Morgunblaðið - 03.04.2004, Blaðsíða 6
FRÉTTIR
6 LAUGARDAGUR 3. APRÍL 2004 MORGUNBLAÐIÐ
www.plusferdir.is
Benidorm
29.900 kr.
N E T
á mann miðað við að 2 fullorðnir ferðist saman.
Innifalið: Flug, flugvallarskattar, gisting í 7 nætur á Gemelos XXII,
Gemelos XX og Levante Club, ferðir til og frá flugvelli erlendis og íslensk
fararstjórn. Enginn barnaafsláttur.
NETplus er einungis bókanlegur á www.plusferdir.is
15. -22. apríl
UPPLÝSINGUM um fjárhags-
stöðu Eddu útgáfu, sem lágu til
grundvallar kaupum Ólafsfells ehf.,
fyrirtækis Björgólfs Guðmunds-
sonar, á 68% hlut í maí 2002, var
verulega ábótavant. Að sögn for-
stjóra Eddu útgáfu, Páls Braga
Kristjónssonar hefur verið ákveðið
að fá óháðan endurskoðanda til að
fara yfir fjárhagsupplýsingar sem
fyrrverandi eigendur félagsins
lögðu fram þegar hluturinn var
seldur.
Hann segir athuganir hafa leitt í
ljós að bráðbirgðauppgjör Eddu út-
gáfu (þá Eddu – miðlunar og út-
gáfu) fyrir árið 2001, sem var það
skjal sem lá til grundvallar kaupum
núverandi eigenda á meirihluta í fé-
laginu, hafa verið í litlu samræmi
við sanna fjárhagsstöðu félagsins.
Ofmat eigna hafi valdið því að efna-
hagsreikningur félagsins sýndi
150–200 milljónum króna betri
eignastöðu en raun var. Að auki
hafi matsreglur birgða félagsins,
sem núverandi eigendur hafi tekið
upp, leitt til 100–150 milljóna króna
niðurfærslu. Samanlagt hafi fjár-
hagsstaðan því verið 250–300 millj-
ónum króna verri en gert var ráð
fyrir í maí 2002. Páll Bragi segir
ljóst að fyrrverandi stjórnendum
og stjórn félagsins hafi verið kunn-
ugt um óreiðu í bókhaldinu.
Hlutafé fært niður um
allt að 212 milljónir króna
„Við viljum að óháður endurskoð-
andi fari í þetta mál, þetta eru bara
orðnir það miklir fjármunir sem um
er að tefla. Það er grafalvarlegt
mál. Við fellum enga dóma. En það
liggur fyrir að við fengum ekki rétt-
ar upplýsingar.“
Hlutafé Eddu verður aukið um
allt að 400 milljónir króna, fáist
samþykki hluthafafundar í lok apr-
íl. Mál og menning – Heimskringla
ehf. er næststærsti hluthafi Eddu
með tæp 32%.
Efnahagur Eddu hefur staðið
höllum fæti en skuldsetning er
gríðarleg. Árleg fjármagnsgjöld
nema um 100 milljónum króna en
áætluð velta félagsins á þessu ári
nemur 1,3 milljörðum króna. Þegar
Ólafsfell keypti sig inní Eddu lagði
það til 100 milljónir króna í nýtt
hlutafé. Fyrir um ári
komu 100 milljónir
króna inn í fyrirtækið
til viðbótar. Allt þetta
hlutafé er uppurið og
nú er svo komið að
eigið fé félagsins er
neikvætt. Til stendur
að hlutafé félagsins
verður niðurfært um
allt að 212 milljónir
króna.
„Þar að auki hefur
komið til stórkost-
legra sjálfskuldaá-
byrgða og útgjalda
stærsta hlutafans.
Skýrsla endurskoð-
andans verður gerð vegna þess að
það er eindreginn vilji þeirra hlut-
hafa sem hafa lagt inn fé og vilja
leggja meira af mörkum til félags-
ins að öll kurl komi til grafar. Það
er allt fé uppétið sem sett hefur
verið inn í félagið á undanförnum
árum og þess vegna erum við að
leggja til þessa niðurfærslu á hluta-
fénu.
Ef eitthvað kemur í ljós í þessari
skýrslu endurskoðandans sem við
vitum ekki þegar þá verður tekin
ákvörðun um framhaldið. Auðvitað
er það ekki vilji neins að fara í
málaferli. En menn geta ekki fríað
sig ábyrgð. Við erum að eiga við
óreiðu fortíðarinnar, “
Reksturinn kominn
í rétt horf
Páll Bragi segir það bjargfasta
skoðun sína og hluthafanna að
reksturinn sé nú kominn í rétt horf.
