Morgunblaðið - 03.08.2004, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 03.08.2004, Blaðsíða 28
MINNINGAR 28 ÞRIÐJUDAGUR 3. ÁGÚST 2004 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Nína Þórðardóttirfæddist á Kleppi í Reykjavík 27. janúar 1915. Hún lést á heim- ili sínu að morgni 25. júlí síðastliðins. Hún var dóttir hjónanna Þórðar Sveinssonar geðlæknis, f. á Geit- hömrum í A-Húna- vatnssýslu 20. desem- ber 1874, d. 21. nóvember 1946 og Ell- enar Johanne Sveins- son, fædd Kaaber, f. í Kaupmannahöfn 9. september 1888, d. 24. desember 1974. Nína átti sex bræður, þeir eru Hörður sparisjóðsstjóri, f. 11. des- ember 1909, d. 6. desember 1975, Úlfar augnlæknir, f. 2. ágúst 1911, d. 28. febrúar 2002, Sveinn eðlis- fræðingur búsettur í Kanada, fv. skólameistari á Laugarvatni, f. 10. janúar 1913, Agnar rithöfundur, f. 11. september 1917, Gunnlaugur hæstaréttarlögmaður, f. 14. apríl 1919, d. 20. maí 1998, og Sverrir blaðamaður, f. 29. mars 1922. Nína giftist 16. október 1937 Daníel Sumarliðasyni vagnstjóra hjá SVR, f. 20. júní 1908, d. 6. júní 1950. Foreldrar hans voru Guðrún Ingimundardóttir og Sumarliði Bjarnason. Hinn 20. janúar 1951 giftist Nína Trausta Einarssyni, prófessor við Háskóla Íslands, f. í Reykjavík 14. nóvember 1907, d. 26. júlí 1984. Foreldr- ar hans voru Einar Runólfsson trésmiður, f. 17. september 1885, d. 10. mars 1961 og Kristín Traustadóttir, f. 22. október 1878, d. 2. febrúar 1960. Dótt- ir Nínu og Trausta er Kristín Halla líffræð- ingur, f. 7. júlí 1951. Maður hennar er Jón Ingimarsson verkfræðingur, f. 21. september 1951. Þau eiga þrjú börn: 1) Nína Björk blaðamað- ur, f. 1. apríl 1975, 2) Ingimar Trausti nemi, f. 6. júní 1977, dóttir hans og Tinnu Jóhannsdóttur, f. 1. júlí 1980, er Gabríela, f. 22. nóv- ember 2001 og 3) Helga Vala nemi, f. 11. janúar 1986. Nína bjó alla sína tíð í Reykjavík. Hún lærði tannsmíði og starfaði við það árin 1931–1951. Hún var for- maður Tannsmiðafélags Íslands ár- in 1947–1950, en hafði áður verið ritari félagsins. Nína verður jarðsungin frá Dóm- kirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 10.30. Við ráðum líklega mestu um val á maka, en ungt fólk gerir sér oft ekki mikla grein fyrir því að með makan- um koma til sögu nýir foreldrar – tengdaforeldrar. Ég var heppinn því minni konu fylgdu þeir bestu tengda- foreldrar sem hugsast gat. Ég leit á það þá sem nánast sjálfsagðan hlut að hjónaband kæmi bara mér og minni kærustu við – allt annað væri auka- atriði. Með árunum hefur mér lærst að málið er stærra og til að vel takist skiptir gott og náið samband við tengdaforeldrana miklu máli. Nína og Trausti, eiginmaður henn- ar, tóku mér strax vel og það tók ekki langan tíma að kynnast þeim. Einn af fjölmörgum eiginleikum Nínu var að eiga létt með að halda uppi efnisrík- um samræðum um menn og málefni og eftir að hafa setið með þeim í kvöldkaffi í fáein skipti var eins og við hefðum alltaf þekkst. Nína hafði áhuga á nánast öllu og fylgdist með því sem var að gerast bæði hér á landi og erlendis og hafði vel mótaðar skoð- anir á mönnum og málefnum. Auðvit- að vorum við ekki alltaf sammála en það skipti engu því það var ríkt í hennar huga að hver maður ætti rétt á að hafa sínar skoðanir. Af þessum fundum okkar fór ég alltaf ríkari en ég kom. Heimili Nínu og Trausta var menn- ingarheimili, en laust við allt prjál og ónauðsynlega hluti. Þegar