Morgunblaðið - 24.08.2003, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 24.08.2003, Blaðsíða 17
til skýringar. Tréskip gisna ef ekki er sinnt um þau. Aðkoman var ekki góð. Var nú farið að ausa og síðan dæla. Það tókst ágætlega en mikil vinna var við það að hreinsa vélina, sem hafði blotnað þegar báturinn sökk. Grímur geitskór í áætlunarsiglingum Þegar tekist hafði að gera við bát- inn var hægt að hefja áætlunarferðir. Grímur geitskór hafði áætlunarferðir frá Þingvöllum að Kaldárhöfða. Einn- ig var farið í Sandey og í Grafning. 52 farþegar rúmuðust í bátnum. Sæti voru bólstruð og þóttu þægileg. Agli er enn í minni för sem farin var með allmarga farþega. Fyrst ber að nefna Gústaf Adolf Svíaprins. Hann var krónprins Svía og síðar konungur. Fylgdarmaður hans var Guðmundur Finnbogason landsbókavörður. Fjöldi stúdenta var einnig um borð í bátnum. Egill minnist þess að nýstúd- entarnir ungir og ærslagjarnir hafi tekið til að rugga bátnum. Vakti það kvíða í brjósti sumra. Stúdentarnir voru drukknir og stukku uppá þak bátsins. Egill rak þá með harðri hendi. Einnig og ekki síður varð vart við ókyrrð þegar siglt var yfir sandrif fyrir utan bryggjuna.Var þá sett á fulla ferð. Þá spurði Guðmundur Finnbogason hvort þetta væri óhætt. Egill segir að Gústaf Adolf krónprins hafi sent þeim Ásgeiri og Agli sínar 10 krónurnar hvorum í þakklætisskyni. Það voru sænskar krónur. Sænski fáninn blakti við hún í þessari ferð bátsins. Egill segir þá félaga ekki hafa notið hátíðarinnar í neinum mæli vegna annríkis. Þeir ferjuðu hátíðargesti fram og aftur og höfðu lítinn tíma til hvíldar en engan til skemmtunar. Þeir héldu til í tjaldi í grennd við vatn- ið. Rekstur ekki talinn svara kostnaði Alþingishátíðarnefnd taldi rekstur bátsins ekki svara kostnaði Var Jóni Guðmundssyni á Brúsastöðum, veit- ingamanni í Valhöll, seldur báturinn. Hann hélt uppi ferðum um skeið. Meðal vélstjóra sem getið er á Grími geitskó má nefna Jón Pálsson frá Hlíð, frægan tónlistarmann, sem flutti Vínarkúlturinn til Íslands. Hall- dór Laxness vitnaði oft í Jón og orð hans og tilsvör. Í minningabókum sín- um nefnir hann Jón frá Hlíð í öllum bindum. Jón var hnyttinn í tilsvörum og gat komist vel að orði og varpað fram eftirminnilegum samlíkingum. Hann sagði t.d. um skriðsund eða „crawl“, eins og það er kallað, að það væri eins og að spila Bach því þar væri munur á handahreyfingum og fótahreyfingum. Jón saknaði starfa sinna sem mótoristi. Ég bað vin minn Harald Guðnason bókavörð í Vest- mannaeyjum að kanna fyrir mig heimildir um mótoristastörf Jóns frá Hlíð. Hann brást ekki en sendi mér svar. Jón Á. Gissurarson var sveitungi Jóns Pálssonar frá Hlíð. Hann segir svo frá í bók sinni „Satt er best að segja“, útg. árið 1985: „Móðir Jóns var ekkja og efni lítil. Hún stóð nú uppi með tvær hendur tómar í hús- mennsku ásamt einkasyninum Jóni. Sonur hennar reyndist lítt hneigður til púlsvinnu, enda alinn upp í dálæti og ætlað annað hlutskipti. Fátækt hamlaði skólagöngu þótt bókhneigður væri. Hann lærði að leika á orgel og gerðist kirkjuorganisti. Hann hafði ráðist vinnumaður á að- alssetri í Svíþjóð og því „sigldur“. Síð- ar gerðist hann mótoristi í Eyjum og á Þingvallavatni, varð tíðrætt um krúmtappa og aðra vélahluti,sem sveitamenn báru ekki skynbragð á. Reglubundið starf hentaði honum ekki til langframa, fluttist suður, þýddi erlend skáldrit, orti ljóð, samdi sögur og kenndi á hljóðfæri. Tekjur reyndust lágar og stopular, honum hélst illa á fé, þótt neyslugrannur væri. Hann harmaði fyrra gengi „Þegar ég var mótoristi með útsvari“, en á skattskrá Reykjavíkur var hans að engu getið. Frá Vínarborg hafði hann út hing- að óbó, fyrsta sinnar tegundar á Ís- landi. Hann umgekkst það líkt og helgan dóm, sýndi það eingöngu vild- arvinum. Menn töldu hann hafa feng- ið það hjá veðlánara á útmánuðum og kostað til þess vetrarfrakka, enda dag tekið að lengja, sól og sumar í vænd- um. Jón hafði megnustu andúð á út- varpi, tautaði því hátt og í hljóði, taldi það „kúltúrleysi“. Kvöld eitt, rétt fyr- ir veðurfregnir, settist hann að snæð- ingi. Þá hrópaði hann byrstum rómi: „Fröken megum við fá að heyra í út- varpi,“ en það hafði þagað, aldrei þessu vant. „Ég hélt þig þeirri stundu fegnastan er útvarp þegði og það því þá heldur ef veðurfregnir væru á næsta leiti,“ sagði stúlkan. „Ég kenni nefnilega á Grímsstaðaholti,“ ansaði hann. Þetta bar uppá lokadag í blíð- skaparveðri. Hann andaðist úti í Örfirisey skammdegisnótt eina í rysjóttu veðri, fékk virðulega útför og fjöldi fylgdi honum til grafar. Engan átti hann öfundarmann, enda engum til traf- ala.“ Það ætlaði að reynast torvelt að afla upplýsinga um fundargerðir Al- þingishátíðarnefndar. Engum kom til hugar að þær væru ekki skráðar á nefndina sjálfa heldur ritara hennar, sem var Sigfús Einarsson tónskáld. Þá má geta þess að ljósmyndir af tignum gestum hátíðarinnar liggja hreint ekki á lausu. Skylt er að greina frá því að þótt sagt hafi verið frá ærslum nokkurra stúdenta um borð í Grími geitskó voru flestir nýstúdentar til sóma á hátíðinni enda heimsótti Kristján X stúdentana í Hvannagjá og heilsaði þeim hlýlega. Katrín Smári sem var í hópi stúdent- anna kvaðst eiga ljósmynd af fundi Danakonungs og stúdenta. Einar B. Pálsson prófessor fann mynd í fórum sínum og léði hana góðfúslega til birt- ingar. Enn eru allnokkrir stúdentanna á lífi þótt 73 ár séu liðin. Grímur geitskór var í förum á Þingvallavatni næstu árin: flutti þá m.a. unga vegagerðarmenn, sem lögðu veg vestan Þingvallavatns, við Vatnsvík og Vellankötlu og áfram í átt til Laugarvatns. Jón Jónsson stjórn- aði unglingunum, í þeim hópi voru margir síðar þjóðkunnir. Hjarðarholt var grasbýli í nágrenni Öskjuhlíðar. Þar var fjöldi alifugla. Höfundur er þulur. MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24. ÁGÚST 2003 17

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.