„Krafan um aukið hlutafé kemur
frá stærsta hluthafanum. Þar er
komin yfirlýsing frá honum um að
hann ætli að standa við bakið á fyr-
irtækinu.“ Páll Bragi
segir ofmat eigna
ekki eina vandann
sem félagið hefur
glímt við síðustu tvö
árin. „Það sem haml-
aði okkur í upphafi
var það að allt upp-
lýsingakerfi félagsins
var í molum. Tölvu-
kerfi, bókhald og ann-
að var hreinlega í
rusli. Það var ekki
fyrr en síðar að við
komumst að þessum
ágöllum í eignamat-
inu. Af því hefur auð-
vitað skapast miklu
meira rekstrartap.“
Spurður að því hvort Ólafsfell
hefði ekki komið með hlutafé inn í
fyrirtækið á sínum tíma hefði sönn
fjárhagsstaða verið ljós segist hann
ekki geta sagt til um það. Hins veg-
ar sé nú ljóst að meira hlutafé hefði
þurft inn í fyrirtækið strax þegar
nýir eigendur tóku við því.
Viðskiptin hefðu orðið
á öðrum kjörum
„Það eru ýmis önnur sjónarmið
sem ráða ríkjum þegar ákveðið er
að setja fjármuni í menningar-
fyrirtæki en önnur fyrirtæki. Það
skilar sér á annan hátt heldur en
það að fjárfesta t.d. í sápu-
verksmiðju. En það er ómögulegt
að fara út í umræðu um hvort eða
ef, en viðskiptin hefðu allavega orð-
ið á öðrum kjörum. Það var greitt
stórfé fyrir hlutafé sem var keypt
af fyrrverandi stjórnarformanni og
Íslandsbanka og sett nýtt hlutafé á
ákveðnu gengi. Þetta hefði allt orð-
ið með öðrum hætti ef mönnum
hefði verið ljóst hvernig í pottinn
var búið. Það hefur valdið okkur
stórum skaða að byrja á vitlausum
reit,“ segir Páll Bragi.
Páll Bragi segir hlutafjáraukn-
inguna gleðitíðindi fyrir Eddu,
enda hafi líklega á annað þúsund
manns, höfundar, þýðendur, verk-
takar, starfsmenn o.fl., beina hags-
muni af því að fyrirtækið gangi vel.
„Aðalmálið er að fyrirtækinu hefur
verið komið á réttan kjöl. Hitt er
fortíðin, en það verður bara ekkert
frá henni flúið. Það er búið að
breyta öllum hugsanahætti og
verklagi hér í húsinu. Þótt ég segi í
dag að við séum búin að koma
rekstrinum í viðunandi horf þá er
ennþá mikið að sækja. Það er ljósi
punkturinn í þessu. Við erum búin
að skapa réttan anda og það verður
sótt áfram til að styrkja reksturinn
enn frekar,“ segir Páll Bragi.
Sóknarfæri í
öðrum heimshlutum
Hann segir aukningu hlutafjár
vera síðasta skrefið í því ferli sem
hófst með kaupum Ólafsfells á
Eddu fyrir tveimur árum og hefur
falið í sér verulegan niðurskurð,
einföldun á stjórnkerfi, sölu eigna
og fleira. „Núna erum við að taka
síðasta skrefið. Við viljum ganga
föstum fótum á jörðinni en verðum
líka að beina sjónum okkar til
stjarnanna. Það gerum við með er-
lendri starfsemi. Það veltur mikið á
að fyrirtækið hafi burði til að koma
höfundunum á framfæri og gera
það myndarlega. Ekki síst skipta
samskipti erlendis máli. Þetta ger-
ist ekki af sjálfu sér og gríðarlegt
hagsmunamál fyrir höfundana að
brjóta af sér þessa hlekki málsam-
félagsins og smæðarinnar og kom-
ast á stærri markaði.
Við erum með örlítinn sprota sem
heitir Edda UK og við munum
flytja fregnir þaðan á þessu ári.
Þetta eru ekki stórar fregnir en
þarna er þó vaxtarbroddur. Þar að
auki erum við að athuga með útrás
til annarra heimshluta. Það er ekki
hægt að fara af stað með stórar yf-
irlýsingar í þeim efnum fyrr en við
erum búin að búa þannig um hnút-
ana að móðurskipið hérna heima sé
að sigla öruggan sjó,“ segir Páll
Bragi.
Eiga við óreiðu fortíðarinnar
Páll Bragi Kristjánsson
Rekstri Eddu útgáfu hefur verið komið á
réttan kjöl. Forstjóri félagsins segir fyrri
eigendur félagsins hafa ofmetið eignir félags-
ins um allt að 300 milljónir króna í gögnum
sem lágu fyrir þegar Ólafsfell ehf. eignaðist
meirihluta í félaginu fyrir tveimur árum.
