Morgunblaðið - 26.04.2003, Qupperneq 18
ERLENT
18 LAUGARDAGUR 26. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ
BANDARÍSK og bresk stjórnvöld
fögnuðu því í gær að tekist hefði að
hafa hendur í hári Tariqs Aziz, fyrr-
verandi aðstoðarforsætisráðherra
Íraks, en hann gaf sig sjálfviljugur
fram í Bagdad í fyrradag. Banda-
ríkjaher er nú að yfirheyra Aziz en
vonast er til að hann geti veitt vís-
bendingar um það hvort Saddam
Hussein, fyrrverandi forseti Íraks,
sé á lífi og hvar hann heldur sig ef
svo er.
Aziz er ekki sagður hafa verið í
innsta hring Saddams þó að þeir hafi
þekkst frá því á sjötta áratug síðustu
aldar. Hann er kaþólskrar trúar og
var því hálfutangátta í ríkisstjórn
forsetans sem einkum var skipuð
súnní-múslimum. Þá er hann ekki
skyldur Saddam, en sem kunnugt er
tilheyrðu flestir af helstu ráðgjöfum
Saddams al-Tikriti-ættinni, eins og
forsetinn sjálfur.
Skiptar skoðanir eru því um það
hversu mikill fengur Aziz telst vera.
Eru raunar flestir sammála um að þó
að Aziz hafi áreiðanlega haft áhrif á
stjórn mála í Írak þá hafi hann ekki
haft veruleg völd. Sú staðreynd, að
Aziz var aðeins númer 43 á lista
Bandaríkjamanna yfir eftirlýsta
ráðamenn Saddam-stjórnarinnar, er
sögð til marks um þetta.
Tariq Aziz átti á hinn bóginn sæti í
byltingarráði Íraks og hann var því
eftirlýstur fyrir stríðsglæpi gegn
Kúveit, Íran og Írökum sjálfum. Þá
er hann sjálfsagt einna þekktastur
íraskra ráðamanna – ef Saddam
sjálfur er undanskilinn. Einkum bar
mikið á Aziz fyrir og eftir Persaflóa-
stríðið árið 1991, þegar hann gegndi
embætti utanríkisráðherra, og eins
þegar í brýnu skarst milli Íraka og
Bandaríkjamanna árið 1998.
Varð utanríkisráðherra 1983
Aziz talar ensku reiprennandi og
kunni að tala máli Íraks á alþjóðleg-
um vettvangi. Fyrir vikið hafði hann
áunnið sér nokkra virðingu írösku
þjóðarinnar. Á hinn bóginn mátti
ráða af samtölum við fólk í Bagdad í
gær að margir töldu Aziz eiga skilið
sömu meðferð og forsetinn sjálfur.
„Hann var harðstjóri eins og Sadd-
am. Saddam valdi ekki góðmenni í
stjórn sína, hann kunni best við
morðingja og þjófa,“ sagði Sadek Ali,
32 ára gamall Bagdad-búi, í samtali
við AFP-fréttastofuna.
Aziz fæddist í Mosul árið 1936 sem
Mikhail Yuhanna en breytti seinna
nafni sínu; Tariq Aziz þýðir „glæst
fortíð“ á arabísku. Hann las enskar
bókmenntir við Listaháskólann í
Bagdad og gerðist síðan kennari og
blaðamaður. Hann gekk til liðs við
Baath-flokkinn árið 1957 og vann að
því með Saddam að steypa af stóli
konungi landsins, sem Bretar höfðu
komið til valda.
Saddam varð sjálfur forseti Íraks
árið 1979 og útnefndi Aziz utanrík-
isráðherra fjórum árum síðar. Er
Aziz sagður hafa átt stóran þátt í því
að Írakar tryggðu sér stuðning vest-
urveldanna í stríðinu gegn Íran, sem
stóð 1980–1988. Aziz hitti m.a. Don-
ald Rumsfeld, núverandi varnar-
málaráðherra Bandaríkjanna, árið
1983 en Rumsfeld var þá sérlegur
sendimaður Ronalds Reagans
Bandaríkjaforseta.
Aziz hitti einnig Reagan sjálfan að
máli en Írak og Bandaríkin tóku upp
stjórnmálasamskipti 1984 eftir
sautján ára hlé.
Eftir Persaflóastríðið hækkaði
Saddam Aziz í tign og gerði hann að
varaforsætisráðherra. Telja sumir
að þessi uppstokkun hafi í reynd
komið til af því að Saddam var ósátt-
ur við að undirsátar hans yrðu jafn-
þekkt andlit á erlendum vettangi og
Aziz var þá.
