Morgunblaðið - 24.08.2003, Blaðsíða 19
til bókar. Ég lauk mínu skyldunámi í
Reykholti hér skammt frá en 17 ára
fór ég til eins vetrar náms í einka-
skóla Sigurðar Greipssonar í Hauka-
dal. Ég held að ég hafi ekki haft eins
gott af viðkynningu við neinn vanda-
lausan mann og Sigurð Greipsson.
Hann var einstakur uppalandi. Okk-
ur krökkunum sárnaði stundum
harkan í honum en við vorum fljót að
fyrirgefa honum því við fundum að
hann vildi okkur svo vel. Átján ára
var ég svo vetrartíma við smíðanám í
Hólmi í Landbroti.
Foreldrar mínir lögðu aldrei hart
að mér að taka við jörðinni hér, en
mér fannst aldrei neitt annað koma
til greina. Ég var einbirni og þau bú-
in að klífa þrítugan hamarinn til að
eignast jörðina – þar að auki fannst
mér ekkert vera starf nema búskap-
ur í sveit. Ég hafði reyndar ekki
nokkra búmennsku í mér, en mér
líkaði vel að geta verið sjálfs mín
húsbóndi og „hoppað“ svona í hin
ýmsu verk. Faðir minn var aftur á
móti drjúgur bóndi, ef hann sá kind
einu sinni þá þekkti hann hana upp
frá því. Fyrir mér eru kindurnar all-
ar eins og ég er líka óglöggur á fólk.
Kýrnar þekkti ég bara af því að þær
voru svo fáar. Ég hafði hins vegar
gaman af jarðvinnslu, – hafði yndi af
að brjóta land, sá í það og sjá það
gróa. Mér finnst yndislegt að horfa
yfir græn og slétt tún – en að sama
skapi finnst mér ömurlegt nú að sjá
þau ekki nýtt, heldur öll útspörkuð
af hrossum. Þetta segi ég þótt ég
viðurkenni að ég eigi alltaf hrossa-
kjöt í tunnu og þyki það best alls
matar. Ekki síst var gott saltaða
hrossakjötið hjá pabba, hann var
snillingur í að verka það.
Gekk vel að eignast konu
Ég var orðinn bóndi 1955, þá 22
ára gamall og giftur maður.
Mér gekk svo vel að eignast konu
að með ólíkindum var. Pabbi og
mamma höfðu alltaf kaupakonur –
æði misjafnar að vísu – en svo kom
til þeirra ein yndisleg kona, fyrr-
nefnd Júlíana, úr stórum systkina-
hópi og okkur féll fljótt ákaflega vel
saman. Hún var þremur árum eldri
en ég og afskaplega falleg. Við vor-
um sammála í því að við vildum búa í
sveit og ala þar upp börn okkar ef
einhver yrðu.
Eftir að við tókum við búskapnum
bjuggu foreldrar mínir hér líka en
fljótlega byggðum við Júlíana okkar
eigið hús. Hún undi því illa að vera í
einu herbergi hjá foreldrum mínum
sem vonlegt var.
Ég fékk Guðmund Ingimundarson
smið til verka, hann átti gróðurhús
hér niður frá sem komin voru í nið-
urníðslu. Hann frétti að ég vildi
byggja og bauð mér að ég skyldi
„dubba“ upp gróðurhúsin en hann
skyldi reisa fyrir mig íbúðarhús. Það
voru góð kaup fyrir mig.
Árið 1957 var húsið tilbúið þannig
að við Júlíana gætum flutt í það.
Við Júlíana eigum fjögur börn á
lífi en við búum ekki saman lengur.
Við skildum fyrir tíu árum, – erum
bæði stórlynd. Síðan bý ég hér
ásamt einum ketti, læðunni Rós, sem
er afskaplega þægileg í sambúð. Við
rífumst aldrei við Rós mín, – hún
segir enda aldrei neitt heldur er blíð
og góð eins og allir kettir ættu að
vera,“ segir Halldór og hlær. Í sama
bili tiplar umrædd Rós framhjá eld-
húsborðinu á leið inn í svefnherberg-
ið og gefur mér ókunnuglegt horn-
auga um leið.
Halldór býr þó ekki einn með
henni á jörð sinni.