ég kynntist þeim var t.d. ekki sjónvarp á heim- ilinu og hafði ég á tilfinningunni að þau teldu það óþarft auk þess sem það myndi taka tíma frá rannsóknum sem Trausti vann að langt fram á kvöld en ekki síst notalegum samræðum. Tengdamamma var meistari í mat- argerð og í að halda skemmtileg boð. Hún hélt alltaf upp á afmæli bæði mömmu sinnar og tengdapabba eftir að þau létust; hún efndi til ættarmóta; boða þar sem yngsta kynslóðin var í hásæti; frænkuboða; og síðast en ekki síst lifrarpylsuboða fyrir bræður sína eða þeirra syni. Hún vildi jú jafnrétti og fylgdi því eftir. Síðustu árin naut ég þess að komast í þann heiðurs- mannaklúbb sem boðinn var í lifrar- pylsu. Þessum ólíku boðum var búin ólík umgjörð sem hæfði tilefninu hverju sinni. Börnin fóru að sjálfsögðu í leiki, en hæst í huga þeirra ber þó forláta barnabingó með myndum sem kom frá Danmörku á fyrri hluta liðinnar aldar. Í því bingói fengu allir vinning. Í lifrarpylsuboðunum bar hins vegar hæst málefni líðandi stundar auk þess sem atburðir úr mannkynssögunni voru krufnir til mergjar. Frá öllum þessum boðum komu börn og full- orðnir glaðir og reifir, en um leið and- lega ríkari. Tengdamamma lét verkin tala. Ekki nægði að tala bara um að það væri nú gaman að hittast fljótlega þegar betur stæði á. Af þessu getum við mikið lært. Á síðari árum þurfti hún nokkrum sinnum að leggjast inn á sjúkrahús og það voru augljós bata- merki þegar hún var farin að tala um boðin sem nú þyrfti að undirbúa, því nú væri t.d. von á þessarri fjölskyldu í heimsókn erlendis frá. Unga fólkið þyrfti nauðsynlega að þekkja sinn frændgarð. Tengdamamma var líka mjög hjálpsöm við samferðamenn sína. Hún gerði þar ekki mannamun. Hún hafði lært það í uppvexti sínum á Kleppi að bera virðingu fyrir öllum og tala aldrei niður til annarra. Eftir að tendapabbi lést ákvað hún að nýta þær stundir sem þá gáfust til að fara í gönguferðir með tveimur blindum einstaklingum sínum í hvoru lagi. Annars vegar var eldri sjómaður sem hafði orðið blindur eftir miðjan aldur og hins vegar stúlka um tvítugt sem hafði verið blind frá fæðingu. Þau voru því afar ólík, en tengdamamma náði góðu sambandi við þau bæði og höfðu allir gagn og gaman af. Tengdamamma bjó okkur Kristínu afar góð skilyrði. Hún og tengdapabbi bjuggu okkur hreiður á loftinu þegar við giftumst. Þau greiddu kostnaðinn en við, með dyggri aðstoð foreldra minna, systkina og vina, sáum að mestu um framkvæmdir. Eftir að börn okkar fæddust hjálpaði hún okk- ur ómetanlega með því að gæta þeirra meðan við vorum að vinna, fórum í ferðalög o.s.frv. Það var mikils virði í skammdeginu að geta hlaupið út frá sofandi börnum í góðum höndum. Hún tók ríkan þátt í uppeldi barnanna og hjálpaði þeim að komast til manns. Hún náði vel til þeirra og tók þátt í lífi þeirra af áhuga. Þau eru ólík, en hún leitaði uppi sterkar hliðar og laðaði fram hæfileika hvers og eins. Fyrir þetta verður aldrei fullþakkað. Þegar reynt var að þakka, sagði hún: „ég geri þetta bara fyrir sjálfa mig“ og ég trúi að hún hafi meint það. Ég segi þó hjartans þakkir fyrir mig og mína. Það er stórt skarð höggvið í okkar fjölskyldu við andlát tengdamömmu. Ég sakna hennar og það er erfitt að hugsa til stórhátíða, mannfagnaða eða hvunndagsins án hennar og þess lífs sem henni fylgdi. Góðar minning- ar lifa áfram. Jón Ingimarsson. Amma Nína var mér ekki eingöngu sú allra besta amma sem