott og hugljúft er.
Takk fyrir allt.
Dagný Rúna, Þórdís Jóna,
Vigdís Sif, Kári Hrafn og
fjölskyldur.
VIGDÍS
ÞJÓÐBJARNARDÓTTIR
Nýja Glæsibæ, sími 533 6129 • Smáratorgi, sími 544 4031
Hafnarfirði, sími 565 0480 • Reykjanesbæ, sími 421 1501
Heiðrum minningu látinna
Blómalagerinn • beint frá bóndanum