„Eldri sonur okkar Júlíönu, Þórð-
ur Jóhannes, hefur fyrir löngu tekið
við búskapnum á Litla-Fljóti og býr í
húsi sínu hér rétt fyrir ofan. Hann er
nú einn eins og ég, nema hvað hann á
líka kött. Yngri sonur okkar Júlíönu,
Tyrfingur, býr á Eyrarbakka með
sína fjölskyldu, eina dóttur, Björgu,
eigum við úti á Kotströnd í Ölfusi og
aðra, Kristínu Margréti, í Svíþjóð,
þær eiga báðar fjölskyldur, við Júl-
íana eigum sjö barnabörn,“ segir
Halldór.
Megum ekki einu
sinni eta hvalinn
„Þegar við Júlíana hófum búskap
vorum við brýnd lögeggjan að
byggja upp, stækka búið og ræsa
fram mýrarnar,“ heldur Halldór
áfram. „Allt þetta reyndum við að
gera en samt er nú svo komið að
maður hefur varla nóg til að borga af
lánum, viðmiðunarárin hjá okkur
voru rýr og því var kvótinn skorinn
við nögl. Bændurnir eru ekki þeir
einu sem eiga um sárt að binda,
sjáðu hvernig sjómennirnir hafa
það! Skipin liggja bundin í höfn af
því ekki má veiða fiskinn, – en hval-
urinn má éta hann, – svo megum við
ekki einu sinni éta hvalinn,“ segir
Halldór, mitt á milli alvöru og gríns.
„En við komumst af. Ég reyndi að
vera í íhlaupavinnu að vetrinum,
keyra út skít og stinga út gróðurhús,
og ekki skorti Júlíönu dugnaðinn, ég
hugsa að fáar konur færu í fötin
hennar. Hún hafði alist upp í sveit og
kunni vel til allra verka, úti sem inni.
Mér finnst ég aldrei fá góðar flat-
kökur síðan hún hætti að baka þær
fyrir mig. Hún og önnur kona til
voru alltaf fengnar til að baka flat-
kökurnar þegar eitthvað það var um
að vera sem kvenfélagskonur sáu
um. Hún var líka lagin við börn. Þeg-
ar við vorum nýflutt í húsið okkar
fengum við fyrirspurn um hvort við
vildum taka dreng sumarið eftir.
Freymóður Jóhannsson (12. septem-
ber) átti tíu ára dreng sem hann vildi
koma í sveit. Við tókum drenginn,
sem var indæll og mikið hagur í
höndunum. Þetta smáhlóð svo utan á
sig, við vorum með börn í lengri eða
skemmri tíma nánast alla okkar bú-
skapartíð. Þrjú börn sem voru hér í
fóstri voru fermd frá okkur. Mörg
þessi börn hafa sýnt okkur mikla
tryggð. Ólafur Laufdal kom hingað í
kaupamennsku fermingarsumarið
sitt. Hann hringir enn oft til þess að
athuga hvort mig vanhagi um eitt-
hvað, – Óli blessaður er mikið trygg-
lyndur maður og barngóður. Tveir
bræður hans, Trausti og Erling,
voru hér einnig í sveit, afbragðs-
drengir.
Þegar verið var að biðja okkur
fyrir börnin vísaði ég alltaf til Júl-
íönu, þetta var hennar deild, enda
mæddi starfið vegna barnanna mest
á henni. Oft var mikið um að vera,
eitt sumarið voru hér t.d. 16 börn
einhvern hluta sumarsins. Yfirleitt
kom krökkunum vel saman, en ef
eitthvað bjátaði á var Júlíana fljót að
bregða á glens og þá var misklíðin
gleymd. Ef þetta brást greip hún til
sinna ráða. Einu sinni voru hér t.d.
bræður sem gekk illa að lynda sam-
an. Júlíana hafði keypt útvarp með
segulbandi og tveimur hátölurum.
Bræðurnir vildu eitt sinn ekki hætta
miklu rifrildi sem þeir áttu í hér á
hlaðinu. Þá fór Júlíana inn í bæ og
tók upp lætin gegnum gluggann.
Þegar þeir komu inn kveikti hún á
tækinu og það gekk svo fram af þeim
að heyra hvernig þeir hefðu látið að
þeir voru eins og menn á eftir.“
Fékk tvö mikil höfuðhögg
Halldór hefur ekki gengið full-
komlega heill til skógar frá því hann
var ungur maður. Um tvítugt varð
hann fyrir miklu slysi þegar hann
var að vinna einn vetur í Togara-
afgreiðslunni í Reykjavík, – það datt
fiskikar niður á höfuðið á honum.