hægt er að hugsa sér, heldur einnig ein af mínum bestu vinkonum og góður félagi. Ég er svo rík að hafa átt hana fyrir ömmu, fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman og að hafa feng- ið að heita í höfuðið á henni. Amma var svo kát og skemmtileg og hafði svo mikið að gefa öðrum, enda leituðu margir eftir félagsskap hennar. Hún laðaði fólk á öllum aldri að sér, það var t.d. varla sá iðnaðar- maður sem kom inn til hennar, sem ekki var orðinn trúnaðarvinur hennar áður en viðgerðinni var lokið. Þegar hún var í húsinu var eins og það fylltist af gleði og kátínu, hún bar með sér svo mikla stemmningu og líf. Amma var duglegasta manneskja sem ég þekki, svo sjálfstæð og sterk og kvartaði aldrei þó ýmsir kvillar væru að þjaka hana. Þar til ég var að verða níu ára bjuggum við fjölskyldan í risinu fyrir ofan ömmu og afa Trausta. Meðan pabbi og mamma voru í vinnunni passaði amma okkur Ingimar og þá var sko gaman. Ég held að betri æsku sé ekki hægt að hugsa sér, því það voru forréttindi að fá að alast upp í sama húsi og afi og amma. Ég á ótal góðar minningar frá þess- um tíma. Amma kenndi okkur svo margt, t.d. að meta íslenska náttúru, fjölskylduna og var okkur góð fyrir- mynd. Við systkinin gengum í ömmuskóla, eins og fleiri börn í húsinu höfðu gert. Eftir matinn hringdi amma skóla- bjöllunni og við þustum til hennar í tíma þar sem amma kenndi okkur að lesa, skrifa, prjóna og reikna. Síðan var lokapróf og afi var prófdómari. Við lásum saman blöðin á morgn- ana. Ætli við systkinin höfum ekki fengið ansi pólitískt uppeldi, því amma lét okkur slá á myndirnar af þeim sem hún var ósammála. Þannig sátum við saman og fussuðum yfir morgunkaffinu. Hún var ekki flokks- pólitísk en hafði ætíð sterkar og vel grundaðar skoðanir á öllu sem var að gerast í þjóðfélaginu. Fyrstu árin eftir að við fluttum í Reynihlíðina kom amma Nína til okk- ar á hverjum degi meðan Helga Vala var lítil, en síðar einu sinni í viku. Amma beið eftir okkur systkinunum með heitan mat þegar við komum heim úr skólanum. Það var svo gott að sitja og spjalla saman, leita hjá henni ráða og trúa henni fyrir leyndarmál- um. Hún sýndi öllu sem við tókum okkur fyrir hendur áhuga og kynntist vinum okkar vel. Því fleiri sem komu með okkur heim í mat, því betra. Amma gekk í gegnum hin ýmsu skeið með okkur systkinunum, eins og unglingaskeiðið þegar ég var nú ekki alltaf auðveld viðureignar og þunga- rokkstímabilið þegar Ingimar lét hár- ið vaxa í hanakamb, en amma hafði bara gaman af öllu saman. Hún var svo opin, lét skoðun sína alltaf í ljós og var hrein og bein, en var um leið um- burðarlynd og dæmdi fólk ekki fyrir fram. Amma var frændrækin og mikill gestgjafi. Hún var svo sannarlega höf- uð stórfjölskyldunnar og vissi fátt skemmtilegra en að undirbúa veislur. Eftir að hún lærbrotnaði um síðustu jól, var útlitið dökkt en brúnin á okkur fjölskyldunni fór að lyftast þegar amma var farin að skipuleggja veislur – þá vissum við að hún var að ná sér. Þegar ég flutti að heiman og fór að búa, flutti ég aftur á Sundlaugaveginn og í þetta skipti leigði ég hjá Rögnu í kjallaranum. Það var dásamlegt að búa aftur í sama húsi og amma. Ég fór oft upp til hennar í hádegismat og í kaffi til að spjalla og hún kíkti í heim- sókn til mín. Þó 60 ár hafi skilið okkur að náðum við svo vel saman, gátum talað um allt og hún tók virkan þátt í mínu lífi. Ég man t.d. eftir