Uday og Aziz litlir vinir
Fullyrt er að Uday, sonur Sadd-
ams, hafi haft horn í síðu Aziz. Þeim
hafi ekki verið vel til vina. Árið 1996
var Ziad, sonur varaforsætisráð-
herrans, handtekinn og sakaður um
spillingu en margir telja að þar hafi
Uday einfaldlega verið að treysta
eigin stöðu í valdabaráttu við Ziad –
en báðir eru þeir Uday og Ziad sagð-
ir hafa stýrt smyglhringjum. Ziad
Aziz sat tvö ár í fangelsi en var síðan
náðaður af Saddam og er ekki að sjá,
að þessi uppákoma hafi haft áhrif á
stöðu Aziz.
Alls á Tariq Aziz fjögur börn, tvær
dætur og annan son, Saddam Aziz.
Aziz er sagður hafa notið lífsins lysti-
semda til hins ýtrasta; hann sást
gjarnan púa Havana-vindla og viskí
var í uppáhaldi hjá honum.
Sem fyrr segir var Aziz einn fárra
kristinna manna í ríkisstjórn Sadd-
ams Husseins. För hans til Páfa-
garðs í vetur vakti talsverða athygli
en varaforsætisráðherrann fyrrver-
andi átti fund með Jóhannes Páli
páfa skömmu áður en hernaðarátök-
in í Írak hófust.
„Myndi frekar vilja deyja“
Aziz kom síðast fram opinberlega
19. mars sl. en þá hélt hann frétta-
mannafund í Bagdad til að bera til
baka orðróm um að hann hefði flúið
Írak. „Við erum reiðubúin til að berj-
ast, tilbúin til að takast á við árás-
araðilann og erum fullviss um sigur,“
sagði Aziz og veifaði skammbyssu til
að sýna að enginn uppgjafartónn
væri í íröskum ráðamönnum.
„Við erum ekki þeirrar gerðar að
gefast einfaldlega upp til þess að
geta lifað ömurlegu lífi [í útlegð] í tvö
eða þrjú ár,“ sagði Aziz í viðtali við
ITN-sjónvarpsstöðina bresku í jan-
úar. „Ætlast menn til þess, í ljósi
sögu minnar sem bardagamaður og
sem einn af leiðtogum Íraks, að ég
fari í bandarískt fangelsi, t.d. til
Guantanamo [fangabúða Banda-
ríkjahers á Kúbu]? Ég myndi frekar
vilja deyja,“ sagði Aziz þá.
Vona að Aziz geti
vísað á Saddam
Tariq Aziz var ekki í innsta hring Saddams Husseins en
var þó gjarnan málsvari Íraks á erlendum vettvangi
As-Saliya í Katar, Washington. AFP, AP.
Reuters
Tariq Aziz ræðir við fréttamenn í Bagdad síðastliðið haust.
’ Saddam valdi ekkigóðmenni í stjórn
sína, hann kunni
best við morðingja
og þjófa. ‘
ÍBÚAR í einu af fínni hverfum Bagd-
ad-borgar segjast hafa orðið vitni að
því þegar bandarískir hermenn
komu til að handtaka Tariq Aziz,
fyrrverandi varaforsætisráðherra
Íraks, skömmu fyrir miðnætti í
fyrrakvöld að íröskum tíma; um
kvöldmatarleytið að íslenskum tíma.
Í samtali við breska ríkisútvarpið,
BBC, sagði fyrrum íraskur útlagi,
Mohammed Mohsen al-Zubaidi – en
hann hefur lýst sjálfan sig ríkis-
stjóra í Bagdad – að hann hefði gefið
Bandaríkjamönnum upplýsingar
sem leiddu til þess að Aziz og fjöl-
skylda hans voru handtekin. Banda-
ríkjamenn segja hins vegar að Aziz
hafi sjálfur gefið sig fram.
Íbúar Zayuna-hverfisins í austur-
hluta-Bagdad segja að undir mið-
nætti á fimmtudag hafi Bandaríkja-
her haft mikinn viðbúnað fyrir utan
húsnæði mágkonu Aziz. Telja þeir
að Aziz hafi hafst þar við og að hann
hafi verið í hópi fólks sem Banda-
ríkjamenn óku á brott þessa nótt.