„Síðar þegar ég var að byggja hér
hlöðu fékk ég sperrukjálka í höfuðið
– mikið högg,“ bætir hann við. Af-
leiðingar þessara slysa hafa m.a.
valdið Halldóri þrálátum höfuð-
verkjum og gert hann úthaldslítinn
og linari til vinnu en ella hefði verið.
„Ég er búinn að fara í margar
rannsóknir en við þessu er ekkert að
gera,“ segir Halldór. Ekki er allt tal-
ið enn. Halldór átti kú eina sem hann
kvað lengst af hafa verið hina bestu
skepnu og svo hænda að sér að hún
gekk með honum heim að bæ ef
hann lagði handlegginn um háls
hennar.
„Svo var það kvöld eitt þegar ég
var rúmlega fimmtugur að ég var að
tutla úr henni eftir mjaltavélina. Allt
í einu trylltist hún og stökk upp, svo
hátt sem milligjarðirnar leyfðu,
kreppti svo undir sig lappirnar og lét
sig detta máttlausa og eins og dauða
niður. Ég hafði til allrar ógæfu teygt
frá mér annan fótinn, það munar nú
töluvert um slíkt hlass ofan á einn
fót enda brotnaði hann illa um hnjá-
lið undan þunga kýrinnar og sneri
hreinlega öfugt. Handleggurinn
lenti á barmi mjókurfötunnar sem
var úr ryðfríu stáli. Eftir þetta hef
ég verið óvinnufær öryrki.“
Slysfarirnar sýnast ekki hafa haft
mikil áhrif á meðfætt glaðlyndi Hall-
dórs.
„Sé ég glaðlyndur þakka ég það
forfeðrunum – einkum prestunum.
Það er mikið prestablóð í mér, ég
rek ættir mínar til Presta-Högna,“
segir hann kankvís á svip og býður
mér inn í svefnherbergi sitt til þess
að skoða þar ættartölur og gamlar
myndir. Hin eðla Rós hefur hreiðrað
um sig í rúminu – ég fæ þó að tylla
mér á rúmbríkina og sit þar meðan
Halldór fer með eitt erindi úr kvæð-
inu „Á afmæli kattarins“ eftir dr.
Jón Helgason – Rós til heiðurs.
Læðan lætur sér fátt um finnast en
ég hef gaman af.
„Þetta er listakvæði,“ segir Hall-
dór að ljóðalestrinum loknum og fer
að finna til gamlar myndir til að sýna
mér. Margar þeirra eru frá því erf-
iða en rómantíska tímabili Íslands-
sögunnar þegar menn stóðu á vinnu-
galla og gúmmískóm og létu sig
dreyma um allt sem hægt væri að
gera – en kreppan var sár. Svo eru
aðrar frá árunum eftir stríð þegar
sakleysið hafði ekki enn alveg yfir-
gefið þjóðarsálina. Ég sé og mynd af
Halldóri með fermingarsystkinum
sínum frá Torfastöðum og loks skoð-
aði ég með honum myndir af fjöl-
skyldunni, ferðamyndir og myndir
af fólki á spjalli við borð hlaðin tert-
um og öðru góðgæti.
Ég sé á myndunum í hnotskurn
sögu Íslands á 20. öld renna framhjá
mér – holdgerða í fólki sem flest var
búsett í Tungunum einhvern tíma á
nýliðinni öld.
Ég tek fáeinar myndir frá og síðan
höldum við Halldór út á verkstæði
hans í gamla timburhúsinu utar á
hlaðinu. Þar innandyra kennir
margra grasa, segja má að þar sé
líka Íslandssaga 20. aldar falin í alls
kyns gömlum gripum, tólum og
tækjum, sem og í húsnæðinu sjálfu.
Í þessari baðstofu, sem Halldór
stendur nú í með kaskeiti, lifði hann
sín barndómsár.
Af Heklu og Jóa söng
„Ég má þakka það blessaðri Júl-
íönu hvað hún var hirðusöm að halda
saman gömlum reipum og klyfber-
arnir eru til hér uppi,“ segir Halldór
og sýnir mér gömlu hrosshársreipin
sem notuð voru á heimilinu meðan
enn var flutt hey á hestum.
Ég horfi á gamla panelinn á veggj-
unum og hugsa til lífsins sem fyrrum
var lifað í skjóli hans. Þar lifðu for-
eldrar Halldórs um langan aldur,
þar til þau létust á sjúkrahúsi með
skömmu millibili, háöldruð bæði.