því þegar ég og vinkona mín fengum það verkefni að taka við- tal við Jóakim prins og Alexöndru prinsessu fyrir Morgunblaðið og við vildum æfa okkur í dönskunni. Amma tók okkur fagnandi og æfði okkur í að segja „deres kongelige højheder“ og hjálpaði okkur að orða þær spurning- ar sem við höfðum áhuga á að leggja fyrir kóngafólkið, svo við gætum nú talað við þau „på flydende dansk“. Ég á svo ótal góðar minningar um ömmu Nínu og það er ómögulegt að reyna að lýsa jafn stórbrotinni konu og hún var í örfáum orðum. Ég er henni þakklát fyrir allar stundirnar sem við áttum saman og allt það sem hún gaf mér og kenndi. Hún mun allt- af lifa í hjarta mér. Hvíl í friði, elsku amma mín, þín saknandi dótturdóttir og nafna, Nína Björk. Kær mágkona mín Nína Þórðar- dóttir hefur kvatt þennan heim, eftir langt og farsælt líf. Við áttum samleið frá því að ég gift- ist bróður hennar, Gunnlaugi Þórðar- syni, 1945 og vinskapur okkar hefur staðið alla tíð síðan. Það sem mér dett- ur fyrst í hug, þegar ég hugsa til Nínu, er örlæti hennar og vinátta. Hún var aldrei rík af efnislegum gæðum, en enginn var örlátari og gjafmildari en hún. Hún var eina systirin í hópi sjö systkina og þegar bræður hennar eignuðust sín börn, var Nína alltaf bú- in að prjóna fallega og listilega gerða flík á litla frændann eða frænkuna. Gjafir hennar voru alltaf ríkulegar. Hún bar hag fjölskyldunnar fyrir brjósti og lagði sig fram um að halda henni saman, eftir að foreldrar henn- ar létust. Hún hélt til dæmis alltaf veislu á afmæli móður sinnar, hinn 11. september og ræktarsemi hennar náði jafnt til allra afkomenda systkina hennar, ekki bara barna og barna- barna, heldur einnig barnabarna- barna. Kristín Halla, einkadóttir þeirra hjóna, Nínu og Trausta var mikill ljós- gjafi í þeirra lífi. Hún var á svipuðum aldri og dætur mínar tvær, Snædís og Tinna og áttu þær oft góðar stundir á heimili Nínu og Trausta. Sérstaklega eru þeim minnisstæð afmælisboðin á Sundlaugarveginum, þar sem Trausti fór á kostum í söguleikjum, sem allir tóku þátt í og svo var spilað bingó og enginn fór heim án þess að hafa fengið einhvern vinning. Þegar Kristín Halla eignaðist síðar sína eigin fjölskyldu og börn, var Nína þeirra stoð og stytta og samband þeirra mæðgna var alla tíð ákaflega náið og fallegt. Það var mér alltaf sérstök ánægja að koma í heimsókn til Nínu. Gestrisni hennar og einlæg gleði yf- ir heimsókninni var smitandi og ánægjan yfir að geta boðið upp á kaffi og eitthvert gott meðlæti. Oftar en ekki var maður leystur út með gjöfum og þá gjarnan eitthvað sem hún hafði búið til sjálf og vildi deila með öðrum. Ég naut þess að eiga með henni slíka stund á heimili hennar nýlega. Við skemmtum okkur við rabb um gamlar endurminningar og kunningja og hún hafði engu gleymt. Nína var í fullu fjöri andlega og líkamlega, þó hún hefði orðið níutíu ára næsta vetur. Hennar verður saknað af fjölskyldu og vinum, en við munum ylja okkur yfir góðum minningum og þökkum henni ómetanlegar stundir á langri ævi. Ég votta Kristínu Höllu, dóttur hennar og fjölskyldu hennar mína innilegustu samúð. Herdís Þorvaldsdóttir. Dídí frænka fagnaði með okkur fyrir nokkrum dögum í stuttri heim- sókn Ísoldar dóttur okkar að utan. Það var í síðasta skiptið sem við sáum hana. Hún var sumarlega klædd, í hvítu pilsi, ljósri blússu og blómamunstruð- um jakka með hvíta perlufesti um hálsinn. Grátt, fínlegt hárið