Forstjóri Eddu útgáfu segir mikla erfiðleika hafa blasað við nýjum eigendum
LANDSVIRKJUN og stjórn
Landeigendafélags Mývatns og Lax-
ár hafa orðið sammála um að óska
eftir því sameiginlega að bráða-
birgðaákvæði um heimild til að
hækka Laxárstíflu falli brott. Jafn-
framt verður skipuð viðræðunefnd til
að finna lausn í þessum efnum og ná-
ist niðurstaða munu aðilar sameigin-
lega óska eftir því við Alþingi að
heimilað verði að láta meta umhverf-
isáhrif þeirrar lausnar með laga-
breytingu ef það þurfi til.
Þetta kom meðal annars fram í
ræðu Friðriks Sophussonar, for-
stjóra Landsvirkjunar á samráðs-
fundi fyrirtækisins í gær. Rifjaði
hann jafnframt upp að drög að tillögu
að matsáætlun fyrir hækkun inntaks-
stíflu við Laxá III um 10 – 12 metra
hefðu verið kynnt fyrri hluta sumars,
en í ljósi athugasemda sem gerðar
hefðu verið við matsáætlunina hefði
þótt ástæða til að skoða betur laga-
legar forsendur fyrir framkvæmd-
inni með tilliti til laga um verndun
Mývatns og Laxár.
Sýndi hann jafnframt mynd af
þeim áhrifum sem hækkun stíflunnar
um átta metra hefði, en það þýddi lón
sem yrði 0,2 ferkílómetrar að stærð.
Þorsteinn Hilmarsson, upplýs-
ingafulltrúi Landsvirkjunar, sagði í
samtali við Morgunblaðið að átta
metra stífluhæð dygði fyrir rekstur
virkjunar sem slíkan. Ef hægt væri
að finna lausn sem fæli í sér uppsetn-
ingu á setlóni inn á hálendinu, sem
tæki sandframburðinn frá Kráká að
verulegu leyti þá dygði þetta minna
mannvirki niðri við sjálfa virkjunina.
Atli Vigfússon, formaður Landeig-
endafélags Laxár og Mývatns, segir
að jafnskjótt og bráðabirgðaákvæðið
falli brott muni bæði Landsvirkjun
og Landeigendafélagið lýsa því yfir
að skipaðar verði viðræðunefndir til
að leita lausna á rekstrarvanda Lax-
árvirkjana.
Landsvirkjun og stjórn Landeigendafélags Laxár
Ákvæði um hækkun
stíflu falli brott
Þessi tölvuteikning sýnir lónshæð miðað við 8 metra háa stíflu í Laxá.
LÖGREGLAN á Höfn í Hornafirði
kærði sex ökumenn fyrir of hraðan
akstur á þjóðvegi nr. 1 vestan við bæ-
inn í gærdag. Þar af voru tveir á 130
kílómetra hraða. Að sögn lögreglu er
umferðareftirlit venjulega aukið á
þessum tíma árs þegar nær dregur
vori og ökumenn freistast til að aka
nokkuð yfir lögeglum hámarkshraða.
Lítið skyggni var á vegum úti í gær.
Sex kærðir
fyrir hrað-
akstur
SÍÐARI umferð í 16 manna úrslit-
um á Skákþingi Íslands var tefld í
gærkvöld. Úrslit urðu þau að Hann-
es Hlífar Stefánsson vann Sigurð
Daða Sigfússon 1-0, samtals 2-0,
Helgi Áss Grétarsson vann Sigur-
björn Björnsson 1-0, samtals 2-0,
Þröstur Þórhallsson sigraði Ingvar
Þór Jóhannesson 1½-½, Bragi Þor-
finnsson vann Ingvar Ásmundsson
1½-½, Stefán Kristjánsson sigraði
Davíð Kjartansson 2-0, Snorri
Bergsson og Jón G. Viðarsson
skildu jafnir og heyja aukakeppni,
sömuleiðis Þorsteinn Þorsteinsson
og Sævar Bjarnason. Björn Þor-
finnsson sigraði Kristján Eðvarðs-
son 2-0. Aukakeppni verður tefld í
dag og hefst kl. 9 en 8 manna úrslit
hefjast kl. 16. Klukkan 13 hefst
jafnframt keppni í kvennaflokki og í
áskorenda- og opnum flokki. Teflt
er í húsi Orkuveitu Reykjavíkur.
Skákþing Íslands
8 manna
úrslit í dag
BROTIST var inn í húsnæði Hrað-
frystihússins-Gunnvarar við Hnífs-
dalsbryggju á Ísafirði í fyrrinótt og
stolið þaðan 15–20 kílóum af reyktri
ýsu. Ýsan var geymd í kæli og til stóð
að selja hana.
Lögreglan á Ísafirði fékk tilkynn-
ingu um þennan þjófnað rétt fyrir kl.
10 í gærmorgun. Hún óskar eftir
upplýsingum frá öllum þeim sem
gætu gefið upplýsingar um grun-
samlegar mannaferðir á þessu svæði
eða öðrum þeim sem hafa vitneskju
um verknaðinn.
Stálu ýsu
♦♦♦
♦♦♦