„Pabbi var blindur síðustu æviár-
in, hann sagði við mig: „Maður miss-
ir alveg fótfestuna þegar maður tap-
ar sjóninni“,“ segir Halldór. Það var
von að sjónleysið væri Þórði föður
hans erfitt, hann var bókamaður
mikill og átti að sögn sonar hans
margt góðra bóka.
„Hann var mikið gefinn fyrir allan
fróðleik og skráði á efri árum margt
í þeim dúr, sjálfur er ég að draga
ýmislegt saman sem ég á í tölvunni
minni,“ bætir hann við.
Í rúminu undir baðstofugluggan-
um móti suðri lá Halldór og svaf
þegar Hekla gaus 1947.
„Ég heyrði þungan dynk klukkan
sjö um morguninn og rumskaði en
ákvað með sjálfum mér að Alfreð
Jónsson, uppeldisbróðir minn og
traustasti vinur enn í dag, sem lá í
næsta rúmi, hefði vaknað svona illa
og sparkað vegginn.
Um hádegi var mér sagt að Hekla
væri farin að gjósa eftir 102 ár.
Það var Jói söngur, Jóhann Valde-
marsson, sem var vetrarmaður í
Hrosshaga, sem hafði farið um
morguninn út í gegningar. Þegar
hann kom inn aftur til Margrétar
móðursystur minnar, sem þá bjó
þar, sagði hún: „Sástu nokkuð
óvanalegt þegar þú komst út Jó-
hann?“
„Það var einhver andskotans él-
hrakningsskratti í austrinu,“ kvað
Jói hafa svarað. Hann tók jafnan
stórt upp í sig og hafði enda bæði
mikil og falleg hljóð. Ef hann kom
inn þar sem verið var að syngja
fjöldasöng og reif sig upp heyrðist
ekki í neinum nema honum. Jóa
langaði sem ungan mann að læra að
syngja en karl faðir hans vildi ekki
styðja hann. Þá lá leið Jóa á sjóinn.
Hann fór í sölutúra með togurum og
settist þá gjarnan með skipsfélögum
sínum á knæpur. Það var víst al-
gengt að söngurinn hans Jóa væri
látinn kvitta drykkinn.
Bóndi sem Jói var hjá vinnumaður
síðar hafði fyrir sið að fá verkamenn
til starfa frá Litla-Hrauni og fékk þá
fyrir lítið. Jói hafði verið eitthvað í
burtu og á meðan kom maður frá
Hrauninu til starfa fyrir bóndann.
Jói óð að honum og spurði: „Fyrir
hvern andskotann varst þú settur á
letigarðinn?“ „Ég drap mann,“ svar-
aði hinn. „Hvernig bar það til?“
sagði Jói. „Ég var vaktmaður úti í
Hull, þá sá ég dóna koma um borð og
var viss um að hann ætlaði að stela
einhverju. Ég tók í rassgatið á hon-
um og stakk honum milli báts og
bryggju og hef ekki séð hann síðan.“
Þessa sögu hef ég eftir fanganum
sjálfum en hann var vinnumaður hér
í sveitinni í fjöldamörg ár,“ segir
Halldór.
Þegar við komum út úr verkstæð-
inu í gamla húsinu stendur sam-
ferðakona mín á hlaðinu og dáist að
sérkennilegu steinhellunum sem
finna má í landi Litla-Fljóts. Eftir
slíkum steinhellum fetum við okkur í
átt til bílsins sem ber okkur fyrr en
varir frá Halldóri á Litla-Fljóti. En
ég er með gamlar myndir frá honum
í veskinu, – þær og frásagnir hans
gefa okkur svolitla innsýn í lífshlaup
þessa bráðhressa bónda í Tungun-
um.
Í hlaðvarpanum. F.v. Karl Ögmundsson, Ingibjörg Jónsdóttir, Halldór Þórðarson,
Rigmor Hansson danskennari og dóttir hennar Svava Sigurjónsdóttir sem var í
sveit á Litla-Fljóti. Þorbjörg Halldórsdóttir húsfreyja skenkir kaffið.
Halldór Þórðarson ásamt foreldrum sínum fyrir framan gamla íbúðarhúsið á
Litla-Fljóti, sem nú er vinnustofa hans.
Halldór Þórðarson um tvítugt.
Júlíana Tyrfingsdóttir, fyrrverandi
húsfreyja á Litla-Fljóti, með kökur
sínar. Hún bakaði gjarnan ásamt fleir-
um fyrir kvenfélagið í sveitinni þegar
mikið stóð til.
gudrung@mbl.is
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24. ÁGÚST 2003 19