Morgunblaðið - 06.06.2003, Blaðsíða 11
FRÉTTIR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 6. JÚNÍ 2003 11
ÍTALSKI flugmálaráðherrannBalbo og flugleiðangur hans,sem kom til Reykjavíkur 5.júlí 1933 er það efni sem lagt
er út af á ráðstefnu sem haldin verð-
ur á morgun kl. 14 í Lögbergi, her-
bergi 101, á veg-
um heimspeki-
deildar Háskóla
Íslands.
Meðal fyrirles-
ara þar verður
Hildur Jónsdóttir
sem skrifað hefur
BA-ritgerð í
ítölskunámi sínu
við H.Í.: „Koma
Balbo til Íslands
1933“, eins og hún
nefnir ritgerðina.
„Ég var að leita að einhverju efni
sem tengdi Ísland og Ítalíu og fékk
sömu ábendinguna frá tveimur að-
ilum saman daginn, þ.e. að skrifa um
komu Balbo til Íslands. Ég hafði
sjálf varla heyrt á manninn minnst
svo ég ákvað að spyrjast fyrir um
hann,“ sagði Hildur um ritgerð sína.
„Hvatinn að ritgerðinni var svar
ömmu minnar Ellenar Bjarnadóttur
við spurningunni en hún endurtók
spurningu mína í forundran: „Veit
ég hver Balbo var?“ Amma var að
vinna í skóbúð á Laugaveginum
ásamt annarri stelpu sumarið 1933.
Um leið og þær heyrðu í flugvél-
unum læstu þær búðinni, hlupu út
og upp á þak á Vatnsstígnum og
horfðu á vélarnar koma. Þetta var
greinilega henni ógleymanleg sjón.“
–Hvernig fannst þér svo að vinna
þetta verkefni?
„Þetta var mjög áhugavert. Ég
studdist mikið við Morgunblaðs-
greinar og aðrar blaðagreinar og
eins viðtöl við eldra fólk sem upplifði
þennan atburð. Þetta voru 24 sjó-
flugvélar og flugöld var varla hafin á
Íslandi þannig að þetta var öllum
mjög minnisstætt.“
–Hvað kom þér mest á á óvart í
sambandi við flug Balbos?
„Það sem kom mér á óvart voru
mismunandi viðbrögð við komu
Balbos. Stærstu dagblöðin, Morg-
unblaðið og Vísir, lýsa komu Balbos
sem mjög merkum atburði sem beri
að fagna og lýsa honum á mjög já-
kvæðan hátt. Og þetta var án efa
skoðun þorra landsmanna. Ekki
voru þó allir á eitt sáttir um ágæti
komu Balbos. Það voru mótmæli við
komu Balbos á Íslandi. T.d. hafði
verið skrifuð grein í Rauða fánann,
sem var blað ungra kommúnista, en
einungis fyrirsögnin stóð í útgáf-
unni. Fyrirsögnin var „Flugferð
Ítalanna“ (greinin bönnuð af lög-
reglustjóra). Í staðinn dreifði Rauði
fáninn fregnmiða sem hafði að
geyma inntak áður bannaðrar grein-
ar, sem og kjörorð á ítölsku sem þeir
hvöttu Íslendinga til að hrópa ef
Balbo eða aðrir Ítalir yrðu á vegi
þeirra: „Abasso il fascismo“ (Niður
með fasismann). Alþýðublaðið skrif-
aði einnig um fasistastjórn Ítalíu og
ítölsku þjóðina sem engu réð um eig-
in aðstæður. Loks ber að geta þeirra
sem sáu spaugilegar hliðar á málinu,
t.d. birti Spegillinn nokkrar skop-
greinar þessu tengt og árið 1937 var
svo birt í tímaritinu Rauðir pennar
smásaga eftir Halldór Laxness:
„Ósigur ítalska loftflotans í Reykja-
vík 1933“.
– Hafði þetta áhrif á samskipti Ís-
lands og Ítalíu?
„Ég skoðaði þetta ekki þannig
heldur skoðaði atburðinn einkum frá
sjónarhorni Íslendinga þeirra tíma.
En á ráðstefnunni í Lögbergi fjallar
Ragnar Borg um samskipti land-
anna í framhaldi af flugi Balbos.
Aðrir fyrirlesarar verða Maurizio
Tani ítölskukennari við H.Í., Greg-
ory Alegi kennari í flugsögu á Ítalíu,
Orri Eiríksson varaformaður flug-
sögufélags Íslands ræðir um þetta
flug og þróun íslenskrar flugsögu og
Sigurður H. Þorsteinsson ræðir um
Balbo-flugið frá sjónarhorni frí-
merkjasöfnunar. Ráðstefnustjóri er
Maria Rosaria Coda lektor við H.Í.
Viðbrögð ömmunnar
hvati BA-ritgerðar
Koma ítalska flugmálaráðherrans Italos
Balbos til Íslands var mikill viðburður og
vakti hér ýmis viðbrögð. Hildur Jónsdóttir
segir hér Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá
þeim viðbrögðum, en Hildur hefur skrifað
BA-ritgerð um komu Balbos til Íslands.
Balbo og menn hans fyrir framan Hótel Borg.
Hildur
Jónsdóttir
F.v. Ásgeir Ásgeirsson forsætisráð-
herra, kona hans Dóra Þórhalls-
dóttir, Ingibjörg Claessen og eigin-
maður hennar Jón Þorláksson
borgarstjóri. Fremst á myndinni er
litla stúlkan Anna Guðrún
Tryggvadóttir sem færði Balbo
blómin. Hún er bróðurdóttir Dóru
Þórhallsdóttur. Anna Guðrún
kveðst í viðtali við Hildi Jónsdóttur
muna það helst frá þessum atburði
að hafa fengið nýja bláa kápu og
hvíta alpahúfu.