bylgjaðist stuttkippt um höfuðið. Hún var glöð í bragði, grönn og kvik í hreyfingum og tók fullan þátt í gleðinni. Að skilnaði þegar við kvöddumst á tröppunum hjá henni á Sundlaugavegi 22 var ekki að sjá að þar færi tæplega 90 ár kona. Hún hafði, að vanda, komið færandi hendi með heimagert marmelaði sem hún hafði töfrað fram úr sínu gamla og viðkunnanlega eldhúsi. Þannig var Dídí, alltaf að hugsa um aðra, greið- vikin og bóngóð, vildi leysa hvers manns vanda. Frá fyrstu tíð hefur Dídí verið einn af burðarásunum í stórfjölskyldunni. Nánast ekkert markvert gerðist án þess að hún kæmi þar að, með ráðum og dáð og veislur hennar og boð, sem ég og fjölskyldan hafa tekið þátt í, eru nánast óteljandi, gestrisni hennar var endalaus. Jólaboð, páskaboð, afmæl- isveislur, minningarveislur, lifrar- pylsuboð og frænda- og frænkuboð, alltaf stóð eitthvað til. Dídí eldaði góð- an mat og bakaði bestu kökur og hélt í heiðri danska matargerð og siði ömmu Ellenar. En Dídí gerði fleira en að halda veislur. Hún var stóra systir föður míns, eina stelpan í barnahópi frá Kleppi og var vön að fást við fyrir- ferðarmikla eldri bræður og duttl- ungafulla og stundum dálítið uppá- tækjasama yngri bræður. En þeir komust ekki upp með allt, hún setti reglur sem fara varð eftir, sá til þess að allir héldu hópinn. Var pab- bastelpa og stoð móður sinnar. Minningar úr æsku eru margar svo sem bíltúrar á jeppanum hans Trausta, sem tók ótrúlega marga far- þega. Trausti gerði þá stundum jarð- fræðilegar athuganir en Dídí tók upp nestistöskuna og við gerðum nestinu góð skil. Í þá daga var alltaf gott veð- ur, nema þegar það hellirigndi en það gerði ekkert til því við vorum í vað- stígvélum. Kristín Halla, dóttir Nínu og Trausta, var þeirra gæfa og uppfyllti allar þeirra vonir og væntingar. Hún er gift Jóni Ingimarssyni og börnin Nína Björk, Ingimar og Helga Vala augasteinar ömmu sinnar. Amma eins og Dídí er vandfundin. Dídí ræktaði góð samskipti við ætt- menni og tengdafjölskyldur og var sí- fellt að gera fólki greiða og uppskar með sama hætti. Hún prjónaði og gaf fínustu peysur sem sést hafa. Flest lék í höndum hennar. Hún hélt dag- bók um áratugaskeið, skráði ýmsan fróðleik, veður og árferði. Dídí var fróð um stjörnufræði og benti okkur oft á Venus, Mars og Júpiter, þegar vel sást til. Okkur Margréti og börnum okkar var Dídí einkar góð, örlæti hennar þekkti engin takmörk. Að leiðarlok- um viljum við þakka Dídí frænku fyr- ir liðnar stundir og sendum þeim Kristínu, Jóni, Nínu Björk, Ingimari, Helgu Völu, Tinnu og Gabríelu litlu okkar innilegustu samúðarkveðjur. Dídí frænka er horfin en ljós henn- ar og minning mun lýsa langt fram á veginn til stjarnanna. Uggi og Margrét. NÍNA ÞÓRÐARDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um Nínu Þórðardóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Hildigunnur Hjálm- arsdóttir, Hanna G. Jónsdóttir, Unn- ur Úlfarsdóttir, Þórður Harðarson, Úlfur Agnarsson, Sveinn Agnarsson, Ásta G. Briem, Steinunn Þórðar- dóttir, Nína, Anna og Hannes, Hafdís, Pétur, Berglind og Soffía. Í PERLUNNI Erfidrykkjur Upplýsingar og pantanir í síma 562 0200 Á fallegum og notalegum stað á 5. hæð Perlunnar. Aðeins 1.250 kr. á mann. Minningarkort Hjartaverndar 535 1825 Gíró- og greiðslukortaþjónusta Minningarkort Krabbameinsfélagsins 540 1990 krabb.is/minning

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.