Mohammed Hillal, 34 ára forritari
sem býr andspænis mágkonu Aziz,
sagði að bandarísku hermennirnir
hefðu komið í skriðdrekum og bryn-
vörðum jeppum rétt fyrir miðnætti
að íröskum tíma og að þeir hefðu
verið farnir um hálftíma síðar. „Þeir
fóru afar, afar hljóðlega.“
Hillal sagði að hermennirnir
hefðu verið útbúnir nætursjón-
aukum og að íbúum hússins hefði
verið ekið á brott í jeppa með svört-
um bílrúðum og í hvítum BMW.
Kvaðst hann telja að Aziz hlyti að
hafa samið um það fyrir fram hvern-
ig standa ætti að handtöku hans því
ekki hefði verið hleypt af byssum á
meðan á þessu stóð.
Sagður hafa fengið
hjartaáfall
Sagt var frá því á CNN-sjónvarps-
stöðinni að Aziz hefði viljað tryggja
að allt færi vel fram. Var haft eftir
ættingjum hans að Aziz hefði tvíveg-
is fengið hjartaáfall nýverið og að
menn hefðu haft hyggjur af heilsu
hans.
Hillal kvaðst viss um að enginn
þeirra, sem byggju í sama hverfi og
Aziz hefði hafst við í undanfarna
daga, hefði sagt til hans. „Það var
ekki vandamál fyrir Tariq Aziz að
vera á þessum slóðum. Hann var
kannski vondur maður en ekkert
okkar hringdi í Bandaríkjamennina.
Slíkt væri í andstöðu við trú okkar,“
sagði Hillal.
Sóttur af hermönnum
skömmu fyrir miðnætti
Bagdad. AFP.
GEORGE W. Bush, forseti Banda-
ríkjanna, hefur gefið í skyn í fyrsta
sinn, að hugsanlega muni engin ger-
eyðingarvopn finnast í Írak. Segir
hann, að verið geti, að Saddam Huss-
ein, fyrrverandi forseti landsins, hafi
eytt þeim eða falið áður en stríðið
hófst.
Í ræðu, sem hann flutti í fyrradag í
verksmiðju í Ohio, sem framleiðir
Abrams-skriðdrekana, sagði hann,
að sannleikurinn um gereyðingar-
vopnin myndi koma í ljós en leitin að
þeim hefði „engan árangur borið
enn“.
Þeir Bush og Tony Blair, forsætis-
ráðherra Bretlands, réttlættu inn-
rásina og stríðið með því, að nauð-
synlegt væri að tortíma írösku
gereyðingarvopnunum og steypa
stjórn Saddams Husseins. Bush
sagði, að leitin að vopnunum héldi
áfram og búist væri við, að fyrrum
háttsettir menn í stjórn Saddams
myndu gefa mikilvægar upplýsing-
ar.
„Svo mikið er þó víst,“ sagði Bush,
„að Bandaríkjunum stafar ekki leng-
ur hætta af gereyðingarvopnum
Saddams.“
Í viðtali við NBC-sjónvarpið sagði
Bush, að vísbendingar væru um, að
Saddam væri annaðhvort látinn eða
mikið særður. Dauði hans yrði þó
ekki tilkynntur fyrr en örlög hans
væru endanlega kunn.
Þá sagði Bush að hugsanlega
myndi það taka allt að tvö ár að
skapa skilyrði til þess að láta heima-
menn taka við völdum í Írak.
Bush Bandaríkjaforseti í ræðu
Óvíst að gereyð-
ingarvopn finnist
Lima, Ohio. Los Angeles Times.
Reuters
George W. Bush í verksmiðju í Ohio, sem framleiðir Abrams-skriðdrekana.
BANDARÍKJAHER hafði í gær
hendur í hári fyrrverandi yfirmanns
í írösku leyniþjónustunni, Farouk
Hijazi. Var Hijazi handtekinn nærri
landamærunum að Sýrlandi.
Hijazi var ekki meðal þeirra 55
manna sem Bandaríkjastjórn hefur
lagt mesta áherslu á að handtaka en
er engu að síður talinn mikilvægur
fengur því fullyrt er að hann hafi árið
1993 verið þriðji valdamesti maður-
inn í írösku leyniþjónustunni. Það ár
höfðu Írakar uppi áform um að ráða
George Bush, forseta Bandaríkjanna
1989–1993, af dögum. Átti að gera
tilraun til að sprengja bíl Bush í loft
upp er hann heimsækti Kúveit.
Óstaðfestar fregnir herma jafn-
framt að Hijazi hafi í desember 1998,
er hann var sendiherra Íraks í Tyrk-
landi, farið til Afganistan og átt þar
fund með Osama bin Laden, leiðtoga
al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna.
Leyniþjón-
ustumaður
handtekinn
Washington. AFP.