Koma ítalska flugmálaráðherrans og flugleiðangur hans til Íslands árið 1933 vakti mikla athygli
ITALO Balbo fæddist 6. júní 1896 í
Ferrara á Ítalíu. Hann var sjálf-
boðaliði í Alpaskyttuherdeildinni í
fyrri heimsstyrjöldinni og var
sæmdur þremur medalíum fyrir þau
störf. Hann lauk háskólagráðu í fé-
lagsvísindum 1921 frá háskólanum í
Flórens. Hann og Emanuela Florio,
eiginkona hans. eignuðust þrjú börn.
Balbo tók þátt í stjórnmálum og
eftir að hann var kosinn flokksfor-
ingi í Fascio Ferrarese (fasista-
hreyfing í Ferrara) tókust samskipti
milli hans og Mussolini og var hann
flugmálaráðherra í stjórn hans árin
1929 til 1933. Balbo er ekki minnst
sem stjórnmálamanns heldur fyrir
afrek hans sem flugmaður. Hans
mestu afrek voru hópflugin tvö sem
farin voru yfir Atlantshafið, hið
fyrra 1931 til Rio de Janeiro, yfir
Atlantshafið sunnanvert. Hið síðara
1933 til Chicago, yfir Norður-
Atlantshaf, m.a. með viðkomu í
Reykjavík. Mussolini virðist smám
saman hafa farið að líta á Balbo sem
hættulegan andstæðing. Hann gerði
Balbo að ríkisstjóra í Líbíu 1934.
Ævi Balbos lauk á sorglegan hátt 28.
júní 1940. Flugvél hans var skotin
niður, að því er sagt var opinberlega,
vegna mistaka ítalska flughersins.
Hann dó í Tobruk í austurhluta Líb-
íu og margir hafa velt fyrir sér hvort
dauða hans hafi borið að vegna mis-
taka eða skipana frá Mussolini.
Italo Balbo
ÞAÐ var aldeilis upplit á Reyk-
víkingum þegar 24 flugvélar
ítalska flugflotans renndu sér inn
á Kleppsvíkina eftir að hafa
sveimað yfir Viðey og Vatnagörð-
um í nokkrar mínútur rétt fyrir
klukkan 17 þann 5. júlí 1933.
Fólkið var búið að standa og
skima eftir vélunum í nokkra
stund en þær lögðu af stað frá
Londonderry sex tímum áður en
þær lentu. Ferð flugflotans var
heitið til Chicago í Bandaríkj-
unum og millilentu þær hér.
Því miður var veður ekki gott
þennan dag í Reykjavík, sunnan
dimmviðri og stormur. Eigi að
síður voru þetta mikil tíðindi í
litlum bæ norður í höfum.
„Meðan flugvjelarnar voru að
setjast höfðu bensínbátarnir farið
af víkinni. En jafnskjótt og allar
flugvjelarnar voru sestar fóru
þeir út á víkina hver að sinni
flugvjel. En þetta varð þó til þess
að landganga flugmannanna tafð-
ist,“ segir í grein Morgunblaðsins
um þennan viðburð.
Öll skip á Reykjavíkurhöfn
voru fánum skreytt og fánar
dregnir að húni víða um bæ.
Bensínbátarnir voru íslenskir vél-
bátar sem leigðir voru til þess
arna.
Það hefur verið óvenjuleg sjón
fyrir fólk þeirra tíma að sjá flug-
vélarnar, þrjár og þrjár saman,
fljúga oddaflug yfir bæinn. Balbo
flugmálaráðherra fór fremstur.
Eftir að flugvélarnar höfðu tekið
eldsneyti, „Stanavo“-bensín sem
þá þótti eitthvert allra besta bens-
ínið handa flugvélum, fóru flug-
mennirnir í land og vafalaust hef-
ur hjartað slegið örar í margri
ungmeynni þegar hinir ungu og
glæsilegu ítölsku flugmenn tóku
að arka um götur Reykjavíkur.
Fyrst var þó formleg móttaka.
„Balbo gekk hvatlega á land og
skundaði til móts við þá, er komn-
ir voru til að heilsa honum. Heils-
aði honum fyrstur Ásgeir Ás-
geirsson forsætisráðherra, ásamt
frú sinni, en lítil stúlka rétti
Balbo blómvönd og kyssti Balbo á
kinn hennar í þakklætisskyni,“
segir í Öldinni okkar.
Flugleiðangurinn hélt kyrru
fyrir í Reykjavík í nokkra daga
við mikinn fögnuð bæjarbúa en
hélt svo áleiðis til Chicago að
morgni 12. júní, eftir að viðgerðir
höfðu farið fram á vél Balbo.
Brottförin tafðist nokkuð vegna
bilunarinnar. Flugleiðangurinn
lenti svo heilu og höldnu á Labra-
dor 12 tímum síðar. Ásamt hópn-
um fóru 298 sendibréf með kveðj-
um frá Íslandi og voru þau
frímerkt á sérstakan máta.
Flugu oddaflug yfir Reykjavík
Ítalski flugmálaráðherrann Italo Balbo heilsar Ásgeiri Ásgeirssyni,
forsætisráðherra Íslands.
Ítölsku flugvélarnar flugu oddaflug yfir Reykjavík.